Árið 2021

Featured Post Image - Árið 2021

Þegar maður ætlar að skrifa eitthvað þá er oft eins og maður blokkerist, en ég ætla enn og aftur að taka mig í skrifum því ég hef oft sagt það áður að ég man ekkert svo það er eins gott að það verði sett niður á blað (eða í skýin) svo einhver komi til með að vita eitthvað um mig seinna meir.

Er það mikilvægt, já reyndar. Mér finnst mikilvægt að vita fullt af hlutum um foreldra mína, bæði góða og slæma og því held ég að það sé bara fínt fyrir afkomendur mína, já ennþá bara ein stelpa og hliðarstrákur en kannski líka bara fyrir mig að fara yfir farinn veg seinna í lífinu.

En einmitt á stundum sem þessum þegar ég ætla að skrifa annál ársins þá verð ég að fletta í blogginu mínu og það er fátæklegt fyrir árið 2021 sem er kannski lýsandi fyrir það ár. Ég er eiginlega voða fegin að það gerðist ekki neitt stórkostlegt sem hefði fallið í skuggann af leiðinlegu ári. Samt finnst mér ekkert allt leiðinlegt við covitástand, okkur Þráni finnst gaman að vera bara tvö heima en það eru samt höft og þau eru leiðinleg.

Í febrúar fór ég í sóttkví og hvað vissi ég þá um covit og sóttkví og allt það? Ekki neitt, panikaði bara þegar ég las í fréttunum að starfsmaður leikskólans sem ég skúra á hefði greinst með covit og hringdi í yfirmann minn sem setti mig í sóttkví. Komst svo að því síðar að í raun hefðum við getað sleppt þessu því maður þarf víst að vera minnst 15 mín nálægt einhverjum svo það kalli á sóttkví og ég er það aldrei þegar ég skúra, því krakkarnir og starfsfólkið eru alltaf á leiðinni út þegar ég byrja og eru úti þegar ég klára og ég stend mjööööööööög sjaldan á göngunum að tala við starfsfólkið heldur sinni bara minni vinnu og dríf mig svo heim. En ég naut þess alveg að vera í þessari sóttkví og bara hanga og gera ekki neitt.

Jæja nú er bara byrjunin á janúar og ég farin að tala um að blogga meira og það gerði ég líka í febrúar á síðasta ári en stóð ekki við það þá, ég ætla að gera eitthvað betur núna og helst miklu betur. Hugurinn þarf að vera þarna og oftast er hann nú á fullu hjá mér en eitthvað er maður skíthræddur við skoðanaskipti á þessum síðustu og verstu tímum. Og þegar bara er keyrt í vinnu, unnið, farið svo í búðina og svo heim, þá eru ævintýrin ekki á hverju horni en ég ætti kannski bara að fara að leita þau uppi. Sjáum til.

Þið sem lásuð minningargreinar um pabba og heyrðuð ræðu prestsins vitið þá allt um minnið hans og gáturnar sem hann hafði svo gaman af og í febrúar á síðasta ári þótti mér það ástæða til að blogga en það var samt meira vegna þess að ég hef svo lélegt minni og undra mig á öllu því sem hann man (sorrý mundi).

Ég var líka að tala um æskuna mína í framhaldi af spjalli okkar pabba þar sem fram kom hvað hann man mikið og ég uppgötvaði að mínar æskuminningar eru úr Holtagerðinu hjá afa og ömmu.

Í febrúar er ég alveg að gefast uppá Covit en ég ætla ekkert að gefast uppá því þetta árið eða næsta því ég held að við munum lifa með því lengi en það verður léttara og með minni takmörkunum þegar fleiri verða bólusettir og hætta að vera fávitar. (já ætla ekki að vera svona skoðanalaus á þessu ári eins og því síðasta)

En þegar maður hélt að myrkrið væri komið til að vera sást ljósið og MGP Norge var í TV og síðan auðvitað Íslandi og Eurovision út um allan heim. Þetta var svo mikill lifesaver að það er ekki hægt að lýsa því. Geðheilsan lagaðist en jú jú það komst heldur ekkert annnað að, á þessum tíma en það var bara allt í lagi líka.

Ég komst líka að því á síðasta ári að það er dáldið langt síðan ég hef unnið í tæknibransanum og farin að gleyma alveg heilmiklu og einnig orðið latari við að læra allt nýtt og ég upplifði mig eins og mömmu þegar ég fékk ekki bluetooth græjuna í bílnum til að virka eins og ég vildi og mig vantaði bara Ástrós Mirru til að koma og hjálpa mér, ég man nefnilega alltaf þegar ég bað mömmu einu sinni að taka uppáhaldsþáttinn minn á videó þegar ég var að fara eitthvað og hún sagðist ekki geta það, og ég bara, ha af hverju ekki? Jú sko hann Aron bróðir þinn er fluttur að heiman. ha ha ha já já við endum öll þarna.

