Breytingar í vændum

Featured Post Image - Breytingar í vændum

Mér sýnist á veðrinu að ég þurfi að fara að ganga í sokkkum aftur en það þýðir þá líka að ég get farið að nota skóna og úlpuna sem ég keypti fyrir afmælispeningana mína í apríl en það er búin að vera ónotað frá því ég kom frá íslandi í apríl. Það verður skemmtilegt, spurning að skella sér bara í göngutúr í dag í sólinni og kuldanum og prófa nýju fötin sín og kannski bara fá kallinn til að taka eins og eina haustmynd af mér. En sem sagt þegar ég vaknaði á sunnudagsmorgni kl. 8 þá var mínus 1 gráða en það var 15 stiga hiti í gær svooooo þetta er talsverð breyting. Sólin reyndar skín svo hitinn fer líklega eitthvað uppí dag en sjálfsagt fara dagarnir hans Þráins á motorhjólinu að verða búnir þetta haustið, við sjáum til ég var að vona að við fengjum frostlaust haust. En það er nú oft smá frost á nóttunni og hitnar uppí 10 til 14 gráður á daginn og ég get alveg sætt mig við þannig haust.

En veðrið er annars bara búið að vera gott fyrir utan smá haustrigningar en þær fylgja bara og svo lengi sem ekki fer að flæða þá er þetta allt í lagi, því með rigningunni eru nú oft hlýindi. En í dag verður settur viður í peysinn og ekta hauststemning sýnist mér.

Annars ekki mikið að frétta hérna núna, nema ég vöknuð eldsnemma á sunnudegi og komin á fætur, búin að vera slæm í bakinu í eina viku en finnst ég betri í dag þannig að ég brosi bara mót sólinni og fagna deginum. Sakna samt alltaf Íslands á haustin því haustlitirnir hérna hjá okkur eru ekki nærri eins fallegir og heima á Íslandi.

Og talandi um heima, sumu fólki finnst skrítið að maður tali um heim til Noregs og heim til Íslands en þannig er það, ég lít alltaf á Ísland sem heimaland mitt þó ég búi í Noregi og mér er minnistætt eitt skipti sem ég kom til Vestmannaeyja og kíkti í heimsókn á bæjarskrifstofurnar (minn gamli vinnustaður) og bæjarstjórinn kom labbandi á móti mér og tók í höndina á mér og sagði: “Velkomin heim”. Það er nefnilega þannig að “heima” getur verið á fleiri en einum stað, því hjartað okkar segir það.

Annars var ég hjá kvensjúkdómalækni í vikunni og fékk hana til að skellihlæja þegar ég sagði henni að ég hefði verið hjá tannlækni deginum á undan og svo þarna í stólnum hjá henni og þetta væri svona desjavu því bæði sögðu “OPNA”. Ég er mjög fegin að hún hafði þennan sama húmor og ég og við skellihlóum þarna saman og ég gekk glöð út í október sólina og tók myndir þarna í nágrenninu við læknastofurnar.

Þangað til næst, ykkar Kristin Jona

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.