í dag eru tvær vikur síðan bílinn okkar bilaði og meistari Þráinn búinn að panta varahluti í hann að utan, þar sem þeir voru ekki til í næstu varahlutaverslun við okkur og bíllaus förum við ekki neitt til að kaupa varahluti.
Þegar hann var búinn að panta fjaðrirnar en það voru þær sem fóru, þá sagði honum einn góður bílafiksari að maður skipti alltaf um dempara um leið og fjaðrir þar sem maður hvort sem er væri að rífa allt það system úr bílnum.
Svo við buðum henni Lovísu vinkonu í kaffi og Þráinn fékk lánaðann bílinn hennar til að fara í næsta bæ og kaupa dempara og þá var eins gott að kaupa bara líka bremsuklossa sem við höfum þurft að skipta um árlega hér í Noregi.
Við skiljum það ekki, munum alls ekki eftir að hafa skipt svona oft um bremsuklossa áður en Lovísa segir sömu sögu og við svo við erum ekki ein um þetta. Veit ekki hvort það sé af því að vegirnir eru svo hlykkjóttir og þar af leiðandi stígur maður oftar á bremsuna eða hvort varahlutir hér séu lélegri en heima. Reyndar er Lovísa búin að prófa að kaupa sjálf bremsuklossana og eins fá þá frá umboðinu og þar voru þeir miklu dýrari en endingin nákvæmlega hin sama svo það er trúlega ekki málið heldur beygjur og erfiðar götur.
En alla vega þá voru hér komnir varahlutir í bílinn strax á laugardaginn fyrir utan fjaðrirnar sem voru pantaðar frá Þýskalandi. En vel gert Þýsk-Norsk póstþjónusta að þetta tók ekki nema 12 daga að fara nokkurra klukkutíma vegalengd og á miðvikudaginn fengum við skilaboð að þetta væri komið á pósthúsið okkar en þá vandaðist málið, hvernig átti að fara að sækja þetta? Þá var einn vinnufélagi Þráins svo ljúfur að lána honum bílinn sinn í pásu svo hann gæti skotist þetta.
Sem sagt miðvikudagskvöld voru allir varahlutir í húsi og meistarinn byrjaði að vinna í þessu strax þá um kvöldið og klukkan 6 í gær var bílinn tilbúinn. Ótrúlega duglegur þessi elska, hann hafði aldrei gert þetta áður, en með leiðbeiningum vinnufélaga og youtube þá var hann ekki lengi að þessu.
Hlakka til að geta farið það sem ég vil þegar ég vil í næstu viku, eins og að kaupa í matinn, fara í stúdioið án þess að þurfa að stoppa í 5 tíma og já bara keyra út í buskann ef mig langar.
En í dag, ætla ég ekki neitt því sólin skín, ég ætla að klára að mála einn vegg hér á skrifstofunni minni, liggja í sólbaði, grilla góðan mat í kvöld og verðlauna bifvélavirkjann minn með hvítvínsglasi og kózíkvöldi.
Ykkar Kristín á Nesan