Mirrublogg árið 2006

Mirrublogg árið 2006

kjg 7.1.2006 09:30:00 7. janúar 2006 7. janúar 2006

Jæja gott fólk þá er árið 2006 komið og ég mun byrja í skóla á þessu ári og verða 6 ára.  Já þið verðið að trúa því.

Við erum búin að hafa það mjög gott yfir áramótin og almennt yfir hátíðirnar.  Á gamlársdag var hreinlega prógram að láta mig leggja mig svo ég gæti horft á flugeldasýninguna á miðnætti en það hef ég aldrei gert, það tókst að lokum ég var nú ekkert alveg á því að leggja mig og sagði mömmu að mér væri alveg sama um þessa flugelda en ég var nú mjög ánægð að sjá þetta um kvöldið svo ég sé nú ekki eftir því að hafa lagt mig.
Við sem sagt gerðum mest lítið að degi gamlársdags en borðuðum svo góðan mat um kvöldið (mér er reyndar alveg sama um svona máltíðir, hefði alveg eins viljað pulsu í pulsuvagninum) en það tilheyrir víst að borða “góðan mat” og svo horfðu pabbi og mamma á fréttannálinn oþh. og biðu eftir skupinu.

Við reyndar fengum okkur snúning ég og mamma meðan við biðum og svo kom skupið og ég var nú farin að ókyrrast þá svo það endaði með að mamma og pabbi sáu ekki restina af skaupinu (þó þeim þætti það gott) og við drifum okkur út að skjóta upp.
Pabbi hafði keypt eina stóra tertu og 3 stórar rakettur ásamt stjörnuljósum og handblysum handa mér og sýningin hjá honum var rosalega flott enda vorum að skjóta á þeim tíma sem aðrir voru að klára skaupið svo við gátum sko notið okkar flugelda.  Þegar við vorum búin að skjóta okkar og ég halda á blysum og stjörnuljósum þá drifum við okkur inn og settumst upp í mömmu- og pabbarúm og nutum þess að horfa á stærstu flugeldasýningu í heimi.  Við sjáum nefnilega út um gluggann hjá okkur allan Hafnarfjörð, Reykjavík og út á Seltjarnarnes og þetta var alveg meiriháttar núna.

Gleðilegt nýtt ár öll og takk fyrir það gamla.

Nýja árið er bara búið að vera gott fyrir utan veðrið.  Ég er byrjuð í Handbolta og er í 8.fl. FH.  Fyrsti tíminn var á fimmtudaginn og Aron Breki vinur minn fór með mér og það var mjög gaman, við reyndar byrjuðum á að “Keppa” við Haukana og eitt sem var vont, við vorum þrjú sem vorum að byrja þarna og vorum öll bara í stuttbuxum og bol og berfætt en allir hinir krakkarnir voru í búningum og íþróttaskóm.  Mömmur okkar þurfa sko að bæta úr þessu því það er stórhættulegt að vera berfættur að hlaupa með fullt af krökkum í skóm, enda fékk Sindri (hann var að byrja um leið og við Aron) að kenna á því, því það steig einhver á ristina á honum og hann bólgnaði aðeins upp og gat ekki haldið áfram strax.  En svo jafnaði hann sig.  Mamma segir að hún hafi alveg séð hvað ég var ánægð þarna og sérstaklega að vera með einhverjum sem ég þekki vel og þykir vænt um.  Svo fannst mömmu óvenju skemmtilegt að horfa á því hún þekkti eina konu (mömmu Arons) og kynnist strax vinkonu hennar og þær gátu þá verið að spjalla saman.

Svo ég ætla að halda áfram í handboltanum hjá FH og vona að það fari að koma snjór svo ég geti farið að renna mér á Turtles Stigasleðanum mínum sem ég fékk í jólagjöf frá mömmu og pabba, en snjórinn er alltaf farinn þegar við komum heim á daginn.

Það eru komin nokkur ný myndbönd hjá mér og einnig myndir svo endilega kíkið á það og skrifið svo líka í gestabókina mína.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra

Ef þú vilt að draumar þínir rætist, verðurðu að vakna. kjg 8.1.2006 09:00:00 Fólk Ég ætlaði að fara að skrifa eitthvað um alls konar fólk, þe. af hverju sumir eru öðruvísi en aðrir oþh. en missti það allt út í gær en þá kom maðurinn minn mér svo mikið á óvart að ég held ég verði bara að skrifa um fólk eins og hann.

Við ætluðum að fara að skrapa límið af veggjunum í eldhúsinu (á milli skápa) og reyndar gerðum það, en byrjuðum á því að fá lánaða kerru og taka allt draslið úr stigaganginum eftir gömlu hurðarnar og losa okkur við það og þrífa og laga til á ganginum sem við og gerðum, og gangurinn er ekkert smá flottur.  Ég reyndar bætti við blómum sem ég vona að hún Thelma á móti sætti sig við en hún er núna stödd í Suður-Ameríku í ferðalagi sem tekur hálft ár.

En aftur að eldhúsinu, við drifum í því, eftir að ruslinu var hent að fara að skrapa límið af veggjunum til að geta farið að flísaleggja upp á nýtt og mér fannst ég nú hálfmáttlaus og til lítils gagns en Þráinn notaði kíttisspaða og barði á hann með hamri og gekk að sjálfsögðu mun betur en ég var bara með handaflið og kíttisspaðann.

Ástrós Mirra hafði leyft vini sínum honum Aron Breka að gista og þau voru búin að vera að leika sér saman en eftir að hann fór þá vantaði Ástrós Mirru smá athygli svo ég var svona meira að sinna henni heldur en að hjálpa Þráni þannig að við tókum þá ákvörðun að við mæðgur og þá meina ég mæðgur því það eru ég Kristín, mamma og amma, Ástrós Mirra, dóttir og mamma og Silja litla dúkkan hennar Ástrósar, færum saman í Smáralindina að kaupa handboltaskó handa Ástrós.  Svo við drifum okkur þangað og með Silju í vagninum sínum.  Þetta var fín ferð hjá okkur mæðgum og við keyptum líka kótilettur í matinn og komum svo heim um fjögur leitið og þá var Þráinn enn á fullu svo við Ástrós ákváðum að skríða upp í rúm, hún að horfa á dvd og ég að lesa.  Ég var svolítið þreytt eftir að hafa vakað kvöldið áður aðeins of lengi fyrir mig miðað við að Ástrós vaknaði kl. 7, svo ég var eitthvað að velta því fyrir mér að leggja mig en ég ætlaði að sjálfsögðu að elda matinn oþh. fyrir manninn minn því hann var búinn að vera svo duglegur en nei, nei, hann sagðist alveg geta eldað og ég skyldi bara leggja mig, sem ég og gerði og notabene hann eldaði æðislegan mat, bauð uppá bjór með og svo gekk hann líka frá eftir matinn.  Það var semsagt farið með mig eins og prinsessu.  Takk Þráinn minn.

Nú svo fékk ég mér annan bjór og söng hástöfum með í “Tökum lagið” enda æðislega góður þáttur í gær.

Svona var semsagt minn dagur og ég er ekkert svo sem farin að skilgreina fólk eða neitt þess háttar eins og ég upphaflega ætlaði mér en það kemur kannski seinna.

kjg 15.1.2006 09:29:00 15. janúar 2006 15.janúar 2006

Hæ öll!  Ég eignaðist nýjan frænda í vikunni sem leið og var að skoða hann í gær, hann er algjört æði og krútt. Hann er líka fyndinn því þegar mamma hans hún Anna Sif var að skipta á honum þá pissaði hann uppá mömmu sína eins og gosbrunnur, það var sko fyndið.
Ég fór með pabba í gær að renna á sleðanum mínum uppá Víðistaðatúni og það var rosa skemmtilegt en eini gallinn við sleðann minn er að það er svolítið þungt að draga hann upp brekkurnar en rosa skemmtilegt að renna á honum niður aftur.  Þegar við mamma litum út um gluggann í morgun þá var sandkassinn horfinn og rétt sést í vegasaltið það er kominn svo mikill snjór, jibbý fyrir alla krakka en mömmur og pabbar eru kannski ekki eins ánægð út af færðinni á götunum og svoleiðis en ég hef ekki áhyggjur af því.
Kannski getur maður bara farið og búið til snjókall í garðinum í dag ef veðrið verður gott.

Pabbi minn á afmæli eftir 2 daga og við mamma ætlum bara að bjóða honum út að borða á afmælisdaginn sinn og vera góðar við hann (eins og við séum það ekki alltaf?)

Ég er byrjuð í handbolta hjá FH og líkar mjög vel þar er allt á fullu allan tímann og ég lifi mig greinilega mjög inn í þessa leiki sem er verið að fara í.  Hrabbý er þjálfarinn og það er æðislegt því hún er svo skemmtileg og svo þekkjumst við líka úr leikskólanum mínum.  Hún er líka mamma hennar Valgerðar sem er með mér á bláu.

Jæja það er búið að setja inn myndir af mér í handboltabúningnum og eins myndir af nýja frændanum mínum svo endilega kíkið á þær.

Ykkar Ástrós Mirra
kjg 18.1.2006 21:44:00 Ég missti allt undan mér… …í orðins fyllstu merkingu í dag.

Ætlaði rétt að skreppa með Kollu frænku að borga staðfestingargjald inná íbúðina sem hún er kaupa og fór fyrst í bankann að sækja ávísun fyrir hana og dríf mig svo út í bílinn og ætla að hringja í Kollu og biðja hana að smyrja handa mér eina brauðsneið og koma með því ég var ekki farin að borða neinn hádegismat.  Djöf… headsettið greinilega eitthvað skrítið, ég ríf það úr sambandi og aftur í… hringi ekkert gerist
eða hvað allt í einu heyri ég þvílíkar drunur neðan úr bílnum mínum sem reyndar er búinn að halda að hann sé rallýbíll  í heila viku og ég er þarna eitthvað að rembast með headsettið heyri drunurnar í bílnum og glorhungruð og er þá komin í Holtagerðið áður en ég veit af.  Ríf headsettið úr sambandi og hringi í Kollu og segi henni að koma út á götu, svo höldum við að stað orðnar svolítið seinar (á minn mælikvarða) og þá fer að heyrast meira og meira undir bílnum og mér finnst eins og eitthvað dragist eftir götunni, lít í baksýnisspegilinn og sé að það er enginn bíll nálægur mér, óvenju langt bil á milli bíla í dag, ekki er það færðin því þá hefði þetta verið svona í gær líka en líklega hefur verið neistaflug aftanúr mér því helv. pústkerfið dróst á eftir mér úr Hamraborginni og niður í Mörk og ég rétt á 60 km. hraða.  Hélt reyndar að drifið hefði farið líka því mér fannst ég ekkert komast áfram nema herðarnar uppað eyrum því ég fór í þvílíkt stresskast að Kolla var farin að strjúka mér og reyna að róa mig niður.

Jæja við inná fasteignasölu klukkan orðin 7-8 mín yfir áætlaðan fundartíma og okkur boðið sæti, svo ég hringi í eina manninn sem ég vissi að var ekki fastur í vinnu og það var Siggi stjúpi minn og ég ætlaði að biðja hann að redda mér, hann var í hinum símanum og sagðist hringja eftir smá.
Ég dreif mig á klóið, orðið mál að pissa eftir allt stressið og enn enginn kominn að tala við okkur Kollu, Siggi hringir um leið og bunan byrjar að steyma ofaní klósettið, ég ansa, ætla nú ekki að missa af honum.
Fyrirgefðu en ég er að pissa, ekkert mál segir hann og ég næ auðveldlega að dobbla hann að koma og athuga hvort hann geti bundið pústið upp hjá mér.

Ég kem fram og enn erum við Kolla að bíða, halló við áttum tíma kl. 13 og klukkan er 13.20 hvar er þetta og hver er svo upptekinn að hann getur ekki komið á réttum tíma að taka við 3 milljónum?  Jæja ég var við það að fara að “meika sín” þegar einhver maður kom og heilsaði og ég spurði ætlar þú að tala við okkur og hann játti því og svo tróð sér einhver iðnaðarmaður með inn, ég hugsaði “Hva, er þetta ekki privat fundur?” En úps, þetta var sá sem átti að fá ávísunin og ætlar að gera íbúðina eins og nýja og flotta.  Jæja fundurinn hefst og allt í góðu, Kolla gerði sitt vel og skrifaði undir það sem þurfti og bað verktakann að passa nú að láta ekki ræna sig hérna fyrir utan, og hann sagðist nú vona að hún hefði ekki ráðið einhvern til verksins.

Ok, allt í góðu þarna og við komum fram og þar situr Siggi og segist vera búinn að hengja upp pústið mitt og hvort hann eigi að keyra á eftir mér suður í Fjörð, ég bið hann vinsamlegast að skutla Kollu í vinnu og svo þætti mér nú vænt um ef hann gæti sótt mig … en ég átti eftir að hringja í pústþjónustuna, hringdi í tengdapabba Sigurjóns sem vinnur með mér og spyr hvort hann eigi einhversskonar “Tannpínutíma” fyrir bílinn minn því ég sé hreinlega með allt niðrum mig og hann athugaði málið og sagði mér svo að koma.  Sem ég og gerði og þá er manni bara boðið að hinkra meðan þeir gera þetta svo ég gat afpantað fleiri greiða frá Sigga og sendi hann bara heim.

Jæja ég hinkra þarna, hringi nokkur símtöl í vinnuna sem ég ætlaði nú aldeilis að stunda vel í dag… en nei “Ég kemst ekkert meira í vinnu í dag”  sit hér á verkstæði í Hafnarfirði og les “Séð og Heyrt” heitustu pörin á árinu  eins og það sé mitt áhugamál eða uppáhald.  Held að Logi og Svanhildur séu heitust!  Jæja svo er kallað Lanserinn er tilbúinn og ég kem að borðinu og greiði 9.000 kr. Vá ekki var það nú mjög mikið.

Fer inná verkstæði og sest í bílinn eftir skemmtilegt comment til þess sem vann verkið.  Set í gang og úps, heyrist ennþá eitthvað hátt í bílnum?… viðgerðarmaðurinn segir bíddu aðeins og byrjar bara að hífa mig upp á lyftunni og áfram upp og áfram upp… hversu hátt ætlar maðurinn og ég sem er orðin svo lofthrædd með aldrinum.  Jæja aftur niður og gaurinn sagði, já það þarf að skipta um rörið að framan líka.  Ég brosi og spyr hvort ég eigi þá að fara á biðstofuna aftur, hann játti því og þá sat ég í góðan hálftíma í viðbót sem var miklu lengur að líða en fyrri hálftíminn og enn er ég ekki farin að borða matarbita síðan í gær og klukkan orðin 15.  Ég brosi samt ennþá þegar aftur er kallað að Lanserinn sé tilbúinn eftir seinna holl og borga þá 16.000 ekki eins ánægð og hálftíma fyrr.  En ég hafði samt einhvern veginn reiknað með að þetta kostaði 25.000 svo…..

… ég sæki dótturina á leikskólann og beint heim og hendi brauði í brauðristina og kaffi á könnuna og kveiki á tölvunni og þá bíður mín póstur frá framkvæmdarstjóranum sem hafði beðið mig að vinna smá verk fyrir sig (og ég náttúrlega ekki búin með vegna alls þessa) þar sem hann segir:

Þú sendir mér þetta bara þegar þú ert búin að “Pústa” smá.
kjg Athugasemd: HAHAHA Þó dagurinn hafi verið erfiður á meðan á honum stóð, þá verður hann alltaf í minningunni og þú munt hlægja að honum þá 🙂
– það er það góða við það “slæma” að maður getur nú aldeilis hlegið eftir á.
p.s. þætti nú gaman að sitja með þér í bíl í hálku einhverntíma, bara til að sjá þessa hlið á þér 🙂 (,Hafrún) 21.1.2006 08:28:00 21. janúar 2006 21. janúar 2006

Pabbi minn er búinn að vera að vinna úti á landi síðan hann átti afmæli þann 17. janúar sl. og þegar ég vaknaði í morgun þá sneri ég mér að honum og leyfði honum að taka utan um mig og ég sagði:  “Ég er búin að sakna þín pabbi minn”.  Pabbi sagðist líka hafa saknað mín og knúsaði mig fast.

Mér finnst mjög gott að knúsa bæði mömmu og pabba og ég segi þeim yfirleitt hvernig mér líður og að mér þyki vænt um þau eða ef ég er ánægð með það sem þau eru að gera þá læt ég þau vita og ég geri það þannig að það er að marka.  Mamma er mjög ánægð með þetta hjá mér því hún er alin upp við að vera ekki að tala of mikið um hvernig manni líður og hvort maður elski mömmu sína og pabba og ýmislegt þannig, en hún og fjölskylda hennar eru að læra þetta í dag en sem barn kunni mamma þetta ekki og finnst mjög mikilvægt að ég geri það og vitiði fyrir mér er þetta eins og að biðja um að fá að borða eða segja takk fyrir matinn.  En ég segi svona lagað samt með tilfinningu svo mamma og pabbi finna að ég er að segja satt.

Þetta er búin að vera mjög góð vika hjá okkur mömmu þótt við höfum saknað pabba.  Á þriðjudaginn þegar pabbi fór, drifum við mamma okkur bara beint heim eftir vinnu og leikskóla og fengum okkur snakk í skál og lögðumst upp í rúm, ég að horfa á vídeó og mamma að lesa, þetta var mjög kósí stund hjá okkur svo fórum við saman í freyðibað og ég fór að hátta og kúrði hjá mömmu frammi þar til ég sofnaði.  Ég held að mamma hafi meira að segja farið að sofa fljótlega á eftir mér.

Á miðvikudaginn lenti mamma í vandræðum með bílinn (þið getið lesið um það á blogginu hennar) og svo komum við heim og mamma þurfti að vinna upp það sem hún gat ekki unnið um daginn út af bílnum og þá vildi ég fara að reikna.  Svo mamma er byrjuð að skrifa upp reikningsdæmi fyrir mig í bók og ég reikna á fullu.  Ég á svolítið erfitt með að sjá að 4 snúi ekki rétt hjá mér, ég er með bæði minn 4 og mömmu 4 (sem mamma segir að snúi ekki eins) og ég sé engan mun, svo mamma segir bara að þetta sé fínt hjá mér.  Ég get reiknað öll dæmi sem niðurstöðutalan er 12 og minna.
Á fimmtudaginn fór ég í handbolta eftir leikskóla og svo bauð mamma mér á McDonalds, og við buðum reyndar líka Aron Breka því við vorum að passa hann eftir handbolta, það var mjög gaman bæði í handboltanum og eins á á McDonalds.  Reyndar ætluðum við mamma fyrst að fara bara tvær og mamma var að hafa áhyggjur að ég yrði bara í leikhorninu og henni myndi leiðast en þá sagði ég að hún mætti alveg borða með mér í leikhorninu svo henni leiddist ekki.  En henni leiddist ekkert þó ég og Aron Breki vorum tvö í leikhorninu því hún fann Fréttablaðið og var bara að lesa það á meðan hún borðaði.
Nú nú svo í gær kom pabbi heim og ég bjó til fallegt kort handa honum og mömmu sem ég svo missti í snjóinn og ég ætlaði ekki að geta hætt að gráta yfir því að það skemmdist, mamma og pabbi sögðu bæði að þeim fyndist það fallegt með svona doppum (það var rigning) en ég er samt á því að það sé ónýtt og ég sem vandaði mig svo mikið og lagði mig fram að gera fallegt kort handa þeim. Svo eftir leikskóla fórum við að kaupa afmælisgjöf handa Dagnýju frænku minni en hún á afmæli á morgun og svo sóttum við pabba og svo héldum við lítið þorrablót heima. Keyptum alls konar gamaldagsmat og meira að segja svartan haus af kind og pabbi sýndi mér augun, nefið, munninn, eyrað og tunguna.  Mig langaði ekki að borða þetta ekki einu sinni tunguna sem mamma sagði að hefði verið uppáhaldið hennar þegar hún var lítil. OJ.

Svo í dag erum við að fara að sjá Kalla á þakinu með Kollu frænku (sem var að kaupa sér íbúð, til hamingju Kolla frænka) og svo förum við á handboltamót hjá Söru frænku minni í Laugardalshöllinni og svo ætlum við að reyna að kíkja á litla frænda minn því mamma er ekki farin að fá að knúsa hann og þá verður nú dagurinn ábyggilega búinn og ég lúin.

Og á morgun förum við í afmæli hjá Dagnýju dóttur Nonna bróður hennar mömmu en hún á afmæli þá og vitiði hver á afmæli í dag?  Hann Kristófer frændi minn og vinur, hann er 4 ára í dag.
Til hamingju með afmælið Kristófer, það verður víst haldið uppá það seinna með afmælinu hans Alexanders sem er líka bráðum.

Jæja þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra

Elska ykkur öll.

mirra 29.1.2006 08:30:00 29. janúar 2006 Hæ öll sömul!

Hjá mé er allt gott að frétta, ég er búin að vera upptekin við ýmislegt síðustu viku.  Fór að sjá Kalla á þakinu á laugardaginn síðasta og það var rosalega gaman, þaðan fórum við að horfa á Söru Rún keppa í handbolta og þær unnu alla vega leikinn sem við sáum, og svo enduðum við þetta á að kíkja á litla strákinn hennar Önnu Daggar.
Á sunnudaginn fórum við svo í afmæli hjá Dagnýju frænku minni og það var mjög gaman.

Ég er í handbolta á þriðjudögum og fimmtudögum og þá gerum við ekki neitt annað en vinna (leikskóli hjá mér) og fara í handbolta, nema það virðist vera kominn sá siður á að á fimmtudögum förum við á McDonalds á eftir og ég sko ánægð með það.
Ég fór svo að heimsækja Auði ömmu og Sigga afa á miðvikudaginn og lentum við mamma í mat þar því pabbi er búinn að vera að flísaleggja á milli í eldhúsinu okkar en það er nú búið og mamma getur loksins eldað almennilegan mat handa okkur.
Nú svo í gær þá fékk ég loksins að fara í heimsókn til hennar Helgu Rósar sem er með mér á leikskólanum og það var mjög gaman, hún á systur sem heitir Edda Sóley og er ári yngri en við Helga Rós.

Og í dag ætlum við kannski að heimsækja langömmu og langafa og Kollu frænku því langamma sagði í gær að hún væri farin að sakna okkar svo mikið og það viljum við ekki.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 4.2.2006 11:48:00 Idol 11 manna úrslit Vá ekkert smá góður þáttur í gær, mér fannst frábært þegar Einar sagði að verst að Silvía Nótt væri ekki með í þessari keppni því þá gætum við sent hana heim og leyft öllum Idol þátttakendunum að halda áfram.

Samt fannst mér nokkrir bestir og nokkrir verstir.

Ég kaus Ingó því bæði söng hann vel, og svo er þetta líka eitt af uppáhaldlögunum mínum, ég man þegar við Þráinn vorum nýbyrjuð saman ´81 þá var þetta oft spilað á böllunum, og svo síðast en ekki síst þá kaus ég Ingó því ég hef alla tíð falið fyrir svona James Dean lúkki og Oh, my god, maður gjörsamlega drukknar í augunum á Ingó.

En Ragnheiður Sara söng best og Þráinn kaus hana svo ég gæti kosið Ingó (við kjósum alltaf bara einu sinni hvort okkar).  Þetta er engin smáræðisrödd hjá stelpunni og hún var svo flott í hippabúningi og sannfærandi.

Nana er náttúrulega mitt uppáhald og stóð sig með stakri prýði, Alexander er flottur og með svo fallega rödd með fyllingu og dýpt, ég veit að hann á eftir að verða góður, hann er svo nýbyrjaður að syngja, Bríet Sunna bræðir mann nú alltaf með barnslegu og fallegu brosi.

Ína var mjög flott í gær, sama hvað Bubbi segir, Snorri var allt í lagi en ég fýla hann bara alls ekki, þoli ekki svona skrækar karlaraddir og eins finns mér hann frekar slepjulegur í útliti.

Þessi 3 sem fóru út á gólfið voru þau sem áttu heima þar ásamt kannski Elvu Björk sem var stílbrjótur keppninnar og fáráðanlegt að velja lag (þó það hafi verið á listanum) sem ekki var hippalag og eins var hún klædd öðruvísi en aðrir keppendur og átti það þá betur við lagið en hippatímabilið, þegar talað er um hippatímabil þá vitum við alveg að það er til fólk sem var ekki með sítt hár og reykti ekki hass en við erum ekki að tala um það fólk, við erum að tala um þá sem klæddust mussum, voru með sítt hár og reyktu hass og vildu frið.

Það að Angela datt út en ekki Tinna var samt ekki rétt, því Tinna átti meira að segja að detta út síðast en hékk líklega inni vegna kjaftsins á sér en þetta er söngkeppni en ekki ræðukeppni og Eiríkur var nú bara flottur í gær, þvert á það sem ég hélt að hann gæti, svo gott hjá honum.

Jæja þá er þetta búið hjá mér í bili og þá er það Júróvision…
… og Silvía Nótt, ég er búin að heyra lagið og það er flott og ég held að það gæti bara verið sniðugt að senda hana út því ekki höfum við komist langt áfram þegar við veljum vel.  Kannski er þá bara kominn tími að leika sér svolítið og hætta að taka þetta svona alvarlega.

En jæja ég missi af þessu í kvöld (á þó vídeótæki sem tekur upp) því ég er að fara á Þorrablót með G og G og það ætti að vera mjög gaman, við skemmtum okkur alla vega vel í Dublin svo núna ætti að verða framhald á því.  Ám ætlar að gista hjá Auði ömmu svo gamla settið geti sofið út á morgun (vöknum þá örugglega kl. 8) en í dag ætlum við litla fjölskyldan að skella okkur í keilu, það verður spennandi að sjá ÁM í keilu og ætla ég að taka svolítið af myndum því það er orðið langt síðan ég hef sett myndir inn á síðuna okkar.
kjg 8.2.2006 17:41:00 Það gerðist svolítið… ..hjá mér í gær.  Þannig var að í fyrradag þá beit Davíð, Jóhann á leikskólanum og mamma hans Davíðs var sko ekki ánægð með strákinn sinn og sagði mömmu minni frá því.

Svo í gær þegar við erum á leiðinni heim þá sagði ég mömmu og pabba að Davíð hefði bitið mig og sýndi þeim stórt far á hendinni minni.  Mamma og pabba voru alveg undrandi á því að Andrea hefði ekki látið þau vita af þessu, sérstaklega þar sem mamma var heillengi að tala við hana í gær.  Jæja mamma og pabbi ákveða að þau þurfi nú að tala við hana vegna þessa ekki síst til að láta mömmu og pabba hans Davíðs vita svo þau geti talað við hann og kennt honum.
Svo förum við heim og mamma ákvað að vinna aðeins og við pabbi fórum að tefla og það var voða kósí hjá okkur.  Þá allt í einu sé ég Davíð úti og leika og stuttu seinna er hann búinn að dingla og kominn inn til okkar.  Mamma og pabbi voru eitthvað að pískra oþh. og svo tók pabbi Davíð í fangið og byrjaði að tala við hann mjög alvarlega um það að ekki megi bíta oþh. þá heyrist allt í einu í mér.  Úps, ég var bara að plata Davíð beit mig ekki neitt, ég gerði það sjálf.
Mamma og pabbi voru alveg orðlaus og vissu eiginlega ekkert hvað þau áttu að gera annað en að biðja Davíð afsökunar aftur og aftur, hann kippti sér nú ekki mikið upp við þetta og hélt áfram að leika sér en við fjölskyldan eigum aðeins eftir að finna út af hverju ætli ég hafi gert þetta.

Reyndar eru það mamma og pabbi sem eru meira að hugsa þetta heldur en ég en samt er ég eitthvað leið þessa dagana og veit ekki af hverju, kannski af því að það er svo kalt.

En alla vega þá vildi ég segja ykkur frá þessu.

Þangað til næst
Ástrós Mirra
kjg 11.2.2006 09:10:00 Idol 10 manna úrslitin  Ja hérna, fyrir viku hélt ég ekki vatni yfir því hvað þátturinn var góður og krakkarnir allir en í gær þá máttu þau flest missa sín.  Ótrúlegt hvað þau geta floppað stundum í lagavali eða hvort sé að tímabilin henti svona misvel, það gæti svo sem verið.

Ekki vil ég trúa því að tónlistin hafi verið leiðinleg árin sem þau fæddust og NOTA BENE þau elstu voru að fæðast eftir að við Þráinn byrjuðum að búa saman svo við gætum aldurslega séð verið foreldrar þeirra allra.  Elsti keppandinn er fæddur ´79 og ég réði alveg við að vera mamma hans þó ég hafi ekki verið nema 16 þá.

Mér fannst fullt af lögum þarna flott og var ég nú sérstaklega ánægð með hann Eirík sem ég hef ekki verið hrifin af hingað til, en svei mér þá strákurinn hefur vilja og gerir eins og hann getur og hann velur lög við hæfi.  Ég sá nú bara Konný systir á dansgólfinu í denn, þegar hann byrjaði á Footloose, geðveikt danslag og mjög vinsælt ’81 – ’82.

Svo kom Elva mér á óvart og söng eins og engill og bætti upp floppið sitt frá því í síðustu viku þegar hún sveik lit.  Ína var mjög góð (en ég á samt eitthvað erfitt með að halda með henni, veit ekki af hverju) og Ragnheiður Sara syngur alltaf vel, þó svo að lagavalið hafi verið rangt, þá er hún samt svo flott.  Nana mín klikkar ekki en hún var greinilega ekki vinsæl með lagið sem hún valdi í gær, svo ég verð líklega að kjósa hana næst ef ég vil ekki að hún detti út, og það vil ég ekki.

Og lokapunkturinn var náttúrulega að loksins fór Tinna heim, hún átti aldrei heima í þessum hópi og það er ömurlegt að hún hafi hangið inni lengur en einhver annar bara á því að hún er kjaftfor, ég vil ekki kjaftfora Idolstjörnu með barnalega rödd.

Þannig að ég er ánægð með úrslitin og hlakka til að heyra diskóið næst, það er alltaf svolítið erfitt fyrir þessa krakka og sum floppa algjörlega á lagavali þá svo ég bíð spennt…
kjg 16.2.2006 17:36:40 Flensur og fleiri leiðindakellingar Við mamma liggjum báðar í flensu núna, ég er samt búin að vera veikari en mamma sem er ekki með eins mikinn hita og ég.  Ég var líka lasin á fimmtudaginn í síðustu viku og svo aftur núna, við verðum nú heima á morgun fyrst mamma er líka svona slöpp, ég fékk hita, gubbupest, höfuðverk en mamma er með hálsbólgu, hósta og beinverki.

En eitthvað hljótum við að hafa skemmtilegra að segja frá…  já til dæmis þá kom Kristófer heim með okkur í gær og við fórum bæði í búningana okkar,  hann var Íþróttaálfurinn og ég var Solla stirða,  það var sko skemmtilegt og svo sofnuðum við bæði yfir barnaefninu fyrir kvöldmat, ég var þá orðin lasin en hann bara þreyttur.

Á þriðjudaginn fórum við í handbolta og þá kom Aron Breki með okkur heim og við fórum að leika okkur með alla bangsana mína sem eru sko margir og það var gaman.

Og síðast en ekki síst vorum við í fullt af afmælum um síðustu helgi, hjá Silju Jenný í leikskólanum mínum og hjá langafa og hjá Alexander og Kristófer og um næstu helgi er afmæli hjá Victori, vonandi verðum við mamma orðnar góðar þá.

Jæja segi ykkur eitthvað meira skemmtilegt seinna og endilega skoðið myndirnar og skrifið í gestabókina okkar.

Þangað til næst
ykkar Ástrós Mirra
kjg 18.2.2006 09:57:00 Idol 9 manna úrslit Ég er brjáluð!  Hvað er að þjóðinni?  Þetta er svo mikill skandall að ég á ekki til orð.

Hvað sér fólk við Snorra eftir gærkvöldið, þvílíkur hroki að neita í rauninni að taka þátt í þemanu af því að diskóið sé ekki hans tónlist, ég veit ekki betur en Elva hafi nú alla vega farið niður á gólf þegar hún neitaði að taka þátt í hippaþemanu og samt var hún ekki með neinar yfirlýsingar um það en Snorri hann bara sagði það að honum leiddist þessi tónlist og þegar hann kom inn á sviðið þá lak af honum fýlan.  Svona haga menn sér ekki í keppni.

Og Eiríkur elskan sem var nú aldeilis búinn að taka sig á og bæta sig í áliti hjá mér hann floppaði líka algjörlega þarna í gær og það voru þeir tveir sem áttu að vera að gólfinu en ekki þessar 3 frábæru stelpur.  Ég held ég hafi aldrei verið eins sammála dómnefndinni eins og í gær.

Ég held að ég hafi bjargað Nönu fyrir horn því ég kaus aldrei slíku vant tvisvar, Nönu af því að mér finnst hún frábær og svo kaus ég Alexander því hann var hreinlega geggjaður í gær, ekkert smá flottur með frábært lag, það var sko ekki hægt að sitja kyrr á meðan hann söng.

Eins var Ingó flottur í gær og flott hjá honum að nýta sér stirðleikann og nota á sviðinu.

Að Ragnheiður Sara og Nana hafi lent úti á gólfi í gær er skandall og það jaðrar við að maður hætti að horfa á þetta.  Það er gjörsamlega óþolandi að fólk sé að flykkjast utan um einhvern og kjósa án þess að taka frammistöðuna með í dæmið.
Ragnheiður Sara er langbesta söngkonan þarna, hún hefur mesta raddsviðið og er orðin svo flott á sviði, frábært hvernig hún daðrar við myndavélarnar, sem sagt Stjarna og Nana!  Hver stenst Nönu þvílíkur sjarmur og alltaf velur hún lög sem ég er hrifin af.  Báðar eru þær með allann pakkann.  Það er nefnilega verið að leita að Idol stjörnu, það er ekki verið að leita að bestu söngkonunni / manninum og þetta er ekki heldur fegurðarsamkeppni, heldur er verið að leita að STJÖRNU og það þýðir að viðkomandi geti fangað mann á sviðinu með söng og framkomu.  Og takið eftir ég sagði FRAMKOMU.  Þannig að það er allur pakkinn sem gildir í hvert einasta skipti, það skiptir engu máli hvað þau gerðu vel síðast ef þau klikka í eitt skipti þá gæti það verið spark í rassinn og þá er það sorglegasta við þetta sem gerðist í gær, þessa stelpur klikkuðu ekki neitt í gær, það voru strákarnir Snorri og Eiríkur.  Damn you Icelandic people.

kjg 18.2.2006 18:23:03 Að “Commenta” undir eigin nafni Ég hef verið að tjá mig hér um mína persónulegu skoðun á Idolinu og finnst það bara gaman en það er greinilega einhver manneskja þarna úti sem er eitthvað að agnúast út í minn smekk og hefur verið að “Commenta” á skrifin mín, sem væri allt í lagi ef ég þekkti hana.  En ég hef engan áhuga á “commentum” ókunnugs fólks, sorrý.  Og er það ástæðan fyrir því að eyði þeim “commentum” út.  Þinn smekkur er þinn smekkur og ég þakka fyrir að við erum ekki öll eins.

kjg Athugasemd: 🙂 (,,) 19.2.2006 08:57:00 Hlaupabóla Jæja, okkur sýnist að “Hlaupabólan” sé loksins komin.  Ég segi loksins því mamma er búin að bíða eftir henni því það hafa svo margir smitast á leikskólanum mínum.  Ég er búin að vera lasin í 3 daga og héldum við að það væri bara venjuleg flensa en svo allt í einu seinni partinn í gær fórum við að taka eftir bólum, ein á enninu, ein á efri vörinni og ein, tvær, þrjár, fjórar á bakinu.  Mamma var að skoða þær núna rétt áðan og þær eru rauðar núna svo við verðum að fylgjast með þessu, við nefnilega vitum ekkert hvernig hlaupabóla er þó við séum búin að lesa okkur til á Netdoktor.
***
Hlaupabóla

Þórólfur Guðnason, barnalæknir

Hvað er hlaupabóla?
Hlaupabóla er mjög smitandi sjúkdómur, sem er algengur hjá börnum. Sjúkdómurinn lýsir sér með bólum eða blettum á húð sem verða að nokkurs konur blöðrum og síðar sárum. Mikill kláði getur fylgt bólunum. Sjúkdómurinn er ekki hættulegur og orsakast af veiru (varicella-zoster) sem einnig veldur sjúkdómnum ristli.

Hver er orsökin?
Veiran smitast milli fólks með beinni snertingu, t.d. snerting við sprungnar blöðrur eða með úðasmiti. Einstaklingur getur smitað aðra allt að þremur dögum áður en hann fær sjálfur útbrot og er smitandi þar til allar bólur hafa sprungið og þornað upp. Veiran er til staðar í vessanum sem er inni í bólunum og því getur einstaklingur smitað meðan einhver vessi er enn til staðar. Meðgöngutími sjúkdómsins þ.e.a.s. sá tími, sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til hann fer að fá einkenni, í þessu tilviki bólur, vessafylltar blöðrur og sár er 10-21 dagur.

Hver eru einkennin?
Útbrot á búk og í andliti. Útbrotin berast síðan í hársvörð, handleggi og fætur. Þau geta einnig borist yfir á slímhúðir og kynfæri.
Útbrotin valda kláða.
Til að byrja með eru þetta litlar rauðar bólur, sem eftir nokkra klukkutíma verða að blöðrum. Blöðrurnar verða síðan að sárum á 1-2 dögum. Það myndast hrúður og þær þorna upp.
Nýjar blöðrur geta myndast eftir 3-6 daga.
Það er mjög mismunandi hversu margar blöðrur hver einstaklingur fær.
Sjúkdómnum getur iðulega fylgt hiti.
Börn verða yfirleitt lítið veik á meðan fullorðnir geta orðið mjög veikir.
Slappleiki og hiti geta varað í einhvern tíma áður en bólurnar myndast.
***
Úff, ef þetta er hlaupabóla þá verð ég líklega að vera heima alla vikuna eða nokkra daga í viðbót, ég er náttúrulega búin að vera heima með mömmu síðan á fimmtudag en þá veiktumst við báðar, mamma af hálsbólgu, höfuðverk og hita og ég var höfuðverk, hita og gubbupest (eða var það hlaupabólan?).  Þannig að það er eiginlega búið að vera smá ástand á þessu heimili og svo þetta…  hlaupabólan.
Ég fór samt í afmæli hjá Victori frænda mínum í gær því þá vissum við ekki af þessum bólum þær komu eftir það og það var mjög gaman í afmælinu og hann fékk allt sem hann hafði óskað sér í afmælisgjöf.  Þið getið skoðað myndir af honum og okkur öllum í afmælinu.

Jæja, þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra

Snúðu andliti að sólinni og þú sérð ekki skuggann.
Helen Keller

kjg 21.2.2006 17:20:00 Theater time Je minn, Ástrós Mirra er búin að horfa á Dýrin í Hálsaskógi, Kardemommubæinn og svo rétt kíktum við á byrjunina á Síldin kemur síldin fer og Ó, my God hefur maður eitthvað breyst síðan þessi stykki voru sett á svið í Eyjum eða hvað?  Nei, nei, bara elst um 10-15 ár, þyngst um 20 kg og ég er RAUÐHÆRÐ Í Kardemommubænum og MJÓ, meira að segja gert grín af þvi að ég geti ekki eldað góðan mat því ég sé svo mjó, Ó hvað ég vildi að fólk gerði svoleiðis grín af mér aftur.  En nóg um útlitið þetta er ótrúlega skemmtilegt að horfa á þetta og allt liðið sem var með okkur í leikfélaginu geðveikt frábært lið.  Dæmi um Kamillu, hún er 10 ára í leikritinu en er orðin stór og fullorðin stúlka sem tók þátt í fyrsta Idolinu og Bubbi var svo hrifin af henni, hún er Mjög stór núna en greinilega enn jafn skemmtileg og Jesper hann er æðislegur Þráinn með hár og Mjór og bara hreinlega allir þessir unglingar sem voru með okkur er harðfullorðið fólk og pabbar og mömmur og allt það.  En hvað segir það um mig?  Akkúrat það sem það á að segja.  Lítur út fyrir að vera 33 ára og ungleg og frábær kona.

