Gleðilegt nýtt ár…

31.12.2016

Eins og ég hef áður sagt þá er ekki gott að dvelja við það sem liðið er heldur ber að fagna því sem kemur en þó er gaman að fara yfir farinn veg og jafnvel læra af því sem áður hefur verið gert og því ætla ég að stikla á stóru yfir árið 2016 áður en ég býð árið 2017 velkomið.

Janúar

Já janúar 2016 var risastór mánuður í okkar lífi, við keyptum okkar fyrsta hús í Noregi og erum að byrja lífið hérna eins og við værum 25 en ekki fimmtug.  Þvílík lukka sem henti okkur þegar vinnufélagi Þráins fór að nöldra í honum að kaupa húsið sitt, lengi vel hélt ég að Einar væri bara að reyna að pranga einhverju inná okkur og kannski var hann að því en þvílíkt flott prang.

Okkur líður alveg óskaplega vel í húsinu okkar og er búið að vera gaman að upplifa hverja árstíð fyrir sig hérna og þær fara nú allar vel í okkur en þó megum við taka okkur á í vorverkunum, kunnum þau ekki neitt síðast.

Sumarið hér er eins og ævintýri og veturinn dulúðlegur og flottur.  Vor og haust eru meira til að tengja hinar tvær árstíðirnar saman.

En allavega þá fór janúar í flutninga og að koma sér fyrir.  Reyndar fór allt árið í að koma sér fyrir því við vorum af og til að gera húsið meira að okkar.  Ákváðum nefnilega að skvera ekkert áður en við fluttum þar sem við vildum kynnast húsinu áður og það hefur margborgað sig því ekkert af því sem við töluðum um að við myndum gera áður en við fluttum höfum við gert.  Svo mín skoðun er sú að þetta borgar sig alla vega fyrir okkur.

Febrúar

Eiginlega ekkert mikið hægt að segja um febrúar annað en að við erum enn að átta okkur á því að við séum flutt í eigið hús á þessum stórkostlega stað.

Ég tók reyndar mjög skemmtilegar myndir af Ástrós Mirru og Julius sem margir héldu að væri kærastinn hennar Ástrósar en er bara sonur vinkonu okkar og við settum myndatökuna upp sem dæmi um kærustuparamyndatöku, maður er alltaf að reyna að finna uppá einhverju nýju til að koma sér á framfæri.

Þetta er ein af mínum uppáhaldsmyndum, vildi reyndar alveg núna að Kevin kærastinn hennar Ástrósar væri á þessari mynd en svona er þetta bara stundum það er ekki allt eins og við viljum en gott að þekkja strákinn vel.  Hann er heimilisvinur svo þetta er bara sætt.

Fyrstu tveir mánuðirnir á árinu voru kaldir, það fór niður í mínus 21 gráðu hérna og við skyldum ekkert í því að þessar varmepumpur sem allir voru búnir að dásama voru engan veginn að kynda húsið ég lærði það þá að þær ráða ekki við svona brjálæðislegan kulda.  Og skólastjórinn í unglingaskólanum sem Ástrós var í, verður ekki hátt skrifaður hjá þessari fjölskyldu eftir að hafa neitað henni um að fá að bíða inni í skólanum í rúman hálftíma því hún þurfti að taka strætó svo snemma.  Einn kennarinn sá aumur á henni og hleypti henni en skólastjórinn kom og rak hana út aftur.  Hann er sem betur fer hættur sem skólastjóri enda fannst okkur hann alltaf vera þessi týpa sem smjaðrar fyrir okkur foreldrunum en er með hroka og dónaskap við krakkana.

Við áttum nokkrar pottastundir í þessum kulda samt.

