Ég þarf að hitta mann…

23.12.2016

Ég sagði Þráni að ég þyrfti að fá að nota bílinn í dag því ég á stefnumót við mann niðrí Vigemyr.

Já sko ég á stefnumót við mann sem keyrir um á grænum bmw station bíl.  Við ætlum að hittast bak við búðina í þorpinu mínu.

Hann ætlar að hitta mig milli hálf þrjú og þrjú, það er jú aðeins farið að rökkva þá.

Ég þarf að láta hann hafa peninga, 350,- ættu að duga í þetta sinn.

Í staðinn þá lætur hann mig hafa pakka, ég vona að það verði enginn var við þessi viðskipti því fólk gæti farið að tala, þið vitið hvernig það er í litlum plássum.

Þegar maðurinn rétti mér pakkann, greip ég hann snöggt, þakkaði fyrir mig í snatri og hljóp út í bílinn minn, ég skimaði í kringum mig og vonaði að það væri enginn sem hefði séð þetta, hjartað sló frekar hratt og ég hugsaði með mér, af hverju ertu að þessu svona rétt fyrir jól kona.  Bara til að stressa þig upp.

Þegar ég kom heim, fór ég beint inní eldhús, kveikti ljósið svo ég sæi vel þegar ég opnaði pakkann og þegar ég sé innihaldið í pakkanum þá fór um mig gleði- og tilhlökkunarstraumur.

Vá hvað það verður gaman á nýju ári að mynda nýfædd barn í þessum fallegu fötum sem eiginkona mannsins á græna bmwinum prjónaði fyrir mig.

Eigið yndislega þorláksmessu eða lille juleaften eins og norðmaðurinn kallar það.

Og á morgun koma jólin.

Knús og klem til ykkar frá kellingunni á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.