Lennon / Ono

Já ég veit, ég var að hlakka til að fara í jólafrí síðast þegar ég spjallaði við ykkur en stundum fara hlutirnir ekki eins og maður ætlar, ég lagðist í covid, svo lagðist Þráinn í covid, Steina gat ekki komið til okkar því hún fékk lungnabólgu og við hefðum ekki getað sótt hana á flugvöllinn við vorum svo lasin eða alla vega ég. Sko ég verð alltaf veikari hérna á þessu heimili og ég neita að samþykkja að það sé vegna þess að ég sé svo mikill aumingi heldur bara verð ég veikari, ég fæ meiri hita, meiri hósta, meiri hálsbólgu og miklu meiri beinverki en Þráinn en hann var nú alveg vel lasinn líka og ég held við höfum bara einu sinni áður á æfinni verið 2 veik heima í heila viku. Við meira að segja tókum einn “Lennon / Ono” dag í rúminu, morgunmat, hádegismat, kvöldmat og TV eins og okkur væri borgað fyrir það. (þau horfðu örugglega samt ekki á sjónvarpið) En ég er ekki viss um að ég nái kallinum mínum aftur í svona kósí dag, því hann er ekki eins mikið fyrir að vera í rúminu og ég og þannig hefur það alltaf verið. Á meðan ég elska að fá morgunmat í rúmið (sem ég þarf alltaf að sækja mér sjálf) þá vill hann setjast við borðstofuborð og borða hann þar. Er ekki sagt að það sé einmitt gott að manneskjur sem búa saman séu ekki alltof líkar?

En aftur að veikindinunum, þau urðu til þess að 20. desember er Kristin Jóna ekki búin að senda alla pakka til Íslands. 20. desember er Kristin Jóna ekki búin að kaupa allar jólagjafir. 20. desember er ég samt skárri til heilsunnar og eyði jólafríinu mínu í að svitna aðeins og hafa sjúklega lítið úthald eftir þessi veikindi. Mér tókst þó að fara og kaupa 2 síðustu gjafirnar til Íslands í gær og ætla að pakka inn og senda í dag, það er alltaf gaman að fá áramótapakka, líka þegar maður er áttræð amma. Og svo förum við Þráinn nú og kaupum síðustu gjafirnar á morgun, þannig að við verðum tilbúin fyrir jól en það verður ekki þessi sjúklega aðventustemning sem var plönuð á þessu heimili en það verður samt ljúft og gott fyrst veikindin eru að mestu búin.

En sko talandi um þessi veikindi, ég get svo svarið það að hóstinn var svo svakalegur að ef Þráinn hefði verið rólfær hefði ég sent hann út í búð að kaupa svona gamlakonubindi en ég lét mér nægja þessi litlu innlegg sem ég á til að koma í veg fyrir að ég þyfti margoft að skipta um nær- og náttbuxur á dag. Höfuðverkurinn var glataður og maður verður svo ónægur sjálfum sér þegar þig verkjar í hausinn allan daginn, sama hvað þú tekur af verkjatöflum og hausverkur án þess að djamma daginn áður er bara alltaf glataður. Svo voru það beinverkirnir, úff alls staðar og á ótrúlegum stöðum var hægt að finna til og ég lá nú á hitapoka í nánast heila viku og hann var hreinlega á fleigiferð því ég vissi aldrei almennilega hvar ég fann mest til og þyrfti að hafa hann. Svo aðeins lagast þeir, hvað gerist þá? Jú jú Kristín Jóna upplifir að hún sé að fara í vorprófin því það fer að leka svo úr augunum á henni og horið! Hvað er hægt að hafa mikið hor í einum kroppi, almáttugur það eru öll mjúk tissjú búin og klósettrúllur út um allt hús eða nei sko bara uppí svefnherbergi því ég var bara þar en ekki út um allt hús. Við hjónin höfum ekki sofið í sama herbergi síðan þetta byrjaði því ég er svo mikil óhemja þegar ég hósta og hnerra og snýti mér að þá hefði minn maður bara ekkert sofið en við erum nú búin að vera saman í 40 ár og við lifðum þetta af, en það er samt ótrúlegt hvað ég sakna hans þegar hann er ekki við hliðina á mér en svo getur mig alveg hlakkað til að hann fari eitthvað í burtu í 2 daga svo ég fái að sofa alein, já þetta er öfugsnúinn og skrítinn heimur.

En alla vega Þráinn er farinn að vinna aftur og ég í jólafrí sem er á hægaganginum. Þó fengum við jólagjöfina okkar núna fyrir jól óvænt, héldum hún kæmi á nýju ári en það er nýr viðarofn í stofuna og settur upp á öðrum stað en sá gamli var á og OH MY GOD þvílkur munur. Í fyrsta lagi er hann svo miklu fallegri með gleri á 3 hliðum og svo er maður enga stund að kveikja upp í honum, ég hélt alltaf að ég væri með einhverja fötlun vegna þess að ég átti svo erfitt með að kveikja upp í gamla ofninum og það þurfti að moka inní hann við til að fá einhvern hita í húsið af honum en núna kveiki ég bara upp, og set af og til eina spítu til að halda honum við og það er orðið svo funheitt hér á neðri hæðinni að varmadælan slekkur á sér eftir svona 1,5 tíma þannig að nú verður sparað eða ég vona það, annars á rafmagnið að hækka svo mikið núna að það verður auðvitað ekkert sparað, heldur hirðir ríkið þetta bara.

En jú jú það eru að koma jól og ég hef ekki sett á jólalagalistann minn en þar eru sko 2 ný jólalög með Iceguys og ég er að elska þessa stráka ha ha, lúkkið, raddirnar og húmorinn sem skín í gegn, langar nú bara í almennilegt jólamyndband með þeim hvítklæddum í snjó og kannski með eldgos í bakgrunninn, það væri nú geggjað.

En nóg í bili krakkar mínir, ætla að fá mér kaffibolla fyrir framan viðarofninn (við köllum þetta nú venjulega peis en mér skilst að það sé önnur tegund af ofnum sem heitir það en það er erfitt að kenna gömlum hundi að sitja svo þegar gefa átti þessari nýju græju í húsinu nafn þá kom ekkert upp í hausinn annað en Palle Pedersen með íkt dönskum framburði svo þar hafiði það.

Palle hvordan går det? Er einhver hiti í þér í dag, ertu ekki að standa þig maður! Já já ég veit við erum stórskrítin en það gerir lífið bara skemmtilegra.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.