.. tónleikar sem við fórum á í gær með Jet Black Joe. Þvílík stemning og þvílík rödd sem þessi drengur er með.
Tónleikarnir byrjuðu með upphitunarhljómsveit frá Eyjunni í suðri, og þar fór fremst í flokki hún Arndís sem maður er nú búinn að fylgjast með síðan hún var bara 5-6 ára með okkur í leikfélagi Vestmannaeyja. Hún er með ofsalega flotta rödd og stóð sig vel. Ég er alveg viss um að gítarleikarinn sem var með henni sé Obbi en Þráinn kannaðist ekkert við hann, sáum hann reyndar bara á hlið. Ég hef nú alltaf sagt að Þráinn sé mannglöggari en ég svo líklega hefur hann rétt fyrir sér, samt er ég frekar viss.
Síðan kom Páll á svið með hljómsveit og byrjaði frekar rólega með nokkrum lögum frá sínum sólóferli. Mjög flott og hann fékk Hreim til að koma og taka með sér Gospel lag sem þeir sungu saman á plötu, svo kom Gummi úr Sálinni og þeir tóku Eurovisionlagið sem reyndar vinnur svo á að mér finnst þér núna algjört æði, en það gengur víst ekki að svona keppnislag vinni á, það þarf að koma í fyrstu atrennu.
Næst tók Gospelkórinn nokkur lög og komst smá óþreyja í fólk við það, allir greinilega farnir að vilja sjá sjálfa hljómsveitina Jet Black Joe, sem reyndar birtist svo með þvílíku trukki að höllinn nötraði. Mikið ofboðslega er þetta góð rokkhljómsveit. Palli fór algjörlega í rokkgírinn, mætti í leðurbuxum og svei mér þá ef hann talaði ekki öðruvísi, en það tilheyrir. Gunnar Bjarni var mættur með tvo til þrjá gítara og sína dredlokka og bara sjálfum sér samkvæmur.
Þeir hafa verið svo langt á undan sinni samtíð þegar þeir voru að semja þessi lög þessir strákar. Það sem mér finnst svo magnað við tónlistina þeirra er þessi stígandi, lagið byrjar jafnvel hægt og svo kemur sprengja og síðan er jafnvel millikaflinn allt öðruvísi.
Fyrir mér og mörgum öðrum var hápunkturinn þegar Sigga Guðna kom og söng Freedom, vá sú tók salinn með trompi og gaf Dívunum ekkert eftir. Algjörlega frábært hjá þér Sigga mín og ég er ekkert smá stolt að vera frænka þessa tveggja frábæru söngvara.
Takk fyrir stórfenglegt kvöld og hlakka til að sjá ykkur á ættarmótinu.
Þangað til næst,
Kristín Jóna
Ps. við hittum náttúrulega alveg fullt af ættingum þarna, Gumma og syni, Magga Óla og fjölskyldu, Berglindi, Hönnu mömmu Siggu og ömmu Palla, Hrefnu mömmu Palla, systur hans og dóttur, Kristleif úr Eyjum en misstum af Gumma Þ.B. og öllu hans fylgdarliði sem ég veit að var þarna.