Jæja þá var komið að því að kveðja pabba í hinsta sinn en hann fékk hjartastopp í matsalnum á Hraunbúðum þann 10. desember 2021. Við segjum að hann hafi farið með stæl eins og hann kom í þennan heim. Hann elskaði athygli og fékk hana fram á síðustu mínútu.
Ég rauk í lest um hádegi daginn eftir, sat þar í nærri 7 tíma og fór til Maríu og Stefáns í Jessheim, þau síðan skutluðu mér á flug daginn eftir og Silja Ýr sótti mig, svo hitti ég Klöru og Aron og gisti hjá Aron sem skutlaði mér í rútuna til Landeyjarhafnar á mánudagsmorguninn og ég tók Herjólf til Eyja. Það var mikið gott að komast til Eyja og Konnýjar og mikilvægt fyrir mig að fá að vera með henni allan þennan tíma svo við gætum verið saman í öllum ákvörðunum því þetta er sko mikið sem þarf að græja og gera við andláts úti á landi þar sem ekki eru útfararþjónustur. (viðskiptahugmynd fyrir einhverja)
Við vorum svo ótrúlega sammála um alla hluti og unnum eins og framlenging af hvor annarri. Sara Rún tók líka þátt í undirbúningnum þar sem hún var á staðnum og mér finnst alltaf gott að hafa hana nálægt mér á erfiðum stundum. Man líka eftir því hvað ég sótti stuðning í hana við fráfall mömmu og núna pabba.
Útförin var falleg og söngurinn sem var eingöngu fluttur af Eyjafólki var æðislegur. Fyrir mig er söngurinn það mikilvægasta í útförum og gott fyrir ykkur hérna í kringum mig að vita það. Auðvitað skiptir ræðan heilmiklu máli og eins að það komi fram hvernig manneskjan var. Ég spurði prestinn á fyrsta fundinum með honum hvort hann hefði húmor því það skiptir mig líka máli, mér finnst fátt betra en að hlæja örlítið með tárum þegar hins látna er minnst. Ég hef alltaf fengið að heyra að ég sé lík pabba og ég stóð undir því nafni þennan tíma sem ég var á Íslandi, hávær, snögg í hreyfingum og eitthvað meira var það sem minnti fólkið í kringum mig á pabba. Núna er það bara ljúft, við munum hann þá bara betur lengur.
Eitt það erfiðasta við útför í Covit er að þurfa að takmarka svona kirkjugesti og að einungis 41 gestur mátti koma að okkur meðtöldum, því kirkjunnar fólk og söngfólk er talið með í gestafjölda. En það gekk upp og þá hjálpar líka að kirkjan streymir frá útförinni og á Landakirkja heiður skilið fyrir góða upptöku og fínt hljóð sem skilaði sér vel til fólks út um allan heim en ég sé að 265 hafa horft á hana í steymi.
Daginn eftir jarðarförina fór ég svo með Herjólfi og var samferða Sigrúnu og Kollu sem komu til Eyja og eyddu 3 dögum með okkur. Ása Kolla sótti mig svo og ég kíkti í kaffi til hennar og Gunna og svo var ég hjá Klöru um kvöldið og hún skutlaði mér á flug kl. 4 um nóttina. Ég fór svo í test á flugvellinum og var svo heppin að lítið var um lendingar þarna svo ég gat bara labbað beint inn og fékk svar eftir 25 mín. Neikvæð, en Þráinn bað mig samt að reyna að vera svolítið jákvæð þegar ég kæmi heim, ha ha ha. Lestin fór svo frá Osló S kl. 15.30 þannig að ég var að bíða í 3 tíma á Keflavíkurflugvelli, klukkutíma á Gardemoen og 2 tíma á Osló S en heim komst ég klukkan níu um kvöldið og þvílíkt sem það var gott og yndislegt að lenda heima í jólasnjó. Hér er allt á kafi í snjó og mikið fallegt þennan aðfangadag.
Læt fylgja hérna með minningargreinarnar hans pabba.
