Vá ekkert bloggað síðan …

Featured Post Image - Vá ekkert bloggað síðan …

Covit19 gerði vart við sig og það held ég hafi bara aldrei gerst áður síðan fyrsta bloggið mitt þegar Ástrós Mirra fæddist. En núna bæti ég úr því og ætla að verða duglegri við það aftur.

En hvað er búið að gerast á þessum tíma? Hérna ætla ég að taka fyrir febrúar til og með maí 2020.

Febrúar: Undankeppnin í Eurovision í Noregi var haldin og eins og alltaf hélt ég með laginu í öðru sæti en þó mjög sátt við bæði 1. og 2. sætið.

8 ár voru liðin síðan við Ástrós Mirra komum í okkar fyrstu heimsókn til Mandal og ákváðum að þar gætum við hugsað okkur að búa.

Á þessum tíma er ég að skúra í HM í Mandal og lenti í því einn daginn sem oftar að leggja bílnum fyrir utan stúdeóið mitt þar í götunni þegar áin fæðir yfir bakka sína og ég þurfti að hlaupa ef hægt er að kalla það að hlaupa í vatni uppá hné til að bjarga bílnum.

Það er alltaf vetrarfrí í Suður Noregi í lok febrúar og eins og oft áður kom hún Natalie vinkona mín í heimsókn og við fórum í ljósmyndatúr sem endaði með því að ég gaf henni fyrstu pentax myndavélina mína því hún hefur svo mikinn áhuga á þessu og hæfileika.

Afdrifaríka ákvörðun tók ég líka í febrúar og það var að segja upp leigunni á stúdeóinu inní Mandal og flytja það heim, þar sem heimasætan er flutt að heiman og ég því komin með aukaherbergi sem reyndar er líka með sér inngangi og fúnkerar svona líka vel sem stúdíó.

Mars: Já hvað gerðist í mars, ef ekki væri fyrir FB þá myndi ég ekkert muna það en þar bar hæst sigurlag Íslands í Eurovision sem var og er algjört æði og ég var svo stressuð að íslendingar myndu senda þessa fallegu stelpu sem syngur eins og engill en lagið var leiðinlegt í keppnina en sem betur fer gerðist það ekki. Það hefði þá orðið svona annað “hægt og hljótt” sem enginn skilur nema við. En Daði stóð sig svo vel og verður landi til sóma.

Við fórum í góðan vorfíling í mars og borðuðum fyrstu máltíð ársins úti þá og hefur veðrið hérna verið alveg dásamlegt fyrir utan júlí sem var frekar kaldur og blautur.

Eyjamenn urðu bikarmeistarar en sá sigur dró dilkar á eftir sér sem höfðu sem betur fer ekki djúpar afleiðingar og fólk dró bara lærdóm af.

Ég opnaði stúdeóið mitt heima og myndaði að sjáfsögðu Ástrós Mirru með dýrin okkar þar fyrst.

Skólar í noregi loka og það er skrítinn tími framundan og þessi setning úr Sjálfstæðu fólki átti einhvern veginn aftur mjög vel við.

„Þegar öllu er á botn­inn hvolft, þá fer alt ein­hvern­veg­inn, þótt marg­ur ef­ist um það á tíma­bili.“

Og stærsta fréttin í mars var að ekkert Eurovision verður haldið akkúrat þegar Ísland hefði örugglega unnið.

Við hjónin héldum okkur uppteknum með því að leggja nýtt parket á alla neðri hæðina sem við erum þvílíkt ánægð með.

Apríl: Þrátt fyrir Covit19 þá átti ég trúlofunarafmæli, 57 ára afmæli í 27 gráðum í sól og við hjónin 25 ára brúðkaupsafmæli. Ekki var nú haldið uppá neitt af þessu nema hér heima með sól, grilli og smá víni.

Tónlistarmenn á Íslandi komu í veg fyrir að landinn legðist allur í þunglyndi og héldu hverja tónleikana á fætur öðrum online. Þvílík listaveisla sem búin er að vera þetta vorið.

En stæðsti viðburðurinn í apríl var líklega þegar ég gaf eiginmanninum nýtt mótorhjól.

Maí: Já þá ákváðum við að leggja land undir fót og skella okkur til Stavanger og hjálpa vinum okkar að flytja, það var mjög skemmtileg helgi þar sem ég kynntist þessum apaketti og mömmu hennar. Já Anna Svala og Anders fluttu í annað hús sem þurfti talsvert að taka í gegn svo hægt væri að flytja inn en þrátt fyrir covit þá gekk það upp.

Já það var líka í mai sem hún Kiwi okkar gerði mig svo hrædda þegar hún elti skjóina 4 metra upp í tré en betur fór en á horfðist og hún gerði þetta samtals 3svar en áttaði sig svo á því að skjóirnir voru bara að stríða henni eða mobba eins og það er kallað hérna.

Noregur hélt sitt Eurovision og var mikil spenna í loftinu því það var búið að spá Íslandi góðum árangri.

Og viti menn, við unnum, já auðvitað unnum við þegar ekki var alvöru keppni, en það var samt sætur sigur og við hjónin héldum okkar Júróvisjon partý.

Elsku pabbi átti afmæli þetta árið eins og við hin en þess ber að geta að afmælisdagurinn hans 19. maí er einnig skírnardagurinn minn og hennar mömmu og svo eiga Konni bróðir og Drífa brúðkaupsafmæli þennan dag.

Ég hélt uppskeruhátíð einyrkjans og við hjónin fluttum útí garð og erum nánast búin að vera þar í allt sumar.

En þangað til næst, kæru vinir. Ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.