Hvað finnst ykkur?  Á ég að verða rauðhærð aftur?
kjg Athugasemd: Neibb, ekki rautt hár aftur, ert flottari núna 🙂 (hafrun@heimsnet.is,Hafrún) Athugasemd: finnst fara þér betur að vera ljóshærð og líka þegar þú ert ljóshærð með gylltar strípur (,Anna Sif) Athugasemd: sammála síðasta ræðumanni, alls ekki ruaðhærð aftur. Þú ert miklu flottari eins og þú ert núna :o) (,Halldóra Íris) 26.2.2006 10:09:22 Doddi litli Jæja, þá hefur bæst við einn í fjölskylduna í viðbót og hann heitir Doddi, fæddur 2003 og mjög fallegur eins og sjá má á þessari mynd:

 

Það er lítið meira um það að segja annað en hann er “ÆÐISLEGUR” kraftmikill, þægilegur og allt og kostaði lítið.
En það var rosalega gaman að kaupa hann, því við fórum uppí Bílahöll hjá Jóni Ragnarssyni og meðan verið var að sækja um lánið oþh. fórum við öll að spjalla þarna saman og þá kom náttúrulega í ljós að Jón er mikill Frammari og þekkir pabba minn (Ertu dóttir hans Mása, spurði hann, já nú er ég aldeilis hissa, og svo þekkir hann Mumma frænda vel og mundi vel eftir Jóni afa.  En hann talaði svo vel um pabba og þó sérstaklega Mumma að það hefði bara ekki komið þjálfari til Fram sem gæti eitthvað á eftir Mumma og þeir hefðu hreinlega ekki unnið titla síðan osfrv.  Þannig að þetta var mjög gaman.  Svo er strákurinn sem við keyptum bílinn af Frammari líka og þekkir Mumma og man eftir pabba og dæmdi svo með Magga The og hálf ól upp Sævar sem vinnur með mér.  Þeir lentu í smá tölvuveseni (hvernig getur staðið á því) þannig að þetta dróst allt á langinn og svo þegar við vorum búin að ganga frá þá afsakaði Jón það og ég bað hann vinsamlegast ekki að afsaka neitt því líklega hefðum við ekki náð þessu skemmtilega spjalli ef ekki hefði komið til þessara tafa.  Því þetta var bara gaman.

Og já endilega bjóðið Dodda litla velkominn í fjölskylduna.  Þá samastendur hún af Þráni, Kristínu, Ástrós Mirru, Selmu naggrís, Lalla og Dodda.
kjg 27.2.2006 18:55:10 I’m in love .. og ekki bara af manninum mínum (er samt alltaf In love with him) en nú er ég ástfangin af Dodda litla, hann er hreinlega bara æðislegur.  Ef ykkur vantar skutl þá hóið bara í mig og Dodda við reddum því og njótum þess.

Sko hann er ekki bara flottur í útliti heldur er svo mjúkur og yfirvegaður.  Hann dekrar svo við mann að það hálfa væri nóg.  Hann er líka mjög notalegur og svo passar hann vel uppá öryggið.  Þetta gæti ekki verið betra.

Vona bara að Þráinn verði ekki afbrýðisamur, hann er það nú venjulega ekki en nú er aldrei að vita og þá meina ég ekki að hann verði afbrýðisamur út í Dodda heldur út í mig fyrir að fá að vera með Dodda alla virka daga en hann aðeins um helgar en maður fer nú ekki í vinnugalla út með Dodda það gengur ekki hann er alltof fínn með sig til að það gangi.  (Ég heppin).

Þá er bara eitt sem vantar núna, ný sólgleraugu í stíl við Dodda.
kjg 2.3.2006 20:42:56 Solla stirða Jæja það er nú ýmislegt búið að gerast síðan síðast.  Aðallega þó bolludagur, sprengidagur og öskudagur með öllu tilheyrandi.
Ég var Solla stirða og þær voru margar í mínum leikskóla en það var engin Silvía Nótt enda finnst mér hún ekkert flott en samt finnst mér æðislegt að maðurinn hennar Helenu sem er fóstra á mínum leikskóla, hann er maðurinn sem passar að enginn tali við hana stelpu (Silvíu Nótt) mamma segir að það heiti að vera lífvörðurinn hennar.
Annað í fréttum er að við erum búin að kaupa nýjan bíl og þá hljótum við að vera orðin rík, því mamma sagði allaf að við myndum kaupa nýjan bíl þegar við yrðum rík.  Ég fór að velta því fyrir mér hvort við færum þá kannski að kaupa nýtt hús líka svo ég geti fengið kisu og kannski fleiri dýr.  En mamma segir að það verði ekki gert fyrr en í fyrsta lagi eftir 2 ár.

Ég er alveg óskaplega myndarleg þessa dagana og víla ekki fyrir mér að elda mat ofaní fjölskylduna, ganga frá á eftir og setja í uppþvottavélina og setja hana svo af stað.

Ég fékk að elda í kvöld bjúgu og kartöflumús en ég nennti ekki að leggja ein á borðið því ég er alltaf að gera það.  Svo er það líka þannig í okkar fjölskyldu að sá sem eldar þarf ekki að ganga frá svo ég gerði það ekki í kvöld.

Ótrúlega myndarleg stúlka finnst ykkur ekki.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 4.3.2006 08:13:00 7 manna Idol Getur einhver útskýrt fyrir mér hvað það er sem þjóðin er að hugsa?  Ég skil þetta ekki, Nana dettur út en Alexander og Snorri hefðu frekar átt að gera það.

Förum aðeins yfir þetta:

Ína:  Hún var hreinlega æðisleg, ég fékk tár í augun og allt.   Hún er æðisleg söngkona stelpan en aðeins of kellingarleg.  Og mér finnst það þó ég gæti verið mamma hennar.

Bríet Sunna:  Hún var rosalega flott og ég fékk aftur tár í augun, mikill sjarmur þessi stelpa með svona örlítið feimnislega framkomu sem er bara sjarmerandi.

Nana:  Alltaf æðisleg en líklega var það lagið sem ýtti henni út, þetta er ekki skemmtilegt lag en Nana söng það vel og var æðisleg.

Alexander:  Hvað er að gerast með hann, þetta var ekki að virka en hann er langbesti karlsöngvarinn ef hann vandar sig.  Munið eftir honum í diskóinu, hreint frábær.

Ingó:  Æðislegur, alltaf æðislegur.  Hann hreinlega sogar mig inn í einhvern heim með þessu augnaráði sínu.  James Dean týpan, svona “rebel without a course”, og ég spyr bara, hver stenst hann?  Ótúrlega flottur strákur og NOTA BENE það þarf meira en góða söngrödd, það gengur ekki að hafa Idolstjörnu sem maður þarf að slökkva á sjónvarpinu af því að það er svo óþægilegt að horfa á stjörnuna.

Úps gleymdi henni Ragnheiði Söru:  Æi, hún er góð söngkonu og líklegast með mesta raddsviðið en ég var alls ekki að fíla þetta hjá henni og veit ekki hvað hún gæti hangið lengi inni.  Ég held að hún fari að detta út þó að hún sé uppáhaldið hans Þráins.  Sorrý Þráinn minn, hún er bara ekki að virka nógu vel þarna.

Snorri:  Og þá erum við komin að þessu sem ég var að segja, það er óþægilegt að horfa á hann og ég skal meira að segja reyna að láta ekki röddina þvælast fyrir mér (en mér finnst þessi rödd leiðinleg og myndi aldrei geta hlustað á fleiri en eitt lag í einu með henni) að þá virðist honum leiðast á sviði og ég hlusta ekki á þá afsökun að hann sé feiminn, því hann er að keppa um það að verða stjarna og ef honum líður ekki vel á sviði þá verður hann aldrei stjarna.  Sorrý.  Ég hefði viljað sjá Snorra detta út í gær en reyndar átti enginn skilið að detta út því það var enginn lélegur.

En varðandi það að NANA hafi dottið út þá verður ekki langt að bíða að við fáum lag með henni og plötu í framhaldinu, þessi stelpa er ekki hætt og ég mun sko kaupa plötuna hennar, bæði finnst mér hún ótrúlega mikill sjarmör og skemmtileg og svo velur hún alltaf lög sem mér finnast skemmtileg eða góð og Oh my God hvað hún var góð síðast.  KEEP UP THE GOOD WORK GIRL!

Og annað, ég var að reyna að útskýra fyrir Þráni hvað þetta væri við Ingó sem er svo óstjórnlega sjarmerandi en hann var ekki alveg að skilja og ég fór þá að hugsa um James Dean, ég fór einu sinni með (gamla) Herjólfi á laugardagsmorgni uppá land fór á 3 bíómyndir með James Dean og aftur heim til Eyja daginn eftir.  Það var eitthvað Dean þema í Stjörnubíó (hver man eftir Stjörnubíó) og ég var svo forfallinn aðdáandi að ég gat engan veginn sleppt þessu.  Ekki oft verið forfallinn aðdáandi einhvers,  gæti nú talið þá upp hér í fáum línum.

James Dean leikari
Donny Osmonds söngvari

og síðan ekki söguna meir enda kynntist ég manninum mínum og hann uppfyllir þetta allt fyrir mig, er æðislega góður söngvari og tekur Robbie Williams í nefið þegar hann tekur Feel og svo er hann æðislegur leikari og á mörg meistarastykkin með Leikfélagi Vestmannaeyja.

Þannig að lokalistinn er svona:

James Dean leikari
Donny Osmonds söngvari

Þráinn Óskarsson leikari og söngvari

Ég hugsa að það séu ekki margar konur eins heppnar og ég.
kjg Athugasemd: hahaha nei fáar eins heppnar og þú, það er víst alveg ábyggilegt… Ekki slæmt að idolið manns sé barasta maðurinn manns líka !!
En..varðandi Idolið þá er ég næstum sammála og fyndið – ég skrifaði líka um hvern og einn og átti í vandræðum með að muna einn keppandann og sé að þú slepptir henni…Segir margt um hana Ragnheiði Söru 🙂
Sjáumst (,Hafrún) Athugasemd: Í alvöru stelpur. Ragnheiður Sara er svo flottasta manneskjan í þessari keppni. Það er alveg skuggalegt hvað hún söng vel á föstudaginn. Hver annar í þessari keppni hefði getað sungið t.d. nights in white satin eða Silence is golden.

Íhugið þetta aðeins. Ég er ekki að ná af mér gæsahúðinni 😉

Gott blogg. (,Anna) 10.3.2006 18:01:00 Idol 6 – Big Band
TÓNLISTIN TÚLKAR ÞAÐ SEM ENGIN ORÐ FÁ LÝST.
Ok, þá eru aðeins 5 eftir í Idolinu og fór Ingó sjarmör út í gær, en NOTA BENE það þurfti að vera annað hvort Ingó eða Snorri, reyndar hefði ég helst viljað Snorra út því ég veit ekki hvaða fólk þetta er sem fílar svona frosinn söngvara, það er alla vega enginn sem ég þekki sorrý.

Ég ætla aðeins að commenta á hvern og einn hér að neðan.

Snorri Snorrason

Frosinn eins og venjulega gerði þetta lag leiðinlegt sem ég hélt að væri ekki hægt, sá alltaf fyrir mér Palla syngja það af mikilli tilfinngingu og eins og Palli sagði það er hægt að sýna svo ofboðslega mikið með þessu lagi en NEI Snorri hefur ekki áhuga á því frekar en öðru.  Ég reyndar skil ekki af hverju hann fór í þessa keppni (og þá er ég ekki að meina að hann geti ekki sungið, því hann getur það en söngur er líka tilfinning og hana á Snorri greinilega ekki til) því honum virðist leiðast í hverjum þættinum á fætur öðrum eftir að hann þurfti að fara að velja lög úr ákveðnum tegundum tónlistar.  Hann var ágætur í fyrstu þáttunum þegar hann hafði frjálsari hendur en það sýnir bara hvað hann er takmarkaður.
Lag: Fly me to the moon
Ragnheiður Sara Grímsdóttir

Var gjörsamlega æðileg í gær, þetta átti sko vel við hana og þarna sá ég hana eins og hún var í Hippaþættinum.  Hún var líklega með besta sönginn í gær, en samt er eins og mér finnist vanta eitthvað uppá eitthvað, veit ekki alveg hvað það er.  En hún var mjög góð í þessu þema og átti ekki skilið að fara út á gólf.
Lag: Georgia (On my mind)

Ingólfur Þórarinsson

Ingó er sjarmörinn minn eins og áður hefur komið fram enda var ég mikill aðdáandi James Dean og Ingó hefur það sama.  En hann var alls ekki góður í gær og ég sætti mig við að hann hafi dottið út og vona bara að ég sjái hann einhverntíma með gítarinn framan á sér að syngja það sem hann er bestur í.
Lag: Sway

Ína Valgerður Pétursdóttir

Klikkar aldrei, ótrúlega góð söngkona og með mjög sterka og mikla rödd, verður ábyggilega Idolstjarna Íslands 2006.  Hún þarf reyndar að fá stílista sem kann að klæða unga stúlku sem er með hold á beinunum, því hún er alltof kellingarlega klædd en frábær söngkona og performance.
Lag: Orange colored sky

Alexander Aron Guðbjartsson

Hann er reyndar eini karlsöngvarinn sem getur eitthvað sungið og með þvílíkt þétta og flotta rödd og frábæra sviðframkomu, það skiptir miklu máli.  Flottur í gær með hatt og staf og hann kann þetta og syngur æðislega vel.
Lag: I’ve got you under my skin

Bríet Sunna Valdemarsdóttir

Frábær, lagavalið skiptir svo miklu máli og þetta er æðislegt lag sem hún söng og OH MY GOD hvað hún gat daðrað við myndavélarnar sem hreinlega elska hana og svo er samt svo einlæg og sæt og ekki síst hún er svo kát og glöð.  Og þetta gerði hún sko æðislega og gaman að heyra Kristjönu hrósa henni fyrir að vera eins og svampur það segir manni bara að hún hefur mikinn áhuga á því sem hún er að gera og það er sko miklu meira en sumir í þessari keppni.
Lag: Fever
Niðurstaðan er sú að ég kaus Bríeti Sunnu og Alexander.  Vissi að Ína væri alveg save og lét síðan Þráin kjósa uppáhaldið sitt hana Ragnheiði Söru því eins og ég sagði þá stóð hún sig mjög vel.

 

En næst miðað við fyrri frammistöðu þá ætti Snorri að fara út og eftir það verð ég eins og sundurslitinn hundur þegar eitthvert hinna dettur út.  Nú er þetta sko orðið erfitt.  Reyndar eru þau bæði sem hélt mest uppá dottin út en ég get alveg sætt mig við það því hin sem eftir eru, eru svo góð – Snorri.

kjg Athugasemd: Sælar..

Hún Ragnheiður Sara var svo flott. Það sem hún getur sungið og er pró. Hún átti ekkert að vera þarna í tveimur neðstu. Bríet Sunna söng vitlaust inn í laginu og söng falskt svo þessi keppni snýst nú um eitthvað annað en söng, finnst mér orðið. (,Anna) Athugasemd: Sammála þér Anna (hvaða Anna ert þú? Ég þekki svo margar) með Ragheiði Söru í gær en ósammála með Bríeti. (,Kristín Jóna) Athugasemd: Ég er sammála þér með alla núna… Þetta var kvöldið hennar Bríetar og Alexander átti líka stórsprett.
Held með Bríetu minni hef gert það frá upphafi og svík hana ekki… Mér finnst hún alveg yndisleg.
kveðja
Hafrun (,Hafrún) 11.3.2006 15:56:10 Ímyndun Hey pabbi, þetta er bara ímyndun, sagði ég við pabba í morgun þegar ég var að horfa á barnaefnið.  Það var mynd þar sem krakkar voru að leika við bangsa og risaeðlu.  Pabbi sagði, ha er hvað ímyndun?  Og þá sagði ég þetta þarna í myndinni.
Þá spurði pabbi mig, hvað er ímyndun?
Og ég svaraði, það er þegar eitthvað er í þykjustunni en ekki í alvörunni.

En það eru næstum því 10 dagar síðan mamma skrifaði síðast en ég held að hún sé nú farin að skrifa meira um sjálfa sig en mig.  Þýðir það að naflastrengurinn er farinn að losa eða hvað?  Ég held það.

En það sem er helst að frétta af mér er að mig langar aldrei í leikskólann á morgnanna en samt er ég alveg kát og glöð þegar mamma kemur að sækja mig svo það virðist nú vera að mér leiðist ekki neitt, enda talaði mamma við eina fóstruna um daginn og hún sagði að þetta væri ábyggilega svona “motherthing” og mamma skildi ekkert vera að hlusta of mikið á það, sem mamma og gerði og gott ef þetta gekk ekki betur í síðustu viku en áður svo líklega er þetta bara að mig langar að vera með mömmu á morgnanna í staðinn fyrir að fara á leikskólann og hver láir mér það nú með þessa líka skemmtilegu mömmu.

Nú hvað meira, já ég fór nú út áðan með pabba að búa til snjókall og eru komnar myndir af honum á síðuna mína undir Myndir 2006, en ég hef ekki gert þetta áður í vetur og var mjög gaman, svo fór pabbi inn og ég var ein úti að baksa við þetta og það er ótrúlegt hvað ég er dugleg og úrræðagóð þegar ég að gera eitthvað.  Nú svo kom ég inn köld og blaut og fékk að baka vöfflur með mömmu og pabba og við fengum okkur svo kakó með.  Fullkominn laugardagur. (Nema að því leiti að snjókallinn minn er bráðnaður 2 tímum eftir að hann var búinn til.)

Nú fer senn að líða að því að við förum uppí bústað, ætluðum í dag en út af snjónum þá hættum við, við.  En um næstu helgi förum við pabbi á föstudaginn og verðum yfir nótt ef viðrar vel, því mamma ætlar að vera með stelpu- og Idolpartý.

En jæja hvernig líst ykkur á nýja útlitið okkar?  Mamma ákvað að nota meira af þeirri þjónustu sem er verið að veita hér á 123 í staðinn fyrir að þurfa gera þetta allt sjálf í tölvunni okkar heima og þurfa svo að uploada en nú getur hún farið í hvaða tölvu sem er að skrifa fréttir og svoleiðis en myndunum þarf alltaf að uploada úr okkar tölvu en það er alltaf svoleiðis.

Endilega kvittið í gestabókina okkar eða commentið á skrifin okkar mömmu, okkur finnst gaman að vita hver að lesa fréttirnar og fylgjast með okkur.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra

 

kjg 12.3.2006 19:09:00 4 …. er sniðug tala
4 staðir sem ég hef unnið á:

Maritech, frábær vinnustaður með skemmtilegu fólki og þar getur maður alltaf verið að læra eitthvað nýtt á hverjum degi.

Vestmannaeyjabær, það mun aldrei verða hægt að toppa partýin þar nokkurn tíma, þau voru þau bestu og mest undirbúnu og æfðu sem sögur fara af.

Tanginn í Vestmannaeyjum, þar fékk ég Curver delluna, þ.e. æði fyrir alls konar plastílátum, þvottabölum, vaskafötum, uppþvottagrindum ofl.

Skýlið í Vestmannaeyjum, gaman að hitta sjóarana á hverjum morgni og gefa þeim kaffi og heyra spjallið þeirra.

4 bíómyndir sem ég get horft á aftur og aftur:

Shawshank redemtion, hreinasta snilld

Die hard allar með tölu

Lethal Weapon

Shrek

4 staðir sem ég búið á:

Suðurbraut í Hafnarfirði og bý enn?

Sævangur í Hafnarfirði, innréttuðum neðri hæð í einbýlishúsi hjá eldri ekkju sem leit samt alltaf á sig í einbýlishúsi og eins og hún væri að gera okkur greiða með að leyfa okkur að búa þarna, samt leið okkur nokkuð vel þar.

Laufvangur í Hafnarfirði, fysta íbúðin sem við leigðum eftir að við fluttum í bæinn og þar leið okkur mjög vel, hátt til lofts og vítt til veggja.

Hásteinsvegur í Vestmannaeyjum, okkar eina einbýlishús með ofboðslega mikilli sál og æðislegan garð.

4 sjónvarpsþættir sem ég má ekki missa af…

Idol

… og aftur Idol

Prison break

Gray’s anatomy

4 staðir sem ég hef heimsótt í fríum

Kanaríeyjar, leið vel þar, rólegheit og gott að vera krakka þar.

Edinborg, mjög skemmtileg borg og gaman að hlusta á skotana tala.

Dublin, ekki minna skemmtileg en Edinborg.

Næstum allt Ísland fyrir utan Vestfirðina.

 

4 síður sem ég skoða daglega

www.visir.is  ekki af því að ég sé fréttasjúklingur en samt?

www.mirra.net náttúrulega svo sjálfhverf að það hálfa væri nóg

www.haffabeib.blogspot.com af því að hún er svo gáfuleg

www.heimaslod.is af því að það er gaman að grúska í gömlum Vestmannaeyjafræðum

4 matartegundir sem ég held upp á:

Humar

Lambafillet með puru

Lambakótilettur

Kjötsúpa

4 bækur sem ég hef lesið nýlega:

Ótuktin eftir Önnu Pálínu Árnadóttur, fékk meira að segja netta martröð í nótt og dreymdi að ég væri komin með krabbamein.

Vetrarborgin eftir Arnald Indriðason, hann klikkar aldrei

Myndin af pabba, saga Thelmu, ótrúlega sterk kona og ég tek ofan fyrir henni og fer reyndar að gráta þegar ég hugsa um æsku hennar.

Afi draugur, frábær barnabók um strák sem missir afa sinn og afi hans gengur aftur og þeir reyna í sameiningu að komast að því af hverju.

4 staðir sem ég myndi vilja vera núna:

Ég er þar sem ég vil helst alltaf vera, heima hjá mér og meira að segja nýbúið að taka allt til og skúra svo það er enn betra.

Á Gjábakka í Þingvallasveit en það hlýtur að fara að vora svo við getum farið að fara í sveitina okkar.

Á sólarströnd með Ástrós Mirru og Þráni

…  detta ekki fleiri staðir í hug í augnablikinu enda er ég oftast ánægð þar sem ég er

4 strákar sem ég skora á að gera þetta:

Þráinn minn

Baldur vinur

.. þekki ekki fleiri stráka sem myndu nenna svona

4 stelpur sem ég skora á að gera þetta:

Konný systir

Klara systir

Hugrún vinkona

Hafrún Ósk

.. og allar þið stelpur sem nennið svona ég þekki miklu fleiri stelpur en stráka

kjg Athugasemd: Tek áskoruninni… (,Hafrún) 15.3.2006 17:13:21 Líffæragjafir Ég var að hlusta á útvarpið í gær og þar var verið að fjalla um þingsályktunartillögu þess efnis að láta merkja í ökuskírteinin okkar ef við viljum láta gefa líffæri úr okkur við andlát.
Frábær hugmynd, ég veit nefnilega um fólk og þar á meðal mig sem myndi vilja láta gefa líffæri úr mér en ég veit ekkert hverjum ég á að segja þetta eða við hvern á að tala.  Nenni ekki að ganga með hálsmen sem segir til um svoleiðis svo …
frábært að láta setja það í ökuskírteinin.
Bara fara til sýsla og panta ökuskírteini og “By the way” ég ætla að gefa úr mér líffæri ef ég dey.  Ekkert flóknara en það, en sparar aðstandendum heilmiklar pælingar og erfiðar á erfiðum tímum.  Enda segja þeir að það látast helmingi fleiri sem eru að bíða eftir líffærum á ári hverju en þeir sem gefa líffæri.  Hvaða gagn hef ég af þeim þegar ég er dáin?  Ekkert.  Ég er svosem búin að segja Þráni hvað ég vill en ef hann deyr nú með mér, Ástrós skilur þetta ekki strax svo… fáum okkur ný ökuskírteini.
kjg 15.3.2006 17:23:48 Handboltamót Jæja þá er komið að því góðir hálsar, ég er að fara að keppa í handbolta á laugardaginn 18. mars kl. 15.15 – 17.00.
Ég keppi 3 leiki og er mótið haldið í íþróttahúsinu í Hofstaðaskóla í Garðabæ.

Völlur 2

kl. 15.25   FH – Fylkir
kl. 15.50   Víkingur – FH
kl. 16.40   HK 2 – FH

Áfram FHingar

Endilega komið og hvetjið mig og mitt lið ef þið hafið tíma.

Ykkar Ástrós Mirra

Ps. Ég ætla reyndar að fara með pabba í bústaðinn á föstudaginn og koma aftur heim um hádegi á laugardaginn því mamma ætlar að vera með stelpu / Idolpartý á föstudagskvöldið svo það verður rosa gaman hjá okkur öllum.
kjg Athugasemd: bara að kvitta (,Anna Sif) 19.3.2006 17:25:02 Idol 5 – Íslensk dægurtónlist Þetta er bara ekki sanngjarnt.  Þ.e. að Alexander Aron hafi dottið út en ekki Snorri, Snorri söng meira að segja falskt en Alexander Aron söng þetta bara frekar save, en svona á heildina litið hefði hann ekki átt að detta út núna.

Staðan er þá þannig Ína, Briet Sunna, Ragnheiður Sara og Snorri eru eftir. Ég hefði viljað sjá stelpu og strák í efstu tveimur sætunum en það verður vonandi ekki miðað við stöðuna eins og hún er núna.

Ætli þetta endi ekki þannig að það verði Ína og Briet Sunna sem keppa um efsta sætið.

Það verður nú líklega ekki mikið bloggað hjá mér um restina af Idolinu þar sem ég verð úti í London næsta föstudagskvöld, verð svo heima hjá mér þar næsta en í fertugsafmæli Adda mágs á úrslitakvöldinu svo…
… ég slaka bara á Idoláhuganum hér eftir eða reyni það.

Ég alla vega spái því að þetta sé næsta Idolstjarna Íslands 2006.
kjg 22.3.2006 20:08:48 LONDON CALLING London is calling!  Og ég er að fara þangað á föstudaginn með vinnufélögum mínum og gott ef það er ekki að koma smá tilhlökkun þó Þráinn fari ekki með.  En það er búið að vera vandamál hjá mér, þe. að vera að fara erlendis án hans.  Aldrei gert það og við búin að búa saman í 24 ár.
Ein sem vinnur með mér er mjög spennt að sjá hvernig mér líkar þetta því hún og maðurinn hennar ferðast mjög mikið í sitthvoru lagi svo henni finnst þetta lítið mál.

En ég er nú búin að plana ýmsa hluti að gera þarna úti og einn aðalhluturinn er að skemmta mér vel (án áfengis) tek enga áhættu á því að vera þunn í London og enginn Þráinn til að redda mér.  En við stelpurnar ætlum eitthvað að kíkja í búðir á föstudaginn þegar við erum búin að koma dótinu okkar fyrir uppá herbergi og svo förum við 15 saman út að borða á Japanskan stað sem heitir Benihana og er víst æðislegur.  Ég reikna nú ekki með miklu meira þann daginn, en svo á laugardaginn ætlum við að kíkja á Notting Hill markaðinn og láta svo daginn ráðast fram að árshátið sem verður haldin á hótelinu og ég reikna með rokna stuði þar enda MiniMariBand að skemmta þar.

Svo kaupi ég eitthvað sætt handa þeim sem ég elska mest og reyni að koma þeim eitthvað á óvart.

Untill next time
London Calling girl
kjg 31.3.2006 11:09:00 Elísabet Jæja, þá er mamma komin frá London og haldiði að hún hafi ekki ættleitt eina litla stúlku handa okkur.  Reyndar er þessi stúlka mjög stillt, þe. hún hvorki grætur, talar, hlær eða neitt en hún er ÆÐISLEG.

Mamma keypti fullt af dóti handa mér þar á meðal dúkkuvagn með dúkku og regnhlíf, polly dúkku með fataskáp og öllu.  Töfrateiknispjald og furðulegan bolta.

Svo keypti hún handa mér buxur, skyrtu og tvenna sportsokka, mjög smart fyrir sumarið.

En meðan mamma var í LONDON að leika sér átti ég frábæra helgi með pabba mínum.  Og vitiði pabbi minn er besti vinur minn líka, ég sagði Andreu fóstru það.  Hún spurði þá út í mömmu og ég svaraði jú, jú hún er alveg vinkona mín en PABBI er vinur minn.

Og sem sagt ég var með pabba um helgina og fór svo með Ömmu Steinu, Sunnevu og Önnu Dögg að sjá Ronju ræningjadóttur í leikhúsinu og það var mjög gaman.  Ég fór líka út að hjóla og ýmislegt annað skemmtilegt.

Svo reyndar saknaði ég mömmu svolítið og vildi bara sofa í hennar í rúmi og var mjög þegar ég gat kúrt hjá henni á mánudagskvöldið því það er svo erfitt að kúra á pabba, hann er ekki eins þægilegur og mamma.

Við erum að spá í að fara í sveitina á morgun og hafa það huggulegt, grilla og fara í göngutúr ofl. ég hugsa að ég taki Elísabetu með svo hún fái nú að sjá sveitina okkar.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 1.4.2006 08:45:00 Idol vonbrigði Vá þvílik vonbrigði þessi Idol sería hefur verið.  Og það heldur áfram viku eftir viku.  Skilur fólk ekki að það á að kjósa þann sem er bestur en ekki þann sem er súkkulaðisætur (sem hann er samt ekki) eða af því að hann á 3 börn og er stuðningsforeldri eins og ég heyri að gömlu kellingarnar eru að gera og segja “hann er svo góður drengur”  en það er bara til alveg fullt af góðum drengjum og þeir eiga því miður bara ekki heima í Idolkeppninni.  Og annað sem mér finnst nefnilega vera galli á þessu er að AF því að hann á 3 börn þá mun hann ekki geta einbeitt sér að einhverjum stjörnuframa (en ef hann gerir það þá myndi ég ekki flokka hann sem ábyrgt foreldri því það eru ekki öruggar tekjur fyrir fjölskyldu í þeim bransa).  Ég er sem sagt að tala um Snorra enn og aftur því ég skil ekki hvernig stendur á því að hann kemst alltaf áfram með þennan fýlusvip og leiða sem hann gefur af sér.  Eða gefur ekki af sér því fyrir mér gæti alveg eins verið vaxmynd á sviðinu og spilað af bandi eins og að hafa hann.  En jæja það er mín skoðun.

Ok, snúum okkur þá að keppninni í gær Snorri byrjaði með þvílíkt drepleiðinlegt lag og söngurinn algjörlega flatur og gerði hreinlega ekki neitt fyrir mig.  Kom mér reyndar ekki á óvart.

Svo kom Bríet Sunna æðisleg þessi stelpa, það lýsir allt í kringum hana þegar hún birtist á sviðinu og hláturinn smitar alla alltaf og svo syngur hún eins og engill.

Að lokum kom Ína, vá flott og kraftmikil og gaman að sjá að hún er farin að fá að vera eins og 17 ára stelpa þrátt fyrir nokkur aukakíló í staðinn fyrir ömmufötin.

Seinni parturinn var verri hjá öllum og ég ætla svo sem ekkert að vera að tíunda það sérstaklega en skv. kvöldinu áttu Ína og Briet Sunna að halda áfram og Snorri að detta út en nei, þetta er aldrei eins og ég vil.  Ég reyni viku eftir viku að hlusta á hann hlutlaust og gefa honum séns því ég veit að ég á það til að vera dómhörð en NEI hann er EKKI með fallega rödd ég fengi taugaáfall ef ég ætti að hlusta á heila plötu með honum svo ef það eru fleiri eins og ég og allir sem ég þekki (því ég þekki engan sem fýlar hann nema eina 11 ára stelpu) þá selur hann ekki margar plötur.

En jæja ég ætla að hemja mig og segja bara vona að Bríet Sunna haldi áfram að gefa þjóninni eitthvað af þessu brosi sínu og sínum fallega söng (ég kaupi plötu með henni) og eins að NANA mín geri það líka og svo að sjálfsögðu ÍNA sem verður Idolstjarna Íslands 2006.  Ég kaupi allar þessar 3 plötur.

Að lokum ætla ég að vitna í orð Bjarna Benediktssonar forsætisráðherra:

Í lýðfrjálsu þjóðfélagi hafa menn rétt til að velja hinn verri kost, ef þeir sjálfir vilja.
kjg Athugasemd: Já þú segir það !! – ég var næstum búin að kjósa Snorra í gærkvöldi :S – fannst allt í einu eitthvað við hann hehe – ótrúlegt !!
En… kvaddi mína uppáhalds með tárum og var REIÐ út í Palla í fyrsta sinn fyrir commentið að hann “vildi sjá Ínu og Snorra” – það voru mjög óvarkár og leiðinleg orð sem ég vona að hann biðjist afsökunar á einhverntíman.
Well,, seeja
Hafrún (,Hafrún) 3.4.2006 19:55:21 Ný gleraugu ofl. Jæja þá erum við mamma  búnar að velja ný gleraugu handa mér.  Þau eru rauð og þeim fylgir Barbiehulstur.  Þið getið séð mynd af mér með þau á myndasíðunni minni.

Annars er allt gott að frétta af mér, við fórum í sveitina um helgina og það var bara gaman þó að það væri ískalt og ekkert vatn inni, en við vorum að spila og horfa á sjónvarpið og bara slaka á.
Svo sóttum við Kristófer í annan bústað á sunnudaginn og fórum með hann í okkar bústað og við lékum okkur smá stund og svo kíktum við til Hugrúnar og Baldurs (og Lukku sem kom ekki inn fyrr en ég var að fara) og Maju og Arons.  Það var bara fínt og við Kristófer fengum að fara í tölvuna hjá þeim og á leikjaletið svo okkur leiddist ekki neitt.

Á föstudaginn næsta á mamma mín afmæli og Addi pabbi hennar Önnu Daggar líka en hann er 40 ára og ætlar að halda stóra veislu en ekki mamma, kannski hefur mamma smá kaffi á sunnudaginn fyrir afa og ömmu og einhverja fleiri.  En þegar afmælið hans Adda er þá ætlar Kolla frænka að passa mig og Önnu Dögg svo það verður nú gaman hjá okkur.

Svo ætlum við fjölskyldan að fara um páskana til Vestmannaeyja, jibbý jey.  Ég hlakka svo til að hitta hana Söru frænku mína og kettina og Konný og Markús og Silju Ýr og Ömmu Steinu og og og það er bara svo gaman í Vestmannaeyjum.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 8.4.2006 08:19:06 Addi (ekki Idol) Jæja þá er Addi mágur orðinn 40 ára og bjóðum við hann velkominn í fullorðinna manna tölu.  En ég átti svo sem líka afmæli í gær og fékk afmælissöng frá vinnufélögunum og Klöru systir og fullt af kossum.  En í gærkvöldi var veisla hjá Adda og hafði hann boðið alveg fullt af fólki bæði sem ég þekkti og svo fullt sem ég þekkti ekki neitt.  Veislan var haldin í sal úti í bæ og vorum veitingarnar alveg frábærar en þetta var standandi boð og ég hefði kannski þurft að vita það með mína gömlu fætur því þá hefði ég klætt mig öðruvísi og verið á lágbotna skóm en ég nældi mér nú fljótt í sæti og reyndi að halda því en það gekk náttúrulega ekki mjög lengi ef ég stóð upp.
En það voru haldnar þarna nokkrar ræður eins og gengur og gerist og svo var hápunktur kvöldsins þegar hin geysivinsæla hljómsveit Titanic steig á svið og tók nokkur lög.  Og viti menn þeir höfðu engu gleymt strákarnir og mér finnst þeir enn jafn flottir og mér fannst þá enda GRÚBBPÍA NÚMER 1. Við Ásta María fengum smá gamlan fíling en hefðum nú kannski sleppt okkur meira í minna dönnuðu partýi svo við létum okkur nægja að vera til hliðar og syngja með dilla okkur.
Helga Óskars söng eitt Dylan lag og það var æðislegt hjá henni enda er hún með svo frábæra frekar dimma rödd.

Ég skelli inn tveimur myndböndum teknum á litlu vélina svo gæðin eru ekki mikil en bara svona uppá grínið.

Í dag er miklu frekar minn afmælisdagur en í gær og hlakka ég til að fá góðan mat í kvöld sem ég kem hvergi nálægt.  Feðginin ætla að elda eitthvað gott handa mér og dekra við mig í kvöld.

Ástrós Mirra er greinilega ekki mikið fyrir að láta passa sig, meira að segja þó það sé Kolla frænka því Kolla sagði mér í nótt þegar ég keyrði henni heim að Ástrós hefði sagt að henni þætti ekkert gaman að vera í barnapössun, og það sama sagði svo prinsessan sjálf við mig í morgun þegar hún vaknaði.

En njótið helgarinnar

Ps. frétti að Snorri hefði verið kosinn Idolstjarna Íslands og ég á ekki til orð, hélt aldrei að það yrði.  Verð að horfa á endursýninguna í dag svo ég sjái hvernig stóð á þessu.  Kannski var það af því að ég var ekki að kjósa Ínu.  En samt til hamingju Ína þú varst best, sama hvernig þetta fór.
kjg 9.4.2006 09:07:01 Söngkeppni Ókey, ég er ekki eins galin og vonlaus og ég var farin að halda eftir síðustu Idolsyrpu.  Ég horfði nefnilega á Söngkeppni framhaldsskólanna í gærkvöldi og var með 3 efstu sætin rétt, þannig að það segir mér að þegar fagfólk er að velja þá er ég með sama smekk en þegar “þjóðin” velur klikka ég á þessu.  Líklega veit ég ekki nógu vel hvað börn eldri en 5 ára og yngri en 18 eru að hlusta á og finnst flott, því ég veit nefnilega að 18 ára unglingar eru með ótrúlega góðan tónlistarsmekk og fara svo oft aftur í tímann í lagavali sbr. með Silja Ýr frænka mín, hún er með mjög skemmtilegan múskíksmekk og það sama sá ég í keppninni í gær.  Frábær lög sem þessir krakkar voru að velja sér.

Reyndar hefði ég viljað að Eyjastelpan hefði unnið af því að ég þekki mömmu hennar og var með henni líka sjálfri í leikfélagi Vestmannaeyja og aðallega af því að hún er frábær söngkona.  Svo fannst mér Kópavogsstelpurnar gjörsamlega æðislegar og hefði líka viljað að þær hefðu unnið og eins Skagastelpan en það skiptir ekki öllu máli, aðalmálið var að þær bestu deildu efstu sætunum.

Að lokum spyr ég bara hvar kaupir maður plötuna með þeirri sem vann í fyrra því hún er “Beond this earth” geðveikislega góð stelpan og enn og aftur skemmtilegt lagaval.  Þessi keppni var æðisleg og frábært hvað krakkarnir eru farin að leggja mikið í þetta.

Til hamingju Félag framhaldsskólanema með þessa keppni.

Að lokum ég er svo fegin að vera búin að endurheimta sjálfsálit mitt eftir þessi keppni.
kjg 10.4.2006 18:09:19 Stjörnumerkin
Smá um stjörnumerkin…

Hrútur (20. mars – 20. apríl): Þú ert óþolinmóður og fljótfær egóisti, góður að lofa öllu fögru, en fljótur að gefast upp og láta aðra þrífa upp skítinn. Þú ert keppnismaður og sérlega klár í að keppa við ranga aðila og slá tilgangslaus högg útí loftið. Þú ert kvikindi, en það hjálpar hversu einlægur, barnalegur og einfaldur þú ert.

Naut (20. apríl – 21. maí): Þú ert latur og þrjóskur, enda löngu staðnaður og fastur í sama farinu. Peningar og þægindi eru það eina sem þú hugsar um, enda háður nautnum, mat, sykri og skynörvandi efnum. Þú hreyfist ekki úr stað og selur sannfæringu þína hæstbjóðenda. Þú ert lítið betri en stífluð rotþró.

Tvíburi (21. maí – 20. júní): Þú ert eirðarlaus og yfirborðslegur, alltaf á hlaupum frá einu tilgangslausu verkefni í annað, með hundrað ókláruð járn í eldinum. Þú ert sí ljúgandi, enda sérfræðingur í að gefa loforð sem þú getur ekki staðið við. Vissulega ertu vel gefinn, en þú sóar hæfileikum þínum í blaður og óþarfa.

Krabbi (21. júní – 23. júlí): Þú þykist vera töff, en ert í raun aumingi og tilfinningasósa, og getur ekki talað og tjáð þig, nema með því að væla og kvarta. Þú ert fastur í fortíðinni og munt því fyrr en síðar kafna í drasli og gömlum minningum. Þegar þú reiðist þá fer allt í einn graut og upp blossar grimmd og hefnigirni. En svona dags daglega þá ertu fúll, þunglyndur og sjálfsvorkunnsamur.

Ljón (22. júlí – 23. ágúst): Þú ert eigingjarn og of upptekinn af eigin málum til að hafa áhuga á öðrum. Þú veist allt og hlustar ekki eða öskrar á andmælendur þína. Þú ert svo barnalegur, einlægur og trúgjarn, að það er augljóst að þú hefur aldrei fullorðnast. Þú ert latur, en þegar þú gerir eitthvað, þá gengur þú of langt.

Meyja (23. ágúst – 23. september): Þú ert einn leiðinlegasti maður í heimi, alltaf að kvarta, gagnrýna og skipta þér af fólki, en segir aldrei neitt sem gagnast öðrum. Þú ert alltaf á hlaupum, þykist vera duglegur, en gerir aldrei neitt af viti, ekki frekar en stormur í tebolla. Þú ert stressuð taugahrúga.

Vog (23. september – 22. október): Þú þykist vera ljúfur og vingjarnlegur, en ert í raun falskur og eigingjarn, brosir framan í fólk, en lýgur og ferð bakvið aðra. Það tekur þig óratíma að taka ákvaðanir, en þegar það loksins gerist, ertu óhagganlegur, enda of latur til að hugsa málin aftur og of upptekinn af því að smjaðra fyrir öðrum.

