Annáll 2018

Annáll 2018

Á þessum degi er gott að staldra við og líta yfir árið sem er að líða, annállinn í sjónvarpinu verður í kvöld en ég ætla að reyna að stikla á stóru hérna mest fyrir mig og allt í góðu ef þið hafið gaman af því líka.

Í heildina get ég ekki sagt að árið 2108 hafi verið gott ár, en viðburðarríkt var það.

Helst stendur uppúr að ég opnaði verslun í Mandal og lokaði henni aftur eftir dapurlega mánuði með lítilli verslun. Það hentar ekki Kristínu Jónu að sitja daginn út og inn og bíða eftir að eitthvað gerist en ég er heldur ekki það sterk og ánægð með mig að ég geti labbað út og sótt mér kúnnana. En þetta var skemmtileg reynsla og ég komst að því eftir á að það eru þó nokkrir sem vita hver ég er út af búðinni. En nokkrir Norðmenn sögðu við mig að ef ég héldi þetta út í 2 ár þá myndi búðin lukkast því þá vissu Norðmennirnir að ég væri komin til að vera en ég hafði því miður ekki efni á því enda var þessi búð opnuð fyrir sparifé fátæka ljósmyndarans og engin lán tekin. Svo eftir 7 mánaðar verslunartíð lokaði ég búðinni og ákvað að leggja meira púður í netbúðina mína sem ég ætla að halda áfram með og vonandi fer að ná einhverjum hæðum.

Ég nýt þess miklu betur að sitja heima í tölvunni að læra hvernig á að markaðssetja sig á netinu heldur en að sitja í búðinni með hekludót í höndunum og tilbúin með brosið. Ekki að ég hafi eitthvað ætlað mér að takmarka brosið en það er þá bara vegna ánægu af starfinu mínu. Ég er í draumastarfinu en því miður gefur það engin laun og er enn bara kostnaður en ég held enn í vonina og vona að vinir mínir verði duglegir að hjálpa mér að auglýsa mig.

Eitt mjög slæmt gerðist við þetta búðardæmi mitt og það er að ég fór ansi langt niður andlega og hætti að sofa og endaði hjá lækni. Fékk nokkrar svefntöflur sem ég passaði vel uppá og á ennþá afgang, fékk líka svokallað seratonin sem heilann vantaði eftir stögglið.

Ég og Ástrós Mirra fórum saman til London og áttum yndislega ferð og tíma hjá henni Fríði Birnu vinkonu minni, þar sem Ástrós Mirra fékk tækifæri til að hitta nokkra vini sína sem hún hefur verið að spila tölvuleiki með í nokkur ár. Það var ansi gaman fyrir þau að hittast svo í raunveruleikanum.

Við fengum fullt af gestum sem stoppuðu mislangt en alltaf jafn gaman að fá gesti til sín. Nú hafa næstum öll systkini okkar Þráins komið og séð lífið okkar sem er nú alveg pínu ævintýri þó ekki sé allt jafn skemmtilegt.

Við fengum áframhaldandi skrítin veður ss. mikinn snjó sem lá yfir öllu í 2 mánuði en hann kom í kjölfar flóðanna sem voru reyndar í fyrra. Eftir snjóinn sem bar með sér mikið rafmagnsleysi og ófærð kom eitt hitamesta sumar með þurrkum og skógareldum. Það er greinilega eitthvað mikið að gerast úti í himinhvolfinu sem vonandi er bara hægt að tengja við eitt ár og svo detti allt í normalt. Sumarið var svo heitt að við gerðum ekkert. Gátum ekki borið á pallinn því olían hefði bara soðið á pallinum. Gátum ekki málað gluggana að innan því það var ekki séns að við gætum staðið þar í sólinni og hefðum líka ekki séð neitt hvað við vorum að gera út af birtunni.

Mamma kom og var hjá okkur í 2-3 vikur, Steina tengdó kom í sumar og kom svo bara aftur núna fyrir jólin. Aron bróðir kom og tók svo mömmu með sér heim og svo stoppuðu vinir eins og Óli Boggi og Anna Svala hérna nokkrum sinnum. Við fórum nokkar ferðir í sumarbústað sem okkur bauðst frá vinnunni hans Þráins og þar áttum við æðislegar helgar með góðum vinum og margir brandarar sem enn lifa góðu lífi eftir þær.

Ég byrjaði í matarátaki og gekk vel þar til ég sprakk ætla endilega að taka það upp aftur á nýju ári og vonandi bara ekki springa neitt.

Ástrós Mirra fór til Vestmannaeyja að vinna í sumar og gerði það gott, varð aðeins meiri Íslendingur fyrir vikið og endaði á að fara á þjóðhátíð eitthvað sem hún hefur hingað til ekki haft áhuga á.

