Já í gær sneri ég örlítið á veturinn sem hefur aldeilis skellt sér til okkar, ég var spurð að því hvort við hefðum hoppað yfir haustið þetta árið en við gerðum það svosem ekki en það var stutt, enda var sumarið líka dáldið stutt svo kannski verður bara komið vor í febrúar ef veturinn ákveður að vera líka stuttur.
En sem sagt í gær var ég búin snemma að vinna, Þráinn er á kvöldvakt svo hann var búinn að vera heima og kynda vel með kamínunum báðum, líka þessari sem er uppi á loft í gestaherberginu. Og vá hvað það munar að nota hana líka, áður var það herbergi svefnherbergið okkar og þá ekki hægt að nota kamínuna þar, því það verður 30 stiga hiti í því herbergi en þægilegt í næstu herbergjum og frammi á gangi. En sem sagt búið að kynda húsið vel, úti snjóar og snjóar og ég ákvað að kveikja á kertum um allt hús eins og ég geri reyndar á hverjum degi en byrjaði bara fyrr í gær en vanalega og skellti mér í rósóttan sumarkjól og setti í mig rúllur svo ég væri sæt og fín og sumarleg.
Ég er ekki frá því að það hafi virkað, en sko ég opnaði ekki einu sinni útidyrnar eftir að ég kom heim, því þá hefði ég sko orðið vör við veturinn ha ha ha. En ég gerði nú meira en þetta, ég bakaði nýja tegund af rúgbrauði, ég tók uppskriftina mína og tók úr henni sírópið að mestu leiti, held ég hafi sett 2 – 3 msk af sírópi og sama af hunangi en annað var eins og í uppskriftinni nema svo bætti ég við alls konar fræjum sem ég á í skápnum siafræ, graskersfræ, sesamfræ og ég veit ekki hvað og hvað og þetta endaði sem hollt og gróft rúgbrauð.
Ég setti deigið í 3 formkökuform (næst ætla ég bara að setja í 2) og þau eru dáldið lágvaxin þessi brauð, virðast ekki hafa hefað sig nóg, samt var bæði lyftiduft og natron í uppskriftinni. Svo bakaði ég þetta á 150° í 3 tíma í staðinn fyrir 4. Spurning að finna aðeins annan bökunartíma því brauðið varð svo hart að utan en ekki alveg nógu bakað í miðjunni en samt allt í lagi þegar það hafði kólnað. Ég reyndar vafði því inní blautt viskastykki til að mýkja það, en ef þið hafið hugmynd af bökunartíma og hita fyrir svona brauð þá vel þegið fyrir næstu prufu.
Ég grillaði lax og bjó til gúrkusalat og setti ofaná rúgbrauðið og nammi nammi namm, það var svo gott.
Annars erum við bara góð fyrir utan veturinn, kannski ég kveiki bara á jólaljósunum úti í dag ef það snjóar meira því þau hanga enn uppi síðan í fyrra, mér er nefnilega óhætt að gera það eftir 31. okt en þann dag hef ég slökkt á öllu og læt sem ég sé ekki heima, því ég hef ekki áhuga á að fá krakka í grímubúningi að sníkja nammi. Við ætluðum að vera með í þessum sið þegar við vorum nýflutt hingað og keyptum fullt af nammi og smá draugaskraut en það kom enginn, 3 árið komu bara börnin í húsinu við hliðina því við sendum pabbanum skilaboð og sögðum að við værum með nammi í skál. Þá tókum við ákvörðun að vera ekki með í þessu því við byggjum greinilega of mikið útúr en viti menn þá fylltist allt af krökkum og við ekki með eina karamellu í húsinu. Svo síðan hef ég slökkt ljósin, þeir gera það víst í ameríku þeir sem ekki taka þátt og ég hef séð þetta nefnt í grúbbunni okkar sem búum hér á FB. En núna gerðist það víst hjá einhverjum hérna í litla þorpinu okkar að unglingar köstuðu eggjum í hús sem var ekki upplýst og er þetta orðið heilmikið mál hérna í FB grúbbunni okkar hvernig unglingarnir haga sér og virðingarleysið við aðra. En það er sjálfsagt efni í annað blogg.
Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna
sem vildi helst að það væri aldrei vetur.