Mínus 20 gráður úti

og aðeins 10 hitagráður inni í húsinu eftir nóttina, því varmadælan og litlu ofnarnir í svefnherbergjunum ná ekki að halda húsinu heitu þegar svona kalt er. Þetta minnir á janúar 2016 þegar við fluttum hingað, þá fór kuldinn niður í mínus 22. En við verðum fljót að hita húsið með nýja viðarofninum og þeim sem er uppi í herbergi, þeir verða kynntir jafnt í allan dag. Heppin við að geta fengið fullt af ókeypis við til kyndingar í vinnunni hjá Þráni en við kaupum líka alltaf á haustin eitt mál af við (hvað svo sem mál þýðir) en það er ein full kerra og svo stöflum við þessu útundir bílskúr en við þurfum að stækka svæðið þar, svo við getum keypt meira næst, þetta er að fara svo hratt núna í þessari kuldatíð.

Það er fínt að byrja daginn á að setja í uppþvottavélina, þvottavélina og þurrkarann og svo að týna til pappírsruslið, plastruslið, dósir og gler og setjast svo niður í lopapeysu og þá er ekki eins kalt lengur.

Klukkutíma eftir að við byrjuðum að kynda með viðarofnunum þá hafði hitinn inni í gangi (við erum með hitamælinn frammi í gangi á kaldasta stað hússins en viðarofnana í stofunni og svefnherbergi) kominn upp um 2 gráður svo það lofar nú góðu, styttist í að ég geti farið úr lopapeysunni.

Kannski væri sniðugt að byrja á smá leikfimiæfingum núna, áður en húsið verður of heitt eða á maður ekki að taka sig eitthvað á, á nýju ári? Jú eitthvað en þó sérstaklega til að kroppurinn verði ekki alltaf verkjaður. Ótrúlegt hvað það er mikill munur á sama kroppi núna og fyrir 10 árum, hjá konu sem líkar ekki að hreyfa sig eða fara í leikfimi og annað þess háttar. Eina sem mér finnst allt í lagi að gera er að fara í göngutúra en þá þarf ég að skipta um umhverfi á milli daga svo ég hafi eitthvað nýtt að horfa á.

En ég byrjaði reyndar í nóvember að gera nokkrar litlar en góðar æfingar á gólfinu heima og þær voru að virka fyrir mig, ég var ekki með sömu verkina í hnjánum og mjóbakinu svo ég er að fara að byrja aftur, planið var á morgun en núna hugsa ég af hverju ekki í dag?

Ég er löngu búin að gefast uppá að ætla að borða minna, ég held ég borði alls ekki mikið en stundum allt of hratt en ég er að vinna í því en ég held að ástæðan fyrir ofþyngdinni sé hreinlega hormónatengd og Jesús hjálpi mér að ég taki grannan kropp fram yfir góða geð- og kynheilsu. Svo ég mun taka hormónin mín þar til ég dey. Þannig er það bara. Hver vill frekar lifa lengi og leiðinlegu lífi en aðeins styttra lífi sem er bara helvíti skemmtilegt. Það að gleyma því hvernig er að hlægja og brosa að skoplegum hlutum er eitthvað sem ég vil aldrei upplifa aftur en það er það sem gerist hjá mér ef mig vantar hormónin. Mér er slétt sama um svitaköst og það allt saman en það er geðheilsan sem skiptir öllu máli.

Ég ætla kannski að hætta mér út úr húsi í dag, fara með hundinn í örgöngu heim til nágranna míns en ég tók að mér að vökva blómin hans meðan hann er úti í Tælandi, en ég bara ekki viss hvort ég komist uppað dyrunum hjá honum núna eftir allan snjóinn og enginn þar að moka og vesenast, en sjáum til. Ég bæti inn myndum í dag ef þetta verður myndarlegt þarna.

Svo eigið frábæran sunnudag elskurnar mínar, setjið Jón Ólafs á fóninn leyfið honum að syngja Sunnudagsmorgun fyrir ykkur, það finnst mér alltaf svo kósí.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.