Þá er seinni hlutinn líka búinn og ég eiginlega frekar þreytt andlega, held einhvernveginn að allt púður hafi farið úr manni við þetta. Vissi ekki að það væri svona þreytandi að kafa ofaní sjálfan sig og tala um óþægilega hluti.
Það sem mest var fjallað um á námskeiðinu í gær var barnið sjálf. Barnið mitt. Hvernig hefur því liðið frá því að það fæddist og þar til ég fæ það. Úff ekki vel, það er nokkuð ljóst. Stofnanauppeldi getur aldrei verið gott þó börnin fái að borða og séu í hreinum fötum, þá er það ekki nóg.
Við sáum myndband sem er tekið á tveimur barnaheimilum, einu í Colombíu og einu í Indlandi. Það sást nú svolítill munur á þessum heimilum en samt er það sama að vanta báðum megin. Umhyggja og ást og ást og ást, sem við eigum nóg af og eins og ein konan sagði, hvernig stendur á því að við getum ekki fengið yngri börn svo við getum veitt þessa ást strax. En það er ekki hægt, stolt þjóðarinnar sem er að láta frá sér börnin sín er það mikið að hún vill vera búin að reyna allar leiðir innanlands áður en börnin eru send úr landi. Maður getur svo sem alveg skilið það ef við snúum dæminu við og hugsum okkur íslensk börn, við myndum gera allt áður en við þau færu úr landi.
En meira af barnaheimilunum. Það er ótrúlegt að sjá þessi miklu karaktereinkenni í börnunum sem liggja þarna öll í eins fötum i eins rimlarúmum röðuðum upp við vegg. Þarna stóðu tveir litli strákar uppi í rúmunum sínum sem lágu þétt saman. Einn var í öðru rúmi aðeins aftar, svo hann klifraði yfir rimlana og kom sér fyrir hjá hinum og brosti út að eyrum, honum tókst ætlunarverkið. Hann er sigurvegari, þau eru öll sigurvegarar þessi börn sem komast til ættleiðingar því svo sannarlega komast þau ekki öll alla leið, sum hreinlega gefast upp. Við sáum börn sem lágu bara og biðu, biðu eftir hverju? Dauðanum? Eða okkur? Þau báru greinileg þunglyndiseinkenni sem strákurinn sem var búinn að fatta að ef hann hristi rúmið sitt þá fengi hann athygli var ekki með, hann var sigurvegari og ætlaði sér lengra. Það er kannski ekkert skrítið að þessar litlu stelpur sem hafa verið að koma frá Kína séu algjörar skvettur og mjög ákveðnar og skapmiklar eins og ég hef séð nokkur dæmi um, þær eru stelpurnar sem komust alla leið, þær eru sigurvegararnir. Ég hljóma kannski eitthvað skrítin en þetta er svona. Og það er svo margt annað sem þarf að passa og hugsa út í sem mér hefði aldrei dottið í hug hefði ég ekki farið á þetta námskeið.
Td. Ekki taka við sofandi barni af fóstru. Að sjálfsögðu ekki, þá er barnið ekki að fá að kveðja sitt fyrra líf og taka á móti okkur, hvernig yrði okkur við ef við myndum sofna og vakna í öðru landi með aðra fjölskyldu. Hvernig myndum við sofa eftir það, illa og óreglulega því það getur alltaf eitthvað gerst þegar ég sef. En ég hefði ekki hugsað um þetta áður.
Eins er talað um að maður eigi ekki að taka á móti mikið af gestum fyrst eftir að barnið kemur, því það sé ekkert öðruvísi með þetta barn þó það sé kannski orðið 14 mán. en með nýfædd barn. Það sem þetta barn hefur gengið í gegn um er svo mikið að stabílished og rólegt umhverfi er nauðsynlegt.
