Sumarfrí 2021 – Sogndalen

Featured Post Image - Sumarfrí 2021 – Sogndalen

Dagur 8. Sogndalen er sama og hét áður Sogn og Fjordene. Við höfðum pantað okkur bústað í svona camping svæði og voru nokkrar stærðir og gerðir í boði, ég týmdi ekki að taka á leigu þessa dýrustu sem kostuðu, nóttin meira en lúkushótelherbergi í miðborg Osló, svo við völdum bústað sem var alveg nógu stór en ekki með sturtu og klósetti, það er sameiginleg aðstaða ca. 20 skref frá bústaðnum. Bústaðurinn var svo sem allt í lagi, einn og sér en að hafa ekki vask í eldhúsinu, þó ég þyfti að hafa vatnið á brúsa var agalegt, því hefði ég haft vask hefði ég getað þvegið upp inni, þvegið mér í framan og tannburstað okkur, svo við ætlum aldrei að gera þetta aftur. Verðum alltaf með klósett og eldhúsvask í það minnsta. Sturtuna má semja um. En þetta er mjög fallegur staður og útsýnið af pallinum var ekkert slor.

Daginn eftir að við komum í Sogndalen fórum við sem leið lá í Rib Adventure í Sognefjorden. Við þurftum að keyra í klukkutíma til að komast svona innarlega í fjörðinn eða firðina, þetta eru svo margir firðir út um allt. En við áttum að fara í bátinn við Skjolden brygga og fundum það eins og ekkert sé en auðvitað vorum við komin allt of snemma svo við skelltum okkur í göngutúr.

Þvílíkt fallegt sem þetta er þarna og gaman að rölta um og sjá spegilsléttan fjörðinn og fólk að leika sér út um allt eða bara liggja og njóta.

Þegar ég var búin að kaupa miðana í þessa siglingu var ég að spjalla við Önnu Svölu vinkonu og hún fór að ráðleggja okkur hvernig við ættum að sitja og vera um borð í þessum bát og ég rifjaði þá upp að fólk var að fá bakmeiðsl sem fóru svona siglingar kringum eyjarnar okkar fögru (Vestmannaeyjar) og varð pínu stressuð. En þegar við mættum og sáum að fjörðurinn var algjörlega spegilsléttur þá hurfu þær áhyggjur algjörlega enda fundum við ekki fyrir neinu nema fegurð og upplýsingum. Og jú kannski vindinum í hárið sem var bara stórkostlegt. Mér leið svolítið eins og ég væri í allt öðrum útlöndum en Noregi og kannski bara Grikklandi, liturinn á sjónum, mistrið allt í kring og hitinn þrátt fyrir hraða og vind. Mæli með þessari siglingu fyrir allan peninginn en sko þetta kostaði nefnilega ekki svo mikið eða bara 650 nok. pr. mann 1,5 tíma sigling með stoppum og sögum af lífinu og náttúrunni.

Hérna var stoppað til að sýna okkur elstu veggöng í Noregi en þau voru byggð árið 1889 og eru enn í notkun.

Þegar hérna er komið við sögu siglum við inn í enn einn fjörðinn og allt í einu sjáum við einhverja hringamyndun í sjónum og ég sagði að nú værum við greinilega komin í Bermúda þríhyrninginn því þetta væri nú ekkert eðlilegt þe. að sjórinn færi svona í pott bara inní miðjum firðinum.

En þá sagði fararstjórinn okkur að þetta væri gert af mannavöldum og hérna kemur þýdd skýring af Wikipedia: Úrkomusvæði Jostedøla, 861 km2, samanstendur af 27% jökli, vatnsrennslið í ánni er því bæði háð úrkomu og bráðnun jökla og getur því sum ár verið meiri en úrkoman. Áin er með flóðtopp út af snjóbráðnun og annan vegna jökulbráðnun. 90% af frárennsli til fjarðarins fer fram frá maí til september. Vatnsrennsli hefur verið mælt 455 m2 / s. Árvatnið sest sem lag yfir saltan sjó (vegna eðlismunsins).