Sporðdreki (23. október – 21. nóvember): Þú ert frekur og valdasjúkur, færð einstök mál á heilann (þráhyggja) og ert því einhæfur og hundleiðinlegur. Þú ert ímyndunarveikur og tortrygginn, móðgast útaf engu og gerir úlfalda úr mýflugu. Lífið er annað hvort frábært eða ómögulegt. Þú ert eins og biluð plata, stöðugt að spila sama lagið.

Bogmaður (22. nóvember – 21. desember): Þú ert týpan sem grautar í öllu, en kann ekkert, enda alltaf á hlaupum úr einu í annað. Þú átt erfitt með að þekkja takmörk þín, ert agalaus, flýrð óþægindi og veist ekki hvernig þú átt að nýta hæfileika þína. Ef þú nærð tökum á einhverju, þá hleypur þú í verkefni sem þú ræður ekki við.

Steingeit (21. desember – 20. janúar): Þú ert stífur og vansæll vinnualki, fastur í tilgangslausum siðum og reglum, alltaf að skipta þér af öðrum og segja þeim að gera það sem þú getur ekki gert sjálfur. Þú ert snobbaður og þráir stöðutákn, enda með minnimáttarkennd sem þú heldur að hægt sé að breiða yfir með titlum og merkjavöru.

Vatnsberi (20. janúar – 19. febrúar): Þú ert sérvitur og skrýtinn, og alltaf svo langt á undan samtímanum að enginn skilur þig eða getur notað hugmyndir þínar. Vissulega ertu svalur, en þú ert svo sjálfstæður, ópersónulegur og hræddur við raunverulegan innileika, að þú ert í raun alltaf einn, frosinn í einskis manns landi. Týndur á skýi í háloftunum.

Fiskur (19. febrúar – 20. mars): Þú ert rugluð og týnd sál og hefur ekki hugmynd um hvernig þú átt að nýta hæfileika þína eða í hvaða átt þú átt að fara. Þú vilt vera alls staðar og upplifa allt. En þar sem þetta er ómögulegt, þá fer allt í vitleysu. En það gerir ekkert til, þú ert sérfræðingur í sjálfsblekkingum og því að flýja raunveruleikann.
kjg 11.4.2006 10:16:00 1000 gesturinn Þúsundasti gesturinn á síðuna okkar eftir að við fluttum okkur til 123.is er ………………….

Íris sem vinnur með mömmu.

Til hamingju Íris þú færð knús og kossa.
kjg Athugasemd: og spáið í það, þú(Kristín) varst hjá mér þegar það gerðist. Frábært. Takk fyrir knúsinn og kossana.
Íris
P.S Stína biður að heilsa. (,Íris) 12.4.2006 18:22:28 Flensan Jæja góðir hálsar þá er ég líklega búin að fá flensuna.  Ég var eitthvað smávegis slöpp á mánudaginn og vildi ekki fara í leikskólann og mamma og pabbi ákváðu fyrst pabbi var heima að leyfa mér það.  Svo þegar líða fór á daginn fór hitinn að hækka og endaði í 40.5 kl. 20 og þá brá mömmu og pabba og mamma lagðist við hliðina á mér og pabbi pollrólegur klæddi mig úr fötunum til að kæla mig niður.  Það virkaði eftir 20 mín. var hitinn kominn niður fyrir 40 gráðurnar og svoleiðis hélt það áfram um kvöldið.
Svo í gær var ég með svona frá 5 kommum uppí 38, 5 en aldrei meira og þegar hitinn var að byrja að stíga um kl. 19 gaf mamma mér panodil og ég sofnaði og það virðist hafa dugað.  Hitinn varð aldrei neitt alvarlegur.  Og ég svaf til morguns sem er náttúrulega bara gott.
Í dag var ég meira og minna hitalaus svo við stefnum ótrauð á Eyjarnar í fyrramálið.  Ég verð bara að hafa mig til hlés eða allavega passa mig og enginn þvælingur er leyfilegur.

En vitiði ég hlakka svo til að fara til Eyja og vera þar í 5 daga, því mér finnst ég alltaf vera rétt komin þegar við erum að fara aftur heim.

Hlakka til að sjá ykkur Silja, Sara, Konný, Markús, kettirnir, fuglinn og allt.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 15.4.2006 08:38:00 Eyjarnar mínar
Til hamingju mamma og pabbi með 11 ára brúðkaupsafmælið ykkar!

 

En jæja, þá er ég í Eyjum og uni mér þvíliíkt vel. Ég var reyndar ekkert ánægð þegar við komum með Herjólfi og mamma og pabbi ákváðu að kíkja við hjá ömmu Steinu í staðinn fyrir að fara beint heim til Konnýjar og kattanna.  Já ég segi kattanna því ég er að þvælast með þessa tvo stóru ketti daginn út og daginn inn á milli þess sem ég er að leika við hana Söru frænku mína.

Við Sara erum búnar að vera rosalega góðar að leika okkur saman sem er frábært af því að ég hef ekki mátt fara út því ég var svo lasin í síðustu viku en ég er búin að vera hitalaus hér en með ljótan hósta og mjög rám.

Á fimmtudaginn þegar við komum kíktum við sem sagt fyrst til ömmu Steinu og svo fórum við til Konnýjar og vorum bara þar allt kvöldið nema mamma og pabbi skruppu í smá bíltúr í sólinni að taka myndir og njóta Eyjanna.

Svo í gær þá vorum við bara heima hjá Konnýju fram eftir degi, pabbi var að gera við ljósið á bílnum okkar og þvo hann og bóna svo hann hefur aldrei verið svona flottur og fínn áður.
En klukkan hálf fjögur fórum við í afmæli hjá Hauki sem varð 14 ára og er sonur hennar Guðrúnar vinkonu mömmu minnar og þar voru aldeilis fínar kökur en ég var eitthvað smá leið að Sara væri ekki að leika við mig en svo lagaðist það þegar Óli Jakob vaknaði og kom að leika þó að hann sé pínulítill þá var hann bara skemmtilegur.

Svo fórum við í gærkvöldi til ömmu Steinu í hangikjöt og það var nú aldeilis fínt, Sara kom með því hangikjöt er uppáhaldsmaturinn hennar og svo var Eddi þarna líka.  Ég var nú skárri við ömmu mína núna en hún á greinilega langt í land með að keppa við Konný með kettina.  Kannski ef amma fengi sér kettling þá næði hún kannski í skottið í Konnýju, það er spurning.

Í dag er stefnan tekin á Fiskasafnið með pabba og mömmu og ætlum við að bjóða Már afa með og ömmu Steinu líka ef þau vilja.  Svo er okkur líka boðið í mat í kvöld hjá Ástu Maríu og Grím en hann var með pabba mínum í hljómsveitinni Títanic þegar þeir voru ungir, og eiga þau stelpu sem er jafngömul mér svo það ætti nú að verða gaman.

Svo á morgun förum við að finna páskaeggin okkar. Jibbý.

En þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra

kjg Athugasemd: skemmtið ykkur vel í Eyjum (,Anna Sif) 20.4.2006 10:00:00 Gleðilegt sumar! Þá er sumardagurinn fyrsti runninn upp með sól og blíðu.  Við ætlum nú að gera ýmislegt í dag, td. fæ ég að fara á hestbak og hlakka þvílíkt til.  Svo ætlum við að kíkja á skemmtiatriðin á Thorsplani og fá okkur svo súpu á Fjörukránni og enda daginn á að horfa á The Cronicle of Narnia sem við fengum lánaða.

En við erum náttúrulega komin frá Eyjum, áttum þar frábæra páska og ég uni mér svo vel þar að bardúsa með kettina hennar Konnýjar og svo fórum við að heimsækja Gylfa og Rúnu og þau eiga hamstur sem heitir Sprettur og er mjög skemmtilegur og nú langar mig svo mikið í hamstur.  En mamma var að reyna að segja mér að maður léti ekki dýrin sín frá sér og var þá að meina Selmu naggrís en ég sagðist ekkert ætla að láta hana frá mér, við gætum alveg verið með tvo dýr, hamstur og naggrís.  Og ekkert meira með það, þetta er ekkert flókið þó mömmu og pabba finnist það.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 22.4.2006 09:16:00 Kolla frænka íbúðareigandi Þá er Kolla frænka orðin íbúðareigandi, hún fékk afhenta lyklana í gær og við fórum að skoða íbúðina hennar.  Hún er æðisleg og svo ætla mamma og Kolla að fara í dag að kaupa húsgögn og fleira sem vantar inn.

Til hamingju Kolla mín.

Svo þegar við vorum búin að skoða íbúðina með Kollu þá fórum við í mat til Önnu Daggar og fjölskyldu og áttum mjög góða kvöldstund, fórum ekki heim fyrr en eftir klukkan tíu (mamma skamm) og við krakkarnir vorum að leika okkur í búningaleik og settum hárkollu á Óskar Orra og Jón Andra og fleira skemmtilegt sem þið getið séð í myndaalbúminu mínu, endilega að kíkja þar og kvitta svo fyrir heimsókninni.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 27.4.2006 20:02:00 Kollu pælingar Vá, þá er Kolla frænka loksins flutt að heiman, eða þannig.  Fyrsta nóttin í nýju íbúðinni er í nótt og ætlar Sigrún frænka að vera hjá henni.
Ég er búin að vera á fullu í undirbúningi með henni fyrir þetta stóra skref og það hefur sko þurft í mörg horn að líta þar sem hún þarf ennþá hjálp við allt.

Það þurfti að fara til Félagsþjónustunnar til að sækja um Liðveislu fyrir hana og þá kom í ljós (enn og aftur) að hún á ekki rétt á því þar sem hún er bara 65% öryrki en ekki 75% en það þarf alls staðar að vera 75% til að fá þjónustu.  En þau á Félagsþjónustunni sögðust myndu líta framhjá því ef heimilislæknirinn hennar Kollu myndi skrifa bréf og segja að hann teldi að hún þyrfti að fá þessa þjónustu.

Jæja við pöntum tíma hjá Sigurði heimilislækni og þurftum að bíða í tvær vikur eftir þeim tíma.

En í millitíðinni fékk Kolla íbúðina afhenta (þe. á föstudaginn síðasta) og ég hef ekki séð glaðari manneskju í langan tíma, hún vissi ekkert hvern hún ætti að faðma næst eða í hvaða átt hún ætti að snúa sér og sagðist vera alveg að fara að gráta.  Mikið var gaman að fá að vera viðstödd svona stóra stund í hennar lífi.

Nú nú við förum uppeftir í Fannborg 5 að fara að mæla allt svo hægt sé að fara að kaupa húsgögn og allt sem þarf í nýja íbúð.  Reyndar byrjuðum við á því að þrífa og mikið fannst Kollu skemmtilegra að þrífa þarna en annars staðar.  (Stóð hana að því að pússa viftuna ef ég vogaði mér að káfa á henni).

Á laugardaginn fórum við saman í IKEA, Húsgagnahöllina og Rúmfatalagerinn og var mikið keypt.  Sófi, hægindarstóll, hillusamstæða, sófaborð, eldhúsborð og stólar en á föstudaginn keyptum við allt sem þarf til að þrífa ásamt þvottakörfu og fleira þess háttar.  Ég var gjörsamlega uppgefin eftir þennan laugardag en Kolla blés ekki úr nös og held ég að gleðivíman fari ansi langt með mann.

Jæja ég fékk frí á sunnudaginn en ekki Kolla, því hún fór með Kollu og Gunna í Elkó að kaupa þvottavél, þurrkara og ísskáp.

Á mánudaginn áttum við von á að fá sendingar frá 5 verslunum með 5 sendibílum, það stóðst nú ekki alveg því Ikea misskildi okkur eitthvað og Rúmfatalagerinn sendi bara helminginn, en báðir aðilar sendu okkur rest á þriðjudaginn. En Elkó og Ragnar Björnsson (rúmið sem hún fékk frá systkynum sínum) og Húsgagnahöllin stóðu sig vel.

Mamma, Siggi, Þráinn, Ástrós Mirra, Gunni og Kolla (og ég og Kolla) vorum á mánudaginn að taka á móti þessu öllu og setja saman því við versluðum bara í ódýru búðunum þar sem samsetning er ekki innifalin í verði.  Þetta tók þokkalegan tíma en tókst með góðra manna samvinnu.

Já og þriðjudagurinn fór í það að taka á móti stofusófanum og sófaborðinu og festa upp myndir og ýmislegt þess háttar.  Klukkan rúmlega 18 datt okkur í hug að drífa okkur bara í Íkea að kaupa gardínur svo hægt yrði að festa þær upp daginn eftir og þetta gerðum við og festu Þráinn og Gunni þær upp á miðvikudaginn en við Kolla fórum í hennar fystu verslunarferð í Bónus að kaupa í matinn fyrir hana sjálfa.

Og sem sagt í dag er fysti dagurinn af restinni af hennar lífi sem sjálfstæð manneskja með sjálfstæða búsetu.  Frábært Kolla og ég er svo stolt af þér.

Þó er ekki allt búið því það á eftir að taka saman alla pappíra og fara með Kollu í greiðslumat og sækja síðan um lán fyrir hana og þá að sækja um greiðsluþjónustu svo allir reikningar verði greiddir sjálfkrafa og minna fyrir okkur að hugsa um í þeim efnum.

Að lokum langar mig að segja frá því að ég hef fulla trú á því að Kolla plummi sig vel svona sjálfstæð en það þarf að kenna henni ansi margt.  En hún getur lært ef við sem ætlum að kenna henni erum þolinmóð.  Og þá komum við að því sem ég hef mestar áhyggjur af og það er að hún verði einmana og að ég og Ása Kolla verðum ekki alltaf tiltækar þegar hana vantar aðstoð.  Þess vegna sóttum við nú um þessa liðveislu því við erum báðar í fullri vinnu með heimili þannig að aukatími er ekki mikill og það er dálítið mikið að þurfa að bæta við sig kannski tveimur tímum annann hvorn dag til að hjálpa henni þó við séum allar af vilja gerðar. Ég hefði viljað sjá fjölskylduna skipta á milli sín dögum og setja saman stundaskrá en ég hef ekki fengið nein viðbrögð við því þegar ég hef nefnt það við fólk.

En sem sagt við fórum til Sigurðar læknis í gær og hann er greinilega með alla hluti á hreinu varðandi Kollu og afa og ömmu líka.  Ástæðan fyrir því að Kolla er ekki 75% öryrki er einfaldalega sú að hún er í vinnu.  Samt var tiltekin öll hennar skólaganga, og eins að hún hafi slitgigt, slæm í baki og háan blóðþrýsting.  En Sigurður læknir ætlar að skrifa þetta bréf til Félagsþjónustunnar svo þetta ætti að ganga upp.  Eða það hélt ég þar til ég heyrði í þeim í dag og þau eru mjög velviljuð en eru í mannahallæri.  Það gat nú verið, þegar kerfið loksins samþykkir Kollu þarna inn, þá eiga þau ekki starfsfólk.  En við verðum að vera vongóð eða þá bara að Kolla verður búin að læra alla þessa hluti þegar hún loksins fær liðveisluna en það er þá allt í lagi, við notum hana þá bara sem félagsskap.

Vá hvað ég er búin að skrifa mikið, stundum er eins og maður geti ekki stoppað en þetta hefur verið heilmikið mál undanfarið og ég hef lítið getað hugsað um sjálfa mig og mína svo kannski ég skrifi mig bara frá þessu núna.

Vona að fólk verði duglegt að heimsækja Kollu og þá frekar færri í einu og oftar, því hún er svo mikil félagsvera.
kjg 29.4.2006 10:00:00 Að gista Ég var að gista hjá Kollu frænku í nótt og það gekk rosalega vel.  Og takið eftir að það ekki það sama að gista og fara í pössun.  Ég var að gista hjá henni af því að ég vildi það en ekki af því að mamma og pabbi væru að fara eitthvað enda voru þau bara heima og vissu ekkert hvað þau ættu af sér að gera.
En í gærkvöldi var Kolla frænka með matarboð fyrir okkur 3 og Kollu og Gunna og það gekk þvílíkt vel, kjúklingabitar úr Nóatúni og terta í eftirrétt sem henni hafði verið gefin, og svo sem sagt heimtaði ég að fá að gista hjá Kollu sem ég fékk.
Við sváfum bara saman í stofusófanum og ég svaf meira að segja til hálf níu sem er bara ágætt fyrir mig.  En mamma vaknaði víst klukkan sjö og gat ekkert sofnað meira.  Held hún sakni mín svona mikið að hún getur bara ekki sofið ef ég er ekki hjá henni.
Við ætum að vera svolítið myndarleg um helgina og reyna að mála bakvið ísskápinn (en það varð eftir þegar nýja innréttingin okkar kom) og svo ætlum við mamma á tónleika á morgun í Langholtskirkju en annars á þetta bara að vera smá vinnuhelgi á heimilinu því það spáir bara rigningu og leiðindum.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 30.4.2006 15:11:00 24 ár Á morgun 1. maí eru 24 ár síðan tveir unglingar sváfu saman í fyrsta skipti.

Strákurinn var 17 og stelpan 19.

Hún var farin að búa með vinkonu sinni á Bessastíg 8, eldgömlu skemmtilegu húsi sem skiptist í tvær íbúðir eftir miðju húsinu, þannig að íbúðin var á 3 hæðum, þvottahús, klósett og sturta í kjallaranum og stofa og eldhús á miðhæðinni en tvö svefnherbergi í risinu.  Þetta var bara krúttaralegt gamalt hús með skrítnu fólki hinum megin.

Á þessum 24 árum sem strákurinn og stelpan hafa verið saman hefur heilmikið gerst, það merkilegasta samt er að þau eru ennþá saman, kærustupar, gift hjón eða hvað þið viljið kalla þetta.  Þau eiga eina stelpu sem fæddist eftir 18 ára sambúð og 16 ár án getnaðarvarna.  Það gekk á ýmsu þegar þau voru að reyna að eignast þetta barn en þau gáfust ekki upp og þá sannast máltækið “þolinmæðin þrautir vinnur allar”.

Fyrstu sambúðarárin sín bjuggu þessir krakkar í Vestmannaeyjum, fyrst á Bessastíg 8, síðan á Kirkjuvegi 88, þá keyptu þau sína fyrstu íbúð að Foldahrauni 42 og síðan keyptu þau hús að Hásteinsvegi 15.

Árið 1995, nánar tiltekið 15 apríl giftu þau sig með pompi og prakt í Háteigskirkju og héldu veislu á Hótel Sögu.  En í apríl árið eftir fluttu þau búferlum til höfuðborgarsvæðisins.  Bjuggu fyrst í íbúð í Mosfellsveitinni nánar tiltekið á Teigi, fluttu þaðan á Laufvanginn í Hafnarfirði, þá á Sævang í Hafnarfirði og búa nú á Suðurbrautinni í Hafnarfirði.  Þau eiga núna líka lítið kot við Þingvallavatn og njóta þess að vera þar um helgar og á sumrin.

Frá því að þessir krakkar hittust fyrst hafa þau unnið í fiski í Vestmannaeyjum bæði, hún fór svo í sjoppu og þaðan á Tangann sem var stórmarkaður þess tíma, þaðan fór hún á bæjarskrifstornar í Eyjum og vann þar þar til þau fluttu.  Hann vann við smiðar hjá Valgeiri, svo í Skipalyftunni, síðan aftur við smíðar í Skipaviðgerðum og fór á samning þar, en þar sem lítið var smíðað í Eyjum dreif strákurinn sig á sjó í nokkur ár og var á  Öðlingi, Sighvati Bjarnasyni og Dala-Rafni þar til þau fluttu.

Á stórreykjavíkursvæðinu fór hún að vinna hjá AKS sem síðar sameinaðist Forritun og varð Forritun-AKS sem síðar var keypt af Tölvumyndum og splittaðist svo upp í Maritech sem núna er samt aftur 100% í eigu TM Software og er hún þar enn.
Hann aftur á móti byrjaði hjá Álftarrós, síðan Friðjóni og Viðari og þá Eykt, en breytti svo til fyrir tæpum tveimur árum og er farinn að vinna hjá Gluggum og Garðhúsum í Garðabænum en þeir smíða sólskála og svalalokanir.

Þau hafa haft það mjög gott eftir að þau fluttu uppá land því þar hafa þau haft mun hærri tekjur en þau höfðu í Eyjum, en þau eru og verða Vestmannaeyingar “No matter what”.

Áður en þau fluttu höfðu þau farið í eina utanlandsferð, til Rhodos í Grikklandi, en síðan hafa þau farið í þær nokkrar, td. Glasgow, Dublin, Barselona, Þýskaland, London, Kanaríeyjar og ætla sér til Tenerife í sumar.

Þau eru mjög söngelsk og hafa mikinn áhuga á leikhúsi og störfuðu bæði með leikfélagi Vestmannaeyja og nú er strákurinn búinn að skrá sig í leikfélag Hafnarfjarðar og ætlar vonandi að gera einhverja skemmtilega hluti með þeim.  Hann hefur líka leikið í nokkrum litlum hlutverkum í sjónvarpsþáttum og bíómyndum, hlutverkið í sjónvarpsþættinum var heldur stærra en þetta í bíómyndinni (við sáum hana aldrei sjálf) og vonandi að hann fái seinna eitthvað fleira að gera í þeim efnum því hann á svo auðvelt með þetta.

Stúlkan varð svo fræg að verða hluti af hljómsveit sem var stofnuð í Martech og reyndar strákurinn líka, hann var aðalsöngvarinn en stúlkan í bakröddum en það var líklega meira upplifelsi fyrir hana en hann því hann hafði verið í nokkrum hljómsveitum um ævina og skemmst frá því að segja að hann var í einni slíkri þegar þau kynntust en hún hafði aldrei svo sem fengið neitt hrós fyrir sönginn sinn.

Litla stúlkan sem þau eiga er fallegasta og gáfaðasta barn í heimi og hefur gefið þeim svo mikið að öll árin sem fóru í það að reyna að búa hana til urðu alls þess virði.
Þið sem lesið þetta hafið náttúrulega lesið um þetta frábæra barn og það verður áframhald á því en þetta var svona lítil ævisaga tveggja unglinga sem felldu hugi saman 1. maí 1982.
kjg Athugasemd: Hæ og til hamingju með árin 24 !!
Geggjað afrek 🙂
Vona að ég nái svona mörgum árum einhverntíma 😉 en það verður í fyrsta lagi þegar ég er 57 ára …. hver veit ?
Þið eruð frábær og haldið áfram að vera svona “eðlileg” 🙂
sjáumst
Hafrún (,Hafrún) 4.5.2006 20:00:00 Brostu!
Þeir hjá 123 eru búnir að ákveða að nú er kominn tími til að brosa og best að gera það þrátt fyrir alla rigninguna núna, í dag er annar dagurinn sem við í blokkinni ætlum út að hreinsa lóðina en það rignir svo mikið að við frestum því enn og aftur og nú til mánudags, takið eftir mánudags (það spáir sól en ætti að rigna skv. þessu).

Við erum búin að plana sumarbústaðaferð um helgina í sólinni (vonum að það standist) og á að slaka vel á og leika sér, við erum nú búin að lofa heimasætunni að fara í sund, hún er alltaf að biðja um það og alltaf segja foreldrarnir æi, ekki núna en nú skal verða bragarbót á því og liðið skellir sér í sund.
Annað sem á að gera í bústaðnum er að chilla, því er farið að róast í Kollumálum í bili.  Það gengur rosalega vel, hún er td. með partý núna fyrir kellur úr vinnunni og Sigrún frænka ætlaði að aðstoða hana og stinga svo af.

Annað stórt mál er að við fengum símhringingu frá Hvaleyrarskóla og spurð hvort við ætlum ekki að innrita dóttur okkar í skólann?  Bíddu, jú en fáum við ekki bréf?  Nei, það kom auglýsing í febrúar í öllum blöðum… greinilega þann daginn sem ég las ekki blöðin. En ég fékk að skrá ÁM í skóla (við ættum kannski bara að kenna henni heima!) og svo á hún bara að byrja í haust.  Bíddu hvar er voskólinn?  Á móðirin ekki að fá neina aðlögun, hvað halda þessi skólayfirvöld að þau séu að það sé bara hægt að taka barnið af manni og skella því í skóla.  Þetta er ekkert smámál, þetta er risastórt mál og hana nú.  Hvar á að ganga inn í skólann?  Ég veit ekki einu sinni hvar á að beygja inná skólalóðina.  Það byggist allt á Íslandi á því að maður eigi tvö börn og noti eldra barnið til að læra en ég á bara eitt barn og á enga vini með börn í þessum skóla og veit varla hvar skólinn er…. hvar geta foreldrar farið á námskeið til að læra að setja barnið sitt í skóla?
Þetta var svipað á leikskólanum foreldraviðtalið núna (rétt fyrir útskrift) gekk vel því ég vissi á hverju ég ætti von og hvað væri talað um og til hvers ætlast af mér en það tók 2 ár að fatta það og nú er það komið í lag, þá skulum við færa barnið þitt í annars konar skóla svo þú getir byrjað upp á nýtt.
En sem sagt hún á að byrja í skóla líklega 21. ágúst og það verður auglýst í blöðunum sagði stúlkan og skellihló, það er nú bara einsgott að þeir sendi mér bréf, ég vil fá bréf þegar svona stórt er í gangi eins og það að byrja í skóla.

En jæja ég vona að við náum þessu öllu á fyrstu 3 árum ÁM í skólanum og svo sér hún um sig sjálf eftir það eða er það ekki?  Nei líklega ekki og líklega verðum við allan tímann að læra þetta.

Að lokum tek ég undir með þeim á 123 og segi bara BROSTU!

 

 

kjg Athugasemd: Geggjað hjá þér! Ég hló svo mikð þegar ég las um Hvaleyraskóla og upplifun þína á að senda barni í skólann í fyrsta sinn. Þetta er nefnilega alveg merkilegt og ákkúrat svona upplifði ég þetta. Maður átti bara vita allt en engin sagði manni neitt……..ég sá heldur enga auglýsingu og skráði ekki heldur dóttir mína..hahah.

þú ert frábær!

Jóhanna (johanna@hjalli.is,Jóhanna á Smáralundi) 8.5.2006 21:12:25 Idol  Jæja ég er aftur dottin í Idol og það Amarican Idol en það er nú bara af einni ástæðu og hún er Þráinn minn.  Ég nefnilega hafði ekkert fylgst með þessu núna en fékk alltaf að heyra á þriðjudagsmorgnum hvað hann Þráinn minn hefði staðið sig vel en það er sem sagt söngvari þarna sem fólki finnst svo líkur Þráni.  Einhver hafði á orði að þessi söngvari væri svona blanda af Þráni og Vin Diesel sem er ekki slæm blanda.

Nú og svo er það Eurovision í næstu viku og hvar haldið þið að ég verði þegar undankeppnin verður?  Ég verð í Herjólfi á leið til Eyja að hjálpa pabba gamla að halda uppá 70 ára afmælið sitt.  Það er ekkert smá sem maður fórnar fyrir sína!

Það kom smá pása hér á bloggið því Cris var að syngja og Oh, my god hann er æðislegur, vona að hann vinni þetta.

En það er lítið annars títt nema að sumarið er komið með 18 stiga hita á Þingvöllum í gær og 15 stiga hiti í bænum í dag svo þetta er bara frábært.

Gleðilegt sumar

kjg Athugasemd: Áfram chris !!! (http://www.123.is/stina/,Íris) Athugasemd: GO Silvia,
Það er miklu fórnað að fórna Eurovision, let me know, I gotta do it tooo :'(
http://www.esctoday.com – hér er hrikalega skemmtileg Eurovision síða, svo þú getir hitað upp fyrir Herjólf ;)…..
En… Chris Rocks !!

(,Hafrún) 11.5.2006 18:42:37 Ekki kyssa bless Mamma hvað er ég búin að segja þér!  Ekki kyssa bless, sagði ég við mömmu í morgun þegar hún kallaði á eftir mér “Á ekki að kyssa mig bless?” og mamma hálffölnaði og sagði “Æi, fyrirgefðu en vinkaðu mér þá!  Þá setti ég nú hendur á mjaðmir og sagði aftur:  “Mamma hvað var ég búin að segja þér!  Ég þarf ekki heldur að vinka þér.   Mamma var heldur niðurlút þegar hún ætlaði út í morgun en þá bjargaði Marsela málunum og sagði “Við skulum vinka þér” og svo vinkuðu fóstrurnar mömmu bless.

Ég held að mamma sé ekki alveg að fatta að ég er að stækka svolítið mikið núna, ég er nú að fara í skóla í haust, og ég er að fara að leika í útskriftarleikriti með skólahópnum mínum á laugardaginn og það þýðir bara að ég fer að útskrifast.

Vitiði nefnilega svolítið annað…. ég er alveg að missa fyrstu tönnina, hún er laflaus og það þýðir líka bara eitt, ég er að verða 6 ára og er að stækka svolítið mikið núna og mamma er bara ekki alveg að átta sig á því.

Svo var ég hjá tannréttingarlækni um daginn, því ég er með krossbit og Egill tannlæknirinn minn sagði að Sæmundur þyrfti að skoða mig sem hann og gerði og þá kom í ljós að við verðum að bíða eftir að 6 ára jaxlarnir komi niður áður en hægt sé að gera eitthvað en þegar það gerist (á næsta ári) þá þurfi ég bara smá spöng í efri góm í smá tíma því þetta uppgötvaðist svo snemma.  Þetta er nefnilega svo miklu meira mál ef ég væri orðin 11 ára.  Hjúkket að Egill tannlæknir tók eftir þessu strax.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 13.5.2006 10:15:00 Leiksýning í Gúttó
Á eftir kl. 11 hefst leiksýning

í Gamla Gúttó í Hafnarfirði

og eru það útskriftarnemar

Leikskólans Smáralundar að sýna

leikritið

“Leitin að hreina landinu”.

Ástrós Mirra leikur

svertingja frá Afríku.

 

 

 

kjg 13.5.2006 15:04:17 Leiksigur
Ef ekki var unninn leiksigur í dag, þá veit ég ekki hvað, þetta var gjörsamlega frábært hjá okkur 5 ára krökkunum á leikskólanum Smáralundi.

Leiksýningin heppnaðist vel og kórinn söng eins og englakór.

Svo fengum við útskriftarskjöl með þakklæti fyrir að hafa verið á leikskólanum.  Ég þakkaði Ingu Fríðu líka fyrir leikskólann minn.

Það eru bæði komnar inn nýjar myndir og fullt af myndböndum Leiksýningin í heild sinni og fleira.

Endilega commentið og kvittið í gestabókina okkar ef þið eruð að kíkja á okkur.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra.
kjg 13.5.2006 22:50:00 Hrúturinn í Flekkuvík Ég (Kristín Jóna) er um það bil 5 ára að leika með Konnýju og Kollu í gamla húsinu hans afa í Flekkuvík. Húsið er í eyði og ekkert gler í gluggum eða hurðar í húsinu.

Húsið er á tveimur hæðum og við förum upp á efri hæðina en á miðjum pallinum er einmitt gluggi og Konný systir lítur út og sér rollu fyrir utan og byrjar að jarma á hana, og það er eins og við manninn mælt rollan (sem var nú reyndar hrútur) kom æðandi inn í húsið og upp stigann á eftir okkur, stelpurnar ruku af stað með mig á milli sín og hlupu fyrst upp og síðan niður (og Hrúturinn á eftir) og þegar komið var út á tún tóku þær aldeilis á sprett og hlupu svo hratt að ég datt en þær drógu mig á milli sín og hlupu sem fætur toguðu að bústaðnum hjá afa og ömmu og öskruðu á afa sem kom út og skildi ekkert í þessum látum í okkur.

Stelpurnar sögðu honum sem var að hrúturinn væri á eftir okkur og afi sagði þær ekkert þurfa að óttast hann, hann væri ábyggilega jafn hræddur við þær og þær við hann en þegar afi stígur uppá þúfu til að svipast um eftir hrútnum þá kemur hann hlaupandi og stangaði afa beint í rassinn.

Við vorum aldrei alveg rólegar í Flekkuvíkinn eftir þetta fyrr en sumarið sem afi sagði okkur að hrúturinn væri dauður.
kjg 13.5.2006 23:02:00 Skíðadrottningin Ég (Kristín Jóna) er 15 ára á leið í skíðaferðalag með bekknum mínum, það á að fara í skátaskálann sem er hinum megin við þjóðveginn á móti Skíðaskálanum í Hveragerði.

Ég hafði aldrei farið á skíði og fékk því lánaðann búnað hjá vini mínum.  Rosalega fín skíði og stafi og eldrauðann skíðagalla sem var níðþröngur og flottur á mér.

Fljótlega eftir að við komum á staðinn og vorum búin að prófa litlu brekkuna okkar megin vildu krakkarnir fara yfir í Skíðaskálann og renna sér þar.  Að sjálfsögðu fór ég með.

Allir krakkarnir æða að skíðalyftunni sem er svona stöng með stýri neðan á og ég sé að fólk setur stöngina á milli lappanna á sér og fer þannig upp með lyftunni.  Ég geri það sama og sest á stýrið en … úps það gefur endalaust eftir og ég er alveg að detta niður en rétt næ að lyfta mér upp aftur og koma mér á rétt ról í brekkunni.  En hvað þá .. hvernig á ég að fara úr lyftunni, á ég að stökkva?  Á ég að skutla mér til hliðar?  Hvernig gerir fólk þetta?  Og áður en ég veit af er ég komin það hátt að ég neyðist til að láta mig detta út úr lyftunni.

Ég skríð aðeins frá svo ég sé ekki fyrir öðru fólki meðan ég bíð eftir Ingu vinkonu minni sem hafði nú stigið á skíði nokkrum sinnum.  Og sem ég sit þarna í brekkunni og horfi niður og hugsa Ó, mæ god, hvernig á ég að fara að því að renna mér niður alla þessa brekku, kemur allt í einu maður skíðandi til mín og stoppar beint fyrir framan mig og heilsar.

Og spyr svo hvort ég sé kannski til í að gera honum greiða?  Ég horfi á hann og segi: Greiða!  Já svarar hann, ég er nefnilega að fara að kenna svo stórum hópi á eftir og ætlaði að athuga hvort þú værir kannski til í að aðstoða mig.

Ég stari á manninn (hann veit greinilega ekkert um mig) meðan ég er að átta mig á hvað hann er að biðja um og stama svo út mér:  “Veistu það, ég er bara ekkert nema fötin!”

Og eftir þetta ákvað ég að ég skildi aldrei aftur “Overdressa” þannig að fólk gæti misskilið eins og gerðist þarna.

kjg 15.5.2006 19:28:51 Vá!
Ég er búin að missa fyrstu tönnina!  Jibbý, kom með hana heim úr leikskólanum í glasi svo ég geti sett hana undir koddann minn í kvöld og fengið tannálfinn í heimsókn.

Annað.. ég er byrjuð að hjóla án hjálpadekkja, og það gerðist bara í dag, pabbi sótti mig á leikskólann og við fórum heim og tókum hjálpardekkin undan hjólinu mínu og og pabbi ýtti mér af stað og ég hjóla eins og herforingi út um allt bílaplan.  Og mamma er búin að vera að ræða þetta við hina og þessa í allan dag því hún var að hafa áhyggjur af því að mér tækist þetta ekki.  En þar sem ég er snillingur þá rúllaði ég þessu upp.

.. og vitiði hvað ég fæ þegar ég er alveg búin að læra að hjóla án hjálpardekkja?  Ég fæ nýtt hjól og má velja það sjálf og eins fæ ég nýjan hjálm því mér finnst minn svo barnalegur.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg Athugasemd: Halló Áatrós Mirra ! Ég og Matthías erum alltaf inn á síðunni þinni, það er þannig að ef hann er að fara í leiki í tölvunni, þá kallar hann alltaf á mig og biður mig um að “stilla á mirrunet”. Þar eru bestu síðurnar og hann er óður í Stanley á Disney síðunni. Ég fór núna inn á “mirrunet” til að skoða myndirnar af leiksýningunni ykkar snillinganna á Smáralundi og kíkti á bloggið ykkar í leiðinni. Þið eruð skemmtilegir bloggarara, gaman að lesa þessi skrif.:-)

Til hamingju með að vera búin að missa fyrstu tönnina…þú varst nú dálítið hissa þegar hún datt bara allt í einu þegar ég var að þurrka blóðið….!!
Og stelpurnar í hópnum þínum voru líka hissa þegar þú komst hlaupandi á útisvæðið með dósina og tönnina..:-)

Sjáumst hressar og kátar
Jóhanna Smáró (johanna@hjalli.is,Jóhanna Jensdóttir) Athugasemd: Vá stór dagur hjá þér í gær og ekki síður hjá mömmu og pabba. Til hamingju með þetta allt.
Íris (,Íris) Athugasemd: VÁ Á hvað þú ert orðin stór, alveg geggjað dugleg stelpa 🙂
Til hamingju með daginn… (,Hafrún) 17.5.2006 21:31:00 Þrjóska Ég hef einhvern veginn aldrei upplifað mig sem þrjóska manneskju (finnst reyndar að ég sé alltaf að gefa eftir) en ég fékk þó að heyra það í kvöld að ég væri alltaf að verða þverari og þverari með aldrinum og litla systir mín segir að ég sé svona:

x       x

og ekkert þar á milli og þegar ég fari í svoleiðis gír þá reyni hún að segja ekki neitt.

Humm og ég sem hélt að hún myndi nú aldrei sitja á sínu.  En svona er náttúrulega lífið við erum öll öðruvísi en við höldum og komum sjálfum okkur og öðrum á óvart endalaust.

Ég meðtek þessi skilaboð alveg því ég veit uppá mig skömmina ef skömm skildi kalla og það er alveg rétt að ákveðnir hlutir vekja upp í mér “The beast” því ég get ekki hamið mig og hvað haldiði svo að hafi verið kveikjan að þessu öllu saman?  Brúðargjöf sem Hafrún vinnufélagi og hennar vinkonur ætla að gefa vinkonu sinni, en sko, common þessi gjöf nær út yfir allt velsæmi.  Þetta byrjaði á því að vinkonurnar ákváðu að slá saman í gjöf, frábært og það var ákveðið að hún mætti kosta á bilinu 5-7 þúsund.  Dálítið mikið fannst minni konu (og mér) en ok, allt í lagi.  Þá eru send skilaboð.
Er búin að finna æðislega kaffikönnu sem venjulega kostar 85.000 en við fáum á sextíuogeitthvað þannig að þetta verður 8700 á mann.
Djísús kræst, í fyrsta lagi 8700 á mann handa vinkonu!  Þá er búið að setja rammann að þetta er upphæðin sem gefin er í ár, eins gott að það séu ekki margar vinkonur að gifta sig í sumar alla vega hafa einstæðar mæður ekki mjög marga 8700 kalla á lausu og þá komum við að aðalatriðinu…..
… kaffikanna á 85.000,- hvað er konan með kaffihús heima hjá sér?  Framleiðir kannan kaffibaunirnar og mjólkar kúna til að fá rjóma í kaffið?  Ég meina það hvað gerir þessi kanna meira en sambærileg kanna á 25.000 – 30.000? Ég bara spyr.

Kannski kaffið sé úr gulli!

Ekki spyrja mig því ég þekki ekki svona lagað, man þó eftir að hafa keypt bíl einu sinni á 120.000 og hann gekk í 3 ár sem vinnubíll.

Ég held ég vildi þá frekar bíl en kaffikönnu.

og já líklega er ég mjög einstrenginsleg og þrjósk þegar kemur að svona málum.
kjg Athugasemd: Hahaha kannski þvermóðskan mín hafi smitast yfir vegginn 🙂 – síast í gegn smátt og smátt.

Er að sjálfsögðu ALVEG Sammála og sagði þeim líka að ef henni líkaði ekki kaffikannan þá gæti hún alltaf farið og keypt ísskáp, frystikistu og sjónvarp fyrir inneignanótuna 😉
hahaha – gott blogg 😉 (,Hafrún) 21.5.2006 21:44:23 Már afi 70 ára
Jæja þá er hann Már afi orðinn 70 ára og tókst honum bara vel til með veisluna sína.  Við fórum með Herjólfi á fimmtudagskvöldið og svo fór föstudagurinn í að setja á tertur og vera með afa í veislunni.  Nema að ég þurfti að fara í vinnu milli 13 og 15 á leikskólanum Rauðagerði hjá henni ömmu Steinu og það var mjög gaman, ég var dugleg að hjálpa henni með litlu krakkanna og best af öllu við amma áttum góða stundir saman.

Ég var bara ótrúlega stillt og prúð í afmælinu hans afa, en þetta fullorðna fólk var alltaf að segja einhverjar sögur svo ég sagði eina af henni mömmu minni síðan hún var lítil og er það Hrútasagan sem mamma skrifaði hér um daginn.

Jæja, laugardagurinn fór í göngu á Eldfellið og leik með Söru og vinkonu hennar og svo náttúrulega Eurovision um kvöldið.