Microsoft Word – Minningargrein Kristín Jóna.docx
Minningargrein Kristín Jóna
Jæja þá hefur elsku pabbi kvatt okkur í hinsta sinn. Hin síðari ár höfum við alltaf sagt að hann hljóti að eiga 9 líf eins og kötturinn því hann hefur fengið ansi mörg áföll og lent í miklum veikindum en alltaf staðið aftur upp, brosandi!
Já pabbi hafði mjög létta lund og alltaf stutt í brosið. Þó sagði hann í síðustu veikindunum sínum að hann væri orðinn þreyttur en hann náði sér svo á strik og átti virkilega góða 2 mánuði á Hraunbúðum áður en hann kvaddi með stæl. Já ég segi með stæl því pabbi elskaði athygli og að fara í hjartastopp í matsalnum á Hraunbúðum var akkúrat í hans anda.
Ég ólst ekki upp hjá pabba nema fyrstu 5 árin en þá skildu hann og mamma en ég átti samt alltaf bara einn pabba þó ég hafi eignast stjúppabba seinna. Ég og pabbi vorum alltaf sögð lík og ég veit að ég er svo heppin að vera með þessa léttu lund sem hann hafði og ég veit að hún á eftir að koma sér vel. Síðustu skiptin sem ég hef komið til Íslands hafa verið vegna veikinda pabba, veikinda mömmu og seinna andláts hennar og nú hans. Þetta er skrítinn tími og svo skrítið að sitja í stofunni hjá Konný systur og enginn pabbi kemur galvaskur inn til að heilsa uppá litlu stelpuna sína. En sögurnar hans munum við margar og einhverjar gátur sitja einnig í minninu en pabbi hafði óskaplega gaman að segja gátur og mundi allar gátur sem hann hafði heyrt um ævina, en ég er arvaslök að leysa þær og hafði hann ansi gaman að horfa uppá mig reyna að finna út úr þeim og hló mikið þegar það tókst ekki.
Ég flutti til Noregs fyrir um 10 árum og pabbi sem einungis hafði ferðast til útlanda 2svar um æfina fyrir þann tíma, kom 2svar í heimsókn til okkar og áttum við virkilega góðar stundir saman, hann var alltaf til í að djóka með okkur og honum fannst ofsalega gaman að fylgjast með því sem Þráinn minn var að dunda sér við í bílskúrnum, hvort sem það var við smíðar eða að gera upp gamalt mótorhjól. Hann var líka ofsalega hrifinn af því hvað Norðmenn hugsa vel um húsin sín og umhverfi og talaði oft um það. Fyrir mig var mjög mikilvægt að pabbi hafði komið í heimsókn til okkar og séð lífið okkar þarna úti.
Ástrós Mirra saknar þín og hefði svo gjarnan viljað koma til að kveðja þig en í ljósi aðstæðna var það ekki hægt núna. Sárt þykir okkur einnig að þú og Helge unnusti Ástrósar náðuð ekki að kynnast. En ég veit að þú átt eftir að fylgjast með krökkunum og þvi sem þau taka sér fyrir hendur í lífinu.
Elsku pabbi minn, þín verður sárt saknað en ég hendi fram einni gátu til þín í lokin:
Hvaða skuld er ekki hægt að borga með peningum? (þakkarskuld) Þín dóttir Kristín Jóna
***
Microsoft Word – Minnigargrein pabbi Þráinn.docx
Minnigargrein Þráinn.
Nú verður grátið í Manshester borg þar sem einn diggasti stuðningsmaður
Manchester United hefur lagt skóna á hilluna.
Tengdafaðir minn var engin venjulegur maður, fastur fyrir, harðduglegur
gröfukall og formaður Dúfnaræktarfélags Íslands í mörg ár. Ég vissi ekkert
um það að hann ræktaði keppnisdúfur, þegar ég kom í fjölskylduna, enda ég
bara 17 ára og dóttir hans hún Kristín vildi endilega kynna mig fyrir pabba
sínum og þess vegna var brunað upp á Skaga í blíðskaparveðri þar sem hann
bjó. Þar sem ég er að keyra eftir leiðbeiningum frá kærustunni keyrum við inn
eina götu og þar sé ég mann úti í garði með flautu sem hann blés í af fullum
krafti og sveiflaði afsöguðum brúsa fram og aftur og til hliðar og allt og ég segi
við kærustuna, ji sástu bjánan þarna úti garði með flautuna og brúsann og svo
hló ég mikið en hætti að hlæja þegar mér var sagt að stoppa fyrir utan þetta
hús með þessum garði. Þessi maður er þá tilvonandi tengdafaðir minn.
