Missti tærnar

7.1.2007
Vá skrapp í gær með Ástrós Mirru, Kristófer Darra og Árdísi Thelmu vínkonu ÁM á þrettándahátíðina út á Ásvöllum og hreinlega missti tærnar, gat varla labbað þegar við vorum á leiðinni heim, hringdi í Þráin og lét sækja okkur því annars væri ég líklega enn að leita að tánum.

Maður er náttúrulega bara ruglaður, klæðir börnin í flísbuxur, þykka peysu, vettlinga, húfu, ullarsokka, kuldaskó og kuldagalla. Og þau spyrja af hverju þurfum við að fara í svona ofboðslega mikið af fötum.  Af því að það er svo kalt úti og við verðum svolítið lengi.

En hvernig klæðir maður sjálfan sig?  Ha ha ha.  Jú, jú í peysu og úlpu alveg uppí háls og með húfu af ÁM en … bara í einum þunnum sokkum og leðurstígvélunum sínum.  Það er greinilegt að maður sjálfur heldur að kuldaboli bíti bara litla krakka en ekki fullorðið fólk.

En sem sagt ég fór þarna með krakkana á þessa hátíð sem átti að byrja 17.30.  Við löbbuðum og lögðum að sjálfsögðu tímanlega af stað því ég vissi ekki hvað við værum lengi að labba þetta.  Vorum komin út á Ásvelli kl. 17.15 og sáum ekkert fólk. Ástrós sagði: “Ég vissi að við áttum að fara á bílnum fyrst við þurfum að leita hvar þetta er”.  Ég sagði henni að ég vissi alveg að þetta ætti að vera við Ásvelli en við fundum samt ekki brennuna strax því hún var frekar lítil (miðað við í Eyjum) en svo biðum við bara við húsið og það fór að streyma fólk eftir svona 20 mín. og þegar kl. var um 17.45 var svo kveikt í brennunni (ég þarf einhverntíma að ræða þetta með klukkuna á Íslandi). Jæja fínt þegar búið var að kveikja í brennunni, manni hlýnaði (þó ekki á tánum, eini staðurinn sem varð útundan) og þá beið ég eftir álfum, tröllum og púkum.  Og ég horfði í kringum mig, ekkert.  Jú, loksins sáust nokkrir álfar koma dansandi og allt í góðu með þá, stelpurnar stóðu sig alveg vel en hvar voru púkarnir og tröllin?´
Jæja svo var brennan að verða búin og við ákváðum að fara inn í Íþróttahús og hlýja okkur og borða súkkulaðistykkin sem ég tók með í nesti.  Og þegar við erum komin þar inn, sjáum við allt í einu púka.  Ha, hvað eru þeir að gera þarna inni?  Hittum svo Daníel, Aron Breka og Bryndísi og þau sögðu okkur að púkarnir, grýla og leppalúði hefðu verið eitthvað að þvælast við vagninn með tónlistinn sem stóð uppvið hús og langt frá brennunni….  ég skil þetta ekki.

Hver er að stjórna þessu?  Hann hefur greinilega ekki komið á þrettándahátíð í Eyjum en samt eru þeir að reyna að herma eftir henni.  Því þar eru TRÖLL, ÁLFAR, PÚKAR, GRÝLA OG LEPPALÚÐI og þau ganga og dansa í kringum brennuna, brennan er nefnilega skemmtisvæðið ekki húsveggurinn á einhverju íþróttahúsi og þar hefur fólkið greinilega meira vit á að klæða sig þá betur, en hér í Hafnafirði eru fleiri eins og ég.  Illa klæddir og þora ekki langt frá húsi svo þeim verði ekki kalt.

Stefni á að skreppa á þrettándahátíð í Eyjum næst og sýna Ástrós Mirru hvernig þetta á að vera.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.