Nú og svo tókum við tvær heimsóknir í dag, sunnudag, fyrst til Guðrúnar og Hregga og strákanna þeirra og kisunnar Jónsa og svo fór pabbi með mig til hennar Rúnu forseta og Gylfa og litla hamstursins þeirra og var það mjög gaman.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 25.5.2006 17:53:58 Góður dagur í dag Þetta er búinn að vera frábær dagur hjá okkur í dag.  Við fórum í húsdýragarðinn og vorum þar í 4 klukkutíma sem er alveg ágætt.  Mamma og pabbi voru bara nokkuð róleg og skemmtu sér með mér í garðinum.
Ég fékk að fara í lestina, hringekjuna, rafmagnsbíla, hjólabíla, báta, gröfur og ábyggilega eitthvað fleira sem ég er að gleyma.

Við skoðuðum líka dýrin og sáum alveg nýfædd lömb og svo fórum við í vísindatjaldið og gerðum alls konar uppgötvanir.

Svo ætlum við að slaka á núna fram að kvöldmat og horfa svo á úrslitaþáttinn af Meistaranum í kvöld og erum ég og mamma að fara í sveitarferð með leikskólanum mínum á morgun. Jibbý 2 frábærir dagar í röð og já svo er afmæli hjá Árdísi Thelmu á laugardaginn og svo förum við í sveitina þegar það er búið.

Maður gæti bara haldið að það væri komið sumar!

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 26.5.2006 08:20:00 Sveitarferð leikskólans Jæja þá erum við að fara í sveitarferðina eftir klukkutíma. Ég veit að það verður alveg rosalega gaman.  Því það er svo gaman að faraí rútu og eins og skoða dýrin í sveitinni og ekki síst að fá að vera með krökkunum í leikskólanum mínum í allan dag í öðru umhverfi.

Segi ykkur meira frá ferðinni í kvöld.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 26.5.2006 15:21:00 Sveitarferðin Jæja gott fólk þá er sveitarferðin okkar búin og það var ekkert smá gaman!  Við fórum á Midal í Kjós en þar átti pabbi Erros og Ara Trausta heima en hann var einmitt mikill leirlistamaður en ég hef svosem engan áhuga á því heldur  dýrunum sem eru á bænum.  Þau voru sko æðisleg, litlir hvolpar, pínupínulitlir kettlingar, kálfar, kýr, folold, hestar og ég fékk að fara 3svar á bak einum þeirra, meira að segja berbakt eins og Lína Langsokkur, svo var róla í hlöðunni og traktorar og margt margt fleira, ég hefði alveg getað verið þarna í allan dag en það fór að rigna á besta tíma, þ.e. rétt áður en við ætluðum að leggja af stað.

Við fengum líka pulsur og svala eða kók og kleinur í eftirrétt, allt mjög gott.

Mamma tók að sjálfsögðu fullt af myndum, held hún hafi meira að segja fyllt myndakortið í vélinni svo hún gat ekki tekið fleiri myndir en það besta er þegar komið í myndaalbúmið okkar.

Vitiði ég held að ég gæti sko alveg búið í sveit, mér finnst allt svo skemmtilegt og svo finnst mér fjósalyktin ekkert slæm og hestalykt er bara góð.

En endilega kíkið á myndirnar okkar og kvittið í gestabókina því það finnst mér svo gaman.

Þangað til næst,
ykkar Ástrós Mirra

kjg 5.6.2006 19:20:00 Íslenska á Íslandi
Einu sinni mér áður brá!

Við fórum í bíltúr uppað Geysi um helgina að sýna Ástrós Mirru Hverina og fá okkur svo ís.

Við komum að Geysi og þar var allt fullt af fólki, mest megnis túristar en þó heyrðum við þarna íslensku inn á milli.  Við drifum okkur upp að hverunum og tókum að sjálfsögðu upp myndavélina til að ná á filmu (humm, engar filmur reyndar lengur) þegar Ástrós Mirra sér Hver gjósa í fyrsta sinn.  Þetta var hin ágætasta skemmtun því Strokkur gís á nokkurra mínútna fresti.

Jæja okkur var farið að langa í ísinn svo við drifum okkur niður að sjoppunni og ætluðum að kaupa ís en sjáum þá að það er bara litskrúðugur kúluís í boði, svo við Þráinn ákveðum að fara bara í sjoppuna til Hildar frænku á Minni-Borg og kaupa almennilegan ís.  Nema Ástrós Mirra vill ólm smakka svona bleikan ís og hver láir 5 ára stelpu það.  Svo við kaupum eina kúlu (kostaði 250- kr. Og 2 kúlur 350- kr.) og svo hleypur Ástrós bara út með ísinn meðan ég bíð í röð á kassann, því ísinn var ekki greiddur við afhendingu heldur á kassa áður en maður fór fram í veitingasalinn.

Það kemur að mér á kassanum og ég segi við stúlkuna “Ég er með einn ís”.  Hún horfir á mig og segir “sorry”, svo ég segi hærra og hægar “Ég er með einn ís, stelpan hljóp með hann út”.  Þá segir afgreiðslustelpan “Sorrý I don’t understand, I don’t speak Icelandic”.  Ha!  Talar ekki íslensku, bíddu ég er í sjoppunni uppá Geysi í Haukadal á Íslandi!  Svo ég segi “Fyrirgefðu en ég tala bara íslensku á íslandi” og stúlkan bara horfði á mig og skildi ekki neitt, og þá heyrist frá annarri afgreiðslustúlku sem stóð þarna rétt hjá, “hún talar ekki íslensku” og þá svara ég “þá skalt þú þýða fyrir hana því ég tala BARA íslensku á íslandi”.

Vitiði, ég á ekki til orð.  Hún talar ekki íslensku og hún skilur ekki einu sinni, ég er með einn ís.  Er Geysir ekki lengur fyrir íslendinga?  Eða ætli það sé önnur sjoppa fyrir okkur? Ég sá reyndar fleiri íslendinga þarna inni svo líklega er það ekki, en hvað er þetta þá?  Hvað ef afi og amma kæmu þarna, ekki tala þau ensku!  Fá þau þá bara ekki afgreiðslu eða fá kannski bara ost þegar þau biðja um ís, og kannski bara átta osta (eight cheese) það er svolítið líkt “einn ís”, það er spurning?  Ég alla vega er ekki ánægð með þetta og mun halda því áfram að tala íslensku þegar ég er á íslandi.

Mig grunar nú að íslenskir krakkar sem fara að vinna á Norskum fjallahótelum séu höfð í uppvaskinu þar til þau skilji og tali Norskuna nógu vel til að vera hæf í afgreiðslu, reyndar man ég ekki eftir að heyrt að þessir krakkar hafi nokkuð fengið að fara í afgreiðslu, því þar voru norskir krakkar sem gátu talað við landa sína og ég geri kröfu að ég geti það á Íslandi, þe. talað íslensku.

kjg Athugasemd: Ég er alveg sammála þessu, pirrandi að fólk sem haft er í afgreiðslu tali enga íslensku, læt vera þó hún sé bjöguð. Ég lenti í því fyrir ekki löngu að vera að fljúga frá Vestm.eyjum til Rvík og það var flugfreyja og allt í vélinni, en hún og báðir flugmennirnir töluðu bara ensku. Við í vélinni litum á hvort annað og sögðum erum við ekki í innanlandsflugi. Þokkalegt ef eitthvað hefði komið fyir og eldra fólk sem talar litla sem enga ensku hefði verið með. (konnyg@internet.is,Konný) 9.6.2006 21:56:06 Beuty and the Geek Úff, ég sit hér heima með veika stúlku og horfi á einhvern raunveruleikaþátt sem heitir Beuty and the Geek.  Hvað er það?

Hvort er verið að gera grín að heimskum stelpum eða of gáfuðum strákum með ekkert félagsgen?  Ég átta mig ekki á því, finnst frekar erfitt að horfa á þetta, kannski vegna þess að mér finnst að það sé verið að gera grín að einhverjum eða öllum.

Samt við svona fyrstu horfum þá eru nú stelpurnar með vinninginn.

Ef við Þráinn værum eins og Beuty and the Geek núna þá er hann “örugglega” Beuty og ég The Geek, sitjandi heima að grufla í tölvunni, en hann uppí Skorradal í útilegu með vinnufélögunum.

Ég vona nú innilega að Ástrós Mirra verði orðin góð á morgun svo við getum drifið okkur þangað líka.  Spáir annars ekki SÓL?

Þetta verður nú kannski bara eina útilegan í sumar, því aðra helgi erum við að fara á ættarmót í Efri Vík á Kirkjubæjarklaustri og þar erum við búin að panta hús með Sigrúnu og Kollu ásamt Silju Ýr og Ástrós Mirru, nú þegar sú ferð er búin þá verður nú farið nokkrar helgar í bústaðinn áður en við förum til Tenerife.  Vá hvað ég hlakka til, sérstaklega núna eftir að Hafrún kom þaðan með alla bæklingana og myndirnar og upplýsingarnar um staðinn, frábært að fá svona þjónustu  TAKK HAFRÚN.

Svo endilega skoðið nýjasta myndbandið okkar, það tók Hafrún á Höfrungasýningu og þar er hægt að kaupa sig inná námskeið þar sem þú lærir að þjálfa og færð að synda með höfrungunum á sýningu seinna um daginn.  Ótrúlega flott, vá getið þið ímyndað ykkur hvernig það er að láta höfrung ýta sér aftur á bak í vatninu eða vera að synda og höfrungur stekkur yfir þig.  Vóóó.

Þetta verður alveg frábær ferð hjá okkur, ég efa það ekki, sól og sandur, sjór og sundlaug og fullt af skemmtilegu fólki.  Vona bara að afi verði orðinn góður áður (sem hann verður líklega) en hann er á spítala núna, fékk lungnabólgu og er trúlega með blóðtappa í lungunum.  En hann var hressari í dag þegar ég heimsótti hann en í gær. Sagðist mest vera svekktur yfir því að vera ekki orðinn 18 ára því þarna væru svo fallegar stelpur, sjúkraliðar og hjúkkur.  Já þetta var sko líkt honum afa mínum sem ábyggilega stendur þetta af sér eins og allt annað enda er hann mesti jaxl sem ég þekki.  Sigldi á kolabát (og var í því að moka kolunum til að knýja bátinn áfram) til Nef jork eins og hann segir það, ásamt fleiri löndum, svo er hann með TATTO eins og allir góðir töffarar.

En látum þetta gott heita.
Kristín the geek or is it the beuty?
kjg Athugasemd: Ekkert að þakka 🙂
Öfunda þig að vera að fara :S
Svo annað… þarf það endilega að vera annað hvort the beauty or the geek, ég held þú sért bara The Beauty and the geek – tvær flugur í einni skiluru 😉
Hafrún
Heyrðu, Almar er kominn með Streptókokka 🙁 Nú eru það sko kirtlarnir burt held ég. (,Hafrún) 11.6.2006 15:18:40 Hálsakot Jæja, við drifum okkur bara í Hálsakot í Skorradal í gær við mamma, pabbi fór þangað á föstudaginn en ég var nefnilega lasin þá svo við mamma vorum heima þangað til í gær.

Veðrið var nefnilega mjög fínt í Skorradalnum í gær og við sáum sko ekki eftir því að hafa farið þangað því þar var fullt af krökkum og 3 hundar, takið eftir 3 hundar svo mér leiddist ekki neitt.  Samt var þarna einn hundur sem ég var mest með því hann (hún) er frekar lítil og lét mjög vel að minni stjórn.  Hún heitir Dimma, fallegt nafn á góðan hund.
Svo voru þarna hundarnir hans Valgeirs Gutti er bara hvolpur sem hann er nýbúinn að fá sér, Gutti heitir reyndar fullu nafni Guttormur, svo á Valgeir annan hund sem er kallaður Korfi en heitir Kormákur og er orðinn mjög gamall og alveg blindur.  Greyið datt tvisvar fram af pallinum því hann sá ekkert hvar hann var.

Svo voru þarna krakkar sem gaman var að leika með líka. Við vorum 3 stelpur á sama aldri og svo voru nokkrir eldri krakkar líka.

Fullorðna fólkið skemmti sér líka mjög og það var kórónað með grilli í gærkvöldi og svo gítaspili frá Inga Gunnari úr Hálft í hvoru, mamma og pabbi skemmtu sér rosalega vel og við öll

Hlökkum til að koma þarna á næsta ári
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 12.6.2006 18:08:00 Karlmenn Ég get ekki orða bundist yfir KARLMÖNNUM!

Þó ekki mínum því hann er alltaf mesti ljúflingur og elska sem ég þekki, en annarra kvenna karlmenn virðast bara vera mjög skrítnir.

Ég er með tvö dæmi í kringum mig núna þar sem þeir lifa gjörsamlega tveimur lífum og allt sem þeir segja er lýgi.

Hvernig geta menn gert svona og farið svona með konurnar sem þeir einu sinni elskuðu og börnin sín og þeirra og bara alla í kringum sig.  Á maður að trúa því að það sé einhver þarna úti sem heldur að máltækið “ÉG, UM MIG, FRÁ MÉR, TIL MÍN” sé eitthvað sem hægt er að lifa eftir.  Nei það er ekki hægt nema þú lifir eins og Gísli á Uppsölum og umgangist ekki annað fólk.  En ef þú umgenst annað fólk þá hegðar þú þér ekki svona.

SKAMM ÞIÐ TVEIR SEM ÉG ER AÐ TALA UM.

ÉG ER LÍKA sár út í ykkur fyrir að fara svona með þessar yndislegu konur og alla aðra í kringum þær.
kjg Athugasemd: Heyr, heyr!!! (,Hrafnhildur) 14.6.2006 20:04:00 Fjölgun Jæja þá er það orðið opinbert og staðfest að við erum á leiðinni til Kína eftir eitt og hálft ár til að ættleiða lítið barn. Líklega litla stúlku frekar en dreng því þannig er það bara í Kína stúlkurnar eru frekar gefnar en strákarnir því þeir eiga að hugsa um foreldra sína í ellinni.  En okkur er sko alveg sama enda miklu frekar svona stelpufólk en hitt (þó það yrði voða gaman líka).

Það er bara verst hvað þetta ferli tekur langan tíma.  Við erum sem sagt búin að senda inn fullt af gögnum, skattaskýrslu oþh. og fara í læknisskoðun og greiða staðfestingargjald.  Þá fær Dómsmálaráðuneytið umsóknina okkar til skoðunar og ef þeim líst nógu vel á hana þá senda þeir beiðni til Félagsþjónustunnar í Hafnarfirði að “TAKA OKKUR ÚT” eða þannig.  Þá taka við fullt af viðtölum við félagsráðgjafa og alla vega ein skoðun á heimilisaðstæðum okkar.  Þegar það liggur fyrir og þeir leggja blessun sína yfir okkur (sem ég efast nú ekkert um) þá skoðar ráðuneytið þau gögn enn frekar og gefur síðan út forsjársamþykki (eða ekki).

Þetta getur víst tekið allt að hálft ár og það er ekki fyrr en það er komið sem umsóknin okkar getur farið út til Kína.  Og þá er biðin eitt ár og gæti orðið meira því af einhverjum ástæðum hefur þessi biðtími lengst, hann var víst kominn niður í 7 mánuði en er aftur kominn uppí eitt ár.

Eins þurfum við að sækja námskeið á vegum Íslenskrar ættleiðingar sem er haldið á Glym í Hvalfirði og er eins konar sjálfskoðun og einnig farið yfir af hverju við erum að þessu og eins við hverju má búast þegar við þessar aðstæður.  Ég hlakka nú bara til þessa því maður hefur nú alltaf gott af smá sjálfsskoðun oþh.

Ég á reyndar frekar erfitt með að bíða svo ég veit ekki hvernig þessi tími verður nema það að ég á eina frábæra stúlku sem styttir mér stundir og kannski bara gott að hún er að byrja í skóla í haust þannig að það verða breytingar hjá okkur sem munu kannski stytta biðina eitthvað.

Svo er ein stelpa sem vinnur með mér að fara að eiga í október og þá ætti barnið okkar einnig að vera að fæðast þannig að við getum svona aðeins fylgst með og ímyndað okkur, okkar barn að þroskast, fæðast og alast upp fyrsta árið, þangað til það kemur til okkar.
kjg Athugasemd: Ég var einmitt að hugsa hvað það væri langur tími þar til að litla Kínastelpan ykkar (og okkar) kæmi. Svo hugsaði ég bara að það væri kannski bara málið að einbeita sér að ÁM næsta árið eða svo, eftir það fær litla kínastelpan alla okkar athygli, hlakka til (,Anna Sif) Athugasemd: Aftur, Til hamingju Kristín Jóna… Þið eigið þetta svo skilið og vonandi verður tíminn bara sem fljótastur að líða 🙂 (,Hafrún) Athugasemd: Ég samgleðst ykkur innilega með þetta. Þessi tími verður ekki svo lengi að líða. Kannski bara fyrst og síðan allt í einu er stundin runnin upp og þá þarf maður að vera tilbúin. Hlakka til að fylgjast með þessu hjá ykkur. (,Íris) 17.6.2006 10:06:00 Gæfan mín Ég hef verið að fylgjast með bloggi hjá Bebbu og Hjölla en þau eiga litla stúlku sem er svo mikið veik, og virðist ekkert vera framundan hjá henni, hún heitir Bryndís Eva og sannkallaður engill.

Ég held ég sé ekki að velta mér uppúr vandamálum annarra því ég verð nú svo óskaplega sorgmædd og græt stundum þegar ég les þetta blogg, mamman skrifar líka svo fallega og virðist vera falleg persóna.  Ég allavega dái hana í þessari baráttu þeirra.  En ég ætlaði að segja að þegar ég er búin að lesa þetta þá verð ég svo þakklát fyrir gæfuna okkar og hvað við vorum heppinn að geta eignast svona heilbrigt, gáfað og fallegt barn.

En svo fer ég stundum að hugsa um hvað minnið hjá manni er stutt og sérstaklega þegar eitthvað hefur verið erfitt en leysist svo vel. Eins og með barneignarmálin okkar, það er nú ekki eins og lífið hafi verið dans á rósum þau 13 ár sem við vorum virkilega að reyna að verða ólétt.  Læknisrannsóknir, bið eftir nýrri tækni í 9 ár, lyfja- og hormónaameðferðir og allt sem því fylgdi í 4 ár, eggheimtur, uppsetning og vonbrigði.  AFTUR og AFTUR.  Þegar ég rifja þetta upp núna þá verð ég í rauninni sorgmædd og man tilfinninguna sem greip mig þegar svarið var NEI, eða þegar ég byrjaði enn einu sinni á blæðingum.  Ætli það sé ekki þess vegna sem ég er svo glöð að vera laus við blæðingarnar núna þegar ég allt of snemma og eftir of margar hormónameðferðir fór á breytingarskeiðið, því blæðingar voru alltaf merki um að “ekki gekk það heldur núna”.

Ég man líka tilfinninguna og sorgina sem greip mig þegar allar konur í kringum urðu óléttar og eignuðust börn og man líka gleðina og vonina sem greip mig þegar ég hélt á nýfæddum börnunum þeirra en svo vonbrigðin og sorgin sem komu aftur þegar ekkert gekk hjá mér.
Það er kannski ekkert skrítið að maður sé frekar viðkvæmur í skapi núorðið og að veðrið og mótlæti hafi meiri áhrif á mig en áður.

En ég man líka og man það miklu betur tilfinninguna og gleðina og stessið og áhyggjurnar sem gripu mig þegar í ljós kom að ég var ólétt, ég man líka svo vel hræðsluna þegar það fór að blæða hjá mér og gleðina sem greip mig þegar ég sá í sónarnum eina litla makkarónu og vissi að barnið var þarna ennþá.  Ég held ég hafi verið mjög glöð á meðgöngunni en ég varð aldrei alveg róleg fyrr en ég var komin með litlu stúlkuna mína í fangið og vissi að það var allt í lagi með hana.  (Og nú er ég alveg að fara að gráta því viðkvæmnin ferfaldaðist við að eignast barn)

Þar sem við erum búin að ákveða að eignast annað barn þá fer ég líka að hugsa um að þetta verða þá 25 ár sem þetta tók frá því að ég hætti á pillunni og hélt að ég væri tilbúin til að eignast barn og þar til við ljúkum okkar barneignartímabili.  En að þessu sinni ættu ekki að koma nein vonbrigði (við vitum að þetta er langur biðtími)því þegar við fáum bréf með mynd af barninu okkar er leiðin bara bein og greið á áfangastað og þar bíður lítið barn eftir okkur.  Þannig að framundan er bara tóm gleði og hamingja og verður mikið gaman að einbeita sér að því að koma ÁM í skóla og læra á lífið áður en það kemur lítið kríli á heimilið. (Svo ef maður verður of dapur og leiður þá kaupir maður bara aukaskammt af Rhodiola og gleðin og tilhlökkunin kemur aftur)

Annað sem ég hef verið að velta fyrir mér og það er hvað VIÐ gerum börnunum okkar eða gerum EKKI með því að vita ekki hvað þau eru að gera, horfa á, leika með osfrv.
Það var nefnilega verið að segja mér frá unglingi sem á í miklum erfiðleikum og ég fór að velta því fyrir mér hvað hefði gerst með þennan ungling, það hefur eitthvað komið fyrir í uppeldinu (og þá er ég ekki að segja að það sé meðvitað eitthvað sem foreldrarnir gerðu) það fæðist ekkert barn með það hangandi yfir sér að það muni fara í dóp og selja sig hverjum sem er.  Mín skoðun er að það hefur eitthvað gerst þó enginn viti hvað það var.  Dæmi sem styður þessa skoðun mína er að 4-5 ára sonur vinnufélaga míns þurfti að koma með pabba sínum í vinnuna og þá var sett mynd í fartölvu fyrir hann að horfa á.  Sniðugt nema að í þessu tilviki var myndin KING KONG sem er bönnuð börnum.  Til hvers er foreldri að láta barn horfa á mynd sem gæti átt eftir að hafa djúp áhrif á barnið það sem eftir er.  Því það er svoleiðis, ég veit það.  Það sem barn upplifir hvort sem er í bíómynd eða í raunveruleikanum hefur áhrif.  Svo að mínu mati þó að foreldrar segi ég veit ekki til að neitt að hafi gerst sem gæti orsakað svona hegðun þá þarf það ekki að hafa verið annað en að barnið fékk að horfa á bannaðar myndir og jafnvel klámmyndir sem veldur þeirri hegðun sem barnið á við að stríða í dag.  Ég er samt ekkert að segja að ef þú leyfir barninu þínu að horfa á bannaðar myndir þá muni það verða ólukkubarn, það er ekki það sem ég er að segja.  Það sem ég er kannski að reyna að segja er að ef barnið þitt lendir í einhverju svona, þá er orsökina að finna að einhverju leiti í uppeldinu, því allt er þetta á okkar ábyrgð og ekki hægt að kenna neinu öðru um.
Jæja vona að ég fái þetta aldrei í hausinn hvað ég skrifaði hér, því þetta er bara mín skoðun núna og ef ég skipti um skoðun einhverntíma á ævinni þá er það allt í lagi, það nefnilega má.

Ykkar djúpthugsandi í morgunsárið
Kristín Jóna

“I don’t even need a cristalball to see myself in the future”
kjg Athugasemd: Með frjósemissöguna þá ætla ég bara að segja að allt er gott sem endar vel, eins og í ykkar tilviki (,Anna Sif) 22.6.2006 19:40:00 Er hann dauður! Ég fór út að leika með Davíð vini mínum um daginn og þá sýndi hann mér fugl sem hann hafði fundið og mamma sá okkur og skipaði okkur að koma með fuglinn til pabba.  Sendi svo pabba niður með poka til að taka fuglinn.  Mamma var eitthvað hrædd um bakteríur oþh. sem við gætum fengið við að handfjatla svona dýr.
En jæja við Davíð komum labbandi til pabba með fuglinn og pabbi tekur hann í poka og þá segir Davíð:  Er hann dauður? og áður en pabbi nær að svara spyr ég: Pabbi eru til fuglar sem veiða svona fugla til að borða og pabbi svaraði að svo væri og ég vildi þá vita hvaða fuglar það væru.  Pabbi sagði að það væru til dæmis, Fálkar, Ernir, Hrafnar og Uglur en þá segi ég, nei ég meina hér á Íslandi.  Og pabbi sagði að þessir fuglar væru á Íslandi en þá lítur Davíð aftur upp og segir:  Er hann dauður?

 

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 23.6.2006 15:04:49 Sunddrottning Ég mátti til að segja ykkur að ég er orðin algjör sunddrottning.  Ég er búin að vera á sundnámskeiði í tvær vikur, en það er samvinna á milli sundfélags Hafnarfjarðar og leikskólans míns.

Í dag var svo sýning fyrir foreldra og mamma er þvílíkt stolt af mér.  Og vitiði hvað, ég er best að synda í kafi og standa á höndum ofaní sundlaug og þess háttar alveg eins og mamma var.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 27.6.2006 19:22:48 Ættingjar og fleira gott fólk .. eða dýr ætti ég frekar að segja.  Ég var nefnilega á ættarmóti um helgina sem var voða gaman enda veðrið frábært og fullt af dýrum.
Þarna biðu eftir mér heimalningar sem ég fékk að gefa að drekka úr pela og ég var nú fljót að skíra einn þeirra Rósa en það er nú uppáhaldsnafnið mitt.
Svo var þarna ein frænkan með lítinn hund sem heitir Kóngi og býr reyndar í Hafnarfirði svo ég á kannski eftir að sjá hann aftur.  Svo var önnur frænka með annan hund og svo voru 3 hvolpar á bænum og kanínur og…..
ég þurfti enga krakka til að leika við því ég lék við dýrin allan daginn, ef ég var týnd þá leituðu mamma og pabbi bara af dýrum og fundu mig hjá þeim eftir smá stund.

En mamma og Sigrún frænka með dyggri aðstoð frá pabba og Kollu frænku stóðu sig vel í skráningu á ættingjum og grilli í hádeginu á laugardaginn og ekki síst í leikjunum um miðjan daginn, ég alla vega sá að krakkarnir skemmtu sér vel, þó að ég hefði lítið tekið þátt í þeim en það var vegna þess að ég fékk boltann í hausinn í brennó.
Svo var kvölddagskráin flott líka með ræðum, sögum, góðum mat (mikið af góðum mat, 3ja rétta máltíð) og harmonikkuspili, hljómsveit, söng og dansi.
Þetta er voða mikið gleðifólk og allir skemmtu sér vel.

Ég hlakka nú bara til eftir 5 ár.

Í næstu viku fer ég á hestanámskeið og verð þar alla daga frá 13 – 16.  Mamma hennar Lilju Hrundar ætlar að sækja mig í leikskólann og fara með okkur báðar á námskeiðið og svo sækir mamma okkur báðar.
Eftir hestanámskeiðið er ég svo komin í sumarfrí og hætt í leikskólanum.  Ég byrja nefnilega í skóla í haust og ætla að fara bráðum í sumarfrí og svo bara leika mér þar til skólinn byrjar.

En þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 2.7.2006 17:19:39 Kúrukellingin
Hvað hefur nú eiginlega á daga mína drifið síðan síðast.  Já, þið vissuð að við fórum á ættarmót sem var mjög skemmtilegt, síðan var bara venjuleg vika í leikskólanum mínum sem endaði með því að mamma fór til Eyja að vinna og þá vorum við pabbi bara tvö saman í einn sólarhring.

Pabbi fór með mig á leikskólann og átti svo að sækja mig kl. 16 en umferðin var svo rosaleg að hann kom 20 mín. of seint.  En ég græddi á því, því mamma hennar Helgu Rósar var einmitt að sækja hana svo við spurðum hvort hún mætti ekki koma með mér heim sem var sjálfsagt og áttum við góða stund saman vinkonurnar.

Svo fengum við pabbi okkur að borða oþh. en svo vandaðist málið þegar ég átti að fara að sofa.  Ég er nefnilega vön að kúra hjá mömmu í sófanum frammi og pabbi ætlaði nú að reyna með mér en ég brölti og sneri mér og vissi sko ekkert hvernig ég ætti að vera, því pabbi er bara ekki í laginu eins og mamma og við mamma erum orðnar svo samvaxnar að þetta er ekkert mál fyrir okkur.

Þá sagði pabbi að nú vantaði sko mömmu, allt í fínu þar til mig vantaði kúrukellinguna mína.

Svo fórum við pabbi í gærmorgun beint uppí bústað og ætluðum að taka á móti mömmu þar, því hún átti að koma með flugi eftir hádegi.

Svo kom mamma og við fórum öll að vinna saman í garðinum, pabbi að slá og ég að raka og mamma að taka saman rusl sem fór á haugana.  Svo bara allt í einu birtist Sædís, en amma hennar og afi eiga bústað bakvið okkur og við vorum svo bara að leika allan daginn og var mjög gaman hjá okkur.  Það er eitt sem er sniðugt við mig og Sædísi.  Við hittmst tvisvar í fyrra í sveitinni og svo núna en við verðum svo í sama skóla í haust. Sniðugt.

Á morgun og alla næstu viku verð ég bara í leikskólanum til hádegis því mamma hennar Lilju Hrundar ætlar að sækja mig og fara með okkur báðar á hestanámskeið.  Ég hlakka mikið til en mest hlakkar mig til að hætta á leikskólanum, sem er eftir næstu viku.

Ég kom með heim á föstudaginn alveg rosalega flotta útskriftarmöppu með alls konar föndri og listaverkum sem ég er búin að gera síðan ég kom á bláu deildina, mamma fékk næstum því tár í augun því henni þótti þetta svo flott.

En þangað til næst,

Ykkar Ástrós Mirra

kjg 2.7.2006 17:21:00 Flugið
Vá, ég skrapp til Eyja í einn dag til að vinna, ekkert mál en ég átti pantað flug og vaknaði því eldsnemma og tók mig, kvaddi fjölskylduna og dreif mig út á völl.  Áður en ég komst þangað var pabbi búinn að hringja tvisvar en ég hafði beðið hann að sækja mig.  Ég hringdi til baka þegar ég var stopp á flugvellinum og þá bað pabbi mig að láta sig vita ef það væri ófært og ég bara já, ég geri það.  Skildi þetta ekki alveg, enda veðrið fínt.

Jæja, mér fannst nú kallað heldur seint út í vél en það er nú bara svoleiðis með flugfélagið og flug til Eyja.

Vélin fer af stað full af fólki á leið á Shellmótið og svo ég.  Ég las bara tímaritið SKÝ á leiðinni og bara allt í lagi þar til við nálgumst Eyjarnar þá fer vélin að hristast ansi mikið og svo bara meira þannig að ég gat ekki lesið lengur og fer að fylgjast með og það bætir bara í hristinginn og svo lækkar hún flugið allt of snemma fannst mér, var farin að skoppa ofan á öldunum og enn sást ekki í Eyjarnar.  Ég sé að konan við hliðina á mér er farin að nota tímaritið sem blævæng og stynur af og til eins og ég.  Hvað ætluðu þeir að gera, lenda í sjónum.  Og alltaf bætir í vindinn og ég er virkilega farin að hugsa um hvort þeir ætli ekki bara að snúa við þetta sé ekki þess virði.  Þá allt í einu hækka þeir flugið aðeins og ég sé Eyjarnar og þeir lenda með látum.

Fólkið hjúkkaði sig fram og til baka.  Konan við hliðina á mér sagði manninum fyrir aftan (þau þekktust) að hún hefði verið að því komin að gubba og tilbúin með pokann.  Ja, hérna sagði maðurinn ég var nú svo hræddur að ég hafði ekki hugsun á því að verða óglatt.

Og ég var fegin en pínulítið skrítin inni í mér.  Ég held nefnilega að ég hafi verið svona mitt á milli og var bæði farin að hafa augun á ælupokanum en var líka hrædd.  Samt er sagt að maður verði bara annaðhvort.  En ég er svo mikil miðjumanneskja.

Svo komum við inná flugvöllinn, nota bene, það var brjáluð rigning og vélin stoppaði eins langt frá innganginum og hægt var, þannig að fólkið þurfti að hlaupa þarna (og sumir voru næstum á stuttbuxum vegna ágæts veðurs í RVK)þrællangt.  Jæja sem sagt ég kem inn og sé pabba hvergi og hringi í hann og hann ætlaði aldrei að skilja hvar ég var, ég skildi ekki hvaða rugl væri í honum, ætlaði hann ekki að sækja mig.  Þá heyri ég manninn sem sat fyrir aftan mig, segja eftir símtal að Eyjamennirnir sem ætluðu að sækja hann og fleiri hefðu ekki látið sig dreyma um að það væri flogið því það hefði verið 23 metra vindhraði á Stórhöfða og ekki venjulega flogið í þannig veðri. Þá skildi ég loksins þetta með pabba.  Veðrið var svo vont í Eyjum að hann hélt að það væri ekki flogið en veðrið var svo fínt í bænum að það hvarflaði ekki að mér að það væri ófært.

Smá misskilningur á milli okkar.

En sem sagt kallinn sótti mig og skutlaði mér í Ráðhúsið þar sem ég var við vinnu allan daginn.

Svo áttum við Konný bara góða stund saman og pabbi kíkti í heimsókn um kvöldið og svo fór ég um hádegi á laugardeginum eftir smá morgunkaffi hjá Steinu, ?MEÐ FLUGI? en nota bene það var rjóma blíða og þeir flugu sjónflug og ég horfði bara á fallegt suðurlandið baðað sólu en svo var skýjað þegar við vorum að lenda í Reykjavík.

Ég var beðin að líta eftir 11 ára strák í fluginu, hann var að fara til ömmu sinnar.  Mamma hans (sem ég kannast aðeins við) lét mig hafa símanúmer ömmunnar og sagði mér svona aðeins frá drengnum oþh. og virtist mjög umhyggjusöm um hann.  En svo kom önnur kona og Bragi á fluginu með henni, þá vantaði hana líka einhvern til að líta eftir stráknum sínum í fluginu og Bragi greinilega bent á mig (það voru samt fleiri konur að fljúga þarna með mér) og sagði bara ekkert mál, og svo fóru þau að kaupa eitthvað og ég beið alltaf eftir að konan (sem ég reyndar þekkti ekki neitt) kæmi til að kynna mig og drenginn og segja mér hver myndi sækja hann osfrv. en hún gerði það ekki.  Þau fóru á undan út í vél og var hann sestur þegar ég kem að og mamman að vinka þegar ég vík mér að henni og spyr hvort ég þurfi ekki að vita hver komi til með sækja barnið oþh.  Og þá sagði hún mér það, stóri bróðir hans.

Einmitt, ég veit ekki hvað barnið heitir (var ca. 6-7 ára) og veit bara að bróðir hans sækir hann.  Eins gott að við erum bara á Íslandi og lítið um barnsrán þar.

Svo sat ég í flugvélinni og hugsanir runnu í gegn og ég fór að spá í ef eitthvað kæmi nú fyrir flugvélina, hvernig ég ætti að bjarga þessum báðum drengjum og ákvað, ég tek fyrst vestið fyrir mig, svo fyrir 11 ára strákinn því mamma hans bað mig sérstaklega fyrir hann og svo yrði hinn að mæta afgangi.  Það var náttúrulega ljótt að hugsa svona barnsins vegna en ég losnaði ekki við það úr hausnum á mér að ef ég myndi byrja á yngri stráknum og ekki ná að bjarga hinum og svo myndi ég hitta mömmu hans hvað ætti ég þá að segja henni.  Í staðinn fyrir að ef ég myndi fyrst bjarga honum og svo kannski ekki ná að bjarga hinum þá, sorrý ég veit ekki einu sinni hvað hann heitir eða hver átti að sækja hann.

Gott í bili.

kjg 4.7.2006 17:32:44 Dagur 2 á Hestanámskeiði Ég datt af baki í dag!

Já ég meina það eins og ég segi það, það fældust allir hestarnir inni í gerðinu og 4 börn duttu af baki.

Það voru allir að ríða saman inni í gerði og eitthvað hefur gerst sem fældi hestana en enginn veit hvað það var þó held ég að það hafi flogið fugl yfir og verið með eitthvað í gogginum sem hestum finnst gott og misst það og sá hestur ætlað að reyna að ná í það og þá fældust allir hinir.  Góð skýring er það ekki.

En í alvöru þá slasaðist enginn hvorki hestar né börn.  En mamma og pabbi fengu bréf með heim þar sem óhappið er útskýrt og þau látin vita að þau geta hringt í þjálfarann okkar ef þau vilja spurja að einhverju oþh.  En mamma sótti mig og Lilju og Elínu og þá ræddi hún við þjálfarann minn og fékk að vita að ég fór nú alveg á bak eftir þetta (enda þarf meira til að ég verði afundin hestum) og svo ætlaði ég heldur aldrei að klára að kveðja hestinn minn sem reyndar heitir Brúnstjarna.

Mér finnst rosalega gaman á námskeiðinu en þó finnur mamma að þetta hafði einhver áhrif þó þau væru lítil, ég var alla vega miklu glaðari í gær en í dag.  Því í gær náði brosið eyrnanna á milli enda sól og blíða og við fórum í reiðtúr.  Ég set sjálf reiðtygin á hestinn og tek af og kembi og allt sem fólk þarf að gera þegar það á hest, líka að ríða út og það var enginn að teyma undir mér.

Vona að morgundagurinn verði líkari gærdeginum því þá verður sko gaman.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 4.7.2006 17:35:00 Fyrstu fréttir Jæja þá er komið bréf frá Dómsmálaráðuneytinu (reyndar afrit af bréfi) þar sem þeir biðja barnaverndarnefnd Hafnarfjarðarbæjar að meta aðstæður hjá okkur miðað við að ættleiða barn frá Kína.  Það eru víst strangari reglur þar svo það þarf að miða rannsóknina við það.  Rannsóknina ;(  en þetta er það í rauninni.

Nú bíðum við eftir að fá fund með félagsráðgjafa en ætlum samt ekkert að bíða því ég held ég hringi bara strax á morgun og panti sjálf tíma, því ég myndi vilja fá fyrsta viðtalið áður en við förum út.

So far so good.
kjg 5.7.2006 18:27:07 Ólukkuvikan Það er nú meira hvað þetta er mikil ólukkuvika hjá þessari fjölskyldu.

Ástrós Mirra datt af hestbaki í gær og var því heilmikið drama í kringum það en enginn slasaðist.

ÉG lenti í ákeyrslu áðan, shit.  Fyrsta ákeyrslan og ég trúlega í órétti þó mér finnist það ekki vera svoleiðis því það stoppaði bíll með stefniljós og ég tók því að hann væri að segja mér að koma út á götuna en þá kemur bara bíll inní hliðina á mér.  SHIT, shit og shit.

Ég slapp ómeidd verður maður ekki að segja það, en það er nú einu sinni þannig að ef maður sleppur ómeiddur þá skipta dauðu hlutirnir meira máli.  Doddi litli er stórskemmdur en alveg ökufær, og ef ykkur finnst ég gera mikið úr þessu þá er það bara vegna þess að ég hef verið tjónlaus alla ævi þar til í dag.  Hvað þurfti ég endilega að ætla að rjúka á pósthúsið að sækja einhverja bók í bókaklúbbnum hennar Ástrósar Mirru

Ég er mjög fegin að Ástrós Mirra var ekki með mér því bílinn lenti beint á hurðinni þar sem hún situr venjulega þannig að það er víst nóg fyrir hana að hafa dottið af baki.  Eins var ég fegin að maðurinn sem keyrði á mig var einn í bílnum því hann á ólétta konu og tvö börn.

Svo er ég glöð að sjálfsábyrgðin okkar er ekki nema  (Ekki nema huh) 87.600,- og svo er ég líka glöð að líklega verður hægt að gera við bílinn meðan við erum úti á Tenerife.  Verð að biðja Adda að vera tengiliður fyrir okkur á meðan, hann er svo sniðugur að redda málum ef þau verða einhver.

Svo er ég bara glöð yfir því að löggan reyndi bara að hughreista mig og segja mér að fara einmitt strax og keyra aftur og þegar ég sagði þeim að ég hefði verið að monta mig nýlega á því að vera tjónlaus, sagði önnur löggan, já en einu sinni er allt fyrst.  Ég hefði kannski samt alveg verið tilbúin að sleppa þessari reynslu.

En aðalmálið er að ég slapp ómeidd, er samt eitthvað skrítin í öxlinni núna, en samt er ég leið.  Og það má, það má alveg vera leiður á svona stundu en ég jafna mig.
kjg 6.7.2006 18:27:00 sjö, níu, þrettán Jæja, við mamma erum búnar að segja þetta nokkrum sinnum í dag eftir óhöppin okkar í vikunni.

En dagurinn í dag var frábær, við héldum reiðsýningu fyrir foreldrana okkar kl. 15 í dag hjá Íshestum og gekk það meira en vel.  Reyndar alveg frábærlega.

Við setjum hnakkana sjálf á með hjálp reyndar því við náum ekki upp, og beislin og tauminn og allt saman.  Förum á bak og stjórnum hestunum sjálf.  Svo riðum við í röð og tókum beygjur og alls konar og stoppuðum hestana með því að segja HÓ og svo röðuðum við okkur hringinn í gerðinu og þá kom sko sýning í lagi.  Við teygðum okkur og beygðum og snerum okkur í hringi á hestunum sátum öfug eins og Lína Langsokkur og sum okkar stóðu á baki og svo áttum við að fara í hring og þá stjórnaði ég mínum hesti í smá hring í kringum sjálfan sig en þá átti ég vís að að snúa mér í hring á hestinum og það hlógu allir að þessu og ég mest.  Það er sko gaman að búa til nýtt sýningaratriði.

