Æi, ég er nú stundum að hugsa til hvers ég var að byrja á þessum skrifum hér, því svo skrifa ég fyrir hönd Ástrósar Mirru og svo hér líka. En málið er að ég er orðin svo vön að skrifa fyrir hönd 1, 2, 3, 4 ára barns að ég hreinlega veit ekki hvernig á að skrifa eins fortytwo.
En ég er allavega ekki alveg hætt en það er samt viðbúið að ég geri þetta ekki oft, besti tíminn er reyndar þegar Ástrós Mirra vaknar snemma um helgar og horfir á barnaefnið og Þráinn sefur þá hef ég góða samvisku að hanga í tölvunni en samt… eins og núna ætti ég að vera að taka úr uppþvottavélinni og setja óhreint í hana, taka fram sumarbústaðakassann og henda í hann mat oþh. til að taka með í sveitina því við erum jú á leiðinni þangað en ég er ekki alveg komin í stuðið enda klukkan bara átta núna og ég búin að vera á fótum í einn og hálfan tíma.
Og já talandi um tíma og að nenna ekki, þá er ég komin að titlinum á þessum skrifum… ég er bara alltaf svo þreytt þessa dagana, (kvöldin) held mér ekki uppi lengur en til 22 þó það sé bjart og gott verður og þó ég sé að taka hákarlalýsi (þarf maður kannski að hvíla sig á því, getur maður owerdosað á lýsi) eða er ég kannski langþreytt eða er eitthvað að mér. Ég held alveg góðri orku í vinnunni en svo er ég eiginlega bara búin. Ekki er það að barnið krefjist svo mikils af mér lengur, því hún er náttúrulega orðin svo stór og dugleg og ekki á ég heimtufrekan bjargarlausan mann nema síður sé, svo þetta er bara hálf óskiljanlegt. Og þetta kemur þrátt fyrir að ég sé farin að labba í strætó á leið í vinnu og svo í Garðabæinn eftir vinnu og ég meira að segja nýt þess.
Svo stóra spurning er: Er eitthvað að mér? Eða er ég bara svona köflótt? Kannski er ég bara svona þreytt af því að ÞRÁINN var að setja upp hurðar það er aldrei að vita, og kannski ég ætti bara að skella mér til læknis og láta rannsaka blóðið, það gæti nú verið að vantaði einhver vítamín, en svo hefur maður líka heyrt af fólki sem fékk svona þreytueinkenni og það endaði með heilaæxli svo maður ætti kannski ekki að ignora þetta algjörlega. Það má þó ekki misskilja mig og halda að ég sé með einhverja paranoju vegna þessa, heldur er ég bara komin á þann aldur að hafa alla möguleika opna. Aldur hvað! Nú ætla ég að hætta þessu áður en ég fer og panta mér pláss á elliheimilinu á undan afa og ömmu… humm, ömmu já… hún er nú orðin 86 og ekki kvartar hún um þreytu þó hún haldi heimili fyrir 3 og þurfi að stjana við afa og okkur krakkana þegar við komum í heimsókn. Nei ekki kvartar hún svo það er best ég hætti og taki úr uppþvottavélinni, annars endar þetta í einhverri vitleysu.