Þetta er nú alveg tilefni í blogg sko, sérstaklega þar sem steingleymdi að senda snapp á laugardagskvöldið til vina minna sem hreinlega misstu held ég af keppninni þar sem þau treysta á mig. Ha ha ha en ég átti nefnilega eurovision deit við Guðrúnu vinkonu í Kópavoginum (skrítið að segja Kópavoginum þar sem hún hefur alltaf verið Guðrún vinkona í Eyjum en er núna nýflutt í bæinn). Guðrún er náttúrulega aðal eurovision fan og því var skemmtilegt að horfa á úrslitin hérna í Norge með henni. Við erum ekkert alltaf sammála um vinningslögin, hún er miklu opnari fyrir alls konar tónlist en ég svo ég er oftar fúll á móti en hún. En á laugardaginn vorum við nokkuð sammála en norska þjóðin alls ekki sammála okkur.
Fyrir það fyrsta vorum við Guðrún sammála um að það væri mjög hallærislegt að Keiino fengi gullpassa inní úrslitin þar sem þau fóru síðast, þar sem Ullrike fékk ekki að keppa í fyrra, og lagið hjá Keiino var mjög líkt síðasta lagi en bara lélegra. Og Noregur á bara svo mikið af hæfileikaríku fólki að það er bara óþarfi að senda sama fólkið aftur og aftur.
Ég var dáldið veik fyrir Tix þar sem mér finnst hann bara svo æðislegur en mér fannst hann ekkert með besta lagið í þetta sinn, samt mjög fínt lag. Það voru þarna tvær ungar stelpur og einn strákur ásamt heilli blásara mafíu sem voru ekki með gullpassa sem mér fannst vera best.
Mér fannst hún Imerika æðisleg.
Einnig fannst mér “nornin” eins og við Guðrún köllum hana mjög flott og öðruvísi.
Kiim var líka æðislegur og lagið vann vel á, sérstaklega eftir viðlagið.
En var líka mjög sátt við TIX.
En þetta eru 5 lög svo ég þarf að fækka þeim í 4 og þá kippi ég Kiim út.
Hefði viljað sjá Emmy, Imeriku, Blásara mafíuna og Tix í úrslitum og svo Tix og Blásara mafíuna í lokaúrslitunum. Svo niðurstaðan er að ég er sátt við úrslitin en var skíthrædd um að Keiino myndi vinna þetta en þá hefði ég nú skammast mín, enda hefur það sýnt sig að þeir sem keppa aftur komast sjaldan langt, sbr. Alexander Rybak.
Svo nú er bara að fara að skella sér í það að skoða hvað önnur lönd ætla að senda og heia Island svo. Þó spár segi hann ekki lengur vinningshafa þá verður hann örugglega ofarlega.
Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.