Þegar við komum inn þá var okkur boðið í kaffi inni í eldhúsi og sagðar
allskonar skemmtilegar sögur og við hlógum mikið. Ástæðan fyrir flautunni og
brúsanum var sú að tengdó var með dúfur í keppni og þær voru komnar til
baka en sátu bara og slöppuðu af á húsþakinu, en tengdó þurfti að dobbla
þær inn í dúfnakofann til að taka af þeim hringinn og setja í þartilgerða klukku
sem skrásetur tímann þegar dúfan kemur í dúfnakofann.
Þetta voru mín fyrstu kynni af þessum flotta manni. Okkar leiðir áttu eftir að
liggja æði oft saman og ég held ég geti alveg sagt að það var aldrei leiðinlegt í
kringum hann enda margar sögurnar og kallinn svo rosalega minnugur á nöfn
og ættartengsl, hver er frændi eða frænka hvers osfrv.
Það er þörf fyrir svona kalla, í okkar samfélagi þar sem einstaklingur getur reitt
af sér skemmtisögurnar og lyft landanum upp og haft gaman saman og það
gat hann svo sannarlega.
Hann gerði sér lítið fyrir, fyrir nokkrum árum og skellti sér yfir hafið og til okkar
í heimsókn enda ég búin að draga dótturina til Noregs. Það var skemmtileg
heimsókn, mikið hlegið og mikið gaman saman.
Elsku Guðjón Már tengdapabbi. Þú hefur sloppið við þennan dag nokkuð oft
og stundum var sagt að þú hefðir 9 líf en ég held að þú hafir farið núna af því
að þú varst tilbúinn, þetta var orðið gott eins og þú orðaðir það við mig í
símann í einu af þeim mörgu skiptum sem við spjölluðum saman.
Ég vil þakka þér fyrir kynnin og öll þau næstum 40 ár sem ég hef þekkt þig.
Ég veit að það verður tekið vel á móti þér og það verður mikið hlegið.
Við hin yljum okkur við góðar og fallegar myningar um sérdeilis flottan pabba,
tengdapabba, afa og langafa. Skilaðu góðum kveðjum til þeirra sem við
þekkjum í sumarlandinu góða.
Þinn tengdasonur Þráinn Óskarsson
***
Elsku pabbi er farinn.
Hann fór með látum eins og hann fæddist með látum, en hann fæddist 19. maí 1936 í Reykjavík, tveimur mánuðum fyrir tímann og var fyrsta barnið á Íslandi í súrefniskassa. Hann fæddist með alvarlega heyrnarskerðingu sem versnaði með árunum. Hann fékk ekki heyrnartæki fyrr en hann var orðinn fullorðinn. Og sem barn lærði hann að lesa af vörum.
Þegar pabbi fór á eftirlaun flutti hann til Eyja til mín og hann talaði oft um það hve Eyjamenn hefðu tekið honum vel þegar hann kom hingað og hér eignaðist hann fullt af góðum vinum og átti gott líf.
Pabbi hafði alltaf verið hraustur maður, en fyrir 17 árum fékk hann alvarlegt hjartaáfall, þar sem hann í raun dó en var endurlífgaður. Hann grínaðist oft með það að vera ekki nema 17 ára þar sem hann hefði þá byrjað nýtt líf.
Seinna átti hann í hinum ýmsu veikindum og margoft vorum við kölluð til, til að kveðja hann. Fyrir tveimur mánuðum flutti hann á Elló þar sem honum leið mjög vel.
Pabbi var mjög blíður maður og var mikið fyrir knús og kossa og þegar við systur vorum litlar spurði hann okkur oft hver er besti pabbi í heimi, sem mér fannst nú bjánaleg spurning þar sem ég átti nú bara einn pabba, en auðvitað sögðum við alltaf að hann væri besti pabbi í heimi.
