Sumarfrí 2021 – keyrt frá Sogndal til Bergen

Dagur 9. Þá skal keyrt frá Sogndal til Bergen í einum rikk og við erum orðin svo kokhraust af öllum akstrinum hingað til að okkur finnst það bara ekkert mál. (okkur þá meina ég, ég sem sit í farþegasætinu) Við keyrum fyrst yfir þessa dásamlega fallegu brú sem var þarna rétt við bústaðinn sem við vorum í.

Við vorum búin að ákveða 1 stopp á leiðinni og vorum sko ekkert búin að fatta að við gætum ekki keyrt alla leið, en allt í einu hættir vegurinn og við tekur ferja, ca. 20 – 30 mín þarna yfir og alla vega 2 ferjur í stanslausri siglingu á okkar áfangastað og 2 sem fara þarna frá á annan áfangastað. Fjörðurinn er bara fullur af ferjum og við fórum að sjálfsögðu að hugsa hvort þetta væri ekki möguleiki frá Landeyjahöfn til Eyja, vera bara með bílferju þar sem fólk nánast situr bara í bílunum sínum eða stendur úti á bíldekki í þessar nokkrar mínútur. En líklega eru mér vitrari menn búnir að átta sig á að þetta gengur ekki í íslenskum sjó. Alla vega hvað veit ég nema þetta er ótrúlega flott að það er nánast alltaf ferja við hvora bryggju og aldrei meira en 20 mín bið.

Þetta er ekki síðasta selfien sem ég tek enda engin ástæða til að hætta. Við ættum ekki margar myndir af okkur saman ef ég hefði ekki lært á “selfie”.

Þetta eina stopp sem var planlagt var í Gamle Lærdalsøyre en það er þorp sem byggðist upp í lok 1700 og byrjun 1800. Það er ennþá búið í húsunum en þetta er eins og safn samt, mér fannst smá galli að fólk sem búi í gömlu húsunum geti verið með nútíma bíla fyrir utan en svona er auðvitað lífið og líklega fullt af öðrum höftum sem fólk býr við, sem býr í safnahúsum.

Og þarna mitt í gamla bænum eru þessir bílar, svo virðist sem það sé einhver klúbbur manna sem eiga svona rauða sportbíla sem hittist þarna og sýni bílana sína. Mér fannst þetta svo absúrt en samt svo cool að sjá þetta svona saman.

Eftir þetta flotta stopp héldum við leið okkar áfram til Bergen þar sem við ætluðum að njóta heillar helgi í fallegu eyjunni Lerøy þar fyrir utan með vinum okkar Önnu Svölu og Anders og 2 vinum hans. Aksturinn gekk eins og í sögu.

Eina sem var okkur pínu erfitt var að finna bryggjuna sem ferjan út í eyju stoppar við þar sem við vorum mun fyrr á ferðinni en áætlað var og vildum koma Önnu Svölu á óvart. Hún hélt hún þyrfti að bíða allan daginn fram á kvöld eftir okkur en við vorum mætt uppúr kl. 14. En við fundum að sjálfsögðu bryggjuna með aðstoð Geirþrúðar (google maps) og voru að sjálfsögðu miklir fagnaðarfundir hjá okkur vinunum.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.