Heyrnarleysi kellu….

Jæja þannig er mál með vexti að pabbi minn er nánast heyrnarlaus og mér hefur alla ævi fundist ég heyra mjög illa líka og hélt lengi vel að þetta væri eitthvað ættgengt en svo er ekki.  Og öll mín heyrnarpróf þegar ég var ung sögðu að ég heyrði ágætlega þó mér fyndist það ekki en hvað um það, snemma í mars að mig minnir þá fæ ég allt í einu svona eins og högg á eyrað og þá verstu hellu sem um getur og stend svo upp og þá fer allt að reika á reiðiskjálfi og viti menn (ég komst að því síðar) ég var komin með svokallaða krystalssýki.

Það er eins og eitthvað hafi gerst þegar krystallarnir losnuðu í innra eyranu eða þá að þeir hafi losnað af því að eitthvað hafi gerst.

Alla vega krystalssýkin varði í nokkrar vikur en heyrnin ekki komið til baka nema í mesta lagi uppí 50% að því er mér finnst.  Þetta á þó bara við vinstra eyra.

Jæja ég var alltaf að bíða og vonast til að þetta gengi nú allt til baka en þar sem þetta er farið að há mér og ég segi 2 ha áður en eitthvað af viti kemur úr mér og í góðra manna hópi þá dett ég bara hreinlega út því ég næ ekki að fylgjast með hvað allir segja.

Svo í gær fór ég loksins til læknis og hann skoðaði í eyrað á mér og ég verð nú að viðurkenna að ég var að vona að hann myndi nú bara draga eitthvað drasl út og heyrnin kæmi þá til baka en það var ekki svo.  Hann sagði allt líta vel út í eyranu og ég skyldi fara í heyrnarpróf.  Ég fékk miða frá honum til að sýna stelpunum í móttökunni og þær fóru nú eitthvað panik og sögðu eitthvað um að einhver var ekki viðlátinn akkúrat núna svo ég yrði að bíða.

Ekkert mál ég hafði tíma og settist fram í setustofu.  Eftir um 5 mín kemur önnur móttökustelpan og segir að því miður þá verði ég að bíða aðeins lengur og ég bara já já ekkert mál.  Eftir aðrar 5 mín kemur hún aftur og segir þetta dragast eitthvað meira, hvort ég hafi tíma til að bíða lengur, ég sé svo vera svo hún greinlega róast aðeins.  Ég held ég beðið í minna en 15 mín en þá er ég kölluð inn aftur af konu sem fer með mig í eitthvað herbergi og þar fer hún að græja einhverja græju sem er með svona hólk framan á og hún fer svo að útskýra fyrir mér hvað ég eigi að gera.   Ég á að stilla hólknum fyrir framan munninn á mér og draga andann vel inn og vel ofaní maga og skella svo hólknum uppí mig og anda frá mér eins mikið og ég get.

Ég geri þetta samviskusamlega, fæ hrós fyrir hvað ég gerði þetta vel og svo á ég að gera þetta 2svar í viðbót.

Ok, ekkert mál en ég er nú ekki alveg að skilja hvernig hún mælir heyrnina með þessu.  En líklega tæknin eitthvað öðruvísi hérna í Noregi eða bara hefur þetta þróast síðan ég fór síðast og fékk heyrnartól á hausinn og takka í hönd til að smella þegar ég heyrði hljóð.

En þegar ég er búin að blása 3svar og hún að segja mér að pústinn minn (man ekki í augnablikinu hvernig þetta væri sagt á íslensku) væri mjög góður þá segi frábært en hvað kemur þetta heyrninni við.

Ha!

Heyrninni?  Já ég átti að fara í heyrnarpróf.  Ó, stelpurnar frammi sögðu öndunarpróf!  Ha ha við báðar hlógum okkur vitlausar, ég sagðist nú samt vera fegin að vita að ég væri fín í lungunum.  Og svo hlógum við meira.

Ég fékk svo hin hefðbundnu heyrnartól á hausinn og takkann í hendina eins og vera ber og niðurstaðan er sú að ég heyri illa á báðum eyrum en þó mun verri á því vinstra og mun verða send í áframhaldandi rannsóknir á þessu.  Vona reyndar að þær verði ekki fyrr en eftir sumarfrí því það er glatað ef maður þarf að afbóka tíma hérna í Noregi og panta nýjan hjá sérfræðingum.

En vonandi finna þeir eitthvað út úr þessu þó ekki nema það að ég heyri illa og fæ svona tæki eins og annað gamalt fólk er með.  Djók.  Ég er sko ekkert gömul en myndi nú samt kjósa það að nota heyrnartæki en að halda áfram að segja svona mikið ha!

Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.