Við systur vorum mikið á rúntinum með honum í æsku, þar sungum við hástöfum og reyndum að kenna honum ensku (sem við kunnum auðvitað ekki þá) en hann bað okkur síðan alltaf að syngja uppáhaldslagið sitt, Lóan er komin. Hann sagði mér svo þegar ég var fullorðin að þetta hefði nú ekkert verið uppáhaldslagið hans en honum fannst svo gaman að heyra okkur syngja. Hann var mikið fyrir tónlist þótt hann væri svona heyrnarskertur, elskaði alla tónlistarþætti sem voru í sjónvarpinu og mátti helst ekki missa af neinum Idol-þætti.
Þegar ég keypti mér nýjan bíl árið 2017 fór hann með mér að skoða bílinn og varð svo hrifinn af honum og sagði: Ef ég væri 10 árum yngri þá myndi ég kaupa mér alveg eins bíl. En hann gerði sér svo lítið fyrir ári seinna og keypti bílinn. Það var hans fyrsti nýi bíll úr kassanum og þá var hann 82 ára, hann var óskaplega stoltur af bílnum sínum og rúntaði um alla eyju, og tók eftir öllum framkvæmdum og breytingum sem áttu sér stað í bænum.
Pabbi var mjög duglegur að hreyfa sig, fyrst þegar hann kom til Eyja var hann hjólandi um allan bæ með hundinn sinn sér við hlið. Síðan eftir hjartaáfallið fór hann meira að ganga og undir það síðasta þegar hann var að mestu kominn í hjólastól út af jafnvægisleysi, þá hljóp hann í stólnum út um allt elliheimili og við sem vorum gangandi þurftum að hlaupa á eftir honum, hann fór svo hratt.
Elsku pabbi, við Markús eigum eftir að sakna þín mikið, það verður sérstaklega tómlegt um jólin sem við vorum búin að plana að eiga saman.
Elsku besti pabbi í heimi, hvíl í friði.
Laufey Konný
***
Elsku afi minn, „maðurinn með níu lífin“. Búinn að lenda í ýmsum áföllum í gegnum tíðina og alltaf komið sterkari til baka.
Við fjölskyldan eigum erfitt með að trúa því að þú sért farinn frá okkur.
Þú ert vanur að stíga upp úr öllu sem dunið hefur á en þinn tími var greinilega kominn núna.
Þegar afi var spurður nýlega hversu gamall hann væri svaraði hann að hann væri bara 17 ára unglingur, en hann fór í hjartastopp fyrir 17 árum sem hann lifði af og sagði hann hafa verið nýtt upphaf.
Afi var alltaf svo duglegur og hugsaði vel um heilsuna sína. Hann tók stundum hlutunum of bókstaflega og ég man þegar læknirinn sagði við hann: „Haltu svo áfram að vera duglegur að hreyfa þig,“ þá fór afi beint heim og gekk margar ferðir á ganginum í fjölbýlinu. Hann var búinn að mæla út hvað gangurinn var langur og var með markmið að labba nokkra kílómetra á hverjum degi, sem hann gerði.
Afi var mjög félagslyndur maður og átti gott félagslíf, sérstaklega á eldri árum eftir að hann kynntist Teddu sinni. Hann var mikill rútínukall og var hann einn af þeim sem fór í kaffi til Gústa á N1, til Harðar og Matta og Ragga rakara og co. á morgnana, og ekki má gleyma Íslandsbanka kl. 09 á föstudagsmorgnum. Þessir staðir og starfsfólkið á þessum stöðum var mikilvægt í hans lífi.
Þegar Covid skall á þurfti hann því miður að draga úr eða hætta þessum heimsóknum sem var stór skellur fyrir hann.
Afi hafði gaman af því að rúnta, enda gamall vörubílstjóri og gröfukall. Ég er þakklát fyrir að hafa getað tekið hann í lokabíltúrinn rétt áður en hann lést. Afi skilaði sjálfur inn bílprófinu sínu fyrir ári og þegar ég fór að fara með hann á rúntinn þurfti ég að passa mig að fara réttan hring í bænum og keyra hægt fram hjá réttum stöðum fyrir hann.
