Jæja nú er næstum vika síðan júróvisjon kláraðist og nánast annað hvert land búið að gera coverútgáfu af vinningslaginu sem mér finnst þrátt fyrir að hafa hlustað á 3 útgáfur ennþá bara drepleiðinlegt. Ekkert athugavert við flutninginn á því nema að ég hélt í alvörunni þegar ég sá söngvarann fyrst að hann væri þroskaheftur en söng vel. Lagið bara drepleiðinlegt.
Þegar ég vel mitt uppáhaldsjúróvisjonlag þá vel ég lag sem verður þannig að ég er sönglandi það daginn út og daginn inn. Melodían er þá einhvern veginn þannig að hún situr föst.
Núna 3ja daginn í röð vakna ég syngjandi norska lagið, I’m gonna kill the voice in my head…. og er bara nokkuð glöð á sömu stundu.
Í fyrradag hlustaði ég á íslensku útgáfuna af vinningslaginu og viðurkenni að strax á eftir fór ég óvart (já og ég ætlaði varla að þora að viðurkenna þetta) að söngla það en fór strax að líða eitthvað illa og fattaði þá hvað norska lagið og tekstinn væri frábært einmitt til að ýta svona vitleysu út úr hausnum á sér og nú er ég búin að söngla það í 3 daga.
Mér fannst fullt af flottum lögum í þessari keppni en eftir fyrstu hlustun þá var portugal eina lagið sem ég setti komment við nei, nei, nei, nei, nei þannig að því miður þá er ég ekki fyrir tónlist frá 1920 en þannig heyri ég þetta lag, ég heyri ekki það sama og annað fólk talar um, veit samt að ég er ekki ein um þetta. En ég fór að hugsa hvort þetta gæti verið út af því að ég væri nærri heyrnarlaus á öðru eyra, það hafi kannski verið eitthvað skemmtilegra í vinstri hátalaranum sem ég heyrði þá ekki, en hver veit.
Ég spyr bara ykkur sem fannst þetta besta og skemmtilegasta lagið, því jú þetta er sönglagakeppni hversu mörg ykkar eruð komin með þetta lag á uppáhaldsplaylistann ykkar á spotify og hversu mörg ykkar vaknið upp á morgnanna með gleði í hjarta yfir nýjum degi og syngið þetta lag?
Núna þar sem ég sit við tölvuna er ég að spila minn fav. lista og Belgia og Noregur 2017 ásamt 2 eldri norskum júróvisjonlögum eru þar.
En það er annað sem ég sá og skildi núna í þessari júróvisjon keppni, ég og mínir íslensku vinir hér í Noregi eru flest ef ekki öll mjög hrifin af norska laginu. Íslendingar heima voru víst ekki alveg að fatta það og þá fór ég að hugsa……
Ok, ég bý í öðru þjóðfélagi og heyri aðra tónlist en íslendingar og það skýrir af hverju við íslendingar erum oft svona neðarlega og að aðrar þjóðir skilja okkur ekki, við erum greinlega með annan tónlistarkúltúr. Þegar talað er um austanevrópuþjóðirnar og að þær kjósi bara hver aðra, þá held ég það snúist ekki um politík eða vináttu heldur eru þessar þjóðir sem sama tónlistarkúltúrinn, þetta er ekkert flóknara en það og góð skilaboð sem ég las frá dönum til íslendinga voru á þá leið að við ættum að hætta að reyna að finna hið rétta júróvisjonlag og senda bara frekar það lag sem okkur þykir flottast, hætta að hugsa of mikið um hvernig þessu og hinu laginu muni ganga, því þá fyrst fer okkur að ganga betur ef við verðum einlægari.
En nóg um það, 17. maí var í gær og alltaf er jafn gaman að upplifa þennan dag hér í Noregi allir í sparifötum með fána og risastórt bros að fagna saman án þess að vera með allt fullt af blöðrusölum, sælgætissölu oþh. Meira að segja Mandalsbær gaf það út að óheimilt væri að selja gasblöðrur í miðbænum og þær sáust ekki í gær enda hafa þær enga merkingu við þjóðhátíðina.
Við hjónin skelltum okkur í sparifötin og kíktum á herlegheitin bæði í okkar litla bæ og fórum svo yfir til Mandal.
Hér gefur að líta nokkrar myndir frá gærdeginum en honum verður gerð meiri skil í ljósmyndablogginu mínu þar sem hvor bær fyrir sig fær sitt pláss.
Erro fékk að koma með sem voru kannski smá mistök þar sem við stóðum uppá fjalli beint á móti fallbyssunum og hann grét af hræðslu og titraði og skalf greyið þegar búið var að skjóta nokkrum skotum beint að okkur.
Minn heittelskaði er alltaf jafn flottur.
Hérna sjáiði reykinn frá fallbyssuskotinu en þeim er skotið frá litla rauða húsinu hérna efst til hægri. Skúðgangan kom svo þarna yfir brúna, gaman að fylgjast með þessu núna svona ofanfrá.
svo er hér ein mynd frá skrúðgöngunni í Øyslebø en hún var nú heldur stærri en ég átti von á og við erum að spá í taka þátt í henni á næsta ári en núna vorum við á leiðinni inní Mandal þegar við hittum hana og auðvitað stoppuðum við til að fylgjast með.
Jæja þangað til næst og munið þetta bull mitt ristir ekki djúpt.
Ykkar Kristín Jóna