Á morgun en síðasti dagurinn  og þá munum við grilla saman.  Mér finnst svindl að mega ekki eiga hestinn þegar þetta er búið.  Minn heitir Brúnstjarni og er mjög gæfur og góður hestur.
Hesturinn hennar Lilju Hrundar heitir Þristur og hesturinn hennar Elínar heitir eitthvað eins og Klinki eða í líkingu við það.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
fædd til að vera á hestbaki.
kjg 9.7.2006 18:11:00 Fyrsta vikan í júlí ;( Fyrsta vikan í júlí er ekki okkar vika, það er nokkuð ljóst.  Það muna líklega allir eftir ?Flóttanum mikla? síðasta sumar með leigutjaldvagn aftaní bílnum og óveðrið elti okkur út um allt.
Ekki varð þessi vika árið 2006 skárri, eiginlega talsvert verri ef eitthvað er.

Það byrjaði ágætlega fyrir utan veðrið, Ástrós Mirra fór á reiðnámskeið og það var voða gaman en strax á degi 2 (þriðjudeginum) kom eitthvað uppá sem fældi alla hestana í gerðinu og 4 börn duttu af baki, reyndar datt hesturinn hennar Ástrósar og hún svo af, hún meiddist ekkert og Brúnstjarni ekki heldur, en sum börnin urðu skelkuð en ekki mín stelpa, enda þetta hestar og Ástrós hélt bara ræðu yfir mér að ég þyrfti ekki að vera hrædd við hesta og hvað það væri sem þyrfti að varast við þá svo þeir myndu ekki fælast.

Jæja, miðvikudagurinn kemur með fínasta veðri og Ástrós hélt það nú að hún ætlaði á hestbak þann daginn, svo það var allt í góðu.

Ég kem og sæki hana og vinkonur hennar kl. 16 og þær þvílíkt ánægðar með daginn og Ástrós ákvað að fara heim með stelpunum svo ég fer bara ein heim, ætlaði svo í búð áður en ég myndi sækja Ástrós.  Sá svo þegar ég kom heim að það hafði komið pakki sem þyrfti að sækja á pósthúsið og ákvað bara að drífa mig í því og svo í búðina og sækja svo Mirruna mína.

Ég fer út í bíl og ætla af stað en þá er þessi líka bílarunan uppeftir Suðurbrautinni á eftir einhverri skurðgröfu og svo strætó en bíllinn þar á eftir stoppar og gefur stefniljós inná planið til mín, og ég í minni fávisku hélt að hann væri að gefa mér séns (nota bene, ég sá ekkert á hina akreinina fyrir strætó) og æði út á götu og plamm, það kom bara bíll og keyrði á mig.  Það var shokk og allt sem því fylgdi en með góðra manna upppeppi taldi ég mig getað jafnað mig á þessu.

Ok, fimmtudagurinn leið áfallalaust hjá en svo kom föstudagurinn með sól og blíðu og ég ákvað að sækja Ástrós sjálf í leikskólann í hádeginu til að kveðja fóstrurnar og krakkana og leyfði henni að taka myndir af öllum en svo kemur daman hlaupandi til mín alveg miður sín og segist hafa dottið með myndavélina og ég sé bara að linsan er brotin og verð smá reið en meira svekkt og hún skildi það og skynjaði því hún veit hvað mömmu sinni þykir vænt um myndavélina sína og hefur gaman af að taka myndir.

Jæja, ég skutla henni á reiðnámskeiðið og fer í vinnu hundsvekkt yfir þessu en ákveð að allt er þegar þrennt er og nú sé þetta búið.  Fer reyndar að skoða myndavélina betur og reyni að smella linsulokinu á sem mér tekst og VÁ, ég gat lagað myndavélina Jibbý jei.  En ég gerði mér ekki grein fyrir því að þá væri ég búin að þurrka út þetta ?allt er þegar þrennt er? fyrst vélin var ekki biluð.  Jæja ég ákvað að við myndum bara drífa okkur í sveitina strax á föstudaginn í staðinn fyrir laugardagsmorguninn og ætla að fara að kaupa útskriftargjafir en önnur er ekki til í búðinni í Hafnarfirði svo ég ákveð að biðja Þráinn að skutlast eftir henni í Reykjavík því mér var enn illa við að keyra eitthvað flókið.  Hann gerir það og ég skrepp í Krónuna, legg bílnum á innsta bílastæðið sem er mjög þröngt og ákveð að laga hann aðeins til svo það verði auðveldara að fara í burtu á eftir ef það verður meiri umferð.

Bakka aðeins og búmm, ég bakkaði á bíl.  Ég sver það ég bakkaði á bíl, það sá reyndar hvorki á mínum né honum en það stórsér á sálinni minni.  Ég veit ekki hvað er að gerast með mig.  Reyndar eftir að vera búin að vera að moka skít (fékk ekki flóknara verkefni) í sveitinni þá er það eina sem mér dettur í hug að ég sé orðin svona langþreytt eftir sumarfríi.

Þannig að næstu viku þá geri ég ekkert flóknara en það að fara í vinnu og aftur heim.  Kannski kíkja til afa það er orðið svo langt síðan ég gerði það.

En alla vega gott fólk, varist mig því ég er orðin hættuleg í umferðinni.

 

kjg Athugasemd: Æ Kristín, ég finn til með þér… En… Það góða er að öll leiðindaskeið taka enda og aftur verður gaman að vera til 🙂
Þú tekur þetta öfugt við mig, óheppnin fyrst og Tenerife svo 😉 Enjoy it !! (,Hafrún) 12.7.2006 17:56:40 Sumarið sem aldrei ætlar að koma. Ekki virðist sumarið ætla að koma.  Ég var að tala við eina konu sem ætlar í frí í september og við vorum sammála um að sumarið verði kannski komið þá.
En sem betur fer ætlum við ekki að bíða svo lengi því í dag er akkúrat vika þangað til förum til Tenerife  en þar verður bara sól, hiti, strönd, sundlaugar, dýragarðar og skemmtigarðar og ég veit ekki hvað, þannig að fram að því ætlum við að reyna að brosa en það er reyndar erfitt td. eins og núna þá er mér ískalt á höndunum því ég er ekki í peysu (inni hjá mér í júlí) hef aldrei vitað annað eins.
En svo er það Rockstar í kvöld, hlakka til að sjá hvernig Magna gengur og vonandi dettur hann ekki út strax, þetta er svo spennandi fyrir hann og okkur íslendinga.  Áfram Magni og áfram Sól (hvar sem þú ert)
kjg 15.7.2006 12:05:42 Síðasti vinnudagurinn búinn í bili.
Jæja þá er öll fjölskyldan komin í frí, ég líka.  Og það er rok og rigning og leiðinlegt haustveður en það pirrar mig ekki núna því við förum í sólina eftir 4 daga.  Jibbý jey.  Ætla svosem ekkert að tíunda hvað við ætlum að gera þar, erum samt búin að blása upp Daða Dreka til að gera við hann áður en við tökum hann með okkur aftur til útlanda.

Og erum að finna til ferðatöskur til að pakka niður á morgun, ætlum líka að pakka niður fyrir ÞJÓÐHÁTÍÐINA því við förum eiginlega beint þangað.

Konný og Markús ætla að vera í íbúðinni okkar eitthvað meðan við erum í fríi og svo ætla reyndar pabbi og Tedda að gista það líka þegar þau fara í fermingarveislu hjá Karenu dóttur hennar Jenný Kristínar frænku en þær búa í Frakklandi.

kjg Athugasemd: Velkomin í frí… ég vona að Tenerife ferðin ykkar verði jafngóð og mín, nema betri sé 🙂
Hlakka til að lesa bloggin þaðan 😉
kveðja
Hafrún (,Hafrún) 18.7.2006 21:52:00 Spáir sól Hann spáir sól á morgun hér heima sem er náttúrulega týpiskt því við erum að fara til Tenerife.

Þetta verður ábyggilega æðisleg ferð hjá okkur, ég er búin að skipuleggja í töskurnar fram og til baka, taka uppúr þeim aftur til að minnka og setja ofaní þær aftur.  Þráinn situr bara og hristir hausinn því hann veit að það þýðir ekkert að tjónka við mig á svona stundu.

En um leið og ég er komin og búin að taka uppúr töskunum þá verður þetta allt í lagi, þar til daginn áður en við förum heim.  Þetta eru sem sagt 3 dagar í allt sem fara í það að skipuleggja og hafa áhyggjur af því hvort allt sé með osfrv.  Er meira að segja komin með nesti til að hafa í flugvélinni  en það var Klöru hugmynd, því þetta er spænskt flugfélag og ekki boðið uppá mat en seldar einhverjar útlenskar samlokur sem börn borða ekki.  Þannig að við erum við öllu búin og hlökkum bara til að fara.

Tek þó orð mannsins míns mér í munn núna og segi að það leiðinlega við ferðalögin eru ferðalögin.  Svo verður allt gott þegar maður er kominn á staðinn.

Mun láta í mér heyra af og til, skilst að það sé tölva í lobbíinu sem hægt er að kaupa aðgang að.

Ykkar ofurskipuleggjandi Tenerifefari.
kjg Athugasemd: Ég samgleðst ykkur SVO mikið og vona að þið hafið það rooosalega gott 🙂
Og já sólin skín á meðan hehe
Adios
Hafrún (,Hafrún Ósk) 21.7.2006 18:34:00 1056
21. júlí 2006

 

Byrjum á þessari tölu, hvernig getur heimurinn verið svona lítill að ég fæ sömu íbúð og Hafrún á risastóru hóteli á Tenerife?  Ég skil þetta ekki en það er greinilegt að við erum ?Sisters in mind?.

Hér er akkúrat núna skýjað og 28 stiga hiti sem bara gott, meðan sólin skein var allt of heitt og ég með mína viðkvæmu húð þurfti að vera í bol í allan dag því ég var orðin svo rauð á bakinu eftir gærdaginn.

Sara og Alexander eru gjörsamlega að fíla sig hér og stoppa ekki allan daginn.  Ástrós og Kristófer skilja nú ekki alveg hvað við erum alltaf að siða þau til og banna þeim þetta og banna þeim hitt.  Þó held ég að okkur hafi tekist að gera Ástrós það skiljanlegt að þó hún sé dugleg að bjarga sér þá skilji fólkið hér hana ekki nógu vel svo hún megi alls ekki verða viðskila við okkur.

Við fengum íbúðir alveg hlið við hlið á annarri hæð eins og við báðum um og við erum svona tvær íbúðir saman með uppgang þannig að hér er bara opið á milli og við eins og ein stór fjölskylda.  Hér rífst enginn og hér grenjar enginn því þá er kallað á Þráin og hann er með töfrasetningar og svoleiðis sem virðist virka alla vega á einn 4 ára sem ætlaði að grenja svolítið mikið og gera mömmu lífið erfitt um stund en ekki lengur, nú veit hann hvað þarf að gera þegar maður til dæmis meiðir sig.  Frábært.

Við vorum nú bara á hótelinu í gær að dóla okkur og fórum á ströndina í dag og það voru krakkarnir að fíla í botn, mega maka sandi út um allt og hlaupa svo í sjóinn og skola sig og láta sjóinn elta sig og búa til kastala og ég veit ekki hvað.  Ein regla sem höfð er fyrir litlu krakkana er að sjórinn má ekki fara uppfyrir nafla og Ástrós gleymir sér stundum en Kristófer gengur með höfuðið ofan í bringu því hann er alltaf að reyna að sjá hversu hátt sjórinn er kominn.

Við borðuðum á flottum veitingarstað í gær sem Anna og Snorri mæltu með ?Sugar and spice? og var hann æðislegur Sara hefur aldrei fengið svo góða pizzu og aldrei svona góðan ís þannig að hún er alsæl með þetta ég held að við ætlum nú eitthvað cheap í kvöld og þó er aldrei að vita á hverju við endum.

Við Klara reyndar skruppum í ódýra súpermarkaðinn áðan og fylltum 12 poka af hvítvíni, bjór, gosi, parmaskinku, nöggum og þvílíkt magn af snakki og vatni og það kostaði nú ?ekki neitt? eins og maðurinn sagði en svo stóðum við fyrir utan búðina með körfuna og sáum engan leigubíl neins staðar nálægt svo við vorum nú bara að spá í að labba með körfuna heim en létum ekki verða af því heldur löbbuðum aðeins lengra og sáum þá leigubílastöð og þar var allt fullt af körfum fyrir utan svo við sáum að við vorum ekki þær einu sem versluðum svona mikið þarna.

Jæja gott fólk á morgun er það dýragarður líklega LoroPark og svo sjáum við með framhaldið, getum ekki planað meira en einn dag í einu.

 

Ykkar TenerifeKristín

 

Ps. Óli Vignis ég heyrði að það væri sól á Íslandi síðan ég fór svo ef þú ætlar til dæmis næsta ár að ferðast um landið okkar þá sendir þú mig bara aftur hingað.

 

 

 

kjg Athugasemd: Jei jei – loksins loksins heyrir maður frá ykkur hér…. Það er greinilegt að Þráinn ætti að vera með í för í hverri ferð… Gætir meikað money á að leigja hann út til einstæðra mæðra 😉 svona supernanny dæmi 😉
Frábært að það sé gaman og ég get ekki beðið eftir að sjá myndir !!
kveðja
YourSis:) (,Hafrún) 24.7.2006 15:41:00 5 dagar liðnir
24. júlí 2006
Vá það er eiginlega ótrúlegt að það séu liðnir 5 dagar og samt erum við búin að gera alveg helling og skemmta okkur vel.

Við fórum í Aqualand í dag en ekki að synda sjálf með höfrungunum, við ætlum í það seinna en við fórum í dag bara í sundlaugargarðinn og kíktum að sjálfsögðu á höfrungasjóið, það var æðislegt.  Sara Rún var nefnilega hinum megin á eyjunni hjá Þórunni frænku sinni í nótt og við hittum þær/þau í Aqualand í dag og áttum sem sagt mjög góðan dag fyrir utan að Sara er smá bennd á öxlunum.  Ástrós fer í snúningsrennibrautir eins og ekkert sé og skemmtir sér vel í svona, meira að segja Kristófer fór í eina alveg sjálfur því það má ekki fara saman, ég var nú svolítið stressuð yfir því því hann var fyrst búinn að segja að hann vildi ekki en svo ákvað hann að prófa og lét vaða.  Ég fór nú bara í eina braut með honum og búið en það var líka nóg fyrir mig.

Í gær fórum við Klara á ströndina með litlu labbakútana okkar og þau undu sér ekkert smá vel þar en á meðan skruppu Þráinn og Alexander yfir á næstu strönd til að prófa JetSky og er Alexander í skýjunum eftir það.  Þráinn alla vega lætur ekki eins mikið uppi um hvernig þetta var. Hann hefur greinilega meiri sjálfstjórn en Alexander.

Svo fórum við út að borða og fengum okkur svo rúnt á hestvagni hér um hverfið og félkk Alexander að halda í tauminn.  Þjónarnir hér eru mjög hrifnir af Alexander því hann er alltaf í einhverjum íþróttabúningum frægra manna og þeir ræða svolítið við hann um liðin.  Alexander bjargar sér ótrúlega vel í útlöndum maður starir nú bara stundum á hann, það sem hann þorir og getur.

Í fyrradag ?. hvað gerðum við nú aftur í fyrradag, já þá var laugardagur og við fórum í dýragarðinn Jungle Park og var það mjög gaman við vorum þar allan daginn og sáum tvö fuglasjó, annað með páfagaukum sem Alexander fékk að taka þátt í.  Hann var látinn standa uppí áhorfendastúku og halda á smápening og þá kom einn fuglinn fljúgandi og tók peninginn úr lófanum á honum og flaug með hann yfir hinum megin og setti hann í baukinn.  Svo var Alexander manaður að hafa hnetu í munninum og láta páfagaukinn koma fljúgandi og taka hana úr munninum á honum á flugi og hann gerði það með sóma strákurinn.  Sara var eins og ljósmyndari í dýragarðinum, naut sín við að taka myndir og við látum kannski fylgja eina, tvær frá henni með í þessu en ég gat sett hennar myndir í tölvuna en ekki mínar.  ;(

Ástrós og Kristófer skemmtu sér líka vel í dýragarðinum og voru leiðsögumenn fyrir okkur sem var bara fínt nema þegar við vorum að villast og alveg að kafna og þau í einhverjum pælingum.  En já við sáum svo líka annað fuglasjó með alls konar stórum fuglum, Örn, Smyrill, Storkur og ég veit því miður ekki nöfnin á þeim en þeir flugu bara rétt yfir hausunum á okkur og vááá vænghafið á þeim sumum.

 

Ykkar TenerifeKristín

Ps. Hótelið okkar er ofan á verslunarmolli og svo er öll gatan okkar búðir fram og til baka en ? ég hef ekki fundið hjá mér þörf að fara í þær enda þekkt fyrir aðra hluti en þó á morgum ætlum við Sara að kíkja og Þráinn ætlar að PASSA litlu krakkana.

kjg 25.7.2006 15:43:00 Rólegheitparexelans
25. júlí 2006

Það er hádegi og ég sit hér ein inni í íbúð, fór snemma út og setti handklæði á 3 bekki (eins og 100 aðrir) svo við gætum verið hér í dag í sundlaugargarðinum og átt rólegan dag.

Sara og Ástrós fóru áðan út í laug (Sara greyið svolítið brunnin) að leika sér og Þráinn var að rölta til þeirra en ég ætla að vera hér heima og steikja Nagga og franskar handa liðinu í hádegismat.  Klara og co er líka á leiðinni út að laug.

Í gær var 32 stiga hiti kl. 18 en við vitum ekki hvað hann mikill um miðjan daginn en það hefur verið eitthvað heldur meira.

Við Sara ætlum að kíkja í búðir á eftir og kaupa okkur pils og sjáum svo til hvort við sjáum eitthvað annað.  Það eru tvenn bikini skemmd eftir ströndina sandurinn smígur inní efnið og allt verður gráyrjótt.  Ég henti bikiníinu hennar Ástrósar í gær en Söru bikiní er nú ekki skemmt en það sér á því.

Við erum búin að hafa það mjög gott hérna og gera heilmargt en það þarf líka að slaka á, það er samt erfitt vegna krakkanna því þau eru ekki alveg til í það og svo finnst manni einhvern veginn að maður eigi að gera EITTHVAÐ á hverjum degi.  En sundlaug og búðarferð ætti að vera nóg allavega einn dag.

Annars eigum við eftir að gera alveg helling td. fara í Monkey park en það er garður sem er bara með öpum og víst hægt að fara inní búrin hjá þeim og vera svona meira með þeim en bara horfa, svo eigum við eftir að fara í LoroPark en mér skilst að hann sé algjört æði, alla vega segja það allir (nema Hafrún, mig minnir að henni hafi þótt Jungle park flottari, en það geta ekki allir verið sammála) og þar er víst Háhyrningasjó (Keikó og félagar) og Mörgæsirnar skemmtilegar og sitthvað fleira.  Við erum ekki alveg búin að ákveða hvort við eigum að taka bílaleigubíl eða hvað þangað en við ætlum að ræða það við fararstjórann í dag en þá er viðtalstími hjá þeim.  Eins ætlum við að athuga hvort ekki sé eitthvað Tívolí hér (þó það væri lítið þá er það betra en ekkert) og svo þurfum við að athuga hvort bleika vestið hennar Ástrósar hafi ekki fundist en við gleymdum því í rútunni þegar við komum.

Hótelið hér að mjög skemmtilegt og rosalega snyrtilegt það eru bónaðar stéttarnar hérna á morgnanna og allt smúlað og skúrað og íbúðirnar þrifnar daglega og skipt um handklæði 3 í viku sem dugir okkur og rúmlega það.

Ástrós og Kristófer eru alltaf að læra ensku eða spænsku til að geta talað við þjónana og gera ósköð mikla lukku þegar þau kalla á eftir þeim ?I love you? í staðin fyrir ?Grasias? (afsakið en ég kann ekki að skrifa spænsku).

Jæja ætla að huga að hádegisverði handa okkur og vera svolítið húsmóðursleg í mér núna en það er ekki víst að það verði mikið oftar.

 

Ykkar TenerifeKristín

kjg 26.7.2006 15:46:00 Háar öldurnar í dag
26. júlí 2006

Vá það var ekkert smá gaman á ströndinni í dag, öldurnar voru svo háar að við misstum næstum allt dótið okkar í sjóinn, það flæddi alveg yfir allt draslið okkar, þe. handklæði, töskur og sólhlíf.

Krakkarnir voru gjörsamlega að fíla sig í botn og meira að segja ÉG lá ekki undir sólhlíf í dag og við Klara fórum í sjóinn á vindsængum krakkanna og höfðum það gott.  Þó jaðraði við að Klara yrði sjóveik svo við rérum að landi og ?my god? það var allt í sandi og ógeðslegt eftir þetta en allir mikið glaðir.  Sandhrúgan sem hrundi úr buxunum mínum þegar ég fór úr var nóg í lítinn sandkastala svo þið getið ímyndað ykkur hvernig þetta var.

Á morgum ætlum aftur í Aqualand og fá að synda með höfrungunum og á laugardaginn eigum við pantaða 2 bílaleigubíla því það er ekki hægt að fá að 7 manna bíl næstu viku svo Klara verður bara að vera dugleg og keyra á eftir okkur en ég þori því ekki.  Ég verð á kortinu hjá Þráni og við tökum þá ormana með í okkar bíl og Klara fær unglingana í sinni bíl svo það verður rólegra hjá henni.

Nú svo erum við að spekúlera í því að fara í Apagarðinn á mánudaginn svo þetta er voða mikið annann hvern dag sem við gerum eitthvað rosalegt en hina dagana meira svona á ströndinni og í sundlauginni.  Fórum aðeins að versla í gær og aftur í dag.  Já ég fór að versla, byrjaði reyndar að fara í svona Indverjabúð og kaupa mér kortalesara því tölvan vildi ekki lesa myndavélina mína svo mér fannst að það væri flottast að kaupa svona kortalesara en ég var samt skíthrædd því það er búið að hræða okkur svo á þessum Indverjum.  Fékk svona “all in one” á 32 eur.  held að það séu bara góð kaup, sýndist nú standa á honum 89 eur en það er sjálfsagt ekkert að marka.

 

Ykkar TenerifeKristín

kjg 27.7.2006 22:25:00 Hofrungar
Tetta var besti dagur lifs mins sagdi Sara i dag.  Hun asamt Kloru og Alexander fengu ad laera um hofrungana og kyssa ta og allt sem tvi fylgir.

Otrulega skemmtilegt og meira ad segja eg og Thrainn skemmtum okkur mjog vel to ad vid hefdum bara verid ahorfendur.

Veit ekki hvort eg geti list tessu a 10 min svo eg aetla ekki ad reyna, tad koma bara myndir eftir ad eg kem heim, tok adeins 150 myndir i dag af hofrungunum.

En vid erum buin ad gera heilmarkt og mikid og eg er buin ad gera 8 tilraunir til ad komast i tolvu og reyndi meira ad segja ad kaupa tradlaust net og nota ferdatolvuna en ef fekk ekkert samband og for yfirum a taugum og haetti.  Allir adrir fengu samband eins og ekkert se.  En svona er tetta stundum.

Her eru allir hraustir en to hofum vid adeins fundid fyrir i maganum en tad er nu helst ef vid faum okkur is i eftirrett.

Vid aetlum a laugardaginn ad fa okkur bilaleigubil og keyra i LoroPark sem er vist alveg aedislegur dyragardur.  Erum buin ad fara i Jungle Park og tvisvar i Aqualand, nokkrum sinnum a strondina og tad voru svo milar oldur i gaer ad sjorinn var naestum buinn ad taka allt dotid okkar.

En gott folk thad er komid fram yfir midnaetti svo eg er frekar andlaus, sjaumst eftir taepa viku.

Ykkar TenerifeKristin

kjg Athugasemd: Ég get ekki lýst því með orðum hvað ég samgleðst ykkur innilega í öfund minni 😀
Hlakka Svakalega til að sjá myndirnar af þessu öllu saman. Upplifa það sem ég missti af í gegnum myndirnar þínar.
kveðja
Hafrún
Enn vonandi brúnni en þú 😉 hehe (,Hafrún) Athugasemd: Gott að þið njótið frísins.
En ykkur er semsagt boðið í 6 ára afmæli kl 4 á þriðjudaginn, 1. ágúst. Efast samt um að þið komið. Við sjáumst að minnsta kosti á þjóðhátíð (,Anna Sif) 29.7.2006 15:47:00 Glæpamennirnir
29. júlí 2006

Vá í gærkvöldi fórum við að borða á Monkey bar sem mikið er auglýstur hér og á leiðinni til baka var Sara alveg ákveðin í því að reyna að finna einhverja kerlingu sem væri að flétta úti á götu því hana langaði svo í fléttur.
Jú, jú gott ef hún var ekki þarna þessi kolsvarta sem við sáum um daginn og önnur með henni.  Þær kölluðu strax til okkar og meira að segja kölluðu Þráinn ?you sexy man? til að að lokka hann með stelpurnar sínar til þeirra.  Jæja við ætlum að kíkja í myndaalbúm hjá þeim og þá allt í einu rjúka þær upp og eitthvað í burtu og við á eftir ásamt parinu sem var að láta flétta stelpuna hjá hinni konunni.  Við eltum þær eitthvað uppí sund og svo er farið að ræða hvað þetta kosti og konan byrjar á að segja 85 eur. sem okkur fannst alveg hræðilega mikið og svo bauð hún 110 fyrir báðar stelpurnar en ég sagði bara að það væri allt of mikið og ætlaði að hætta við en Söru langaði þetta svo mikið og konan spurði aftur og aftur hvað ég myndi vilja borga og ég ætlaði nú ekki að þora að segja henni 25 eur.  en gerði það samt og hún ætlaði nú að móðgast en ég sagðist vera nýbúin að borða og hefði ekki meiri pening á mér ég yrði þá að koma seinna og þá sagði hún 30 eur og ég samþykkti það.  Sagði Þráni að fara heim með Ástrós og Kristófer því mér fannst þetta eitthvað svo skuggalegt og hann gerði það og tók veskið sitt með sér svo ég hafði ekki meira en 30 eur.  Jæja gellan ætlaði að byrja að flétta en heimtaði fyrirframgreitt sem ég og gerði og svo þegar hún var búin með 3 fléttur þá allt í einu sagði hin (svarta konan) eitthvað og þær ruku á fætur og töluðu og töluðu einhverja afrísku og ruku af stað og ég hélt að hún ætlaði að stela peningunum mínum og svíkja okkur því við vildum ekki borga meira en þá voru þær svona hræddar við lögguna því þetta er ólöglegt að þær voru alltaf að færa sig úr stað ef löggan skildi koma.  Við eltum þær ofan í kjallaratröppur og inn í einhvern bakgarð og svo aftur viður á götu þar sem mér leið nú skást en ég var í því mikilvæga hlutverki að rétta teigjurnar.

Þetta tók tæpan klukkutíma og ég gjörsamlega á taugum sjálf byrjuð að segja “Policia” “Policia” þegar ég sá mann í hvítri skyrtu með bindi.  En alla vega stelpan fékk fléttur og er voða fín en það kemur ekki til mála að leyfa Ástrós þetta en hún skilur það ekki alveg.

Ég er viss um að það sé minna stress að kaupa sér hass en að fá sér fléttur á Tenerife.

kjg 29.7.2006 15:48:00 Loro Park
29. júlí 2006

Jæja leigðum okkur bílaleigubíl til að fara í Loro Park hinum megin á eyjunni og “O my god” það er sagt að það sé auðvelt að rata hér en við villtumst 3svar.  Þráinn minn er ekki sá ratvissasti og ég greinilega ekki með háskólapróf á kortið svo þetta endaði á að Klara var sett í aðstoðarökumannssætið og það gekk betur en var samt ekki fullkomið við vorum rúma 2 tíma á leið sem á að taka 1-1,5 tíma.  En í garðinn komumst við og hann er rosalega flottur, miklu flottari en Jungle Park og Háhyrningasjóið er geggjað en krakkarnir voru alltaf að bíða eftir einhverju svipuðu og höfrungasjóinu en þetta eru svo stórar skepnur að það er ekkert sambærilegt.

Þarna voru líka höfrungasjó og við kíktum á það en hitt í Aqualand er miklu betra og við reyndar kölluð það “okkar sjó”.  Síðan var þarna sæljónasjó sem var mjög skemmtilegt því þau klöppuðu alltaf sjálf og kysstu þjálfarana sína og vönguðu við þá og ég veit ekki hvað og hvað.   Myndirnar skýra þetta líklega betur en nokkur orð.

Jæja við komumst heim, náðum þó að villast aftur en semsagt komin heim og allir í lagi.

Ykkar TenerifeKristín

kjg 2.8.2006 15:54:00 Komin heim Jæja þá er maður kominn heim í sólina, ég sagði ykkur að ég myndi reyna að láta ykkur fá einhverja sól meðan ég væri úti, en annars er ég alveg búin að fá nóg af sól í bili en þá er ég ekki að meina að hún þurfi að fara því ég get bara dregið fyrir í dag og morgun og svo verð ég alveg tilbúin í hana aftur.
Annars erum við dálítið lúin, vakna kl. 4 í nótt og komin heim kl. 14.  Það var aðeins hægt að lúra í vélinni og ekki þurfti að hafa eins mikið fyrir krökkunum á leiðinni heim eins og á leiðinni út.

Við skemmtum okkur öll mjög vel úti og allir voru voða góðir vinir en nú er það bara Þjóðhátíðin í Eyjum og svo aftur hversdagurinn.

Þar til andinn kemur yfir mig
Ykkar TenerifeKristín

Ps. Set inn myndir í dag og kvöld.
kjg 8.8.2006 12:29:00 Þjóðhátíð 2006 Jæja þá erum við hjónakornin komin heim eftir þjóðhátíðina en Ástrós Mirra varð eftir hjá Konnýju og fjölskyldu.

Þetta var mjög góð þjóðhátíð og stoltust er ég af unga fólkinu okkar sem var upp til hópa mjög vel búið og sást ekki mikið vín á fólki.  Það virtust allir vera að gera þetta svo skynsamlega.  Til hamingu íslensku ungmenni.

Við héldum nú á föstudaginn að við kæmumst ekki því það var ófært þegar við komum á Bakka en það rofaði til og þeir byrjuðu að fljúga og áttum við að fara í vél nr. 16 svo er kallað út í vél nr. 14 og þá er farið að þykkna aftur upp svo við vorum ansi stressuð á því hvort þetta tækist og svo kom liðið úr vél nr. 14 aftur inn því það kom þokutappi og þeir fóru ekki í loftið.  Við héldum að þá væri þetta búið en svo rofaði aftur til eftir klukkustund og við komumst.

Fórum svo að segja strax inn í dal og hittum alveg fullt af fólki sem við þekkjum og svo var drifið sig i kjötsúpu hjá Konný.  Fórum svo á kvöldvökuna kl. 21 og þá var svona rigninarúði en við komum okkur samt fyrir í brekkunni.  Ástrós Mirru leiddist frekar mikið þetta kvöld, henni fannst tónlistin sem var verið að spila “Ömurlega leiðinleg” (Maggi Eiríks og blús). Svo fórum við Ástrós, Konný og Sara heim eftir brennu kl. 01 og fengum okkur aftur kjötsúpu og fórum svo að sofa.  Þráinn og Markús voru eitthvað lengur.

Á laugardaginn fórum við aftur inn í dal um miðjan daginn til að kíkja á barnadagskrána og var hún alveg ágæt, alla vega dönsuðum við Ástrós Mirra og hún horfði á brúðubílinn sem klikkar aldrei.

Nú svo um kvöldið var okkur öllum boðið í grill til Edda hennar ömmu Steinu og þar voru báðir bræður Þráins með sínar fjölskyldur svo þetta var mjög fjölskylduvæn þjóðhátíð.  Skelltum okkur svo í dalinn um kvöldið og fylgdumst með kvölddagskránni (þá var þurrt í brekkunni) sem var mjög góð og toppaði Todmobil það rétt fyrir miðnætti.  Geðveikt sánd og bassinn svo hátt stilltur að brekkan nötraði.  Fyrir mér var þetta hápunktur þjóðhátíðarskemmtidagskránar.  (Stuðmenn voru á föstudeginum og mér fannst ekkert varið í þá nema Stefán Karl.)

Jæja svo er að líða að miðnætti og þá fer þessi líka þokan að láta sjá sig og það endaði þannig að við sáum ekki stærstu bomburnar í flugeldasýningunni því þær fóru upppfyrir þoku.  En að sjálfsögðu klikkar flugeldasýningin á Þjóðhátíð aldrei.  Því hljóðið magnast svo í dalnum að það er alveg ótrúlegt.  Ég elska flugeldasýningu með hávaða.

Jæja þá er það sunnudagurinn og við mætum inní dal eins og venjulega og þar er Benedikt búálfur í stærsta hlutverkinu og ég veit ekki hvort krakkarnir hlógu meira eða fullorðna fólkið, hann var æðislegur.  Hann kom svo aftur fram á kvölddagskránni (ekki Benedikt búálfur heldur Björgvin Franz) og var sko ekki síðri, reyndar gleymi ég að segja frá Þorsteini Guðmundssyni sem var á laugardagskvölinu að skemmta og var geðveikt fyndinn, ég get endalaust hlegið að svona svörtum húmor en ætla ekki að hafa hann eftir hér.  Kannski maður á mann ef þið blikkið mig.

Jæja við fórum í Humarveislu hjá Konný á sunnudagskvöldið og svo inní dal en Konný átti að fara á gæsluvakt en Markús tók vaktina fyrir hana svo hún gat aðeins slappað af, hún sá nefnilega um tvær sjoppur og átti að taka 2 x 6 tíma gæsluvaktir.  Við skelltum okkur í brekkuna sem var orðin ansi ljót en allir með plast undir sér svo það skipti minna máli.  Fín dagskrá og að mati Ástrósar Mirru mun skemmtilegri tónlist þarna kom hljómsvetin Hoffmann sem er þungarokkssveit og mín dama rokkaði þvílíkt í brekkunni.  Ekkert blúskjaftæði fyrir þessa stelpu bara almennilegt rokk.
Ástrós var þvílíkt að brillera í brekkunni á sunnudagskvöldið, það var hópur að ungum krökkum fyrir aftan okkur sem tjáðu mér að hún væri flottasti krakki “ever” sem þau hefðu séð og henni voru gefin ljós um hálsinn og stjörnuljós til að hafa í brekkusöngnum og ég veit ekki hvað.
Hún reyndar notaði stjörnuljósið sitt þegar óopinbert þjóðhátíðarlag 21 aldarinnar var spilað því og langaði svo í nýtt, þá sé ég mann neðar í brekkunni sem ég kannast við vera að taka upp stór stjörnuljós handa sýnum börnum og segi Ástrós að fara til hans og segjast vera dóttir Þráins og spyrja hvort hún megi ekki fá eitt stjörnuljós.  Hún kom að sjálfsögðu með ljósið til baka, maður verður bara að læra að bjarga sér.
Jæja brekkusöngurinn var fínn (þó ég vilji Árna í burtu) þekki reyndar nokkra sem fóru heim þá því það fólk vill ekki hampa Árna.  En þó Árni kunni bara 10 lög þá tekst honum að fá brekkuna með sér og þegar hann endar síðan á þjóðsöngnum okkar og er búinn að lækka hann um einn tón þannig að allir geti sungið með þá finnst mér hann bara flottur og að standa þarna ein af 11 þúsund manna kór og syngja þjóðsönginn og sjá svo þessi 130 blys kveikt fyrir ofan okkur í brekkunni var “Ótrúlega flott” ég held að fólk geti ekki gert sér grein fyrir því hvað þetta er magnað samspil ljóss og söngs.  Síðan kom smá flugeldasýning og svo þjóðhátíðarlag 21 aldarinnar aftur og það var stórkostlegt, ég reyndar kann ekki allan textann í þessu lagi en hinir 10.998 kunnu hann og þetta er rosalega flott lag og passar vel við dalinn.  (Lífið er yndislegt)

Nú svo fékk ég að vera frameftir þetta síðasta kvöld og var samt næstum því farin heim kl. 02 en hitti þá Guðrúnu vinkonu og Hregga manninn hennar og fór að þvælast með þeim og kom ekki heim fyrr en kl. 06, svaf til 10 og komin uppá flugvöll uppúr kl. 12 og heim fyrir kl. 16 og ekkert þunn.  Áfram Kristín (kannski í æfingu eftir allt sullið á Tenerife).  Er svo bara að slappa af í dag og þrífa og þvo þvotta, lesa góða bók og þess háttar og mæti svo kát og hress í vinnu á morgun.
kjg 13.8.2006 17:54:13 Fjölskyldan sameinuð á ný Hjartað mitt er farið að slá eðlilega aftur, Ástrós Mirra er komin í mömmu og pabbafaðm.  Síðustu dagarnir sem hún var í Eyjum vorum bara hunderfiðir sérstaklega eftir að hún hringdi og sagðist sakna okkar svo mikið og grét í símann.  Oh, my god hvað það var erfitt að láta ekki senda hana með næsta flugi heim.  En Konný tókst nú að fá hana til að gleyma mesta söknuðinum og svo komu þau (Konný og Markús) með hana á laugardaginn beint úr Herjólfi á Gjábakka í Þingvallasveit til okkar.
Vá það urðu sko fagnaðarfundir og sjaldan eða aldrei hefur mér létt svona mikið. Þó svo að maður sé byrjaður fljótlega að siða til og skammast þá er þetta svona “Rétt”  hitt er rangt.  Við eigum að vera saman “no matter what”.

Við komum svo úr sveitinni áðan og skelltum okkur í 87 ára afmæli hjá langömmu sem var rosalega gaman því langafi fékk að koma í heimsókn svo þetta var alveg eins og áður, afi sat í stólnum sínum og allir krakkarnir í kringum hann og amma sá um að allir fengju gott að borða.  Frystum þessa mynd í huganum því þar sem afi er orðinn 91 árs þá vitum við aldrei hvenær síðasta samverustundin verður.

 

Svona lítur nú langafa og ömmuhópurinn út fyrir utan þessar 4 stóru þarna hægra megin sem urðu að setjast til að börnin þeirra fengjust í myndatöku, þær eru sem sagt ekki langafa- ömmubörn heldur afa- og ömmubörn.

Jæja vinna á morgun og Ástrós Mirra ætlar í pössun til Auðar ömmu, Þráinn er reyndar að fara í Borgarfjörðinn að vinna alla vikuna svo við mæðgur höfum það huggulegt saman en svo er skólinn að byrja hjá Ástrós Mirru eftir viku (eða ég vona það, við höfum ekki enn fengið bréf eða neitt sem býður hana velkomna í skólann og vitum ekki neitt)og þá verð ég fríi meðan hún er að byrja og við að átta okkur á þessu öllu.
kjg 14.8.2006 20:24:16 Amma töffari Vitiði hvað, langamma mín er mesti töffari í heimi.  Hún skellti sér bara með okkur mömmu og Kollu á McDonalds áðan.  Fékk sér kjúklingaborgara og naut sín bara vel.  Mér finnst nefnilega svo gaman á McDonalds þess vegna fórum við þangað og svo sagði langamma:  Ja, hérna það er aldrei að maður prófi eitthvað nýtt, þetta líka.  Og vitiði langamma mín er 87 á morgun svo ekki var seinna vænna.

En ég fór með mömmu í dag að kaupa skóladótið og vitiði hvað?  Ég veit sko alveg hvað ég vill og það þýðir ekkert fyrir mömmu að reyna að fá mig til að kaupa eitthvað annað en það sem ég vel.  Mamma er reyndar heppin að ég er ekkert að velja svo dýra hluti, td. kostaði skólataskan mín 4.000 en þær eru víst til 8.900 segir mamma.  Langafi vildi endilega gefa mér skólatöskuna svo við fórum í heimsókn til hans að sýna honum hvað ég væri flott með svona flotta skólatösku.  Honum fannst þetta mjög vel valið hjá mér.

Ég er farin að hlakka mikið til að byrja í skólanum og mamma sér ýmis ný þroskamerki á mér og ég er mikið duglegri að gegna og segist ætla að vera dugleg að vakna og klæða mig strax þegar ég byrja í skólanum.  Vonandi næ ég að standa við það.

En ég læt fylgja eina mynd af mér með töskuna svo þið sjáið hvað ég er orðin mikil skólaskvísa.
kjg 16.8.2006 21:30:18 Boðskort í skólann Mamma hefur verið eitthvað óænægð með uppslýsingarnar sem hún hefur um skólann minn og hvernig allt muni verða og hvað og hvurs og hvernig, svo hún sendi skólastjóranum bréf þar sem hún sagði honum frá öllum sínum spurningum og hvað haldið þið?  Hann bauð okkur mömmu bara að koma í skólann á morgun (við reyndar frestuðum því til mánudags) og fá að hitta kennarann minn og spurja hann allra þessara spurninga sem brenna á okkur.