Mars

Í mars bönkuðu fyrstu streptakokkarnir uppá á okkar heimili, þeir voru reyndar ekkert velkomnir en tróðu sér inn samt við lítinn fögnuð heimasætunnar sem var fórnarlambið.  Ástrós Mirra fékk hálsbólgu í annað sinn á ævinni og eins penisilin líka.  Geri aðrir betur, 16 ára í dag og tvisvar fengið penisilin.  En það er auðvitað ekki þar með sagt að hún hafi aldrei orðið veik, því það hefur hún en umgangspestir og þess háttar hefur hún verið laus við að mestu leyti.

Mars hefur greinilega verið frekar leiðinlegur mánuður því hann byrjar með veikindunum hjá Mirrunni og svo kom að því að skila af sér íbúðinni á Store Elvegate og það gekk ekki vel, þau (leigusalarnir) voru með smásjá og smámunasemi og hreinlega leiðindi sem endaði samt vel og í góðu.  En mikið er nú gott að vera laus við það að skila af sér leiguhúsnæði á þann hátt sem eitthvað annað fólk setur standartinn en ekki við sjálf.

En við munum að sjálfsögðu oft sakna þess að búa í miðbænum í Mandal, þó við séum alsæl í sveitinni en það er því miður erfitt að hafa bæði.

En mars kom líka með ákveðna geðveiki í húsið okkar þegar kom að því að skreppa til Íslands í fermingu og að sjálfsögðu heimsækja fólkið okkar.  Geðveikin er vegna áráttu sem ég hef þegar stefnir í ferðalög og svo kom gleðin þegar maður hitti allt fólkið sitt og landann og landið.

Það yrði allt of langt blogg að segja frá öllu sem við gerðum í fríinu á Íslandi svo ég hendi hér inn nokkrum myndum sem allt sem segja þarf.

Ljúfu stundirnar eru sem sagt með fólkinu sínu og þó ég taki nokkra framyfir aðra þá þýðir það ekki að ég eigi ekki ljúfar stundir með öllum.  En sko amma er best og fá tækifæri til að fara með henni í bíltúr og spjalla og njóta er bara dásamlegt.  Heppin ég að vera komin yfir fimmtugt og eiga ömmu á lífi.

Svo er það elsku mamma mín sem nú er orðin ein og þarf meira á okkur að halda en áður og ljúft var að hitta hana og fara með henni til Eyja.

Og þar hittum við auðvitað Konný systur og pabba og áttum ljúfar stundir saman og við Konný fórum í fyrsta sinn út að borða með mömmu og pabba.

Ljósmyndatúrar eru auðvitað það sem hreyfa við blóðinu í mér og ljúfast er að fara svoleiðis túra með Konný og ekki verra þar sem ég er svo einkennilegur ljósmyndari sem nýtur þess að láta taka af sér myndir að fá hana til að mynda mig af og til í náttúrunni.  Þessi mynd er geggjuð og lýsir mér vel.

Með ömmu og mömmu, ljúfur dagur.

Og pabbi er svo flottur og var að sýna mér aðstöðu eldri borgara sem hann er með lyklavöldin af og sér um að hella uppá kaffi oþh. fyrir félagana.

En hápunkturinn var svo fermingin hans Kristófers Darra og þessa mynd elska ég þrátt fyrir minni gæði en margar aðrar svona eiga fjölskyldumyndir að vera.

Þetta er auðvitað ein af mínum uppáhaldsfjölskyldum.

Þessi hópur er auðvitað svo stórkostlegur og þær stelpurnar í Konur og ljósmyndir klúbbnum eru alltaf til í að skella í ljósmyndatúr þegar ég kem til landsins.  Að flakka um með konum með sama áhugamál er bara svooooo skemmtilegt.

Og Sigrún tók þessa skemmtilegu mynd af mér í Flekkuvíkinni okkar og ég væri svo til í að gera eitthvað með hana ef ég ætti sjálf, breyta textanum eitthvað og svo framvegis en ég á ekki myndina svo það er ekki gert.

Apríl

Fermingin var í apríl reyndar þó ferðalagið hafi byrjað í mars.