Hann var svakalega eftirtektarsamur og tók eftir ýmsum smáatriðum í bænum.
Þegar ég hugsa til baka um minningarnar frá því ég var krakki er það fyrsta sem mér dettur í hug Skuggi afi en ég kallaði hann það alltaf því hann átti hund sem hét Skuggi sem fór með honum allt. Einnig fannst mér voða spennandi að afi væri dúfukall. Við afi héldum með sama fótboltaliðinu, Manchester United, nema ég hafði ekki tærnar þar sem hann var með hælana í að vera dyggur stuðningsmaður. Ég var þó ekki alveg sátt við afa þegar hann sagðist halda með Fram þegar ég var sjálf í íþróttum og var auðvitað í ÍBV en hann harður Framari.
Afi var alltaf duglegur að hrósa mér og Alenu minni, stundum vandræðalega mikið. Mér fannst afi oft fullvæminn og mikill knúsari en kann mikið að meta það í dag og sakna ég þess strax að fá ekki knús frá þér elsku afi.
Þegar ég ræddi við Alenu um þig var það fyrsta sem hún nefndi hversu mikið þú knúsaðir hana, eiginlega kramdir að hennar sögn.
Við Alena elskum þig og söknum þín mikið.
Þín dótturdóttir,
Sara Rún.
***
Nú ertu farinn elsku langafi, Það var alltaf svo gaman að koma til þín því þú varst alltaf svo ánægður með mig og varst alltaf svo duglegur að segja við okkur hvað þér þætti vænt um okkur. Þú kallaðir mig alltaf fótboltahetjuna þína og ég veit að þú átt eftir að fylgjast stoltur með öllum leikjum hjá mér.
Ég hlakkaði svo til að hitta þig og vera með þér um jólin, en þau verða eitthvað skrýtin án þín.
Ég sakna þín og elska þig, þinn
Kastíel.
***
Elsku stjúpi er frá okkur tekinn, allt of snemma finnst mér. Það er þó ekki svo að við viljum hafa ástvini okkar til eilífðar, en við yljum okkur við minningarnar og ég á þær margar um þig. Man svo vel þegar þú áttir Oldsmobilinn fallega rauða og ég fékk að fara með þér í bíltúr. Þú sagðir að vegurinn væri svo holóttur svo ég spurði þig af hverju ég fyndi ekki fyrir því og þá varstu fljótur að svara „það er vegna þess að ég er sá eini sem er á bíl með fluggír“ og svo hlóstu.
Elsku stjúpi minn, ég vildi svo gjarnan geta komið og kvatt þig en vegna aðstæðna gengur það ekki upp núna, ég í Danmörku og þú í Eyjum, svo ég kveð þig hérna og þakka þér fyrir allt og allt.
Minningin um þig verður ávallt í hjarta geymd en aldrei gleymd.
Þín dóttir,
Anna Fanney.
***
Minningarorð Guðjóns Más Jónssonar. Útför hans var gerð frá Landakirkju, Vestmannaeyjum, 20.12.2021.
Ritningartextar; Róm 8:31-35, 38-39 & Jóh 10:11-15
Í upphafi vil ég flytja þær kveðjur sem borist hafa vegna útfarar Más í dag.
Þráinn, tengdasonur Más, dótturdóttir hans Ástrós Myrra og Helge í Noregi hafa beðið fyrir kveðju. Þá hefur Sæsa Vídó beðið fyrir kveðju til aðstandenda líkt og Jenný Kristín í Frakklandi. Jón Ingiberg, Anna Fanney og Edda biðja fyrir kveðju og þá hafa Þórir og Hjördís einnig beðið fyrir kveðju. Steina Friðsteinsdóttir biður fyrir kærleikskveðju til fjölskyldunnar og þá hefur að lokum borist kveðja frá Óla og fjölskyldu, Elínu og fjölskyldu, Díu og Gulla og Mandý.
Að lokum hefur einnig borist kveðja frá félagi eldri borgara sem þakkar fyrir góðar samverustundir.