Vei, það verður sko gaman, því ég hlakka svo til að fá að byrja í skólanum og mér finnst ekkert gaman ef mamma er svona óörugg með þetta allt saman.

Ég er búin að vera frekar stillt og dugleg stelpa þessa vikuna finn svolítið fyrir því að ég er að fara að byrja í skóla, mamma reyndar minnir mig heilmikið á það og er að reyna að kenna mér hvað það þýðir að þurfa að mæta klukkan eitthvað td. í skólann og þá þýði ekki að drolla eða neitt þessháttar, þess vegna er ég líka að reyna að fara snemma að sofa svo ég eigi auðveldara með að vakna á morgnanna.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 18.8.2006 08:36:20 Að vilja vita ALLT Ég er líklega ein af þeim sem þarf að vita ALLT.  Alla vega fannst mér mamma vera þannig á svipinn þegar ég var að segja henni að við Ástrós Mirra færum í sérstaka heimsókn í skólann á mánudaginn því við vissum ekkert hvernig skólastarfið myndi verða í vetur osfr.

Er það galli eða ekki?  Sjálfsagt getur maður farið yfir strikið í þessum málum eins og öllu öðru en ég á bara mjög erfitt með að sleppa af Ástrós hendinni og láta hana bara fara í skóla þegar ég veit EKKI NEITT.

Það fyrsta sem hefur snert mig í þessu skólamáli er að ekkert bréf hefur borist inn um lúguna hjá okkur þar sem Ástrós er boðin velkomin í Hvaleyrarskóla og vetrarstarfið og skólinn útskýrt í þessu bréfi.  Ég veit að í öðrum skólum er sérstakt kynningarkvöld fyrir foreldra 6 ára barna en ekki í okkar skóla. (Skrítið að ég sem þarf að vita allt skuli lenda á svoleiðis skóla)

Við td. misstum af því að skrá hana í skóla því við sáum ekki einhverja auglýsingu í Fréttablaðinu í febrúar, bíddu í febrúar vorum við bara ekkert að velta því fyrir okkur að hún ætti að fara í skóla í ágúst enda ekkert bréf borist heim til að minna okkur á það.

Allt í lagi, okkur var boðið var að skrá hana í síma sem við og gerðum og stúlkan í símanum sagði að svo myndum við líklega fá bréf í ágúst um framhaldið. En nei ekkert bréf, enginn sérstakur fundur fyrir foreldra 6 ára barna, bara skólasetning 22. ágúst og svo foreldrafundur 23. ágúst en ekkert meira sagt um hann.  Bíddu við, á ég að koma ein á foreldrafundinn eða Ástrós Mirra með.  Ég hefði haldið að ég kæmi ein enda bara sagt Foreldrafundur og ég er foreldrið (ég skrifa eins og Þráinn sé ekki til en málið er að ég er í sumarfríi núna en ekki hann svo þetta er á minni könnu.
Nei, nei allir sem ég tala við segja að líklega eigi Ástrós að koma með en það er bara ekkert minnst á það, hvernig á ég að vita það þá.  Ég er búin að skoða heimasíður fleiri skóla og tala við fólk sem á börn í skólum og það segja allir að þegar foreldrafundir eru boðaðir þá er tekið fram hvort barnið eigi að koma með eða ekki.  Að sjálfsögðu, annars veit maður það ekki.

Hvað svo?
Hvernig sækir maður um skólagæslu?
Hvenær sækir maður um skólagæslu?
Er öruggt að við fáum skólagæslu?  Hvernig hefur það verið undanfarin ár?
Hvenær mætir barnið í skólann á daginn?
Hversu lengi er skólinn á daginn?  Hvað þurfum við mikla skólagæslu?
Á að koma með nesti?
Hvað er sniðugt í nesti?
Er boðið uppá hádegismat og hvernig virkar það?
Hver hjálpar þessum litlu með matinn og það allt?
Mun karl eða kona kenna henni?
Verður hún með vinum sínum í bekk?

Þetta eru spurningarnar sem vöknuðu hjá mér í byrjun ágúst og ég hefði viljað fá svör við einhverjum af þeim fyrr.  Ég er reyndar búin að fá svör við nokkrum þeirra núna með því að hringja í skólann, tala við alla sem eiga börn í skóla osfrv. og þar með fengið fullt af upplýsingum en þetta hefur tekið alveg heilmikinn tíma og orðið þess valdandi að ég er með þetta skólamál á heilanum og ekkert annað kemst að.

En semsagt á mánudaginn förum við Ástrós saman í smá einkakynningu í skólann og fáum að hitta umsjónarkennarann hennar og okkur sýndur skólinn.  Best að reyna að sækja um í skólavistuninni í leiðinni til að vera á undan þeim sem koma á þriðjudaginn á skólasetninguna.  Aðalatriðið er að reyna að vera jákvæð gagnvart skólanum svo það smiti ekki til Ástrósar sem á að fara að vera þar næstu 10 árin.

Það er leikur að læra, leikur sá er mér kær
að vita meira og meira, meira í dag en í gær.
Bjallan hringir við höldum heim úr skólanum glöð
prúð og frjálsleg í fasi fram nú allir í röð.

Veit reyndar ekki hvort enn sé farið í röð í skólunum?  Vitiði að það eru 37 ár síðan ég fór í fyrsta bekk og þá fóru allir í röð, það voru málaðir reitir á stéttina og merkt stofunum sem maður átti að vera í, svo kom kennarinn fram á tröppurnar og kallaði í sinn bekk og þeir gengu svo einn og einn bekkur inní skólann prúð og frjálsleg í fasi, tókum af okkur úlpur og húfur og hengdum á snaga og fórum aftur í röð áður en við gengum inn í stofuna.  Glætan að þetta sé svona enn í dag.  En gagnvart 6 ára krökkunum þá væri það betra.  Ég er svo hrædd um að unglingarnir munu bara valta yfir þessi litlu kríli sem eru að byrja þarna í skólanum.

Jæja ég ætlaði nú að enda þetta blogg á að setja mynd af skólanum hér fyrir neðan og broskall til að sýna að ég væri nú jákvæð fyrir þessu öll en úps… það er engin mynd af skólanum á heimasíðu skólans, sorrý.

Kristín, sem er að fara í fyrsta bekk aftur.
kjg Athugasemd: Gangi ykkur vel með þetta. (,Íris) Athugasemd: Nibb, það er ekki galli að vilja vita ALLT !!
Það ber vott um heilbrigða hugsun og skynsemi að ana ekki út í óvissu, hvorki með sjálfan sig né börnin manns… Svo ég skil þessa baráttu þína fullkomlega og vona að það verði tekið vel á móti ykkur 🙂
(,Hafrún) 21.8.2006 18:40:00 Að eiga svör við öllu… … er besta mál og líður manni miklu betur heldur en þegar maður velkist um í vafa.

Við Ástrós Mirra fórum í skólann hennar í sérstaka heimsókn í morgun og fengum svör við öllu.  Sáum skólann og uppgötvuðum að við hefðum aldrei fundið innganginn fyrir 6 ára börnin ef við hefðum ekki fengið leiðsögn.

Við hittum aðstoðarskólastjórann hana Marsibil og umsjónarkennarann hennar Ástrósar hana Lilju Dögg, báðar mjög fínar konur.

Og hér koma svo svörin:

Skólinn er einsetinn og hefst því klukkan 8.10.
6 ára börnin eru til kl. 14 tvo daga vikunnar og 13.20 3 daga vikunnar.
Þau eiga að koma með nesti og fáum við leiðbeiningar frá kennaranum hennar í foreldraviðtalinu á miðvikudaginn.
Þau fá ekki lýsi.
Þau fá hádegismat og borða yngstu börnin á undan þeim eldri.
Þau eru með sérinngang og eru yngstu börnin í sér álmu í skólanum og er skólaselið beint á móti skólastofunni hennar Ástrósar.
Það komast öll 6 ára börn að í skólagæslunni.
Það á að auka starfið í skólagæslunni og tengja betur heimanámi og íþróttaiðkun barnanna.
Þau læra Handmennt, Myndmennt, Matreiðslu, Tölvu, Sund, Íþróttir fyrir utan að læra að lesa og skrifa.
Skólastjórinn er með þá stefnu að það eigi að reyna eins og hægt er að hafa skólastarfið úti ef svo viðrar.

Svo nú er bara “Í skólanum, í skólanum er skemmtilegt að vera.
kjg 23.8.2006 15:09:11 Skólinn byrjaður Jæja þá er skólinn byrjaður hjá mér, það var skólasetning í gær, foreldraviðtal áðan og svo hefst kennsla á morgun.

Ég hlakka mikið til, sagði kennaranum mínum henni Lilju Dögg að mest hlakkaði mig til að byrja í sundi.  Hún spurði mig nú líka hvort ég kynni einhverja stafi og var alveg hissa hvað ég kunni mikið og var dugleg.  Ég teiknaði nefnilega mynd fyrir hana og skrifaði nafnið mitt og símanúmer á hana.

Ég verð með flestöllum vinum mínum í bekk, td. Helgu Rós, Sóley Lilju, Davíð Snæ, Reyni Daða, Sæbjörgu, Sædísi Karólínu og þá held ég reyndar að þau séu upptalin.  En svo hitti ég líka stelpu í dag sem ég þekki úr sveitinni sem heitir Sædís en hún er ári eldri en ég og að fara í annan bekk.

Ég verð í skólanum frá 8.10 – 13.20 eða 14 og fer þá í Holtasel sem er heilsdagsskólinn minn.  Ég fæ heitan mat í hádeginu og eftirmiðdagshressingu í Holtaseli þannig að ég þarf bara að koma með nesti fyrir morgunhressinguna.  Smurt brauð og ávexti og mjólkina fæ ég í skólanum.

 

En þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra skólastelpa
kjg Athugasemd: Hæ og Til hamingju með að vera byrjuð í skóla Ástrós Mirra !!
Ég er viss um að þú verður roosa dugleg og klár 😀
Kveðja
Hafrún Ósk

E.s. hlakka nú til að fá mömmu þína aftur í sætið sitt 🙂 (,Hafrún Ósk) 23.8.2006 22:32:00 Rockstar 7 eftir Er að horfa á Rockstar og ákvað að nú væri óhætt að fara að ræða þetta hérna hvað mér fyndist um hvern og einn osfrv.

Patrice var “döll” eins og venjulega og hlýtur að detta út í nótt.

Magni var frábær og hefur vonandi náð að hífa sig upp aftur.

Ryan var “geðveikislega flottur” og er alltaf að bæta sig.  Mér leist best á hann fyrst en svo var hann frekar leiðinlegur í fyrstu þáttunum en hefur aldeilis tekið sig á og er gjörsamlega að “meika þetta”.

Dilana kom illa út úr raunveruleikaþættinum því hún var að rakka alla niður en hún stóð sig mjög vel í laginu og heldur sínu sæti.  Ég er á því að Magni, Ryan og Dilana eigi að vera 3 síðustu.

Storm gerði þetta mjög vel en samt var hún ekki að heilla mig neitt sérstaklega.  Verð að bæta við því ég er að hlusta núna í annað sinn og þetta var mjög gott hjá henni, en samt mundi ég ekki alveg áðan hvernig hún hafði gert þetta svo… það segir nú eitthvað.

Toby flottastur ber að ofan og gerði þetta vel en Magni og Ryan eiga þetta kvöld.

Lukas ég er eins og Dilana og þoli hann ekki, finnst hann vera bara dálítið frík.

Þetta er samt alveg ótrúlega góður hópur og hvert og eitt þeirra 7 sem eftir eru gætu alveg frontað þessa hljómsveit.
kjg Athugasemd: Vá, andlega skyldar eða hvað, ég var einmitt að blogga um Rockstar í fyrsta sinn líka !!! Nánast alveg sammála þér um allt 😀
Miss you babe
Haffa (,Hafrún Ósk) 24.8.2006 19:31:55 Skólastelpan Jæja þá er fyrsti skóladagurinn búinn og fannst mér bara gaman.  Ég heyrði sögu hjá henni Lilju Dögg kennaranum mínum, svo fórum við í matreiðslu og lærðum að afhýða gulrætur og borða þær með ídýfu.  Og eitt sem ég held að margar mömmur geri ekki, það er að þvo sér alltaf um hendurnar áður en byrjað er að elda.

Svo fór ég í Holtasel (sem er skólaselið okkar) en var bara í hálftíma því ég þurfti að fara til Úrsúlu í augntékk, kom bara vel út úr því, hún sagði að ég væri með ofursjón með gleraugunum mínum.

Við vorum ekki byrjuð að gera neitt í Holtaseli þegar mamma kom að sækja mig og það tók svolítinn tíma að finna skóna sem voru hinummegin og svo týndi ég húfunni minn.  Helga sem vinnur í Holtaseli fann hana ekki áður en hún fór heim svo mamma vonar að við finnum hana á morgun, við erum allavega heppin að mamma merkti hana í morgun svo hún hlýtur að skila sér.
Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg Athugasemd: Hahaha ég hefði átt að vera búin að segja þér að fyrsta árið í skóla týnist ábyggilega ein húfa, peysa, vettlingar, ullarsokkar á mánuði. Þau kunna ekkert að passa upp á þetta og nú er engin fóstra til að passa !!!
Been there 😉 Good luck… 😀 (,Hafrún Ósk) 24.8.2006 20:10:34 Húfan Mamma var að finna húfuna mína!  Hún var inní erminni á úlpunni minni.

Pabbi var í baði og mamma var að segja honum að ég hefði týnt húfunni minni þegar hann segir ” Í morgun þegar þú komst inní skólastofuna settir þú húfuna í ermina á úlpunni þinni, hvað gerðir þú eftir frímínútur?”  Þá allt í einu rýkur mamma fram og tekur upp úlpuna mína og ….

… í erminni var húfan, mömmu datt bara ekki í hug að athuga þetta.
Þessar mömmur
kjg 25.8.2006 19:26:00 Nestið Ég verð að segja ykkur frá því að þegar ég var að fara í skólann fyrsta daginn þá smurði mamma nesti handa mér og þá sagði pabbi:  “Ástrós, svo vil ég ekki fá nestið til baka heim, þú átt að borða það allt í skólanum”.

Svo þegar mamma sótti mig þá spurði hún hvort ég hefði borðað nestið mitt en ég sagði henni að það sem ég væri að segja henni núna, mætti hún ekki segja pabba frá en málið væri það að bananinn hefði verið orðinn svartur og því hefði ég ekki viljað hann en af því að pabbi sagði þetta, þá henti ég bara afganginum af nestinu mínu, því ekki þorði  ég heim með það.

 

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 25.8.2006 19:44:00 Save Magni Mátti til að skella þessari mynd hérna inn þar sem í gangi er átak hjá íslenskum tónlistarunnendum og tölvunördum að kjósa Magna eins og okkur væri borgað fyrir það næst, svo hann fari ekki á gólfið aftur.

Munið bara að það er bara hægt að kjósa til kl. 6 um morguninn svo annað hvort er að vaka frameftir til 2 eða vakna eldsnemma og kjósa, maður velur bara þá leið sem hentar.  Það væri nú gráupplagt fyrir okkur Þráin að skipta liði í þessu máli, þ.e. að hann vaki frameftir (enda gerir hann það oft) og ég vakni rétt fyrir kl. 6 og haldi áfram.
kjg
kjg 26.8.2006 09:22:00 Námskeið í Hvalfirði Jæja við erum búin að fá tímasetningu á námskeiðið okkar í Hvalfirði en þetta námskeið er eitt af skilyrðunum til að fá forsamþykki íslenskra yfirvalda til ættleiðingar.

20. – 21. október og 11.nóvember eru okkar dagar.  Fyrst er farið heila helgi en svo er bara einn stakur laugardagur.

Okkur finnst bara spennandi að fara á þetta námskeið því þar er farið yfir ýmsa hluti, td. af hverju við ætlum að ættleiða og hvort við gerum okkur grein fyrir því hvað það þýðir osfrv.

En við höfum ekkert heyrt frá félagsmálastofnun Hafnarfjarðar vegna úttektar á okkur.  Það eru komnir tveir mánuðir síðan þeir (og við) fengu bréf frá Dómsmálaráðuneytinu með beiðni um að taka okkur út og á því verki að vera lokið fyrir okt. svo það er eins gott að þau spýti í lófana þegar þau nenna að byrja.
Ég er búin að hringja tvisvar niðrá skrifstofu til að fá að tala við félagsráðgjafa eða fá tíma og í fyrra skiptið var ég of fljót á mér því þau voru ekki búin að fá bréfið og í seinna skiptið átti einhver María að hringja í mig (það eru tvær vikur síðan) en hún hefur ekkert hringt.

Ég veit ekki hvort maður eigi bara að bíða og taka sénsinn á að tímasetningin brenglist eitthvað (sem við viljum alls ekki) eða hvort ég eigi að hringja aftur á mánudaginn og heimta viðtal eða tíma.

 

Við setjum alla vega ekki skóna okkar fyrir utan dyrnar og bíðum eftir að lífið banki uppá, það er allavega öruggt mál.

kjg
kjg 29.8.2006 19:16:12 Kjósið Magna í nótt Kæru vinir, munið eftir að stilla vekjaraklukkurnar á milli 1.50 og 5.50 í nótt og kjósa Magna.
kjg 30.8.2006 20:05:00 Óvæntar breytingar …þurfa ekkert að vera jákvæðar og það að þurfa að taka við þeim daginn sem maður fór mjög seint að sofa af því að Rockstar var í sjónvarpinu virkar illa.

Ég fékk reyndar að vita það í gær að Hafrún og Auður ættu að flytja úr opna rýminu okkar og inná skrifstofu því það er kominn einn nýr strákur í hópinn og ein stelpa væntanleg.  Allt í lagi með það, sérstaklega þeirra vegna en mér hefði fundist allt í lagi að maður fengi einhvern pata af þessu áður sérstaklega þar sem við erum frekar náinn hópur þarna stelpurnar.
En ok, fyrst þetta er svona þá er best að gera sem best úr því og ætluðum við María og Halldóra að hreiðra um okkur saman í horninu mínu og nýja fólkið gæti verið í hinu horninu en NEI, við fáum ekki að ráða þessu og þessi nýja stúlka sem er að byrja og NOTA BENE ég gæti verið mamma hennar á að setjast í sætið hennar Hafrúnar og vera límd uppvið mig.

Í fyrsta sinn í sögu Maritech og allra þeirra flutninga sem þar hafa átt sér stað, sagðist ég ekki vera sátt og væri reyndar bara fúl yfir þessu og ætlaði mér að vera það. (Punktur)

Er búin að finna þessa líka flottu mynd sem Ástrós Mirra málaði á leikskólanum og ætla að líma hana yfir glerið sem er á milli básanna því það er aðeins 10cm færanlegur laus veggur sem skilur á milli bása hjá okkur og þar að auki er gler á honum miðjum svo þú getur ekki átt neitt einkalíf sem er allt í lagi ef þér líður vel með manneskjunni sem er hinum megin.  En það er alveg sama hversu fín stelpa þessi nýja fædd ’81 er það er heil kynslóð á milli mín og hennar SORRY, það er bara málið.  Um hvað talar maður við svona krakka, djammið sem þau eru á um helgar, eða hvernig hægt sé að borga Visa með Visa því endar ná ekki saman.  Nei ég nenni því ekki tók þann pakka út fyrir 20 árum og vill frekar eitthvað þroskaðra eins og við Hafrún höfum haft það.  Stillum saman lögin í tölvunum okkar, fílum Rockstar í tætlur saman, Idol, Eurovision og YOU NAME IT en gagnvart svona ungri stelpu yrði ég að sýna smá þroska og móðureitthvað, bara afþví.
Bara afþví mér líður svoleiðis núna og aðallega er þetta kannski mál fyrir mig núna því ég er á svona tímabili sem ég nenni ekki að kynnast nýju fólki.  Fær svona tilfinningu af og til og hún er mjög sterk núna, vil bara fá að vera eins og ég er án þess að setja upp eitthvað svona velkomin sparibros og gervi eitthvað.

En ætti samt að fara snemma að sofa í kvöld og sjá til hvernig mér líður á morgun.
kjg Athugasemd: Já, maður má alveg vera fúll á móti !!
Þú sem ert alltaf sú sem hægt er að treysta á að líti jákvætt á hlutina ,, kannski verður þetta bara stutt tímabil og svo aftur breytt.
Ég segi fyrir mig, að þó ég sé fegin að losna við “umferðina” sem er hjá okkur stundum, þá á ég nú eftir að sakna þín (Snökt :'( ) og þess að geta bara horft í gegnum glerið og átt samræður við þig um allt og ekkert …. stundum jafnvel án orða 😉
(,Hafrún) 31.8.2006 20:31:45 Með gúrkusneiðar í andlitinu…. … nei ekki alveg en ég sit hér með eitthvert djúpnæringarkrem sem á að vera á manni í 10 mín og líður eins og ég sé með gúrkusneiðar í andlitinu.

Hef ekki verið mikið fyrir krem en fékk hérna óvart konu frá Herbalife með snyrtivörur (vissi reyndar ekki að þær væru til) og hún lét mig prófa ýmislegt og það verður að segjast eins og er að ég sá mun á mér svo ég lét fallast í freisni og keypti af henni alls konar krem og dót.

En aðallega er ég að bíða eftir Rockstar endursýningunni því upptakan mín klikkaði í nótt eða ekki upptakan mín heldur slökkti þessi djö… digital afruglari á sér áður en upptakan hófst og því miður þá voru allir farnir að sofa og enginn til að kveikja á honum aftur.
Ég vaknaði svo snemma og ætlaði aldeilis að sjá þáttinn áður en ég færi í vinnu en …. ekkert…. og ég næstum því panikaði, oh my god hvernig fór þátturinn osfrv. og svo fattaði ég náttúrulega að kíkja á netið en þá var ekki búið að uppfæra þar hver datt út en Vísir.is klikkaði ekki og var með nýjustu fréttir.

Ég jafnaði mig á geðvonskunni í nótt og fór og bað hlutaðeigandi fyrirgefningar í dag á mér og sagðist hefði nú aldrei látið mína geðvonsku eða fýlu bitna á nýjum starfsmanni bara svo það væri á hreinu en ég er samt glöð að Halldóra fékk að flytja yfir til mín þar sem skrifborðið þeim megin hentar henni bara svo miklu betur.  Þannig að listaverkið hennar Ástrósar var ekki hengt fyrir glerið heldur bara uppá vegg.
kjg 5.9.2006 16:18:28 Fall er fararheill Jæja þá er ég búin að vera í skólanum í tæpar tvær vikur og mér líkar mjög vel.  Mér finnst mjög gaman að gera heimaverkefnin mín og er mjög hrifin af kennaranum mínum henni Lilju Dögg.
Ef mamma er búin að vera að skrifa eitthvað um Lilju og skólann þá er það eitthvað sem hún er að segja en ekki ég, því ég er ánægð.
En samt kom dálítið fyrir í gær og það var að ég datt í rennibrautinni og meiddi mig í munninum.  Það losnaði aðeins önnur framtönnin og svo kom blóð.  Samt held ég að þetta sé alveg að jafna sig, ég vona það því ég fór ekkert til tannlæknis út af þessu.
Annað sem ég er búin að vera að gera undanfarið er að ég fór með mömmu og pabba til Súðavíkur um síðustu helgi og þar var ég að passa litlar tvíburasystur og hund.  Ég er víst besta barnapía sem hægt er að hugsa sér, ég var svo dugleg að hugga stelpurnar, setja snuddur uppí þær, eða gefa þeim pela eða hreinlega bara að leika við þær.  Svo var ég líka rosalega dugleg að þjálfa hana Tinnu en hún er hundur.  Þegar ég kom þá kunni hún ekki að heilsa en hún kann það núna.  Þökk sé mér, hundaþjálfaranum.
kjg 9.9.2006 12:35:00 Kyssustríð
Það er byrjað…..

….kyssustríðið í skólanum.  Mamma sagði mér að þetta byrjaði venjulega ekki fyrr en í 8 eða 9 ára bekk, það gerði það allavega þegar hún var stelpa, en nei nei það byrjar í 1. bekk í Hvaleyrarskóla og ég er sko aðalgellan í þessu stríði og elti oftast Sævar sem er í 2. bekk, en stundum líka aðra stráka.

Svo þegar mamma kom um daginn að sækja mig þá vildi ég sýna henni hvernig þessi leikur er og fór að elta Sævar en þá kom hann labbandi til mín, setti hendurnar utan um axlirnar á mér og sagði:  “Ástrós, af hverju sýnir þú ekki bara mömmu þinni hvernig þú kyssir mig?” (og athugið að hann er smámæltur)  Og ég tók hann á orðinu og smellti á hann einum stórum kossi.
kjg 10.9.2006 08:47:00 The Iceman
Ég var að lesa dóma um Magna og Rockstar á netinu og ég get svo svarið það að ég fékk þvílíka gæsahúð honum var hrósað svo mikið.

http://www.topix.net/content/blogcritics/1935541754042403450712063968582070233799

Kíkið á þetta og hlustið á lögin hans eins og Dolfins cry og Fire hann er hreint út sagt geðveikt flottur í þeim.  Ég held að ég hljóti að hafa verið rokkari í poppdulargervi því ég er að fíla þessa músík alveg í botn.

Til dæmis fannst mér Storm Large alveg frábær í síðasta þættinum og lagið hennar What the fock is ladylike finnst mér æðislegt.  Hlustið á það aftur hér.
http://www.youtube.com/watch?v=G25okFg80XE

Eins fannst mér Storm líka æðisleg í botnbaráttunni, lagið sem hún tók þar Wish you were here, var rosalega flott hjá henni og fékk kalla eins og Jason til að fá tár í augun.

Og vitiði hvað ég er farin að sjá lítinn dreng innan í Lucasi og held að hann sé bara allt of mikið að feika sjálfan sig.  Sá sem skrifar dómana um Magna hér að ofan segir einmitt að hann sé ekkert að setja á sig einhverja hringi, engin tattú eða annað skraut sem aðrir rokkarar gera, hann sé í þessu fyrir músíkina en ekki fylgihlutina.  Sem er náttúrulega frábært.

Svo er það náttúrulega Dilana, hvað á maður að segja um hana, ég elskaði hana til að byrja með en þoli ekki svona dramatík og grenj.  Ég las samt blogg frá Storm þar sem hún segir áhorfendum að hætta að velta því fyrir sér því Dilana sér frábær í alla staði og eigi ekki skilið að þetta sé það sem fólk muni um hana.  Svo við skulum sjá til í næsta þætti, hún komst alla vega aðeins í gírinn þarna um daginn þegar hún tók pönkið svo… gefum henni séns.

Þá er það Toby sem er eftir og það segja allir að hann vinni þetta, sem getur vel verið mér finnst hann mjög flottur en samt ekki flottastur.  Reyndar var lagið hans frumsamda frábært og allir að syngja það ennþá því það var svo grípandi, og svo er hann kom með skemmtilega sviðsframkomu.

Svo í rauninni eru þau öll frábær sem eftir eru og ef minn draumur ætti að rætast þá færu Lucas og Dilana með Supernova en Magni og Toby með húsbandinu sem er náttúrlega geðveikislega góð hljómsveit.

Að lokum vil ég samt segja það að ég sakna Ryans og augnanna hans og sé hann endalaust sitja við píanóið og syngja Loosing my religion.
http://www.youtube.com/watch?v=UENIqSWdlzg

Jæja gott fólk ég ætla að láta þetta duga í bili, hlakka mikið til mánudagsins (raunveruleikaþátturinn kemur þá á netið) og þriðjudagsins (úrslitaþátturinn) veit þó ekki hvort ég vaki ég þoli svo illa að vera svefnlítil og það virtist taka mig á aðra viku um daginn að jafna mig á vökunni svo kannski ég stilli timer og horfi bara eldsnemma um morguninn frekar, já og svo er það miðvikudagurinn þar sem úrslitin ráðast.
kjg Athugasemd: jamm ég er bara nokkuð á sama máli og þú.. Held að það skipti raunar engu hver “vinnur”, þau eru öll sigurvegarar.. og kannski fínt að vera ekki bundinn Supernova þegar þessu er lokið.
Ég hlakka til að sjá hvernig þetta fer, þó ég segi eins og þú – ég get ekki vakað alla vikuna 😉
Sjáumst (ekki á morgun þó, því ég er orðin veik:( ) (,Hafrún Ósk) 11.9.2006 18:59:00 Allir glaðir
Ég sagði við mömmu þegar við vorum að koma heim í dag úr skólanum og skemmtum okkur vel á leiðinni upp stigann:  “Mamma finnst þér betra þegar allir eru glaðir?”.

Auðvitað fannst mömmu það og hún fór líka að hugsa hvað það væri auðvelt að gleyma sér í stressi og þar með gleyma gleðinni.

Við erum allavega búin að vera glöð fjölskylda um helgina og stresslaus.

En að öðru, mér finnst mjög gaman í skólanum og er spennt að gera heimaverkefnin mín, svo er ég byrjuð að æfa sund með Sundfélagi Hafnarfjarðar og finnst það æðislegt.  Mér finnst skemmtilegast að kafa og get kafað og kafað.  Svo finnst mér gaman að stökkva eins og höfrungur og ýmislegt fleira sem er gaman í sundi.

Leikirnir mínir eru svolítið að breytast þessa dagana, mér finnst td. voða gaman að sitja við skrifborðið mitt og skrifa stafi og bið þá oft mömmu og pabba að vera ekki að trufla mig því ég sé að vinna og svo er ég alltaf dálítið dugleg við að teikna og lita.

En eitt er ég ekki dugleg með og það er að taka til í herberginu mínu, eins og td. núna þá er það eins og eftir sprengiáras og ég treysti mér bara ekki til að taka til og mömmu óar við því svo ég veit ekki hvað við eigum að gera.  Hafa það svona eða kasta okkur út í djúpu laugina?

Hvað finnst ykkur?

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 13.9.2006 20:53:00 Fyrsta viðtalið Jæja þá er komið að því að fara í fyrsta viðtalið hjá félagsráðgjafa á morgun 14. sept. en þá eru liðnir 2 mánuðir síðan við fengum bréfið frá ráðuneytinu þar sem þeir biðja Félagsmálastofnun Hafnarfjarðar að fara yfir okkar mál með tilliti til ættleiðingar.  Þessari vinnu á að vera lokið fyrir 1. október nk. þannig að það er eins gott að þeir hafi hraðar hendur eða þá að við þurfum kannski bara svona fá og stutt viðtöl, vonandi.

Svo förum við 20. – 21. október og 11. nóvember á undirbúningsnámskeið fyrir ættleiðingu og er það haldið uppí Hvalfirði á hótel Glym hjá henni Hansínu frænku minni.  Okkur finnst það mjög spennandi, þarna verður farið yfir ýmsa praktíska hluti varðandi það að ættleiða barn frá fjarlægu landi.  Hvað það þýðir í raun í veru og hvort maður sé tilbúinn til þess.

 

kjg 16.9.2006 13:18:00 Eftir fyrsta fundinn
Jæja, þá er fyrsti fundurinn búinn og ekki hægt að kvarta yfir því að við höfum ekki talað, konugreyið átti fullt í fangi með að skrifa niður það sem við sögðum.  Skil reyndar ekki af hverju þau eru ekki með diktafóna í svona viðtölum þar sem þarf að skrifa greinagerð eftir samtali.

En við þurftum sem sagt að segja frá æsku okkar og hvar við hefðum búið oþh. Síðan menntun, atvinnusaga og fleira í þeim dúrnum.  Eins þurftum við að telja upp systkyni okkar og börnin þeirra og það er víst mjög jákvætt hvað systkynin okkar eiga af börnum og að þau séu þetta ung (þe. börnin).

Við eigum að koma aftur í viðtal næsta fimmtudag og þá verður félagsráðgjafinn búinn að vélrita þetta upp og við bætum inní og lagfærum það sem við á.

Svo ætlar hún að koma einu sinni heim til okkar til að sjá hvernig við búum og spjalla við Ástrós Mirru og hennar viðhorf til systkyna án þess að segja henni hvað sé framundan.
Eins mun félagsráðgjafinn þurfa að ræða við einhvern nákominn okkur og sagði td. mömmu þína og benti á mig en þar sem mamma er á eilífum farandsfæti þetta haustið ætlum við að biðja félagsfræðinginn að tala bara við Klöru systir (ef það má) hún þekkir okkur bæði svo vel enda að hluta til alin upp hjá okkur.  Já það einmitt gleymdist að setja það í sambúðarsöguna.

Við komumst að því þegar við fórum að segja frá æskunni og því öllu að við Þráinn eigum ekki mikla fortíð án hvors annars það er nú nokkuð ljóst, enda mun fleiri ár sem við höfum búið saman en sundur.  Vona að það virki vel í Kína.
kjg Athugasemd: Það er enginn betur til þess fallinn að eiga og ala upp börn en þeir sem geyma barnið í sjálfum sér 🙂
Og þið eruð nú bæði svo “óþroskuð” 😉 hehe að það hlýtur að vera gaman að alast upp hjá ykkur – tell that to the judge ;Þ (,Hafrún Ósk) 17.9.2006 19:26:00 Hestaferðin
Sko, það er þannig að ég hef alltaf verið hrædd við hesta frá því að ég var lítil.  Einhvern veginn held ég að þeir muni sparka í mig ef ég labba fyrir aftan þá og svo er eitthvað meira sem ég kann ekki að segja frá.

En alla vega þegar Klara systir fór að búa með Sigga sem er hestamaður þá ákvað ég eitt vorið að athuga hvort hann væri ekki til í að leyfa mér að fara á bak.  Mér fannst svona að þetta væri tilvalið þe. að fara á bak hjá einhverjum sem maður þekkir svo ég þyrfti ekki að skammast mín niður úr öllu valdi.
Jæja dagurinn er ákveðinn, Konný og þau voru líka í bænum og átti að leyfa Silju Ýr að fara á bak í sömu ferð.  Siggi byrjar að reiða undir henni einn hring í gerðinu og svo er komið að mér.  Ég ítreka við Sigga að ég sé eins og 5 ára barn að fara á hestbak.  Hann jánkar því alveg en ég ítreka það samt aftur svo það fari nú ekki á milli mála og Siggi alveg já já, þetta er ekkert mál.

Jæja mér er hjálpað á bak og fæturnir settir í ístöðin og svo fer Siggi á bak sínum hesti og tekur tauminn minn því ég þorði nú ekki sjálf að halda í hann.  Hann fer með mig (og hestana) aðeins útfyrir gerðið og við löbbum svona hægt og rólega af stað og ég finn svona hvernig hesturinn hreyfist undir mér og er bara nokkuð sátt, já þetta er alveg að gera sig, ég næ að finna taktinn og bara nokkuð ánægð með mig þegar hesturinn skyndilega breytir um gangtegund og mér bregður svo að ég öskra uppyfir mig.

Og þá er eins og við manninn mælt að hesturinn minn rýkur af stað og Sigga hestur líka, Siggi missir tauminn minn og hans hestur hendir honum af baki (það hafði aldrei gerst með þennan hest áður) og minn hestur hleypur af stað og ég ekki með neinn taum (ekki að það hefði skipt neinu máli) og finn að ég er að detta og halla orðið ískyggilega mikið niður á aðra hliðina og er að rembast við að rétta mig af þegar ég sé bara bílaumferðina á Reykjanesbrautinni fyrir neðan mig, shit, hvað á ég að gera helvítis hesturinn á eftir að hlaupa út á götu með mig hangandi út á aðra hliðina alveg að missa takið.

Þá loksins kemur Siggi og nær að róa hestinn og rétta mig af, þá var hann sjálfur búinn að týna úrinu sínu því það datt af honum þegar honum var hent af baki og það fannst aldrei.

Já nei takk, þarna sannaðist það sem ég hélt, hestum er ekki treystandi þeir gera bara það sem þeir vilja þegar þeir vilja það og sparka ábyggilega beint í magann á mér ef ég myndi voga mér að labba fyrir aftan þá.  Bíta mig í höndina ef ég rétti hana að þeim (eins og hesturinn í Húsdýragarðinum sem beit Alexander í handlegginn þegar hann ætlaði að klappa hestinum, ekki beint til að fá mig til að trúa að hestar séu góðir) og fleira ófyrirsjáanlegt.

Já gott fólk svona fór mín eina hestaferð um ævina og ekki veit ég hvenær ég fer aðra ferð. Mér er reyndar sagt að þetta hafi allt verið mér að kenna því ég öskraði og maður öskrar víst aldrei nálægt hestum en ég segi nú bara að sá sem hafði tauminn hefði nú getað sagt mér að hann ætlaði að skipta um gangtegund svo ég hefði verið viðbúin.

Ég ætla þó að reyna að harka af mér því Ástrós Mirra elskar hesta og skilur ekkert í mömmu sinni.  Enda mamma hennar aldrei sagt henni að passa sig að fara ekki aftur fyrir hestinn eins og mig minnir að stöðugt hafi verið að segja við mig þegar ég kom nálægt hestum í gamla daga.

En mikið er nú gaman að taka myndir af þeim, það elska ég.
kjg Athugasemd: Hahahaha – Skrýtið hvað þessi stórhættulegu dýr geta átt marga góða mannavini þrátt fyrir að vera svona hörmulega óútreiknanleg 😉
– Góð saga 🙂 (,Hafrún Ósk) 21.9.2006 16:28:27 Skólastelpan labbar ein heim Mamma er lasin í dag og ég spurði hana í morgun hvort ég mætti þá ekki labba ein heim úr skólanum.  Það kom smá hik á mömmu og hún margspurði mig hvort ég vildi þetta örugglega og hvort ég treysti mér til þess og ég svaraði alltaf  játandi enda er ég að verða 6 ára og byrjuð í skóla get vel bjargað mér.
Jæja, mamma hringdi klukkan þrjú eins og hún var búin að lofa og sagði Kolbrúnu og ég mætti labba heim, þá sagði Kolbrún mömmu að ég væri búin að spyrja margoft hvort mamma væri búin að hringja því ég hlakkaði svo til að fá að prófa þetta.

Göngutúrinn gekk vel ég vinkaði bílunum á leiðinni og mamma hékk útí baðglugga að athuga hvort hún sæi mig.  Ég sveiflaði töskunni minni og söng en mamma brölti í baðkarinu til að reyna að sjá betur.

Hvor haldið þið að hafi skemmt sér betur?

En svo þegar ég var að alveg að koma heim kom mamma út á svalir og vinkaði mér.  Ég var mjög glöð með það og samdi svo sögu áðan sem er svona:

“Einu sinni var stelpa sem heitir Ástrós að labba heim úr skólanum.  Mamma hennar stóð úti á svölum og vinkaði henni og tók myndir auðvitað.”

Sögurnar í sögubókinni minni eiga ekki að vera lengri svo þess vegna hætti ég, ég hefði ábyggilega getað samið lengri sögu hefði ég þurft.

Jæja mamma sagði mér að þó ég hefði fengið að labba heim í dag þá væri það ekki þannig að ég fengi að labba ein heim á hverjum degi og ég er mjög sátt við það (þetta er nefnilega svolítið langt) en ég er til í að gera það þegar einhver er veikur heima eins og mamma í dag.  Ég spurði svo mömmu hvort hún væri ekki betri og hvort hún færi ekki í vinnu á morgun og myndi svo sækja mig.
kjg 23.9.2006 12:40:00 Allt í gangi í einu Það er einhvern veginn þannig að allt gerist í einu.

Sbr. þegar ég klessti bílinn okkar og það kostaði hellings pening að gera við það og svo fljótlega eftir þetta ákvað Þráinn að fara með vinnubílinn í skoðun og þá þurfi að kíkja á nokkur smotterísatriði sem enduðu sem 100.00o krónu viðgerð þannig að á þessu ári erum við búin að eyða um 250 – 300þús í bifreiðaviðgerðir.  Jæja vonandi að það sé búið því nú er komið að djamminu.

Já við ætluðum að kalla til systkynapartý og fundum dags. 7. okt. sem reyndar er bara fín eftir allt, flestir sem komast þá en þá kemur upp að árshátíðin hjá Maritech verður með TM Software sem er um næstu helgi, sem er líka allt í lagi nema að sama kvöld er ball með “Á móti sól” og Dilönu sem við ætlum bara líka að skella okkur á.  Svo erum við að fara á tónleika með Bjögga og Simfóníuhjómsveitinni í dag.

Síðan förum við helgina 20. – 21. okt. á helgarnámskeið í Hvalfirði (það er reyndar ekki djamm en þarf að koma prinsessunni fyrir í pössun) og svo var Þráinn að segja mér að árshátíðin hjá Gluggum og Garðhúsum verður 4. nóvember svo förum við aftur í Hvalfjörðinn 11. nóvember og svo á Ástrós Mirra afmæli þann 14. nóvember og verður þá líklega haldið uppá það 18. nóv. og þá eru nú bara alveg að koma jól, þannig að haustið er rúmlega vel bókað hjá okkur hjónunum.
kjg Athugasemd: Vá já það má sannarlega segja að það sé nóg að gera 🙂
En… ég er ánægð með ykkur að koma með á Broadway eftir árshátíð. Alvöru rokkgella þarna sko 😉
Sjáumst á morgun.
Hafrún (,Hafrún Ósk) 25.9.2006 19:10:37 Allt í góðu … í bili allavega.  Ég náði í félagsráðgjafann okkar í dag og hún hló bara þegar ég spurði hana hvort við fengjum nokkuð neitun frá henni fyrst við gleymdum tímanum í síðustu viku og svaraði nei, elskan mín við finnum bara annan tíma fyrir ykkur og hann er á morgun kl. 15.  Allir að muna það með okkur því kannski verður okkur ekki fyrirgefið að gleyma tvisvar.   En hvernig gætum við gleymt þessu tvisvar?