Og já apríl virðist alltaf vera stór mánuður í mínu lífi, ég er fædd í apríl, trúlofa mig í apríl, gifti mig í apríl og jú fermdist líka í apríl en það er reyndar ekkert stærsti viðburðurinn en má þó nefna.  Ef ég hefði fengið að ráða þá hefði Ástrós Mirra líka fæðst í apríl en jú jú það eru fleiri mánuðir í árinu og auðvitað gott að dreifa hlutunum en á árinu 2016 í apríl þá var mér boðið að koma í samstarf við norska konu með studio í Mandal og þar með breyttist líf mitt enn og aftur.

Þvílík lukka fyrir mig að hafa kynnst henni Gro og að fá tækifæri til að læra af henni svo ótrúlega margt, vonandi hef ég líka kennt henni eitthvað á móti en lukka lukka lukka segi ég bara og birti þessa mynd.

en það var nú aldeilis ekki það eina merkilega sem gerðist í apríl sl. því ég var í erlendum sjónvarpsmiðli gerð að brennivínsmálaráðherra Íslands í einu mesta hneykslismáli sem komið hefur upp á síðustu árum.

Fyrir þá sem vilja sjá fréttina aftur þá er hér linkur á hana.

Maí

Svona var mai.  Finna sig í garðinum, bera á pallana og húsgögnin og njóta sólar.  Finna sig í Marnafoto og læra margt nýtt.

Júní

Júní er eiginlega hægt að lýsa í einni setningu:  Báðar systur mínar og mamma saman með mér í Noregi.

Ótrúlega góður tími og skemmtilegur og það verður að segjast eins og er að fá að sýna mömmu lífið okkar í Noregi var bara æðislegt og hún sagði einmitt líka að fá að sjá hvernig við lifum hérna og umhverfið okkar sé virkilega frábært, enda finn ég að það er allt öðruvísi að tala við hana núna á eftir þegar hægt er að segja þú manst þarna þetta og hitt … í staðinn fyrir að þurfa hreinlega að sleppa því að segja hvað við vorum að gera þar sem hún var engu nær um það áður.

Og sá stórmerkilegi atburður átti sér stað þegar Konný og Þráinn keyptu saman sláttuvél sem ég reyndar segist eiga.  Þetta er 50/50 eignarhald.

Júlí

Sumarfrí, leti, dugnaður, sól, njóta, gestir, veiða, mynda, íslenska landsliðið, mótorhjól og aðrar græjur, triatlon, setetsdalsbanen og ég veit ekki hvað og hvað.

Ágúst

Í ágúst fékk ég alvöru kærustuparið í myndatöku og var það byrjunin á kynnum okkar við Kevin.

Annars snerist ágúst um

nei þó það hafi verið magnað að sjá þessar flugur hérna við tjörnina okkar þá voru það nú þessir sem ágúst snerist um.

Já ágúst snerist um kettlinga og sumar og ljúfar stundir.

September

Og september kom með pabba til Noregs eða sko Maddý tengdó kom með hann og ekki var það minna ljúft en að fá mömmu sína, því það gerðist eitthvað við þessa heimsókn pabba og ég finn mig svo miklu nánari honum en ég hef verið í mörg ár.  Og nú er Konný búin að bóka fyrir hana og pabba í lok febrúar svo lífið er ljúft.

Það var líka mikið ljúft að fá Maddý að sumri til því við gerum svo mikið meira saman á sumrin en um jólin þá hangir maður bara inni og skreytir og undirbýr innihátíð.

Við brölluðum nefnilega ýmislegt saman með pabba og Maddý og fórum meðal annars í dýragarðinn og það var svo gaman.

Eftir heimsókn pabba og Maddýar fórum við (já já ég hjálpaði alveg) að skvera eldhúsið okkur án þess að skipta því út og vá þvílíkur munur sem smá málning og nýjar borðplötur og vaskur geta gert.