Aðstandendur Theodóru Óskarsdóttur vildu þakka Má fyrir góð kynni og tengsl. Hann reyndist fjölskyldunni afar vel. Aðstandendur Más vildu koma á framfæri einlægu þakklæti til starfsfólk sjúkrahússins og Hraunbúða fyrir góða umönnun og þjónustu og gott viðmót í garð fjölskyldunnar.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Í undirbúningi aðventunnar verðum við vör við ýmis konar tákn. Jólaljósin, bæði rafmagnsseríur og kerti, minna okkur að sjálfsögðu á hið sanna ljós sem kemur í heiminn til að lýsa upp dimma tilveru og hið sígræna jólatré, eitt helsta tákn jólanna, minnir okkur á sívaxandi og sístæða trú okkar. Jólasveinninn er óneitanlega táknmynd gjafmildis og kertin fjögur á aðventukransinum sem nú hafa öll verið tendruð hafa sínar skírskotanir.
Í gegnum aldirnar hefur maðurinn verið duglegur að uppgötva og móta tákn fyrir hin og þessi fyrirbæri. Rétt eins og mynd segir meira en þúsund orð má hið sama segja um tákn og það er einmitt þess vegna sem þau verða til og eru notuð.
Jesús notar sjálfur ýmis tákn um sjálfan sig og þ.a.l. merkingu sína og boðskap. Tákn guðspjallsins sem við heyrðum áðan er góði hirðirinn sem leggur líf sitt í sölurnar fyrir sauðina. Jesús er kominn til að vernda, gæta og hlúa að þeim sem bæði treysta Jesú og líka þeim sem efast. Rétt eins og góður hirðir á að gera.
Tákn heilags anda er dúfan sem vísar til skírnar Jesú þar sem andi Guðs birtist sem dúfa. Sem lítill en þó ratvís og snjall fugl. Dúfuna má t.d. sjá fyrir framan prédikunarstólinn hér í Landakirkju beint fyrir ofan mig sem minnir þann á sem þangað stígur að prédikunin er ekki hans eigin heldur innblásin heilögum anda, krafti Guðs í heiminum.
Ég fjalla um dúfuna því í gegnum ævi sína stundaði Már dúfnarækt. Það er oft þannig að innri maður kemur bersýnilega í ljós í námunda við dýr og ljóst var að Már var umhyggjusamur og natinn og vildi öðrum vel líkt og heilagur andi og Guð vill okkur.
Hér í Landakirkju erum við nú saman komin við lok aðventunnar til að kveðja Má, ástvin okkar, sem lést fyrir tíu dögum síðan. Það kann að vera að okkur finnist þessi tími einkennilegur til slíkrar kveðjustundar enda aðventan og jólin tími gleði og eftirvæntingar. Á sama tíma og við væntum komu ljóssins í heiminn væntum við nú þess að Guð muni nú efna loforð allra loforða og taka á móti honum í heimi ljóssins.
Guðjón Már Jónsson fæddist í Reykjavík þann 19. maí árið 1936. Var hann nefndur eftir föðurafa sínum en foreldrar hans voru Jón Ingiberg Guðjónsson, bílstjóri og verkamaður úr Reykjavík, og Kristín Guðberg Guðmundsdóttir húsmóðir frá Merkinesi í Höfnum. Jón fæddist árið 1907 og lést 1972 en Kristín fæddist árið 1910 og lést 1989.
Guðjón var lengst af kenndur við sitt fyrra eiginnafn en innan fjölskyldunnar notaði hann hið síðara og því verður Már notað hér eftir. Már var yngri sonur foreldra sinna en eldri bróðir hans var Guðmundur og var hann lengst af verkstjóri hjá Reykjavíkurborg. Fæddist hann árið 1930 og lést 2018.
Már fæddist nokkuð fyrir tímann og var af þeim sökum heyrnarskertur alla ævi. Heyrnartæki fékk hann ekki fyrr á þrítugsaldri og því gat oft á tíðum verið á brattann að sækja t.d. í skólagöngu sinni þar sem honum gekk ágætlega en þó gat komið fyrir að heyrnarskerðingin væri túlkuð sem óþekkt af kennurum sínum. Þó leiddi það einnig til þess að Már stóð hnarreistur frammi fyrir ýmsum verkefnum lífsins. T.a.m. lærði hann varalestur af bróður sínum sem hann bjó að alla ævi.