Þeir sem sagt dæla þarna út vatni bæði sem bráðnar af snjó og eins frá jöklinum og þessi hringrás myndast vegna mismunandi vatns/sjós, ef ég skil þetta rétt.

En þarna í þessu litla þorpi hafa menn stóra drauma og þarna er fataverksmiðja sem meðal annars saumar alla búninga á skíða- og fótboltalandslið Norðmanna og ekki nóg með það heldur búninga á Barselona og Arsenal ásamt einhverjum öðrum frægum liðum. Svo þessi ljóti partur þorpsins er í raunninni þeirra stóra stolt.

Þegar ég var að skoða hvað við ættum að gera í fríinu okkar sá ég þessa bátsferð og reyndar aðra sem ég var rosalega spennt fyrir en hún heitir Rib adventure med fossa skoðun. Þegar ég svo keypti miðann þá mundi ég vel hversu lélegu formi ég væri í og hvernig fjallgangan í Romsdalnum hefði gengið svo ég ákvað að taka ekki sénsinn á fossaskoðuninni þar sem ég vissi ekki nóg hversu mikið og hátt og erfitt yrði að labba. En hérna sjáiði einn hæsta foss Noregs og mér skilst að við hefðum labbað uppað honum hefðum við tekið hina ferðina. Sem Íslendingur finnst mér engir fossar í Noregi merkilegir því við eigum við marga svo miklu flottari. En Norðmenn eru mjög stoltir af sínum að sjálfsögðu.

Feigefossen er 218 metra hár og er staðsettur í Lustrafjorden.

Þegar við vorum að skoða Feigefossen og Lerum saftgerðina en hún var sem sagt í húsunum undir fosssinum í gamla daga en vatt uppá sig og er núna ein af stærri saftverksmiðjum landsins, verður okkur litið hinum megin við fjörðinn og sjáum risastórt hús lengst uppí fjalli og að sjálfsögðu spyrjum við fararstjórann hvaða hús þetta sé. Og þá segir hann okkur að þetta hafi verið sjúkrahús sem var byggt rétt eftir 1900 og talið var gott að hafa það svona hátt uppí fjalli. Og þá dettur mér að sjálfsögðu bara berklahæli í hug og spyr hann að því og já þetta var sem sagt berklahæli allt til ca. 1968 þegar hætt var að nota það og já þá líka búið að útrýma berklum. En núna eftir að það hafi verið í eyði í öll þessi ár, hafa tveir sunnlendingar keypt það og ætla að breyta í hótel. Og já þetta hús er annálað fyrir draugagang og ætla þessir frábæru athafnarmenn að nota það í markaðssetningu á hótelinu.

Svo þegar við vorum á leiðinni frá sognefjorden og í bústaðinn keyrðum við framhjá skilti sem okkur fannst minna á nafnið á sjúkrahúsinu/hótelinu sem fararstjórinn okkar sagði okkur frá í siglingunni og ákváðum við að keyra uppað húsinu til að sjá. Og viti menn þetta er þvílík fjallabaksleið og engan veginn hægt að mæta bílum og rákum við okkar reyndar tvisvar uppundir sem var að sjálfsögðu ekki gott en upp komumst við og þá var allt svæðið lokað þar sem húsin eru ennþá ekki örugg og eigendur vilja að sjálfsögðu ekki að fólk sé að ráfa um og kannski slasa sig.

Harastølen Hotell / Spøkelsehuset.

En svona verður þetta innan þriggja ára og við erum ákveðin í að fara þangað og gista einhvern tíma eftir opnun. Vonandi verður vegurinn líka lagaður.

Eftir þessa svaðiför drifum við okkur í vatnslausa bústaðinn og reyndum að elda mat í tveimur pottum því það er bann við grilli þar sem miklir þurrkar hafa verið. Hefði verið gott að hafa eina pönnu líka en okkur tókst að elda mat og borðann og hafa það huggulegt þetta kvöldið en daginn eftir skyldi keyrt alla leið til Bergen.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.