Ég er farin að dreyma svolítið litla svarthærða, skáeygða stelpu.  Sé hana stundum fyrir mér í svefni og vöku.  Ég á stundum svolítið erfitt með að segja ekki Ástrós Mirru frá þessu strax.  En ætla samt að reyna að hemja mig.

Ég fór að heimsækja afa í dag og einhver hefur greinilega verið að tala um væntanlega ættleiðingu við hann og hann spurði mig hvort það væri satt að við ætluðum að gera þetta og ég svaraði því játandi og þá sagði hann mér að það væri ein kínversk kona að vinna á elliheimilinu og hún væri mjög indæl og ætti íslenskan mann og unga dóttur.  Indælis kona endurtók hann.  Ég túlkaði það sem að hann legði blessun sína yfir þessa framkvæmd okkar.  Samt var eitt sem afi spurði um og það var hvenær þetta yrði og ég sagði honum að það yrði líklega ekki fyrr en eftir 1,5 ár og þá spurði hann hvort ég yrði ekki of gömul þá!  Ég vona ekki.  Vona að við sleppum fyrir 45 ára afmælið.
kjg 26.9.2006 18:02:00 Fundur númer 2 búinn Jæja gott fólk, þá er fundur númer 2 búinn og fólk á Íslandi er ekki hengt fyrir það að mæta ekki á fund hjá félagsráðgjafa, bara svo það sé á hreinu.
Hún hló bara að okkur hún Ólöf Berglind, félagsráðgjafinn okkar þegar við sögðum henni að við hefðum verið skíthrædd um að fá bara nei frá henni af því að við gleymdum fundinum í síðustu viku.

En sem sagt fundurinn gekk vel, henni finnst þó fjölskyldan mín dálítið flókin, skil ekki hvernig stendur á því, en Þráinn skilur hana vel.

Næsta þriðjudag ætlar hún að koma í heimsókn til okkar og svo munum við eiga einn fund með henni niðrá Féló og þá er þetta búið.  Fyrir utan að hún ætlar að hringja í Klöru systir og tala við hana um mig, Klara segist ætla að ljúga fyrir mig eða þannig, þess þarf ábyggilega.  Nei hún ætlar að vera sanngjörn og hún segir að það sé ekkert erfitt að segja einhverjum að við eigum alveg skilið að fá annað barn.
Svo ætlar Snorri að vera skúperinn hans Þráins og ég veit að Snorri er svo jolly yfir hlutunum að þar fáum við ábyggilega góða dóma líka.

Þannig að núna veltur þetta á umhverfi okkar (skildi vera mjög neikvætt að ætla ekki útí stórar fjárfestingar og kaupa stærri íbúð svo litla barnið okkar fái sér herbergi um leið og það kemur til landsins) og systkynum, úff það er ekkert lítið.
kjg 28.9.2006 19:19:39 Furðufuglinn Við erum búin að vera að passa fuglana fyrir Auði ömmu og Sigga afa meðan þau voru á Benedorm.  En amma sagði okkur að Sóley væri eitthvað lasin og það þyrfti að hugsa svolítið vel um hana, taka hana í lófann og strjúka henni og þess háttar.

Ég hélt það nú að við pabbi myndum gera það, sem við og gerðum nema í fyrradag, áður en við förum í vinnu og skólann þá er Sóley voða slöpp og pabbi segir að hann sé hræddur um að hún verði kannski dáin áður en við komum heim í dag.

Ég var nú ansi leið með það en svo komum við pabbi heim og Sóley var á lífi en voða slöpp svo við náðum í litla fuglabúrið okkar og settum hana í og við ofninn á eldhúsborðið og vorum að vonast til að hún myndi jafna sig.

Svo um kvöldið þá langar mig í meiri mat og pabbi tekur fiskibollur, kartöflur og sósu og hitar upp og stappar saman fyrir mig og setur á borðið og það er ekkert annað en það að Sóley gjörsamlega tryllist inní búrinu sínu og hættir ekki fyrr en pabbi opnaði búrið hennar og þá rauk hún út og beint á diskinn minn og hámaði í sig soðnar kartöflur með brúnni sósu.  Sjá myndir í myndaalbúminu okkar.

Svo fannst pabba bara eins og hún væri öll að jafna sig svo hann setti Sóley aftur í búrið til Baktusar og þau voru þvílíkt ánægð og svo borðaði Sóley og borðaði eftir þetta.

Mamma segir að hún hafi bara þurft að fara í húsmæðraorlof og fá almennilegt að borða til að jafna sig.

Þetta er sko fyndinn páfagaukur.
kjg 30.9.2006 09:25:00 Ömmur (mirra) Þetta gæti verið kölluð ömmuvika því ég hef hitt óvenjumargar ömmur þessa vikuna.  En samt kannski ekki óvenjumargar heldur þessar tvær sem búa langt í burtu.
Ég hitt ömmu Steinu á laugardaginn og aftur á sunnudaginn og hún gaf mér voða sætan lítinn kanínubangsa sem ég sef alltaf með núna.  Samt sagði ég ömmu fyrst að mig langaði ekki í hann en svo sá ég hvað hann var sætur og mjúkur og hef verið í smá vandræðum með að gefa honum nafn.  Hann (hún) hét fyrst Mína eða Minna og svo ákvað ég að hún myndi heita Po en í gær þá breytti ég því allt í einu í Dúlla og það heitir hún núna.

Nú nú svo hitti ég Maddý ömmu í gær en hún kom alla leið frá Raufarhöfn og í heimsókn til mín, það var gaman en verst að Kolla þurfti að vera úti í bíl.  Ég reyndi að segja ömmu að Kolla mætti alveg koma inn til mín og vera inni hjá mér en amma vissi alveg (því pabbi var búinn að segja henni það) að það mætti ekki vera með hunda í húsinu okkar.  Leiðinlegt hús!  En ég fékk að klappa henni og kyssa smá úti.
Maddý amma gaf mér líka gjöf, gallavesti með skinni í handveginum og hálsinum, geðveikt flott rokkaravesti.

Svo kom Auður amma frá Benedorm en ég reyndar hitti hana ekki heldur bara mamma og hún og Siggi afi gáfu mér líka pakka, alvöru úr svo nú get ég farið að læra á klukku.  Ég kann smá en ekki mikið.  Svo nú þarf ég bara að verða dugleg við það að læra þetta. Stundum finnst mér nefnilega að mínútur séu klukkutíma og klukkutímar dagar osfrv.  ég er ekki alveg farin að skilja þetta.

En mikið á ég frábærar ömmur og ekki á ég afmæli fyrr en í nóvember.

Í kvöld ætla ég að gista hjá Kristófer frænda mínum og vini því mamma og pabbi eru að fara á árshátíð og ball með Á móti sól og Dilönu því þau eru svo miklir “rokkarar”.
kjg 3.10.2006 19:01:00 Heimsóknin búin (kína) Jæja þá er félagsráðgjafinn okkar búin að koma í heimsókn og ég held að henni hafi litist ágætlega á, sérstaklega fannst henni mikið til um útsýnið okkar og svo fannst henni við koma hlutunum vel fyrir.

Við eigum eftir að fara í eina heimsókn til hennar á skrifstofuna og þá er þetta komið.  Vonandi að barnaverndarnefnd verði okkur hliðholl og samþykkti þetta bara.  Svo eigum við að fara á námskeiðið í Hvalfirði 20. okt. nk. og þá held ég að þetta samþykki verði að vera komið.

Alla vega ég er aftur farin að sjá litla dökkhærða stelpu fyrir mér þegar ég er á milli svefns og vöku.
kjg Athugasemd: Datt í hug að benda ykkur á þessa síðu
http://www.barnaland.is/barn/52412/
(,Anna Sif) 5.10.2006 18:43:00 Slagsmál (mirra) Jæja, ég er komin í 1. bekk og lenti í slagsmálum tvo daga í röð.

Fyrri daginn þá var einn strákur að atast í tveimur stelpum og ég fór að hjálpa stelpunum en þá varð þessi strákur reiður og reif af mér gleraugun og henti þeim í grjóthrúgu og þau beygluðust og rispuðust.  Ég benti mömmu á þennan strák þegar við vorum að fara heim og hún sagði honum að það mætti aldrei taka gleraugu og fara svona illa með þau, því þau kostuðu mikla peninga og þá fór strákurinn að segja að hann hefði ekki byrjað oþh. en mamma sagði honum að hún væri ekkert að skamma hann heldur bara segja honum að gleraugu kostuðu mikla peninga og maður ætti aldrei að skemma þau þó maður væri reiður.

Jæja svo í dag þá hringdi Lilja Dögg kennari í mömmu til að segja henni að ég hefði kýlt einn strák í magann.  Mömmu brá svolítið fyrst og hringdi beint í pabba en svo þegar hún hugsaði betur um þetta þá sá hún að þetta væri nú ekki endilega eitthvað stórmál og hún ákvað að ræða bara við mig þegar hún sótti mig í skólann.
Svo gerði hún það og spurði mig af hverju ég hefði gert þetta og þá svaraði ég henni því að það væri til grínkýl og þetta hefði verið svoleiðis.  En mamma sagði mér að fyrst strákurinn hefði farið að gráta þá hefði hann nú líklega meitt sig og þá væri það ekkert grínkýl.  Ég yrði að taka tillit til hans og mætti bara ekki gera þetta aftur.
Mér finnst þetta ekki vera eitthvað stórmál og skil mömmu alveg en finnst algjör óþarfi að þetta verði rætt eitthvað meira.  Mamma er alveg sammála svo framarlega sem ég geri þetta ekki aftur.

Annað sem gerðist í síðustu viku og það var að ég klippti uppí erm á peysu og sagði svo mömmu frá því.  Mamma var mjög ánægð með að ég sagði henni frá þessu en hún var líka voðalega hissa af hverju ég hefði gert þetta.  Ég veit það ekkert, mig langaði bara að prófa að klippa í peysu.  Mamma og pabbi ákváðu að ég færi í skærastraff í eina viku.  Ég var nú ekkert voða glöð með það því mér finnst svo gaman að klippa og föndra en straff er straff og svo í gær vantaði mig svo að klippa út peninga sem ég hafði teiknað og spurði mömmu hvort þessi vika væri ekki að verða búin og mamma spurði pabba sem sagði að hún væri einmitt búin núna en ég yrði samt…. bla bla bla.  Ég sagði “Pabbi, ég er búin að læra á þessu!” og þú þarft ekkert að vera að tala um það meira.

Einmitt.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra

kjg Athugasemd: Hæ Ástrós, ég ætla nú að vona að þú hafir ekki klippt peysuna sem ég gaf þér og vonandi ertu búin að læra af þessu að svoleiðis gerir maður aldrei. Einnig ætla ég að vona að þú kýlir ekki fleir, annars fer ég að verða hrædd við þig. Og svona í lokin fyrir mömmu þína bara, ætlar hún að verða eins og frænka sín, ég lenti nú í slagsmálum í skóla, en þá var bara ekki gert mál úr því. (,Konný frænka) 6.10.2006 12:42:00 Dagur í lífi mínu! (kjg)
Ég hef á seinni árum verið plöguð af alvarlegum sjúkdómi sem nýlega  hefur fundist greining á, en engin lækning við, enn sem komið er.

Eftirfarandi er lýsing á dæmigerðum degi þegar einkennin blossa upp :

Ég ákvað einn daginn að þvo bílinn og hélt áleiðis að bílskúrnum, en tók þá eftir að  bréf höfðu borist inn um lúguna. Ég tók bréfin og ákvað að fara í gegnum póstinn  áður en ég færi að þvo bílinn. Sorteraði póstinn og ákvað að henda ruslpóstinum en tók þá eftir að ruslafatan var orðin  full og lagði því   reikningana sem höfðu borist, frá mér á eldhúsborðið og  ætlaði út með ruslið, en ákvað þá að fara og borga þessa reikninga, fyrst ég  yrði við bílinn hvort eð er. Fór inn í herbergi til þess að ná í veskið og  bíllyklana en sá þá ný e-mail í tölvunni og ákvað að svara þeim strax svo ég  gleymdi því ekki. Ákvað að ná mér í kaffibolla fyrst. Á leið inn í eldhús  tók ég eftir því að blómið í borðstofunni var orðið heldur þurrt. Hellti  nýlöguðu kaffi í bolla og ákvað að vökva blómið áður en lengra  væri haldið. Náði í blómakönnuna og ætlaði að fylla hana með vatni  þegar ég tók eftir því að fjarstýringin af sjónvarpinu lá á eldhúsborðinu.
Ákvað að fara með hana á sinn stað í sjónvarpsherberginu fyrst, svo ég fyndi hana örugglega um kvöldið þegar ég settist fyrir framan sjónvarpið að horfa  á uppáhaldsþáttinn “Sex in the City”. Á leið í sjónvarpsholið rakst ég  á handklæði sem ég ætlaði að setja í þvottavélina sem beið full af þvotti.

Fór þangað og setti í vélina en fann þá gleraugun sem ég hafði verið að  leita að fyrr um morguninn. Lagði fjarstýringuna frá mér í þvottahúsinu og fór  með gleraugun inn í svefnherbergi þar sem ég ætlaði örugglega að finna þau  þegar ég færi í rúmið að lesa uppáhaldsbókina mína……ef ég finn hana.

Stoppaði í svefnherberginu þar sem dagurinn hófst og mundi ekki lengur hvað ég  ætlaði upphaflega að fara að gera !!! Í lok dags hafði ég því hvorki þvegið  bílinn né borgað reikningana, ekki vökvað blómin eða þvegið þvottinn, ekki  farið út með ruslið, heldur ekki svarað e-mailunum og var auk þess búinn að týna  fjarstýringunni, bíllyklunum og veskinu og kaffið beið kalt á eldhúsborðinu.
Ég skildi ekkert í þessu því ég hafði verið á fullu allan daginn í  ýmsum snúningum. Ég hef nú uppgötvað að þetta er alvarlegt vandamál sem ég  ætla að leita mér hjálpar við. Þessi sjúkdómur kallast á fagmáli AAADD eða
“Age Activated Attention Deficit Disorder”, á íslensku “Aldurstengdur athyglisbrestur”.
Ps. þó þetta sé ekki sönn saga af mér þá er hún svo lík að ég á ekki til orð.  En á mínu heimili er þetta kallað að Steina sé hlaupin í mann.
kjg 10.10.2006 19:35:00 Elsku Selma mín (mirra) Hún Selma mín, litli naggrísinn er dáin, hún dó í gær.

Þegar við komum heim þá sáu mamma og pabbi að hún var greinilega eitthvað lasin og mamma sagðist reyndar hafa tekið eftir því að hún væri búin að drekka voða lítið undanfarið og líka borða.

Nema við fórum að skoða Selmu litlu betur og þá sáum við að hún varla gengið og virtist vilja færa sig í hlýjuna svo við tókum hana og vöfðum í handklæði og sátum með hana í tæpan klukkutíma, þá fannst mömmu hún vera farin að krampa svo mikið að hún setti hana í búrið og breiddi yfir hana og það liðu ekki nema 20 mínútur þangað til pabbi kíkti í búrið og þá var hún dáin.

Svo við ætlum að jarða hana uppí sumarbústað og pabbi er búinn að búa til kross fyrir okkur og ég setti fallegt dót ofaní kassann hjá henni og svo ætlum við að syngja sálm fyrir hana þegar við jörðum hana.

 

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg Athugasemd: Ástrós mín, ég votta þér samúð mína. Ég veit að jarðarförin hennar Selmu verður falleg hjá ykkur. (,Konný frænka) 11.10.2006 19:57:00 Fyrsta ferlið á enda (kína) Jæja, þá er síðasta viðtalið við félagsráðgjafann okkar búið og eftir því sem hún sagði er ekkert sem ætti að koma í veg fyrir samþykki.

Við lásum yfir greinagerðina hennar og bættum við það sem þurfti.  Mér fannst nú svolítið gaman og fallegt að lesa það sem Klara og Snorri sögðu við hana um þessa væntanlegu ættleiðingu okkar.  Takk fyrir það krakkar.
Næst er þá bara að leggja þetta fyrir barnaverndarnefnd og þegar hennar samþykki liggur fyrir er þetta sent Dómsmálaráðuneytinu og þaðan fer það svo í þýðingu og svo loks út til Kína.

Vá þetta er mikið og langt ferli.

Næsta skref hjá okkur er að fara í Hvalfjörðinn um aðra helgi á námskeið sem er hluti að þessum undibúningi okkar fyrir þetta stóra og skemmtilega skref sem við erum að stíga.
kjg 13.10.2006 19:36:00 Sprettur (mirra) Það er kominn nýr fjölskyldumeðlimur og hann heitir Sprettur og lítill hamstur.

Hann er bara 5 vikna og því mjög lítill ennþá en hann er sneggri en allt sem við þekkjum.  Við þorum varla að taka hann úr búrinu því við getum misst hann og þá er ekki að vita hvert hann gæti farið.  Svo við verðum að passa okkur mjög vel.

En núna áðan prófuðum við mamma að setja hann í kúluna sína og hlaupa um í svefnherberginu og hann var voða hissa á þessu.

Ég er mjög spennt að geta farið að halda á honum en á mjög erfitt með að bíða eftir því að hann stækki meira og venjist okkur.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 15.10.2006 08:19:00 Ása langamma 80 ára (mirra) Jæja gott fólk, við áttum bæði gleði- og sorgardag í gær.  Sorgin var þegar við jörðuðum hana Selmu mína litla naggrísinn minn.  Gleðin var í 80 afmælinu hennar Ásu langömmu minnar.

Ég ætla fyrst að segja ykkur aðeins frá jarðarförinni en veðrið var ótrúlega vont þegar við lögðum af stað í sveitina en þó var heldur að hægjast um þegar við vorum komin og pabbi fór í stígvél og regnkápu til að taka gröfina fyrir okkur.
Svo komum við mamma út og ég hélt á kassanum með Selmu í, og varð strax svolítið sorgmædd þegar ég sá kassann.  Ég setti kassann ofaní og við settum öll krossmark yfir, og svo fórum við með “Faðir vorið” og sungum svo “Dvel ég í draumahöfn” á meðan pabbi setti mold yfir.  Svo settum við krossinn hennar og blóm og röðuðum steinum í kringum leiðið.
Svo fórum mamma og pabbi að ganga frá en tóku svo allt í einu eftir því að ég stóð ein enn við leiðið og horfði niður, svo pabbi kom að athuga með mig og þá sagði ég honum að þegar ég hefði staðið þarna þá allt í einu sá ég fullt af myndum af mér og Selmu saman í höfðinu á mér, og ég fór að hugsa um okkur og varð svolítið sorgmædd.
Pabbi leyfði mér að standa smástund þarna einni en svo kom ég bara og við fórum að ganga frá bústaðnum fyrir veturinn og skipta um föt því við vorum á leið í 85 ára afmæli hjá Ásu langömmu.

Við drifum okkur svo uppá Iðu í Laugarási en þar var afmælið haldið og þar var ég aldeilis heppin því frænkur mínar Harpa og Sunneva voru þar líka og við erum allar 6 ára.  Þær eru voða skemmtilegar og við náðum vel saman.
Vorum svolítið að prakkarast, Sunneva er nefnilega svona skotta eins og ég en Harpa er heldur rólegri.  Samt fyndin.

Það byrjaði með kaffi og kökum og pönsum í afmælinu og svo var kvöldmatur líka fyrir alla.  Við stelpurnar vorum bara að leika okkur og ég hitti auðvitað ömmu Maddý sem gaf mér voða flotta mynd af mér og kærastanum mínum honum Davíð.  Þetta er samt ekki alvöru mynd af okkur heldur af einhverjum krökkum sem amma segir samt að séum við.
Ég þarf sko að hitta hana Maddý ömmu mína oftar því ég var allt í einu í gær farin að kalla hana Addý, ekki Maddý og ekki ömmu.  Samt veit ég alveg að hún er amma mín og mamma pabba míns en hvort þetta var af því að það var svo mikið fólki þarna að ég vildi kalla hana nafninu sínu og ruglaðist á því eða hvað veit ég ekki.
Alla vega fannst mér samt gaman að hitta hana og Kollu hundinn hennar sem ég vildi nú samt endilega að héti Tinna því mér finnst það flottara hundanafn.

Mamma og pabbi voru mjög ánægð með veisluna og fannst gaman að hitta allt þetta fólk aftur, þau sáu suma af þeim fyrir 5 árum þegar Ása langamma var 75 ára og enn lengra síðan þau sáu aðra.

Amma Maddý hélt ræðu og kallaði langömmu upp og öll börnin hennar, sagði að langamma þyrfti sem betur fer ekki enn að taka þau í fangið og hugga því hún loftar þeim ekki lengur en hún er samt enn að hugga börnin sín.

Við fórum ekki heim fyrr en það var komið svartamyrkur úti og við sáum ekki neitt úti í sveitinni nema stjörnur og norðurljós en það var líka fallegt.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg Athugasemd: Hvernig væri að leiðrétta aldurinn á Ásu ömmu (,) Athugasemd: Búin að því, fyrirgefðu amma Ása að ég skildi elda þig svona. (,Kristín Jóna) 15.10.2006 10:25:00 Hringferðin Árið er 1989 eða jafnvel 1990.  Okkur Þráni hafði alltaf langað til að fara hringinn en einhvernveginn treysti Þráinn aldrei bílunum okkar.
Nema þetta sumar eigum við Willys ’64, 8 cylindra, 3,80 vél á 38″ dekkjum og ég sagði við Þráinn að ef við gætum ekki farið núna þá færum við aldrei.  Hann var nú ekki alveg sammála, sagði að millikassinn gæti farið hvenær sem er í bílnum og þá værum við í vondum málum, og svo væri bensínmælirinn bilaður og það væri nú ekki gott að verða bensínlaus einhversstaðar uppi á landi.

En svo var nú ákveðið að taka bara sénsinn og við plönum ferð hringinn í kringum landið en ætlum að byrja á að vera í sumarbústað með Berglindi vinkonu á Einarsstöðum sem er rétt fyrir utan Egilsstaði.

Jæja við leggjum í hann, tökum Herjólf uppá land og keyrum af stað austur, langt austur.  Vá ekki héldum við að þetta væri svona lang.  Jæja, við stoppum í Víkurskála og fáum okkur eitthvað í svanginn og losa blöðruna og taka bensín.  Þá heyrum að fólk er eitthvað að tala um ófærð og að sjálfsögðu héldum við að þau væru bara að fara uppá jökul eða eitthvað þvíumlíkt og við höldum áfram.
Úps, það var ekki að fara uppá jökul þetta fólk, það var sandurinn sem var ófær, já já og við á blæjujeppa.  Og þessi sandur hann smýgur um allt og þá meina ég um allt.  Þráinn hélt nú að það yrði ekkert lakk eftir á bílnum þegar við kæmumst í gegn en hann var nú samt ennþá rauður.

Við komum til Berglindar um kl. 23 um kvöldið og ég þori að sverja fyrir að hún hafi aldrei séð eins skítuga ferðalanga og ryklagið á töskunum okkar var þykkt.

Við gistum eina nótt hjá Berglindi og svo fórum við saman í bústaðinn daginn eftir og áttum æðislega viku þarna á Einarsstöðum í 20 stiga hita allan tímann.  Berglind lóðsaði okkur út um allt austurland því hún þekkti það náttúrulega svo vel.

Jæja svo skildu leiðir okkar og Berglindar og við ákváðum að halda áfram hringinn.  Við fórum á Dettifoss og Dimmuborgir.  Já, Dimmuborgir, við keyrum þarna niður brekkuna og útsýnið var “Breathtaking” og þar sem við sitjum í bílnum agndofa yfir þessari fegurð þá allt í einu? Shit, millikassinn er farinn segir Þráinn og ég bara trúi þessu ekki.  Eins gott að það er rúta þarna niður frá sem gæti þá dregið okkur upp.

Svo þegar við erum að komast á jafnsléttu þá allt í einu hrökk bíllinn aftur í gír (eða hvað það er sem hann hrekkur í þegar millikassinn er ekki farinn, ætli þetta hafi ekki verið drifið bara) og okkur létti svolítið mikið.  Við drifum okkur svo út og skoðuðum allt þarna og segjum enn að þetta sé fallegasti staður á Íslandi.  Við vorum hreinlega agndofa yfir allri fegurðinni þarna.

Frá Dimmuborgum var stefnan tekin á Akureyri en vinnufélagi Þráins var fluttur þangað og við ætluðum að stoppa hjá honum í 2-3 daga.

Við keyrum inná Akureyri og finnum húsið hans og leggjum bílnum þar fyrir utan og skreppum inn að fá okkur einn kaffibolla áður en við sækjum farangurinn okkar.  Gott kaffi hjá Ægi og Mónu og við drífum okkur svo út að sækja farangurinn.  Bíddu nú við, það er eitthvað skrítið við bílinn segi ég við Þráinn.  Hann horfði á bílinn og sá ekki neitt fyrr en hann ætlaði að opna bílstjóradyrnar þá sér hann allt í einu miða á framrúðunni.

Það er búið að klippa númerin af bílnum.  Ha, við vorum að koma í bæinn og það er búið að klippa númerin af bílnum.  Hvernig getur það verið?

Á þessum tíma var bifreiðaskoðun Íslands nýstofnuð og þeir sendu mann til Eyja 3 – 4 sinnum á ári og hann var ekki nýbúinn að vera þegar við fórum í fríið okkar.

Við hringjum uppí bifreiðaskoðunina á Akureyri og ætlum að útskýra þetta fyrir þeim, en þeim var alveg sama, við hefðum átt að hafa vit á því að fara bara á næstu skoðunarstöð þegar við komum uppá land og við skyldum bara koma með bílinn í skoðun á morgun.  Ok, við sjáum að þýðir ekkert annað og spyrjum hvernig við eigum að gera það og þá er okkur sagt að við verðum bara að láta draga okkur uppeftir.

Frábært, Ægir og Móna eiga Austin Mini.   En við gerðum sem okkur var sagt og settum spotta á milli Minisins og Willysins og vöktum sjálfsagt heilmikla athygli þarna á Akureyri.

Jæja svo kemur að okkur og kallinn sem skoðaði bílinn kunni greinilega ekkert að skoða breyttan jeppa og keyrði bílinn þannig að allir gripu fyrir eyrun og einn maður sem stóð þarna kallaði: “Takið kallhelvítið út úr bílnum áður en hann eyðileggur hann.”   Við stóðum þarna hjá og vorum hálf asnaleg og dauðlangaði að gera þetta en þorðum nú ekki að rísa upp á móti hinum stóru köllum hjá bifreiðaskoðun íslands.

Nema svo kemur kallinn og talar við Þráin (takið eftir að hann beindi aldrei orðum sínum til mín) og spyr hann af hverju hann sé með þessa spítu þarna fyrir aftan farþegasætið, og Þráinn sagði að það væri nú vegna þess að við værum á ferðalagi og með svo mikinn farangur að hann hefði ekki þorað öðru en að setja þessa spítu svo farangurinn myndi ekki kastast á okkur ef hann þyrfti að bremsa snöggt.

Þetta ættu nú fleiri að taka sér til fyrirmyndar sagði kallinn.  Ég, bara horfði á Þráin, góð skýring… Farþegasætið var nefnilega brotið og hann setti þessa spítu til að halda við svo ég lægi ekki á bakinu í bílnum.  Góður.

Ok, bíllinn fékk ekki skoðun, kallinn fann að einhverjum leka sem við létum gera við á Akureyri en svo var samt eitthvað annað sem vantaði varahluti í og við fengum grænan miða og skýringu:  Akstur aðeins heimilaður til heimabyggðar.

Ok, það var ekkert minnst á að við ættum að keyra heim á einum degi svo við héldum bara áfram okkar hringferð.

Fórum í Ásbyrgi og áttum yndislega útilegu þar, fórum í Borgarfjörðinn og ég sýndi Þráni Grábrók og Baulu, Norðurá og Glym og að sjálfsögðu Hreðavatnsskála sem ég hafði unnið í sumarið 1980.

Nú þaðan fórum við eitthvað aðeins í bæinn og svo heim til Eyja þar sem bílinn fékk að vera númeralaus eitthvað meðan verið var að finna út úr þessum varahlutum sem vantaði og gera svo við hann.

kjg Athugasemd: Já þetta hefur verið ævintýraleg ferð. Ég var auðvitað búin að gleyma þessu öllu nema með sandfokið. Það mundi ég eftir. Alltaf gaman að lesa vel skrifaðar sögur svona löngu á eftir til að hlæja að. (,) 22.10.2006 08:48:00 Af hverju ætlum við að ættleiða Þetta er fyrsta spurningin sem við vorum spurð að á námskeiðinu sem við  Þráinn vorum á um helgina vegna  væntanlegrar ættleiðingar okkar.

Fyrsta svarið sem kom ætti að segja allt sem segja þarf:  “Af því bara” .  En svo komu nokkur góð svör á eftir: “Af því að mig langar í barn”, “Af því að barnið sem ég á fyrir, á að eiga systkyni”, “Af því að öll systkyni okkar eiga tvö börn” osfrv.

Málið er að þetta þarf ekkert að vera flókið svar og ranga svarið er kannski frekar “Af því að ég ætla að bjarga einu barni og / eða gera mitt til að bjarga heiminum, því þetta er ekki svoleiðis.

Við sem sagt vorum á námskeiði uppí Hvalfirði á vegum Íslenskrar ættleiðingar og það var alveg frábært.  Ég fór á námskeiðið ákveðin í því að spyrja einnar spurningar og hún er þessi:  Af hverju er fólk sem búið er að ættleiða erlendis frá alltaf í hópum og eins og mér sýnist að börnin þeirra umgangist mest börn frá sama landi.  Ég þurfi aldrei að spyrja þessarar spurningar því eftir að vera búin að sitja í þessum 8 para hópi í tvo klukkutíma á föstudaginn þá vissi ég svarið.  Það er af því að við höfum öll sama bakgrunn og við höfum öll sömu reynslu og skiljum hvert annað svo vel, því við erum búin að prófa þetta allt.  Ég vissi ekki að það væri svona gott.  Svona gott að geta talað um reynslu sína við fólk sem var/er í sömu sporum.
Við Þráinn vorum þarna samt með eldri pörum og þó… það voru tveir eiginmenn eldri en ég en konurnar yngri og svo var þarna eitt par á sama aldri og við og svo nokkur yngri, þannig að þetta var fólk á öllum aldri sem átti það þó sameiginlegt að eiga við ófrjósemi að stríða og búið að ganga í gegnum mismargar glasafrjófganir.

Ég fór að vissu leiti aftur fyrir árið 2000 í reynslu þegar við vorum að kryfja okkur og ýmsa hluti því það er barnleysið sem svo mikið er talað um, en ég get náttúrulega ekki talað um barnleysi í dag.  Það var gott sem Þráinn sagði mjög snemma á námskeiðinu og það er: “Ég ætla ekki að afsaka það að ég eigi barn”.  Þessum ummælum var vel tekið og allir sammála um það, enda kom á daginn að í þessum hópi voru 2 pör sem eiga ekkert barn, það voru 4 pör þar sem annar aðilinn átti barn og svo vorum við 2 pör sem áttum eitt glasabarn fyrir. Það voru samt 3 konur sem aldrei hafa gengið með barn og munu líklega ekki gera það.  Þannig að þetta var fólk með ýmsar ástæður og mismunandi bakgrunn en allir sammála um að þeim langaði í barn og það væri aðalatriðið.

Eitt átti þessi hópur sameiginlegt og það var kátínan, því það var virkilega gaman hjá okkur og skemmtilegar sögur sagðar af ættleiðingum, barnleysi og börnum.

Ein góð saga var af hjónum sem áttu 3 stráka og ákváðu að ættleiða stelpu frá Kína, þau segja strákunum sínum frá þessari ákvörðun og þeir bara meðtaka það eins og hverjar aðrar fréttir og ekkert meira mál með það.  Svo líða svona 3 – 4 dagar og þá kemur allt í einu einn strákurinn og gengur svona um íbúðina og skoðar og greinilega veltir einhverju fyrir sér og segir svo við mömmu sína:  “Hvar á svo Kínverjinn að sofa?”.

Við hlógum ekkert smá að þessari sögu og flest okkar sáum við fyrir okkur svona ca. fertugan kínverja með svona kínverskann hatt og jafnvel skegg.  Þannig að nú verður þetta brandarinn:  Hvar á kínverjinn að sofa?

Eins sagði fólk sögur af viðbrögðum ættingja og  voru það oft á tíðum skemmtilegar sögur en þó voru þarna sögur af öfum (langöfum væntanlegra barna) sem ekki voru sáttir við þetta og voru náttúrulega stimplaðir af okkur “Rasistar” enda hvað annað er það þegar afi getur ekki glaðst yfir því að barnabarnið hans verður pabbi.  Eða bara glaðst yfir þessu litla barni sem er að koma til landsins.

Við sáum vídeó af lítilli kínverskri stelpu sem átti í erfiðleikum með tengslamyndun fyrst eftir að hún var ættleidd, það tók í heildinni 6 mán. að vinna í því með henni en við hlógum, fengum tár í augum og glöddumst yfir litlu skrefi, smá hlátri og bara eins og fólk bregst við litlu barni.  Því þessi stelpa var hreint út sagt æðisleg og okkur langaði mest að taka utan um hana og knúsa.

Það voru nokkur atriði sem komu okkur á óvart og helst þó hvað tengslamyndunin getur verið misjöfn hjá þessum börnum en það er víst ekkert skrítið, þau eru kannski búin að vera í 7 mán. á barnaheimili, 7 mán. hjá fósturfjölskyldu og eru svo rifin af þeim, skellt í rútu og farið með þau á barnaheimilið í eina nótt og skellt svo í fangið á væntanlegum foreldrum eftir enn lengri rútuferð daginn eftir.  Vá það er búið að tæta börnin í sálinni og það er jafnvel enginn sem hefur faðmað þau síðan þau fæddust svo það er ekkert skrítið að það geti verið erfitt.  En við heyrðum líka dæmi af einni sem fór beint í fangið á pabba sínum og smellti á hann kossi og vildi svo bara ekki fara þaðan.  En það þurfti þó að vinna í tengslamyndun hennar við mömmu sína.

Við semsagt lærðum heilmikið um ættleiðingar og heilmikið um okkur sjálf en aðalatriðið er að við erum til í að fara til Kína strax á miðvikudaginn ef við mættum.  Það var ekkert sem kom fram á þessu námskeiði sem var til þess að draga úr okkur.

Að lokum þá hlakkar okkur svo til að fara aftur á seinnihluta námskeiðsins þann 11. nóv. nk. og hitta allt þetta frábæra fólk.  Spurning hvort við getum ekki líka ættleitt hvert annað.

kjg Athugasemd: Vá, gaman að lesa og greinilegt að þið eigið þetta allt skilið og verðið frábærir foreldrar (eins og þið eruð náttla)
Afhverju segirðu ekki hvað þyrlan er að gera þarna ? 🙂
kv
Hafrún (,Hafrún Ósk) Athugasemd: Gaman að lesa þessa færslu (,Anna Sif) 24.10.2006 20:20:00 Þú ert líka bara pínulítill grænn ánamaðkur Úff ég varð frekar pirruð í gær þegar ég fór á klósettið og setan var uppi.  Ég öskraði fram, ‘Hver var á klósettinu’ og pabbi svaraði að hann hefði verið það og þá varð ég mjög pirruð því hann er alltaf að segja mér að sturta niður og loka klósettinu og svo gerir hann það ekki sjálfur.  Og svo kom ég fram og sagði við hann að ég væri mjög hugmyndarík en hann væri bara eins og lítill grænn ánamaðkur fyrst hann væri alltaf að segja mér að gera þetta en hann gerði það svo ekki sjálfur.

Og hananú.

Ég er að fá nýjan kennara á morgun og mamma ætlar nú að fylgja mér uppað dyrum til að fá að hitta hana.  Hún heitir Soffía og hefur unnið á leikskóla og er eitthvað sérkennslulærð og leikskólalærð (mamma segir það) ég vona bara að hún sé þolinmóð, skemmtileg og góð.

Mamma er pínu farin að spá í afmælið mitt og það er aðallega því ég á afmæli 14. nóv. sem er á þriðjudegi og helgina þar á undan verða mamma og pabbi uppi í Hvalfirði að klára námskeiðið sem þau eru búin að vera á og svo helgina á eftir er mamma að fara á ljósmyndanámskeið báða dagana og líka á árshátíð með pabba vinnu þannig að líklega verður ekki haldið uppá afmælið mitt fyrr en 25. nóvember.  En ég held að ég fái að bjóða einhverjum krökkum í afmæli á afmælisdaginn minn.  Vonandi.

Ég er mjög dugleg að læra, er farin að fá lestrarhefti heim og les orðið tveggja stafa orð, pabbi kenndi mér nefnilega að gera hljóðið sem stafurinn gerir svo ég viti hvernig á að segja orðið.  Mamma hjálpar mér meira með skriftina og reikninginn en pabbi sem sagt lesturinn.
Svo er ég í sundi á mánudögum í skólanum, leikfimi á þriðjudögum og miðvikudögum og svo er ég líka að æfa sund með sundfélagi Hafnarfjarðar á miðvikudögum og föstudögum svo ég fæ ágæta hreyfingu.

Ég er búin að fá lítill hamstur sem er algjört krútt og hann heitir Sprettur því það er svo mikill sprettur á honum en samt hefur hann róast svolítið mikið síðan ég fékk hann, ég er svo dugleg að taka hann upp og reyna að róa hann niður.  Hann er algjör dúlla þegar ég set hann aftur í búrið því hann þarf að þvo sér svo mikið, honum finnst hann skítugur þegar ég er búin að halda á honum.

Þegar ég fór í skólann í gær, vildi ég fyrst að mamma myndi fylgja mér að dyrunum en svo sá ég að Sævar (sá sem ég er alltaf í kyssustríði við) var líka að koma svo ég kippti skólatöskunni til mín og sagði mömmu að sitja bara kjurr því ég myndi bara fara þetta ein.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
kjg Athugasemd: Hæ Ástrós, ég vona að pabbi þinn hafi ekki orðið sár þegar þú kallaðir hann ánamaðk, en það er nú gott að þú ert dugleg í skólanum og að læra heima. Kannski sjáumst við bráðum. (,Konný frænka) 25.10.2006 19:35:00 Meinlaus Ég verð að láta mömmu leiðrétta það sem hún hafði eftir mér í gær, en það sem ég sagði við pabba var: “En þú ert bara meinlaus lítill ánamaðkur” en ekki pínulítill.

Bara svo þið hafið þetta rétt.
kjg 27.10.2006 17:21:00 Í pössun hjá Tengdó Jæja gott fólk, ég er búin að vera í pössun hjá tengdamömmu minni í dag og svo kom Davíð með mér heim áðan og við erum að ærslast og leika okkur núna og svo er pizzupartý á eftir.
Það er nefnilega vetrarfrí í skólanum í dag, mánudag og þriðjudag.

Svona erum við stundum kærustuparið þegar við erum að leika okkur.

 
kjg 31.10.2006 17:59:00 Lífið eins og það er í dag Sko, það er nú búið að vera vetrarfrí hjá mér í 3 daga og ég hef gert ýmislegt á meðan.  Ég var í pössun á föstudaginn, hjá Davíð kærastanum mínum, á laugardaginn kom Kristófer til mín og við fórum í Smáralindina og Nauthólsvíkina með langömmu og mömmu og já heimsóttum langafa líka.
Svo komu Jón Andri og Anna Dögg og voru í pössun hjá okkur til hálf tíu á laugardagskvöldið, Jón Andri var fyndinn og skemmtilegur.
Á sunnudaginn voru mamma og pabbi að taka til í geymslunni og ég lék við Davíð þar til okkur sinnaðist (hjónalegt eða hvað) og þá fór ég til Arons Breka og lék við hann frameftir degi.
Á mánudaginn fór ég með mömmu í vinnuna sem mér finnst yfirleitt mjög spennandi en núna var ég búin að fá nóg eftir 1,5 tíma en við héldum þetta út til kl. 13.30 og fórum þá að láta laga dekkin á bílnum okkar, þessi nýju en það lak allt loft úr þeim.
Nú svo í dag ákvað mamma að vinna heima og þá var mér boðið í heimsókn til Helgu Rósar kl. 10 og ég var þar til að verða 15 en þá fórum við báðar í afmæli til Evu Lilju og svo var ég bara að koma heim núna og er að fara að borða einhverja rosagóða grænmetissúpu hjá mömmu (eins og mig langi eitthvað mikið í hana eftir allt nammið í afmælinu) en svo byrjar skólinn aftur á morgun og ég hlakka til að kynnast nýja kennaranum mínum henni Soffíu betur.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra
kjg 31.10.2006 21:19:00 Gáfur Ég undrast það alltaf jafnmikið hvað hún dóttir mín er gáfuð og hvað hún skilur mikið og líka hvað hún hefur mikla rökhugsun en á sama tíma er hún jafnvel óþekk, ærslafull, gegnir ekki og fleira sem 6 ára stelpur gera.