Hún fór líka á Insomnia ráðstefnu í Birmingham sem kannski er hægt að segja að hafi dregið dilk á eftir sér því núna um jól og áramót er hjá okkur ungur drengur Rowan frá Edinborg en þau hafa þekkst í nokkur ár en hittust í fyrsta sinn þarna í haust. Hvað framhaldið verður kemur bara í ljós enda er þetta ungt og leikur sér.

Þráinn keypti sér kajak og fór nokkra kajaktúra, við keyptum okkur líka nýja bíl og erum aftur orðin aðeins meira íslensk 2ja bíla fjölskylda með reyndar þá einn kajak, 2 mótorhjól og 4 reiðhjól, 1 sláttuvél, 2 hjólbörur og 1 skíðasleða. En þrátt fyrir öll þessi farartæki datt ég á pallinum í gær og er ekki alveg með heilan skrokk en það jafnar sig. Get alla vega setið og legið en minna beygt mig. En mikið var næs í pottinum og kannski við bara tökum eina pottaferð í kvöld aftur í staðinn fyrir að skjóta upp flugeldum. En það er nú einu sinni þannig að áhugi minn hefur minnkað til muna á flugeldum með tímanum og er það kannski vegna þess að heima á Íslandi er þetta svo íkt og hér ekki. Ósköp eitthvað hjákátlegt að sjá eina og eina rakettu svo við kaupum ekkert og sækjum ekki í þetta lengur. En við skálum og knúsumst og fögnu nýju ári.

Október er greinilega ekki okkar mánuður því mamma greindist með lungnakrabba núna í október og pabbi datt aftur og lenti næstum því í sömu veikindasögunni og í október í fyrra en sem betur fer þar sem Konný systir þekkir hann og var til staðar til að útskýra fyrir hjúkkunum og læknunum 5-6 sinnum á dag sjúkrasögu hans þá fór betur en á horfðist en það þakka ég henni en ekki læknunum sem hlusta lítið á fólkið sem er veikt eða þeirra aðstandendur. Ég ætla reyndar að skrifa sér annaál um þetta ævintýri pabba sem er langt í frá búið. Hann var bara sendur heim þrátt fyrir að geta hvorki klætt sig né baðað eða sinnt sínum grunnþörfum. Og já mamma veiktist og er núna í lyfjameðferð við lungnakrabba og hún hefur sem betur fer fengið góða þjónustu enda býr hún á Reykjavíkursvæðinu. En ég er þvílíkt glöð að alla vega annað þeirra fái þá læknisþjónustu sem það þarf. Við fáum að vita nánar í janúar hvort lyfin séu að virka og hvert framhaldið verður. En einmitt vegna veikinda þeirra beggja skellti ég mér til Íslands í byrjun desember og missti hreinlega af aðventunni þar sem ég var ekki heima hjá mér en mikið var gott að hitta fólkið sitt og eiga gæðastundir með fólkinu mínu. Þeir sem ég ekki náði að hitta, hitti ég vonandi næst.

Steina tengdó kom með mér út og er búin að vera hjá okkur á jólunum sem hafa verið róleg með mikið af góðum mat og kósíheitum.

Framundan er gott gamlárskvöld þar sem við ætlum að vera bara 5 hérna heima og borða saman, svo fara krakkarnir í partý í Mandal og við eldra fólkið ætlum að skála og horfa á skaupið og kannski bara taka lagið hvert fyrir annað eða bara saman.

Eigið frábært nýtt ár 2019. Ykkar Kristín Jóna

Ps. þar sem ég birti þetta eftir skaupið þá bara verð að fá að minnast á það hérna í restina. Það er kannski ekkert skrítið að manni finnist árið 2018 ekki hafa verið gott miðað við hvernig allt þjóðfélagið var ofaná persónulega ósigra. En skaupið var algjör snilld, hárbeitt og kom skilaboðunum vel til skila. Látum árið 2018 vera síðasta perraárið og förum að sýna fólki þá virðingu sem það á skilið hvar og hvenær sem er. Þegar staupasteinslagið fór að hljóma í skaupinu þá gladdist ég mikið, þeir hafa sem sagt drifið í upptökur aftur þar sem eitt mesta hneyskli í íslenskri pólitík átti sér stað. Vonandi gleymir enginn þessum atburði og vonandi fara menn að átta sig á að svona talar enginn heilvita maður og þá kemur maður að því að þessi óttalega pissukeppni sem allir eru í gera menn að öpum. Nei ekki rétt orðað því apar eru engir perrar.

Ég ætla að enda þennan litla pistill minn á setningu sem ég heyri svolítið oft hérna í Noregi.

Alle må være forskjellige.
Allir mega vera mismunandi.
Ekki dæma fólk þó það sé ekki alveg eins og þú.

Og að lokum kemur hérna áramótaheitið mitt.

2019 da blir det bare drikke alkohol og treffe venner

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.