Megnið af uppeldi Más var í Reykjavík nánar tiltekið við Suðurgötu sunnan við Tjörnina og síðar meir við Langholtsveg. Tjörnin var að sjálfsögðu hluti af lekvelli æskuáranna en þar mátti einnig finna Hólavallakirkjugarð. Söngur og fótboltaáhugi mættust í sambandi foreldranna og umhverfi æskuheimilisins og því var Már alinn snemma upp við söng og fótboltaiðkun. Þrátt fyrir að hann hafi gert hvorugt að atvinnu sinni má þó vel segja að hvort fyrir sig varð fyrirferðarmikið í lífi hans með ýmsum hætti.
Már lauk barnaskólamenntun í Reykjavík og starfaði fyrst um sinn sem sendill. Þaðan var ekki aftur snúið og eftir að hann lauk meiraprófi starfaði hann að mestu leyti sem bílstjóri og gröfustjóri. Starfaði hann m.a. í öskunni í Reykjavík, Vita og hafnarmálum og Rafveitu Hafnarfjarðar en lengst af hjá Akraneskaupsstað í nokkurs konar áhaldaleigu. Hann fór einnig í félagsmálaskóla alþýðu þar sem hann var í ýmsum nefndum og trúnaðarmálum á vinnustöðum sínum.
Már var tvíkvæntur og var fyrri eiginkona hans Auður Anna Konráðsdóttir en hún var héðan úr Eyjum en þau skildu árið 1968 eftir að hafa búið á nokkrum stöðum í Reykjavík og Hafnarfirði. Auður lést í hittiðfyrra. Með Auði eignaðist hann tvær dætur þær Laufeyju Konnýju og Kristínu Jónu. Konný er fædd árið 1960 og býr hér í Eyjum ásamt eiginmanni sínum Markúsi Björgvinssyni. Þau eiga tvær dætur; Söru Rún og Silju Ýr og tvö barnabörn. Kristín Jóna er fædd árið 1963 og er búsett í Suður-Noregi. Eiginmaður hennar er Þráinn Óskarsson og dóttir þeirra er Ástrós Myrra.
Síðari eiginkona Más var Erna Vilbergs Vilbergsdóttir frá Patreksfirði en þau skildu árið 1998. Með henni eignaðist hann son sem heitir Jón Ingiberg en hann er búsettur í Danmörku líkt og móðir sín. Hann á tvö börn, Ólaf Brynjar og Sigríði Dagnýju og eitt barnabarn. Erna á þar að auki tvö börn af fyrra sambandi, Vilberg sem er látinn og Anna Fanney.
Alls átti Már því þrjú börn, fimm barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Sökum vinnu sinnar sem bílstjóri var Már oft á tíðum utan heimilisins. Það einkenndi þó einnig frí fjölskyldunnar þar sem fjölskyldan ferðaðist mikið innanlands og fór t.d. í veiðitúra en Már var mikill veiðimaður. Á þessum ferðalögum var að sjálfsögðu mikið sungið og glatt á hjalla líkt og alltaf þegar fjölskyldan hittist. Már talaði gjarnan um það hversu stoltur hann væri af börnum sínum og barnabörnum og að slíkum kærleika búa þau öll í dag.
Már hafði ýmis áhugamál og var athugull maður. Athyglin var þó ekki einungis í umhverfinu heldur einnig í ýmsum orðaleikjum og gátum sem hann hafði gaman að. T.d.: „Hvaða skuld er ekki hægt að borga með peningum? Þakkarskuld.“ Einnig mætti skjóta inn: „Ég er betri en það besta og verri en það versta. Þá ríku skortir mig en fátæklingar eiga nóg af mér. Hver er ég?“ Svarið við þessari gátu fáið þið og Már á eftir.
