Fiskur og franskar eru hinn fullkomni réttur þegar þið viljið reyna að vinna upp fiskneysluna án þess að missa ykkur i hollustunni. Fiskurinn er stökkur og ferskur með nýkreystri sítrónu og hér toppaður með dásamlegri sósu sem er einföld í gerð og heimagerðum frönskum. Réttur sem er bestur í góðum félagsskap og ekki verra ef honum er skolað niður í einum öl.
Fish and Chips
Franskar
4 stórar bökunarkartöflur
4 msk olía
salt og pipar
Fiskur
2 stór þorskflök
250 ml bjór/pilsner
200 g hveiti
½ tsk lyftiduft
sjávarsalt og pipar
1 l steikingarolía
Jógúrtsósa
1 dl majones
1 dl hrein jógúrt
2 msk kapers, saxaður smátt
1 tsk dijonsinnep
safi úr hálfri sítrónu
fersk steinselja, söxuð smátt
salt og pipar
- Skrælið kartöflurnar og skerið í franskar. Setjið í poka ásamt 4 msk olíu og sjávarsalti og hristið saman. Setjið á bökunarplötu með smjörpappír inn í 220 gráður heitan ofn með blæstri. Hafið þær inni í 30-45 mínútur og hrærið reglulega í þeim og fylgist með því að þær brenni ekki.
- Blandið hveiti saman við lyftiduft og kryddið vel með salti og pipar. Hærið bjór saman við þar til deigið er orðið lint og fljótandi. Látið það standa í um 30 mínútur. Skerið á meðan fiskinn í stykki og blandið sósuna.
- Hitið olíu þar til hún er farin að sjóða og látið þá fiskstykki út í og látið sjóða þar til þau hafa fengið fallega gullin lit og eru orðin stökk. Takið þau þá úr olíunni t.d. með gataspaða. Stráið með sjávarsalti og látið fiskbitana á eldhúspappír í smá stund.
- Hrærið öllum hráefnunum saman, smakkið til og bætið við hráefnum eftir þörfum.
Berið réttinn strax fram með frönskum, jógúrtsósu og sítrónubátum.