Svo kom vorið og ég varð heltekin af því og gleðinni við að sjá lífið kvikna í náttúrunni og varð tíðrætt eða tíðmyndað vegna þess. Enda macromyndir bara geggjaðar og ég ætla að gera eitthvað meira af þeim núna í sumar líka.

Hápunktur ársins var auðvitað langþrátt sumarfrí og það var geggjað, fórum út um allan Noreg og upplifðum bæði með vinum og eins bara tvö. Það eru til mörg blogg um þetta frí ef ykkur langar að fræðast meira, og fullt af myndum.

Svo kom haustið og Ástrós Mirra hóf sitt annað ár í háskólanum hérna í Krs. en henni gengur mjög vel og er mjög áhugasöm um þetta nám og hefur fengið mikinn áhuga á sálfræði og öllu því tengdu. Og að sjálfsögðu uppeldi og þess háttar líka. Hún er Helge eru mjög hamingjusöm og eiginlega bara svo krúttleg saman í sinni litlu búbblu. Við segjum nú að ungt par sem byrjar að búa saman í covittíð og býr í 28 fm íbúð og eru bæði heima nánast allan daginn vegna heimavinnu og það allt saman og lifa það af og vel það, eru bara ástfangnari ef eitthvað er, þau þola þá ýmislegt og framtíðin er björt hjá þessum krökkum.

Í nóvember tók ég þátt í 17 daga föstuáskorun og gekk hún mjög vel og ég var svo heppin að Þráinn tók þátt í henni með mér og við ætlum að tileinka okkur stóran hluta af því sem við lærðum þarna áfram, bara ekki fyrr en í næstu viku þegar allur jólamatur er búinn.

Svo er það desember sem hvarf. Já ég segi hvarf því ég man varla eftir honum en þann 10. desember lést pabbi skyndilega og ég rauk í flug og það tók mig 3 daga að komast til Eyja þar sem ég var til 22. desember en þá tók við 2 daga ferðalag heim. Þetta er búinn að vera skrítinn tími og skrítið enn og aftur að koma til Íslands í svona ferð sem hefur svo djúpstæð áhrif á mann, ég held ég sé alls ekki búin að átta mig á að ég komi ekki til með að hringja í pabba aftur og heyra hann monta sig af því hversu duglegur hann er, en hann var það svo sannarlega og ábyggilega ekki margir menn sem brosa alltaf þrátt fyrir öll áföllin en það gerði hann. Nokkrum dögum eftir að hann dó, var lokað fyrir heimsóknir á Hraunbúðir og Ísland fékk yfir sig stærstu öldu Covit smita allra tíma og ég verð að segja að ég það sé ljós í myrkri að þetta hefði farið illa með pabba ef hann hefði þurft að upplifa svona innilokun aftur, hann var svo mikill selskapsmaður og vildi helst alltaf vera í samveru með öðrum.

En ég slapp heim á þorláksmessu og það var einstaklega ljúft að koma heim og allt tilbúið og ég borin í prinsessustól öll jólin. Það tekur mann nú smá tíma að koma sér í gírinn aftur og er fyrsti venjulegi vinnudagurinn í dag eða venjulegi það veit ég ekki því ég er ekkert viss hvernig skólahaldið er og hvernig íþróttaiðkun barnanna er svo ….. það kemur í ljós.

Þetta var árið 2021 eitt það ómerkilegast ár í mínu lífi, ekki endilega leiðinlegt en meira svo uhhhhhhhh en situr í minninu sumarfríið og vonandi getum við tekið frí á Íslandi næsta sumar.

Ég bjó til og hannaði dagatal fyrir árið 2020 þar sem ég setti neðst með gullletri þessa setningu: The year when the magic happens, en þegar það svo varð sem varð þá gerði ég nýtt dagatal fyrir árið 2021 og þar var setningin ekki í gulli heldur hvít og hljóðaði svona: It can’t get any worse sem það samt gerði svo ég gerði nýtt dagatal fyrir árið 2022 og textinn þar er einfaldlega: Today, not someday!

Munum að gera hlutina í dag ekki bara einhvern tíma því það er bara alls ekki víst að einhvern tíma muni nokkurn tíma koma.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna eða Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.