Einkennileg eftirnöfn og mannanöfn

Jæja, það er farið að birta hjá okkur, elska það við janúar að sjá hvað það munar í birtu á hverjum einasta degi en eitthvað er algorithminn að misskilja því það eru farnar að birtast sundfataauglýsingar hjá mér á FB núna, ég sem var bara að skoða lesgleraugu en hætti við að panta þau í bili.

En það er þetta með veturinn og myrkrið það er mér huglægt þessa dagana því það er ótrúlegt hvað það hefur mikil áhrif á mig. Um leið og byrjar að rökkva fer ég að elda matinn og uppgötva svo að við erum að borða kvöldmat klukkan 17 og um klukkan 19 líður mér eins og það sé kominn háttatími en það gengur nú ekki því ég ætla ekki að vakna klukkan 2 eða 3 mér finnst nefnilega nóg að ég sé búin að vera að vakna alla þessa viku kl. 4 og næ ekki að sofna aftur, keyri Þráni í vinnu kl. 5.30 og fer sjálf í vinnu 7.30 kem svo heim og er bara dauðþreytt enda búin að vera vakandi þá í 7 tíma klukkan 11 svo þá þýðir ekkert annað en leggja sig. Ég hef stundum sagt að ef ég ætti að taka mér upp eftirnafn þá yrði það að vera Kristín Jóna “Leggjasig” því það er eitthvað sem ég geri alla daga og eftir því sem ég eldist og vakna fyrr á nóttunni því það er ekki kominn morgunn fyrr en það fer að birta í mínum huga þá bara verð ég að leggja mig, en ég elska að vakna einmitt við dagsbirtu og já það styttist í það.

En talandi um eftirnöfn. Ég er stundum svo orðlaus þegar ég heyri sum eftirnöfn hérna í Noregi því þau eru mörg hver svo mikil orðskrípi og þá er ég ekki bara að meina orðskrípi fyrir mig sem þýði þau í huganum yfir á íslensku því norska þýðingin er í raun hin sama oftast. Já ég sagði, oftast!

Þegar ég tala um skrítin eftirnöfn þá er ég að sjálfsögðu ekki að tala um Andersen og Gundersen og þau nöfn, þau eru bara allt í lagi en þegar kemur að eftirnöfnum eins og Enevoldsen eða Einvaldur, spáið í að heita Jarl Einvaldur eða Fuglestad (Ørn Fuglestad) sem þýðir bara fuglastaður, Fett sem þýðir bara Fita, Hundstad eða Hundastaðir að ég tali ekki um eftirnafnið Mensen sem þýðir reyndar bara blæðingar á íslensku. Og svo er annað með þessi eftirnöfn, þau eru náttúrulega bara oftast staðarnöfn, ég held ég hafi nú bloggað áður um það, að vera að rölta í kirkjugarðinum er eins og vera í landafræðitíma.

En besta nafnið sem við Þráinn höfum heyrt er nafn á vinnufélaga hans sem heitir Simen Foss eða Semen Foss á ensku eða þá Sæðisfoss á íslensku, þegar þessi strákur byrjaði að vinna með Þráni þá kom hann heim skellihlæjandi og ég sprakk úr hlátri þegar hann sagði mér nafnið og hugsaði, foreldrar hans eru ekki það gamlir að þau hafi aldrei heyrt ensku svooooooo og hvernig er það ef Simen er staddur í London og spurður að nafni? Oh my God! Jæja Þráinn nefndi þetta við einn sem hann vinnur mikið með og hann var alls ekki að fatta brandarann og það er dáldið þannig sem norðmenn eru, þeir eru bara ekki að gera grín að mannanöfnum eins og ég. Norðmenn hafa mikið umburðarlyndi gagnvart alls konar skrítnum nöfnum svo útlenskum að það eru 3 samhljóðar hlið við hlið sem segir mér að það sé alls ekki hægt að bera nafnið fram en þeir bara gera það og virðast gera það dáldið rétt en ég, nei nei skil ekkert hvernig er hægt að heita svona skrítnum nöfnum og geri bara grín, eins gott að grínið sé bara hérna inni á Nesan en ekki út í kosmóinu ha ha ha. En ég gæti hæglega tekið mér upp nafnið Stína Stuð hérna í Noregi myndi bara skrifa það Stina Stud og það yrði samþykkt. Já ég hitti einu sinni litla stúlku sem ég spurði að nafni og hún hét Belkisa kölluð Kisa og auðvitað er kisa ekki norskt orð en ég þurfti að láta stúlkuna marg endurtaka nafnið sitt áður en ég áttaði mig á því að hún var að segja þetta, Belkisa.

Ég veit ég ætti að temja mér þetta umburðarlyndi norðmanna gagnvart skrítnum nöfnum en þá hefði ég ekki eins gaman að lífinu því það er næstum í hverjum einasta sjónvarpsþætti þar sem fram koma gestir sem einhver með skrítið nafn kemur og ég get skellihlegið að því og hláturinn lengir og léttir lífið svo svona verður þetta líklega því það er erfitt líka að kenna gömlum hundi að sitja, eða eldri íslenskri málfarskellingu að meðtaka nýtt og breytingar.

Þangað til næst, ykkar Stína Stuð eða Kristín Nesan eða kannski Kristín Ottesen þe. ef Þráinn bæri ættarnafn úr sinni ætt og ég hefði tekið upp HANS nafn við giftingu.

Hér er listi yfir norsk ættarnöfn.

Og hérna er listi yfir norsk stelpunöfn og strákanöfn og hérna er linkur á norska nafna statistikk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.