Október

Eitthvað er tíðindalítið í október en þó er það mánuðurinn sem haninn loksins var drepinn og svefnfriður kominn í hverfið, kettlingarnir fengu ný heimili og njóta sín út í ystu æsar.  Eldhúsið var klárað þe. Þráinn bjó til borðplöturnar og kom þeim á.

Og já ég kláraði að bera á pallana og Þráinn málaði bílskúrshurðina.

Nóvember

er mánuðurinn hennar Mirru minnar og í þetta sinn varð hún 16 með engri veislu enda finnast henni veislur ekki skemmtilegar en hún fékk drauminn uppfylltan og sá sem uppfyllti drauminn sagði henni að hún ætti “cool mom” ég verð að sjálfsögðu að koma því að enda held ég henni finnst það ekkert sérstaklega ha ha ha.

En mér finnst stelpan mín ótrúlega cool og flott og þó það séu ekki mörg orð um hana í svona yfirlitsbloggi þá er það vegna þess að hún vill ekki að ég sé að hampa henni mikið og lifir bara sýnu lífi með okkur.

Í nóvember tókum við líka þátt í Kjempesprekken 2016 hér í Marnardal sem var ákveðin upplifun út af fyrir sig.

Desember

Einnig gerðist það í lok nóvember og byrjun desember að Gro sem er sjúklingur hafði samband við mig og sagðist vera að hugsa um að hætta í Marnafoto og ég hreinlega fór yfirum því ég vissi að ef hún myndi hætta þá ætti ég erfitt með að halda þessu áfram ein og ef ég hætti í Marnafoto þá er ólíklegt að ég muni aftur opna stúdio en Þráinn var harður á því að ég skyldi ekki hætta og hann myndi bara borga leiguna á móti mér osfrv. en áður en til þess kom þá datt mér í hug að spyrja ungan mann sem ég hafði séð að var að reyna fyrir sér sem ljósmyndari í Mandal hvort hann vilji koma í samstarf og til að gera langa sögu stutta þá sagði hann já, Gro hætti við að hætta og við erum núna 3 í Marnafoto sem er geggjað, Gro mun ekki taka mikið af pöntunum þar sem sjúkdómur hennar kemur í veg fyrir að hún geti verið klár hvenær sem er svo það verða ég og Hans Petter (hann heitir það ungi maðurinn) og Gro nýtir studioið meira í sér verkefni.  Nú er leiga þá aðeins ódýrari svo þetta verður bara snilld.  Þrenningin í Marnafoto er bara svo frábær að þetta næsta ár verður einnig svo spennandi með nýjum tækifærum og nýjum verkefnum.

Svo komu jólin í desember með Maddý og ljósum og gleði.

Og við ætlum að verða mest skreytta húsið á Nesan og síðan Øyslebø eftir nokkur ár, erum reyndar held ég strax orðin mest skreytta húsið á Nesan og fáum endalaust hrós frá nágrönnum fyrir hvað húsið er flott.

Við erum búin að bæta smá við síðan þessi mynd var tekin.

En Maddý fór í gær og það varð nú pínu tómlegt þegar hún var farin, Ástrós Mirra er hjá kæró og við bara 2 ein en við erum svo heppin að hafa verið 2 ein í 19 ár áðurn en Mirran kom svo við kunnum þetta alveg.

Ætlum svo að fagna nýju ári með íslenskum vinum hér á Suðurlandinu og hlökkum til allra ævintýranna á nýju ári.

Þrátt fyrir einstaka pirring á árinu þá get ég ekki annað sagt en ég elska lífið okkar hér í Noregi.

Ykkar Kristín Jóna

 

Ps. það bættist svo helling í gestabókina okkar á árinu og mun enn meira bætast á næsta ári þar sem Konni bró, Drífa og Birta ætla að koma í júní og svo vitum við að Aron bróður og bræður Þráins koma á endanum en hvort það er á næsta ári eða seinna kemur bara í ljós.

Gleðilegt nýtt ár elskurnar.

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.