Boot Camp

13.1.2007
Úff, þetta hefur verið erfið vika, helst þó vegna harðsperra á ótrúlegustu stöðum.  Það var að byrja heilsuátak í vinnunni og vorum við öll send í mælingu í BootCamp sem í sjálfu sér er bara allt í lagi, nema sumt fólk skilur bara aldrei það sem við það er sagt, sbr. ég.

Strákarnir sem standa fyrir þessu sögðu okkur að koma með joggingbuxur með okkur í mælinguna en mér fannst það ekki vera eitthvað atriði, því ég gæti nú alveg hlaupið aðeins á hlaupabretti með einhvern mæli tengdan við mig í gallabuxum.  Já, einmitt.

Svo mætum við niður í Hnefaleikafélag RVK og ég í meira að segja þröngum gallabuxum og ætla í þessa mælingu sem að sjálfsögðu var eitthvað allt annað en ég hélt.  Jú, jú þeir vigtuðu okkur og klipu í spikið til að mæla fitu% í okkur en svo var hin mælingin bara pjúra BootCamp æfing.  Já og ég í þröngum gallabuxum.  Stóð mig samt vel.  Skokkaði jafn marga hringi og hinir (var samt ansi móð en reyndi að fela það) hoppaði upp og niður með hendurnar alveg eins og hinir (missti samt taktinn nokkrum sinnum og leit ekki vel út í speglinum, brjósthaldarinn aðeins farinn að skekkjast á mér við þetta) og svo kom að því að skipta okkur tvö og tvö saman og fara að gera armlyftur og þá uppgötva ég að ég veit ekkert hvernig ég á að gera þetta…. held ég hafi ekki armlyftur síðan í gaggó en þó tókst mér að gera 16 lyftur á 1 mín. og var bara ánægð með mig þangað til Auður toppaði mig ótæpilega, bölvuð hún er í allt of góðu formi til að vera með mér í liði en samt… jæja svo voru það hnébeygjur, vá þá hefur verið gaman hjá Vigni sem stóð fyrir aftan mig, ég í mínum þröngu gallabuxum sem drógust bara niður fyrir allt velsæmi í beygjunum en ég lét það ekki trufla mig, held mínu striki með brjósthaldarann uppfyrir brjóstin og buxurnar eins og á pípara og stend mig bara með prýði að eigin mati.

Jæja svo klárum við þessa æfingu á að hlaupa og takið eftir ég hljóp 65 ferðir í mínum þröngu gallabuxum og svo er slökun, hún er nú alltaf best er það ekki sérstaklega eftir svona púl.  Jæja svo sitjum við og slökum á og þá spyr annar þjálfarinn hvort þetta sé ekki eins og við höfum átt von á eða hvort þetta hafi komið okkur eitthvað á óvart.  Á óvart, nei ég vissi alveg hverju ég átti von á sagði ég og hann leit á mig og hló og já það er alveg á hreinu en þú stóðst þig vel.

En þá komum við að harðsperrunum sem hafa hrjáð mig síðustu 3 daga, ég hef varla getað gengið og alls ekki lyft neinu upp og staulast upp stigann heima hjá mér og rumska við hverja byltu á nóttunni en sé nú samt fram á betri daga, er heldur léttari á mér í dag en í gær og ætla ótrauð í göngutúr í dag til að halda þessu við.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.