Þessi ættleiddu börn eiga það til að vera með kæki sem okkur finnst kannski ekki samsvara aldri þeirra en það er bara eðlilegt því þau hafa ekki átt eðlilegt líf. Flest barnanna frá Kína hafa fundist einhversstaðar. Þe. einhver móðir eignast barnið skilur það eftir. Það fer á barnaheimili og er þar kannski í 6 – 7 mán. og þá er því fundið fósturheimili. Búið að skilja það aftur eftir af fóstrunum á barnaheimilinu. Nú svo komum við og þá er það enn og aftur skilið eftir. Það getur tekið allt að 6 mán. að mynda tengsl við ættleitt barn. Við skulum búast við því, við skulum búast við því að barnið mitt sjúgi puttann til 5 ára því það er það eina sem það kann frá sínu fyrra lífi. Við skulum búast við að eitthvað geti verið að og að okkar aðlögun gæti tekið tíma. Þó hef ég engar áhyggjur af því, ég held að við Þráinn eigum frekar auðvelt með þetta þannig að við erum bjartsýn en við verðum samt að vita að það gæti brugðist og hvað gerum við þá?
Annað sem var mikið rætt á námskeiðinu í gær og það eru fordómar. Nú er búið að vera heit umræða í þjóðfélaginu um fordóma eða alla vega um útlendinga en mér fannst gott sem einn sagði hjá okkur. Við erum öll stútfull af fordómum, ég er með fordóma gegn sjálfsstæðismönnum, ég er með fordóma fyrir ríku fólki og ég er með fordóma fyrir svo afskaplega mörgu. En það sem við áttum að vera ræða um voru fordómar gagnvart öðrum kynþáttum. Er ég með þannig fordóma? Get ég verið fordómalaus. Ég ætla alla vega að byrja að reyna núna. Af hverju segjum við td. að það sé ekki hvítum manni útsigandi í vont veður. Eru það ekki fordómar? Auðvitað gætum við lent í einhverjum fordómum einhverntímann en þá er bara mikilvægast fyrir okkur að standa með barninu okkar og styðja það. Við tökum á því ef það kemur en það er samt gott að vita eitthvað um þetta og reyna að taka til í garðinum hjá sjálfum sér STRAX.
Annað sem var líka rætt um og það er að þetta barn er ekki líkt mömmu sinni og ekki alveg eins og pabbi sinn osfrv. Og mér skilst að það geti stundum komið vandamál út frá því. Við erum náttúrulega komin með hálfa reynslu í þessu, því hún Ástrós er auðvitað ekki eins og ég. En það er bara ekkert að trufla okkur og ef ættingjar og vinir fara nú ekki að ítreka það hvað hún sé lík pabba sínum þegar hitt barnið okkar verður komið þá erum við bara 4 manneskjur í sömu fjölskyldu sem erum ekki eins. Og það er bara fínt og skiptir ekki máli. Það var ein stelpa með okkur á námskeiðinu sem er með mikið sítt og eldrautt hár. Hún er eina rauðhærða manneskjan í sinni fjölskyldu. Það var stundum erfitt, hún var á tímabili alveg viss um að foreldrar hennar hefðu fundið hana í kartöflugarðinum. Ástrós Mirra segir stundum að hún vildi óska þess að hún væri eins og önnur börn. Bíddu hún er eins og önnur börn er það ekki? Nei ekki í hennar huga, henni finnst hún öðruvísi af því að hún er með gleraugu. Samt eru 3 aðrir krakkar í bekknum með gleraugu en það skiptir ekki máli, henni finnst þetta. Þetta eru raunverulegar tilfinningar og við tökum þeim og tölum um þetta, sama munum við gera gagnvart litla ófædda barninu okkar.
Kannski verður hún (hugsa alltaf um það að ég fái stelpu) og reyndar mjög líklega með rennislétt hár eins og mamma. Kannski verður hún með lítil eyru eins og pabbi. Kannski verður hún dugleg í handavinnu eins og Auður amma eða með leiklistargenin hans pabba síns. Það er svo margt og við íslendingar ættum að reyna að minnka þetta útlitstengda sem við erum alltaf með. Kannski verður hún matvönd eins og mamma sín. Kannski borðar hún allt eins og pabbi sinn. Er það ekki að vera lík okkur?
Þetta er nú að verða svolítið löng ræða hjá mér en ég verð að tala um þetta, ég er einu sinni þannig og kannski verður litla stelpan mín líka þannig að hún verði að tala um hlutina til að losa um hjá sjálfri sér.
Og kannski verður biðin ekkert ofboðslega löng ef við hugsum hana sem verkefni þar sem ýmislegt þarf að leysa áður en við getum farið út að sækja litlu stelpuna okkar.
Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna