Fjölgun

Jæja þá er það orðið opinbert og staðfest að við erum á leiðinni til Kína eftir eitt og hálft ár til að ættleiða lítið barn. Líklega litla stúlku frekar en dreng því þannig er það bara í Kína stúlkurnar eru frekar gefnar en strákarnir því þeir eiga að hugsa um foreldra sína í ellinni.  En okkur er sko alveg sama enda miklu frekar svona stelpufólk en hitt (þó það yrði voða gaman líka).

Það er bara verst hvað þetta ferli tekur langan tíma.  Við erum sem sagt búin að senda inn fullt af gögnum, skattaskýrslu oþh. og fara í læknisskoðun og greiða staðfestingargjald.  Þá fær Dómsmálaráðuneytið umsóknina okkar til skoðunar og ef þeim líst nógu vel á hana þá senda þeir beiðni til Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði að “TAKA OKKUR ÚT” eða þannig.  Þá taka við fullt af viðtölum við félagsráðgjafa og alla vega ein skoðun á heimilisaðstæðum okkar.  Þegar það liggur fyrir og þeir leggja blessun sína yfir okkur (sem ég efast nú ekkert um) þá skoðar ráðuneytið þau gögn enn frekar og gefur síðan út forsjársamþykki (eða ekki).

Þetta getur víst tekið allt að hálft ár og það er ekki fyrr en það er komið sem umsóknin okkar getur farið út til Kína.  Og þá er biðin eitt ár og gæti orðið meira því af einhverjum ástæðum hefur þessi biðtími lengst, hann var víst kominn niður í 7 mánuði en er aftur kominn uppí eitt ár.

Eins þurfum við að sækja námskeið á vegum Íslenskrar ættleiðingar sem er haldið á Glym í Hvalfirði og er eins konar sjálfskoðun og einnig farið yfir af hverju við erum að þessu og eins við hverju má búast þegar við þessar aðstæður.  Ég hlakka nú bara til þessa því maður hefur nú alltaf gott af smá sjálfsskoðun oþh.

Ég á reyndar frekar erfitt með að bíða svo ég veit ekki hvernig þessi tími verður nema það að ég á eina frábæra stúlku sem styttir mér stundir og kannski bara gott að hún er að byrja í skóla í haust þannig að það verða breytingar hjá okkur sem munu kannski stytta biðina eitthvað.

Svo er ein stelpa sem vinnur með mér að fara að eiga í október og þá ætti barnið okkar einnig að vera að fæðast þannig að við getum svona aðeins fylgst með og ímyndað okkur, okkar barn að þroskast, fæðast og alast upp fyrsta árið, þangað til það kemur til okkar.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.