Fótboltinn var einnig fyrirferðarmikill líkt og fyrr hefur verið getið en Manchester United var hans félag. Þá var mikið um Framara í fjölskyldunni og því fylgdist hann einnig með félaginu sem á gamansömum nótum var frekar amalegt innan fjölskyldunnar eftir að hann flutti hingað til Eyja.
Már stundaði dúfnarækt meiri part ævi sinnar. Ekki er vitað hvernig sá áhugi kom til nákvæmlega en þó var hann slíkur að fyrsta utanlandsferð hans var til Noregs á dúfnaráðstefnu. Ræktunin hófst þegar hann var á unglingsaldri. Um tíma var hann með skrautdúfur en hætti með þær þar sem hann fékk litla útrás fyrir keppnisskapið sitt í þeirri ræktun og skipti yfir í bréfdúfnarækt. Keppti hann í slíkum keppnum þar sem farið var með dúfurnar upp á hálendið, þeim sleppt og tekinn tíminn á endurkomu þeirra til byggða. Vann hann til fjölda verðlauna og hlaut margar viðurkenningar. Már var eðli málsins samkvæmt félagi í dúfnaræktarfélagi Íslands og formaður þess um skeið. Þá var hann einnig í Bréfdúfufélagi Akraness og formaður þess um tíma.
Af öðrum félagsmálum er það að segja að hann var virkur í félagi eldri borgara hér í Eyjum og mætti nær óslitið í púttið hjá eldri körlunum. Það er einungis lítið dæmi um það hversu venjufastur hann var. Fjölskyldan gat vel stillt klukkuna eftir honum þar sem hann kom í heimsókn ávallt á sama tíma. Þá fór hann reglubundinn rúnt milli kaffistofa hér í Eyjum og var alltaf vitað að eitthvað hafði komið upp á ef hann lét ekki sjá sig. Vert er hér að geta þess að Már flutti hingað til Eyja fyrir 18 árum síðan og var tíðrætt um hversu vel honum leið hér og hversu vel var tekið á móti sér. Það hrós skulum við taka til okkar sem samfélag og viðhalda. Hér í Eyjum dvaldi Már lengst í Eyjahrauni 4 en flutti á Hraunbúðir núna í október.
Það var einnig hér í Eyjum sem Már kynntist góðri vinkonu en hún hét Theodóra Óskarsdóttir. Þrátt fyrir að hafa ekki búið saman veittu þau hvort öðru góðan félagsskap og fögnuðu góðri vináttu. Það hjálpaði vissulega að þau voru bæði United-stuðningsmenn og horfðu þau saman á fótboltann. Theodóra lést árið 2014 og saknaði Már hennar mikið. Eftir andlát hennar hafði hann þann háttinn á þegar United keppti að kveikja á kerti í hennar minningu.
Már fékk hjartaáfall fljótlega eftir að hann flutti til Eyja og var tvísýnt um lífshorfur hans. Blessunarlega fékk hann þó lífgjöfina og leit hann sjálfur svo á að hann hafi endurfæðst. Talaði hann oft um það í gríni hversu gamall hann var miðað við hjartaáfallið og var hann t.d. 17 ára nú í ár. Fyrir 10 dögum síðan fékk hann þó annað hjartaáfall sem reyndist honum ofviða og lést hann á Hraunbúðum þann 10. desember síðastliðinn, 85 ára að aldri.
Nú felum við Má í hendur kærleiksríks skapara okkar sem tekur á móti honum í heimi ljóssins líkt og hann lofar okkur öllum. Við felum hann Guði í trausti til fyrirheita hans og kærleiks sem nær út fyrir gröf og dauða. Sama hver stundin er og hvert sem lífsins vegir liggja er kærleikur Guðs ávallt nærri. Hver sem tíminn er eða tilefni eigum við kærleiksríkan Guð sem ber slíkan kærleika til okkar að það er æðra okkar skilningi.
En þó er víst, líkt og Páll postuli ritar og við heyrðum áðan, að ekkert getur gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni okkar. Ekkert, hvorki englar né tignir né nokkuð annað skapað. Ekkert, rétt eins og svarið við gátunni.
Guð blessi minningu Guðjóns Más Jónssonar. Amen.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.
Gleðileg jól og munið að njóta því lífið er stutt.