Þetta eru stundum svo miklar andstæður og stundum dettur mér í hug að ef eitthvað kæmi fyrir mig þá á þessi stelpa eftir að hugsa vel um mig því þegar eitthvað er að, þá sýnir hún svo mikla samúð og samkennd að hún virðist vera orðin miklu meira en tæplega 6 ára eins og hún er.

Minnir enn og aftur á Konný systir sem 6 ára hélt að hún þyrfti að ala mig upp og sjá fyrir mér því hún hélt að mamma og pabbi hefðu farið frá okkur, ég er viss um að Ástrós Mirra á eftir að sýna svipaða takta gagnvart systkyni sínu, sem nota bene ég er enn og aftur gripin óþolinmæði og er ekki viss um að við getum beðið svona lengi, þetta er algjör óþarfi þessi langi biðtími.   En það verður svo sem margt að hugsa um á næstunni s.s. 6 ára afmæli og Hvalfjörður seinni hluti námskeiðs.  Árshátíð og ljósmyndanámskeið og framhald á 6 ára afmæli og þá er nú farið að styttast í piparkökubakstur og jólaundirbúning svo tíminn til áramóta verður auðveldur en ef við þurfum að bíða fram yfir þarnæstu áramót þá eiga eftir að koma erfiðar stundir inn á milli en hver veit nema þetta verði eitthvað hraðvirkara á næsta ári.  Vonum alla vega okkar besta.

Þetta eru bara smáhugrenningar mínar meðan leikurinn sem Þráinn er að horfa á klárist svo ég geti farið að horfa á Prison Break.

Góða nótt öll sömul og munið að sýna börnunum ykkar regnbogann því hann bíður ekki.

kjg

Ps. smá skýring á myndinni sem fylgdi með síðusta Kínabloggi.  Þetta var tekið uppí Hvalfirði og þarna var einhver hópur að koma á árshátíð á svona nýstárlegan máta.  Tvær þyrlur sem sveimuðu þarna um í nærri 2 tíma.
kjg 4.11.2006 08:26:00 Mýrin Fór í bíó í gær með Þráni, Konný og Kollu og sáum við Mýrina.  Við erum nú ekki vant bíófólk og komum í Smárabíó 15 mín. fyrir sýningu og þá var bara uppselt … en þeir í Smárabíó gátu selt okkur miða í Regnbogann kl. 20.30 svo við höfðum akkúrat tíma til að fara niður í bæ og leita að bílastæði og vorum einmitt komin þangað 15 mín fyrir sýningu en í þetta sinn með miðana með okkur.

Ég er búin að lesa bókina (fyrir allnokkru síðan) en ég var alls ekki að muna eitthvað eftir söguþræðinum og verð að segja að mér fannst myndin “Frábær” og vel gerð í alla staði.  Hún náði mér algjörlega tilfinningalega í byrjun þegar litla stúlkan dó og mér leið ekkert sérlega vel.  Ég á mjög erfitt stundum að horfa á myndir þar sem börn eru látin deyja og sorg foreldrana sýnd svona vel eins og hann Atli Rafn sýndi þarna ótrúlega flottur leikur hjá stráknum.  Það tala allir um að Theódór Júlíusson sýni snilldartakta (sem hann gerir, því hann er frábær leikari) en ég hef ekki heyrt neinn tala um Atla Rafn, kannski af því að hann er þessi mjúka týpa sem ræður ekki við tilfinningar sínar en það er einmitt það sem veldur því að eftir myndina er hann í huga mér og enginn annar.

Ég hélt nú að það myndi eitthvað trufla mig að hafa Ingvar Sigurðsson sem Erlend þar sem Erlendur á nú ekki að vera neinn sjarmur en Ingvar er náttúrlega sjarmur númer 1 en hann er bara svo góður leikari líka að þetta truflaði ekki og svo sá ég að maður er eldast því Ingvar er á mínum aldri (vona að hann sé ekki fæddur 1970 og ég bara haldi að hann sé á mínum aldri, virðist oft lenda í því.  Veit ekki hvort það sé af því að fólk fætt um 1970 sé svona fullorðinslegt eða hvort mér finnist ég svona mikið yngri en ég er)  og lét Erlend mjög vel.

Ég var búin að heyra að fólki finndist vanta betri kynningu á persónur myndarinnar en ég er ekki sammála þær skýra sig algjörlega sjálfar.  Þú þarft ekkert að vita allt um alla í bíómynd.  Ég gæti trúað að það sem væri að trufla fólk er að það er búið að lesa allar bækurnar hans Arnaldar og þar af leiðandi búið að kynnast persónunum mjög vel í gegnum allar bækurnar.  Arnaldur er ekki með mjög sterkar persónulýsingar í bók fyrir bók, heldur lætur hann mann kynnast persónunum betur og betur.  Ef þú lest bara eina bók innan úr safninu hans þá er enginn grunnkynning á persónunum, þú verður eiginlega að vera búin að lesa fyrstu bókina líka.  Svo þetta er ekki að trufla í myndinni.
Annað sem fólk talaði um er tónlistin, þessi karlakóramúsík væri orðin svolítið þreytandi í restina en mér finnst hún svo smellpassa við myndina að ég tók varla eftir henni.  Algjörlega rétt valin tónlist, hefði nú verið hallærislegt að heyra allt í einu popp eða diskó.

Myndatakan frábær og staðsetningar á tökustöðum æðislegar.  Hljóðið flott og ég gef myndinni ***** af ***** mögulegum, og er þá ekkert að miða BARA við íslenskar myndir, ég er bara að miða við mig og mína tilfinningu.

Takk fyrir mig.

Og annað mál, sá sýnt úr mynd “Borat” í bíó í gær sem Hafrún var að tala um að henni langaði að sjá og ég spurði hana nánar út í myndina og þá sagði hún að þetta væri svona mynd í anda AliG enda sami leikari og ég hefði ábyggilega ekkert gaman af henni.  En ef hún er eitthvað á við sýnishornið sem ég reyndar skellihló af þá er ég sko til í að sjá þá mynd.  Ha ha, Hafrún og þú sem hélst að þú þekktir mig svo vel.  Maður kemur líklega öðrum endalaust á óvart.

Þá er bara eftir að skella sér í bíó og sjá Börn og vona að hún standi undir væntingum.
kjg Athugasemd: hahaha – já ég er ánægð með þig, tek þessa mynd með þér á video….
Alltaf gott að hlægja 🙂 (,Hafrún) 5.11.2006 18:46:00 Óveður Ekki var nú gott veður á Konný og Söru með Herjólfi í gærkvöldi og óveðrið hefur haldið áfram í dag um allt land.

Við ákváðum að vera bara heima í dag og buðum svo Steinu og Edda í kaffi en þau eru stödd hérna í bænum og svo datt okkur í hug að baka vöfflur (eða mér datt í hug að Þráinn myndi baka vöfflur) og buðum mömmu og Sigga líka í kaffi og við áttum hérna ljómandi góðan dag með foreldrum okkur og góðum veitingum.  Ég borðaði reyndar það vel að mig greip þvílík syfja þegar gestirnir fóru svo ég lagðist upp í rúm og blundaði aðeins.

Konný var að djóka með það að hún hefði nú komið gagngert til að fara að mynda en ekki viðraði nú vel til þess, við fórum þó í tvær ferðir, á föstudaginn í Straumsvík og laugardaginn um Suðurnesin og sögðum að þetta hefði nú meira verið til að skanna landið fyrir vorið svo við vitum hvert við eigum að fara þá.

En afraksturinn er að sjá í myndaalbúminu okkar.
kjg 8.11.2006 21:35:00 Vonbrigði Við komumst að því í vikunni að við verðum líklega í hópi 25 til að fara til Kína.  Hópur 15 er ekki enn farinn og hópur 14 fór í mars.  Ég fór að telja og sá fram á að við þyrftum að bíða í 5 ár með sama áframhaldi.  Okkur var reynar sagt hjá ÍÆ að það ætti nú ekki að verða en líklega förum við ekki fyrr en sumarið 2008, gæti orðið haustið eða vorið.
Vá þetta verða þá rúmlega 2 ár frá því að við sóttum um hér á Íslandi, það er ekkert smá löng meðganga.
En við verðum samt bara að vera bjartsýn og vona að það fari 5 – 6 hópar út á næsta ári þannig að þetta dragist ekki neitt framyfir þennan tíma.

Ég fékk samt svona óþægilega tilfinningu innaní mig á mánudaginn en er búin að losa mig við hana að mestu leiti en samt ekki alveg.  Ég er svekkt.
Hlakka samt til að fara á seinni hluta námskeiðsins í Hvalfirði næsta laugardag, svo kemur afmæli hjá 6 ára dömu í næstu viku þannig að það verður nóg um vera á næstunni.
Við þurfum bara að reyna að nota þennan biðtíma vel og passa okkur að vera í jafnvægi og ekki láta biðina hafa neikvæð áhrif á okkur.
Við erum búin að fá meðmæli frá barnaverndarnefninni í Hafnarfirði og þá eigum við bara eftir að sjá hvort Dómsmálaráðuneytið hefur eitthvað við okkur að athuga, það eru þó litlar líkur á því, því það þarf að hafa komið eitthvað sérstakt fyrir ef þeir hafna fólki sem barnaverndaryfirvöld hafa samþykkt.  Svo líklega erum við komin með JÁið á Íslensku.
En þá hefst líka ferlið fyrir Kína.  Ný lækniskoðun, ýtarlegar blóðprufur, HIV ofl. þess háttar.  Nýtt tekju- og eignavottorð.  Nýtt sakarvottorð.  Við þurfum að skrifa greinargerð um af hverju við ætlum að gera þetta og svo verðum við að fara með þetta allt til löggilts skjalaþýðanda sem þýðir þetta allt á kínversku og þá kemur í ljós hvort Kína samþykki okkur eður ei.

Þegar allt þetta er komið þá verðum við með stóran bunka af pappírum og stimpil á enninu sem segir að við séum hæf til að verða foreldrar á tvimur tungumálum.  Spurning að slá þessum pappírum svolítið um sig og hafa til sýnis í partýum oþh.  “Hvort viltu lesa um æskuárin mín á íslensku eða kínversku?” og fleira í þeim dúr.

En eins og ég sagði áðan, þá verðum við að vera bjartsýn á að ferlið í Kína fari að lagast, það var á tímabili komið niður í 6 mán. frá því að þeir samþykktu fólk en er núna 12 – 18 mán.  Allt of langt.

Sá sem trúir að allir hlutir séu auðveldir, lendir í miklum erfiðleikum.  (Lao-tse)

Ps. verð að bæta við að hópur 15 fékk upplýsingar um börnin sín og myndir af þeim í dag (eða gær) og ég er búin að skoða eina litla stúlku og hún er yndisleg og hún heitir Qu Le Jing og er fædd í lok október 2005 þannig að hún verður rúmlega eins árs þegar hún kemur til Íslands.
Hlakka til að fylgjast með ferðinni þeirra.
kjg Athugasemd: Hæ
Skil vel að það hafi komið vonbrigði… En, það verður þá bara þeim mun meira spennandi þegar það loksins gerist 🙂 (,Hafrún) Athugasemd: Þetta hljómar eins og ljósár í burtu en þið eruð nú sjóuð í að bíða eftir börnunum ykkar. (,Anna Sif) 11.11.2006 20:07:00 Arfur ættleidds barns Once there were two women. Who never knew each other.

One you do not remeber. The other you call Mother.
Two diffrent lives shaped  to make your one

One became your guiding star, the other became your sun.
The first gave you life , the second taught you to live in it

The first gave you the need for love ,  and the second was there to give it.
One gave you a nationality, the other gave you a name

One gave you the seed of talent , the other gave you an aim.
One gave you emotions , the other calmed your fears

One saw your first sweet smile ,  the other dried your tears.
One gave you up …. It was all she could do

The other praid for a child ,  and God led her straight to YOU.

 

And now you ask me through your tears ,  the age old questions through the years.

Heredity or enviroment….. Which are you the product of.

Neither my darling……neither , just two kinds of love.

 

Hér kemur svo þýðing á sama ljóði.

Einu sinni voru tvær konur sem aldrei þekktu hvor aðra.
Annarri manstu ekki eftir en hina kallarðu móður.
Tvær ólíkar manneskjur sem þig ólu.
Önnur þitt leiðarljós en hin á við sólu.
Sú fyrri gaf þér líf, sú seinni kenndi þér að lifa því.
Sú fyrri vakti hjá þér þörf fyrir ást, sú seinni gaf þér hana.
Önnur gaf þér þjóðerni, hin gaf þér nafn.
Önnur gaf þér hæfileika, hin leiddi þig á réttar brautir.
Önnur gaf þér tilfinningar, hin huggaði þig.
Önnur sá þitt fyrsta bros en hin þerraði tárin þín.
Önnur fann þér betra heimili en hún gat boðið þér.
Hin óskaði sér barns og varð að ósk sinni.
Og nú spyrð þú mig í gegnum tárin
aldagamallar spurningar, ósvaraðri gegnum árin.
Erfðir eða umhverfi, hvort hefur mótað þig?
Hvorugt elskan mín. Hvorugt. Aðeins tvennskonar ást.
kjg 12.11.2006 10:09:00 Seinni hluti ættleiðingarnámskeiðsins Þá er seinni hlutinn líka búinn og ég eiginlega frekar þreytt andlega, held einhvernveginn að allt púður hafi farið úr manni við þetta.  Vissi ekki að það væri svona þreytandi að kafa ofaní sjálfan sig og tala um óþægilega hluti.

Það sem mest var fjallað um á námskeiðinu í gær var barnið sjálf.  Barnið mitt.  Hvernig hefur því liðið frá því að það fæddist og þar til ég fæ það.  Úff ekki vel, það er nokkuð ljóst.  Stofnanauppeldi getur aldrei verið gott þó börnin fái að borða og séu í hreinum fötum, þá er það ekki nóg.

Við sáum myndband sem er tekið á tveimur barnaheimilum, einu í Colombíu og einu í Indlandi.  Það sást nú svolítill munur á þessum heimilum en samt er það sama að vanta báðum megin.  Umhyggja og ást og ást og ást, sem við eigum nóg af og eins og ein konan sagði, hvernig stendur á því að við getum ekki fengið yngri börn svo við getum veitt þessa ást strax.  En það er ekki hægt, stolt þjóðarinnar sem er að láta frá sér börnin sín er það mikið að hún vill vera búin að reyna allar leiðir innanlands áður en börnin eru send úr landi.  Maður getur svo sem alveg skilið það ef við snúum dæminu við og hugsum okkur íslensk börn, við myndum gera allt áður en við þau færu úr landi.

En meira af barnaheimilunum.  Það er ótrúlegt að sjá þessi miklu karaktereinkenni í börnunum sem liggja þarna öll í eins fötum i eins rimlarúmum röðuðum upp við vegg.  Þarna stóðu tveir litli strákar uppi í rúmunum sínum sem lágu þétt saman.  Einn var í öðru rúmi aðeins aftar, svo hann klifraði yfir rimlana og kom sér fyrir hjá hinum og brosti út að eyrum, honum tókst ætlunarverkið.  Hann er sigurvegari, þau eru öll sigurvegarar þessi börn sem komast til ættleiðingar því svo sannarlega komast þau ekki öll alla leið, sum hreinlega gefast upp. Við sáum börn sem lágu bara og biðu, biðu eftir hverju?  Dauðanum?  Eða okkur?  Þau báru greinileg þunglyndiseinkenni sem strákurinn sem var búinn að fatta að ef hann hristi rúmið sitt þá fengi hann athygli var ekki með, hann var sigurvegari og ætlaði sér lengra.  Það er kannski ekkert skrítið að þessar litlu stelpur sem hafa verið að koma frá Kína séu algjörar skvettur og mjög ákveðnar og skapmiklar eins og ég hef séð nokkur dæmi um, þær eru stelpurnar sem komust alla leið, þær eru sigurvegararnir.  Ég hljóma kannski eitthvað skrítin en þetta er svona.  Og það er svo margt annað sem þarf að passa og hugsa út í sem mér hefði aldrei dottið í hug hefði ég ekki farið á þetta námskeið.

Td. Ekki taka við sofandi barni af fóstru.  Að sjálfsögðu ekki, þá er barnið ekki að fá að kveðja sitt fyrra líf og taka á móti okkur, hvernig yrði okkur við ef við myndum sofna og vakna í öðru landi með aðra fjölskyldu.  Hvernig myndum við sofa eftir það, illa og óreglulega því það getur alltaf eitthvað gerst þegar ég sef.  En ég hefði ekki hugsað um þetta áður.

Eins er talað um að maður eigi ekki að taka á móti mikið af gestum fyrst eftir að barnið kemur, því það sé ekkert öðruvísi með þetta barn þó það sé kannski orðið 14 mán. en með nýfædd barn.  Það sem þetta barn hefur gengið í gegn um er svo mikið að stabílished og rólegt umhverfi er nauðsynlegt.

Þessi ættleiddu börn eiga það til að vera með kæki sem okkur finnst kannski ekki samsvara aldri þeirra en það er bara eðlilegt því þau hafa ekki átt eðlilegt líf.  Flest barnanna frá Kína hafa fundist einhversstaðar.  Þe. einhver móðir eignast barnið skilur það eftir.  Það fer á barnaheimili og er þar kannski í 6 – 7 mán. og þá er því fundið fósturheimili.  Búið að skilja það aftur eftir af fóstrunum á barnaheimilinu.  Nú svo komum við og þá er það enn og aftur skilið eftir.  Það getur tekið allt að 6 mán. að mynda tengsl við ættleitt barn.  Við skulum búast við því, við skulum búast við því að barnið mitt sjúgi puttann til 5 ára því það er það eina sem það kann frá sínu fyrra lífi.  Við skulum búast við að eitthvað geti verið að og að okkar aðlögun gæti tekið tíma.  Þó hef ég engar áhyggjur af því, ég held að við Þráinn eigum frekar auðvelt með þetta þannig að við erum bjartsýn en við verðum samt að vita að það gæti brugðist og hvað gerum við þá?

Annað sem var mikið rætt á námskeiðinu í gær og það eru fordómar.  Nú er búið að vera heit umræða í þjóðfélaginu um fordóma eða alla vega um útlendinga en mér fannst gott sem einn sagði hjá okkur.  Við erum öll stútfull af fordómum, ég er með fordóma gegn sjálfsstæðismönnum, ég er með fordóma fyrir ríku fólki og ég er með fordóma fyrir svo afskaplega mörgu.  En það sem við áttum að vera ræða um voru fordómar gagnvart öðrum kynþáttum.  Er ég með þannig fordóma?  Get ég verið fordómalaus.  Ég ætla alla vega að byrja að reyna núna.  Af hverju segjum við td. að það sé ekki hvítum manni útsigandi í vont veður.  Eru það ekki fordómar?  Auðvitað gætum við lent í einhverjum fordómum einhverntímann en þá er bara mikilvægast fyrir okkur að standa með barninu okkar og styðja það.  Við tökum á því ef það kemur en það er samt gott að vita eitthvað um þetta og reyna að taka til í garðinum hjá sjálfum sér STRAX.

Annað sem var líka rætt um og það er að þetta barn er ekki líkt mömmu sinni og ekki alveg eins og pabbi sinn osfrv.  Og mér skilst að það geti stundum komið vandamál út frá því.  Við erum náttúrulega komin með hálfa reynslu í þessu, því hún Ástrós er auðvitað ekki eins og ég.  En það er bara ekkert að trufla okkur og ef ættingjar og vinir fara nú ekki að ítreka það hvað hún sé lík pabba sínum þegar hitt barnið okkar verður komið þá erum við bara 4 manneskjur í sömu fjölskyldu sem erum ekki eins.  Og það er bara fínt og skiptir ekki máli.  Það var ein stelpa með okkur á námskeiðinu sem er með mikið sítt og eldrautt hár.  Hún er eina rauðhærða manneskjan í sinni fjölskyldu.  Það var stundum erfitt, hún var á tímabili alveg viss um að foreldrar hennar hefðu fundið hana í kartöflugarðinum.  Ástrós Mirra segir stundum að hún vildi óska þess að hún væri eins og önnur börn.  Bíddu hún er eins og önnur börn er það ekki?  Nei ekki í hennar huga, henni finnst hún öðruvísi af því að hún er með gleraugu.  Samt eru 3 aðrir krakkar í bekknum með gleraugu en það skiptir ekki máli, henni finnst þetta.  Þetta eru raunverulegar tilfinningar og við tökum þeim og tölum um þetta, sama munum við gera gagnvart litla ófædda barninu okkar.
Kannski verður hún (hugsa alltaf um það að ég fái stelpu) og reyndar mjög líklega með rennislétt hár eins og mamma.  Kannski verður hún með lítil eyru eins og pabbi.  Kannski verður hún dugleg í handavinnu eins og Auður amma eða með leiklistargenin hans pabba síns.  Það er svo margt og við íslendingar ættum að reyna að minnka þetta útlitstengda sem við erum alltaf með.  Kannski verður hún matvönd eins og mamma sín.  Kannski borðar hún allt eins og pabbi sinn.  Er það ekki að vera lík okkur?

Þetta er nú að verða svolítið löng ræða hjá mér en ég verð að tala um þetta, ég er einu sinni þannig og kannski verður litla stelpan mín líka þannig að hún verði að tala um hlutina til að losa um hjá sjálfri sér.

Og kannski verður biðin ekkert ofboðslega löng ef við hugsum hana sem verkefni þar sem ýmislegt þarf að leysa áður en við getum farið út að sækja litlu stelpuna okkar.
Kínablogg Athugasemd: Hæ
Það var gaman að lesa þessar hugrenningar þínar, það er alltaf skemmtilegra þegar fólk er einlægt að blogga 🙂
Ég reyndar segi fyrir mig að ég nota ekki “hvítum manni” heldur að ekki sé HUNDI út sigandi í vondum veðrum 🙂 – kannski ég sé með fordóma gagnvart hundum hmmm 😉
En… Þið munið pottþétt standa ykkur vel. Undirrituð fengi allavega aldrei stimpil sem hæft foreldri …based on…. you know what
seeja
Hafrún (,Hafrún Ósk) Athugasemd: hæ, uppgvötaði um daginn að biðin eftir JAA var 21-22 mánuðir, fyrst að reyna að búa hann til í um ár og svo meðganga sem var rúmir 9 mán (,Anna Sif) 14.11.2006 08:59:00 6 ára
Ástrós Mirra er 6 ára í dag!
kjg Athugasemd: Til hamingju með 6 ára afmælið skvísa.

Ég fylgist reglulega með blogginu ykkar, er samt voða léleg að kvitta.

Knús og kossar
Sigrún (sigrunp@visir.is,Sigrún Pálsdóttir) Athugasemd: Til hamingju með stórafmælið Ástrós Mirra 🙂
Vonandi hefur gengið vel í Ævintýralandi (eða hvað þetta heitir) 🙂
kveðja
Hafrún (,Hafrún Ósk) 17.11.2006 18:20:49 Vantar eitthvað í þessa fjölskyldu Mirra Skotta Langsokkur hefur verið eitthvað stúrin undanfarið og henni finnst eins og fjölskyldan sín hafi breyst svo mikið.  Aðallega finnst henni vanta orðið gleðina í mömmuna og leikinn í pabbann.

Við Þráinn fórum að hugsa eftir að hún sagði þetta og sáum að þetta gæti bara verið eitthvað til í þessu.  Við höfum verið frekar upptekin af sjálfum okkur og hún kannski orðið svolítið útundan þannig að ég ætla að reyna að brosa meira og vera skemmtilegri og svo er spurning hvort Þráinn verði ekki að leika meira heima hjá sér en ekki bara niðrí leikfélagi til að fjölskyldulífið verði aftur eins og það var.

Ástrós var einmitt í pössun hjá Davíð vini sínum og þar tjáði hún Anne og Ófeigi að henni þætti mjög leiðinlegt heima hjá sér á kvöldin því mamma væri alltaf að vinna og pabbi að horfa á fótbolta.

Og þar hafiði það.
kjg Athugasemd: …bragð er að þá barnið finnur…

Tek undir að þú finnir gleðina hjá þér aftur – hef einmitt verið að hugsa um af hverju þú værir ekki glöð lengur…

Legg til að þú komir á jólahlaðborð og slettir úr klaufunum með vinnufélögunum og reynir að muna að við erum fullt skemmtileg. 🙂
Hlakka til að fá þig aftur…. 😀
(,Hafrún Ósk) Athugasemd: Jamm, og auðvitað verð ég að bæta við þetta sjálfselskulega comment mitt 🙂

Ég held að um leið og þú finnur gleðina þína aftur, þá verður Ástrós sú fyrsta sem finnur það.. og mun njóta þeirra stunda sem hún á heima með ykkur. Ég hef bara haft áhyggjur af að rót vandans sé í vinnunni, að það sé ekki eins gaman og áður (þegar undirrituð var í næsta sæti við þig 😉 ) Það er allavega öðruvísi fyrir mig.

En það er oft þannig að ef það er leiðinlegt eða eitthvað óásættanlegt einhversstaðar í lífsmunstrinu þá smitar það yfir í allt hitt. Finna bara rótina að vanlíðaninni og eyða henni 🙂 – vantar þig kannski rótjóla hmm 😉

Ég VEIT að þú vinnur úr þessu, þú ert þannig karakter…

Sjáumst þegar gubban yfirgefur okkur hér.

kveðja
Haffabeib (,Hafrún Ósk) Athugasemd: Já ætli Rhodiolað hafi ekki verið ástæðan, er alla vega komin á fullan skammt og það er eitthvað að róast hjá mér þannig að það er bjart framundan.
Takk fyrir umhyggjusemina og já ég sakna þín auðvitað líka þetta er sko ekki það sama. (,Ég sjálf) 22.11.2006 21:24:52 Afmælisveislan Nú ætla ég að halda uppá afmælið mitt á laugardaginn.
Ég er búin að ákveða hvernig kakan á að vera og mamma ætlar að reyna að gera eins og ég vil.  Eins er mamma búin að panta Ponytertu og ég sagði henni nú bara að hún væri besta mamma í heimi þegar ég heyrði hvernig tertu hún pantaði.

Holtaselið er farið að gefa út fréttabréf einu sinni í mán. og þau setja alltaf gullkorn mánaðarins á það og ég á gullkornið þennan mánuðinn.

Það er svona:

Ég á fullt af kærustum.  Það eru allir svo skotnir í mér.

Stundum þá fæ ég ekki frið til að hugsa.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra orðin 6 ára.
kjg 24.11.2006 19:49:00 Ríkisstyrkurinn Alltaf einhverjar góðar fréttir!  Félagsmálaráðherrann hefur tilkynnt að ríkið muni (það á þó eftir að samþykkja það) styrkja fólk sem ætlar að ættleiða börn um tæpar fimmhundruðþúsundkrónur sem er þá svipað og gert er á öðrum norðurlöndum.

Frábært.  Það munar um minna.  Þannig að þetta mun dekka 1/3 af kostnaði við ættleiðinguna.

Annars er bara allt rólegt hjá okkur, við erum ekki farin að redda pappírum til að senda út, því við ákváðum að einbeita okkur að 6 ára stelpunni núna og klára afmælið hennar og fara svo á fullt að redda hinu.

Annað sem ég næstum gleymi að nefna er að við fengum bréf frá Dómsmálaráðuneytinu í dag og við erum komin með forsamþykki fyrir ættleiðingunni.  Það þýðir að íslensk stjórnvöld telja okkur hæf að ættleiða barn og ala upp.

Ekki amarlegt það.  Fyrsti stimpillinn kominn á ennið á okkur.
Kínablogg 25.11.2006 11:44:00 Afmælisveisla í dag Jæja í dag kl. 14 verður blásið á 6 kerti í afmælisveislunni minni.

Ég bjó til Svanatertu.
Mirrublogg 25.11.2006 19:51:00 Afmælisdagurinn að lokum kominn Þá er dagur að kveldi kominn og ég búin að vera með heilmikla veislu hér í dag.  Þó vantaði marga.  Það vantaði Snorra frænda og fjölskyldu, Aron frænda og fjölskyldu, Hugrúnu og Baldur og Sigrúnu ömmu nr. 5.
Aðrir mættu hressir og kátir og sem betur fer borðuðu þeir líka eitthvað því mamma var með allt of mikið og gleymdi einni köku og smá pizzunum eiginlega sem betur fer, því þá er minni afgangur.

En Svanatertan mín var góð og flott.  Phonýtertan var mjög góð og enn flottari enda lærður bakari sem bjó hana til.  Annað var líka mjög gott og þakka ég Klöru frænku og mömmu og pabba fyrir það.  (eða þannig).

Anna Dögg vildi ekkert fara heim þegar mamma hennar fór og það endaði með því að við buðum henni að gista og nú erum við bara rólegar að leika okkur í tölvunni saman, svo ætlar mamma að lesa fyrir okkur bókina sem ég fékk í afmælisgjöf en hún heitir “Hjartagull” og er víst mjög góð.

En þið öll, takk fyrir mig.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra
Mirrublogg 29.11.2006 19:44:00 Erfiðir tímar Þetta eru dálítið erfiðir tímar fyrir litlar stelpur, sérstaklega stelpu sem á afmæli um miðjan nóvember því þá er allt árið í frekar rólegum gjafagír en svo líður að nóvember og þá veit maður að nú fer að styttast í afmæli og gjafir og strax eftir afmæli eru allir að pæla í jólagjöfum og svo koma jólasveinarnir og ég veit ekki hvað.
Alla vega á ég dálítið erfitt á þessum tíma og núna er ég bara kaupa kaupa gjafir gjafir handa mér.

Mamma keypti jólagjöf handa mér á sunnudaginn og ég veit að þetta er jólagjöf, mig langar alveg óskaplega mikið í hana strax en mamma er alveg ákveðin og ég fæ að skoða pakkann svona einu sinni á dag.
Og vitiðið hvað, ég stenst þetta og skoða bara pakkann, suða reyndar smá en ekki mikið því ég veit að þetta er jólagjöf.  En þetta er erfitt og þetta er erfiður tími.  Ég hlakka til jólanna og ég hlakka til að sjá jólabæinn í Smáralindinni og hitta jólasveinana í Öskjuhlíðinni og skreyta meira heima hjá okkur og baka piparkökur með pabba og og og… ég sem sagt hlakka til jólaundirbúningsins líka.

Þangað til næst,
Ykkar Ástrós Mirra

Ps. Mamma las fyrir mig bókina Hjartagull um daginn og ég hafði mestar áhyggjur að þau ætluðu að fara að gefa mig til einhverns fólks hinum megin á hnettinum en þegar mamma var búin að útskýra fyrir mér að það yrði aldrei, þá fattaði ég að það væri kannski hægt fyrir okkur að fá barn hinum megin af hnettinum eins og í bókinni, því mig langar svo í systur eða bróður.  Mamma sagði að við skyldum lesa bókina betur og hugsa svolítið um þetta.
Mirrublogg 30.11.2006 20:57:00 Tannlæknirinn Við mamma fórum til Egils tannlæknis í dag sem er ekki í frásögur færandi nema því að ég talaði stanslaust í stólnum hjá honum, þurfti að vita hvaða tæki hann ætlaði að nota og lét hann vita af þeim tækjum sem mér finnast óþægileg.
Svo átti ég að vera með mikinn opinn munninn því hann var að mála í 6 ára jaxlinn í efri góm og ég ætlaði að fara að tala nokkrum sinnum og þá sagði Egill:  Hvað er það sem þú skilur ekki, þegar ég segi þér að þú megir ekki tala núna?

Og ég sagði við hann að ég þyrfti að spyrja og svoleiðis og þá sagði hann aftur:  Sendu mér þá bara bréf.

Mamma sprakk úr hlátri og ég skildi svo sem ekki alveg hvað væri svona fyndið en mamma fer eiginlega að hlæja aftur núna bara þegar hún hugsar um þetta.

Já sendu tannlækninum bara bréf ef þú vilt spjalla við hann því þú getur það ekki meðan þú liggur í stólnum hjá honum.

Annað, ég er aðeins að ná jafnvægi eftir afmælið mitt og við mamma fórum í Smáralindina í dag og ég gegndi henni alveg og leiddi hana meira að segja og allt.  Hún var ótrúlega ánægð með mig og vonar að þetta endist.
Mirrublogg 2.12.2006 08:53:00 Ráðskona Bakkabræðra Það er frumsýning hjá leikfélagi Hafnarfjarðar í kvöld á leikritinu Ráðskona Bakkabræðra, en þar leikur Þráinn minn “Hreppstjórann”.

Við Ástrós Mirra og Kolla frænka skelltum okkur á generalprufu í gærkvöldi og ég get lofað ykkur því kæru vinir að ef þið viljið fá að hlæja svolítið fyrir jólin þá skuluð þið sjá þetta stykki.  Það er hreinlega drepfyndið.  Og kallinn minn er dálítið eldri en hann er í alvörunni og með pípu en ég var alveg að fíla hann.

Í hléinu langaði ÁM svo að fá að fara bakvið og hitta pabba sinn en ég sagði henni að hann væri að laga á sér sminkið.  Hún skildi náttúrulega ekki hvað það væri og ég sagði henni að það væri málningin sem hann væri með framaní sér, rendurnar til að gera hann gamlann en þá svaraði mín, hann er ekkert með málaðar rendur á andlitinu, þetta er bara svipurinn á honum.  OK.

En aftur að leikritinu, það er bara um leið og ljósin eru kveikt sem maður byrjar að hlæja og maður er eiginlega hlæjandi út allt verkið.  Strákarnir 3 sem leika Bakkabræður eru bara drepfyndnir og einn af Gummi Lú sem lék nú eiginmann minn hér um árið í Eyjum er mjög fyndinn og skemmtilegur karakter og svo er alltaf skemmtilegra að horfa á leikrit þegar þú þekkir einhvern.

Á sýningunni var fólk frá 6 ára og uppúr og nokkrir unglingar og ég gat ekki betur heyrt en allir skemmtu sér jafn vel.  Svo þið fólk sem viljið lyfta ykkur upp í skammdeginu, skellið ykkur á sýningu hjá Leikfélagi Hafnarfjarðar og hlæjið svolítið á aðventunni.
Mömmublogg 2.12.2006 21:03:00 Hvernig orðar maður… bréf sem á að segja allt sem segja þarf um af hverju við viljum ættleiða barn frá Kína?

Hvaða orð eru réttu orðin?  Á ég að ýkja eða bara segja sannleikann?  Gæti ég verið spurð út í það sem ég segi?  Ef ég segist hafa áhuga á kínverskri stjörnuspeki, verð ég ekki að kynna mér hana enn betur til að geta svarað spurningum um hana?

Hvernig segir maður í bréfi að maður sé hæfur tll að ala upp lítið barn sem er á barnaheimili og á engan að án þess að tala illa um einhvern/eitthvað?

Hvað er það versta sem gæti gerst?  Það er að fá ekki samþykki.  Og það viljum við alls ekki.  ég er alla vega komin of langt í ferlinu til að geta hætt við.  Mig er farið að dreyma litlu stúlkuna (verð að viðurkenna að ég hugsa alltaf um stúlku) okkar og sjá fyrir mér augun hennar og aðra hluti líka.

Ég hef oft haldið að ég ætti auðvelt með að skrifa bréf en ég verð að viðurkenna að þetta bréf sem við þurfum að semja til að senda með umsókninni okkar til Kína er það erfiðasta sem ég hef skrifað.  Enda get ekki beint spurt neinn hvernig ég eigi að skrifa það því það á að koma frá okkur, ekki vera eitthvað staðlað.

Ætli Kínverjum finnist neikvætt að vera barnalegur og leika við börnin, ætti ég frekar að segja eitthvað annað?

Við sem sagt erum að safna gögnum til að senda til Kína núna.  Öll gögnin sem við redduðum í mai voru bara fyrir Ísland og ekki hægt að nota áfram.
Við erum búin að fá okkur fæðingarvottorð, hjúskaparvottorð, vottorð vinnuveitanda er á leiðinni, sakavottorð sendi víst dómsmálaráðuneytið til ÍÆ svo við sleppum við það, tekjuvottorð þurfum við að fylla út og læknisvottorðið er eftir, við þurfum að drífa í því í næstu viku því það tekur víst 10 daga að fá niðurstöður úr HIV prófum sem við verðum að fara í.  Við þurfum að senda fullt af myndum af okkur heima og úti og í tómstundaiðkun og ég veit ekki hvað.  Ekki veit ég hvað maður gerði ef ekki væri þessi skrifstofa ÍÆ sem aðstoðaði okkur við þetta og útskýrði hvernig allt ætti að vera.
Það má ekki brjóta eða krumpa bréfin sem við sendum út, ég fékk nú reyndar fundargerð féló í pósti samanbrotin, ætli ég verði ekki að fara niðureftir og fá nýtt óbrotið, þori ekki að taka séns á einhverju svona smáatriði.

Kannski er bara gott að það þurfi að gera svona mikið fyrir þessa umsókn því þá einhvern veginn er maður að gera eitthvað í staðinn fyrir að bíða bara.  Biðin á eftir að verða enn erfiðari en hún er núna, hún er reyndar kannski ekki beint erfið núna en samt er ég alltaf með hugann við litlu stúlkuna sem mun eiga heima hjá okkur eftir minna en 2 ár.

Ég er aðeins farin að hugsa um að “já, ég verð að kaupa kommóðu fyrir fötin hennar” og “það þarf stærri skógrind eða hafa tvær eina í ganginum og eina í þvottahúsinu” og fleira í þessum dúr.

Eins og er, er Birta að gista hjá okkur og ég hef hreinlega ekki vitað af þessum tveimur stelpum síðan kl. 18 og fór þá einmitt að hugsa um hvað það væri nú gott að hafa eina litla sem þyrfti á manni að halda þegar þessar stóru stelpur sjá um sig sjálfar í leik.
Kínablogg Athugasemd: Vá hvað ég skil þig… En ég held að það skapi minnst vandamál fyrir þig að skrifa út frá þínu hjarta, ekki eitthvað sem þú heldur (en veist ekki) að aðrir vilji heyra. Vegna þess að ef þú skrifar allt frá þínu hjarta, þá þarftu t.d. ekkert að muna 🙂 því það ert bara þú.
Held að kínverjar leggi þó mikla áherslu á aga, en ég meina… ef þú ætlar að skrifa bréf sem er til að heilla, þá lendirðu í klysjum held ég 🙂
En.. hvað veit ég svosem… Aldrei myndi ég fá samþykki 😉
Anyways…gaman að lesa bloggið þitt, as usual 🙂 (,Hafrún Ósk) 3.12.2006 13:21:00 Bara orðinn frægur! Haldiði að minn sé ekki bara kominn á Vísir.is
Mömmublogg Athugasemd: Frábær mynd af ÞÓ (,Anna Sif) Athugasemd: Altaf jafn myndarlegur sæti og sverd þig vel í ætina. (,Helga frænka) 7.12.2006 19:18:36 Óheilsa Það er að sjálfsögðu ekkert sjálfgefið að hafa góða heilsu, það er alltaf að sýna sig og hér hjá okkur núna í gær og í dag.  En hann Þráinn minn er búinn að vera svo slæmur í bakinu að ég hef hreinlega aldrei séð hann svona kvalinn.

Ég dreif hann til læknis í gærkvöldi og hann var sendur beint í myndatöku í morgun en er ekki búinn að fá út úr henni.

Það er tvennt sem gerir það að verkum að ég verð hrædd þegar eitthvað svona kemur fyrir.  Í fyrsta lagi, þá hryggbrotnaði hann fyrir 4 árum eða svo þannig að ef hann fær í bakið þá hugsar maður til þess og að þetta sé þá kannski brjósklos eða eitthvað annað jafn skemmtilegt.

Annað var að hann fékk svo mikinn doða niður í fót og þá fór ég að hugsa um tengdapabba sem dó úr MND og var hans veikindatími mjög stuttur og erfiður.  MND er arfgengt þannig að maður fær í svona dæmum nettan hjartslátt og hugsar sem svo, hvað gerum við ef.

En auðvitað er ekkert hægt að sjá það fyrir, það getur að sjálfsögðu enginn ákveðið hvað hann ætli að gera ef.  Eða hvernig hann muni bregðast við ef.

En sem betur fer þurftum við ekki að hugsa of mikið um ef, í dag því um miðjan dag í dag hætti hann allt í einu með þennan mikla verk og er miklu betri og getur alla vega hökt um íbúðina, en það gat hann ekki í gær eða í morgun án mjög mikilla kvala.
Svo í rauninni varð kraftaverk í dag og meira að segja læknirinn sem skoðaði hann í gær trúði honum ekki þegar hann sagðist vera nærri verkjalaus og geta staulað um án verkja.

Við bíðum samt eftir niðurstöðu röntgenmyndanna til að vita hvað þetta var/er.

Mömmublogg Athugasemd: Bestu kveðjur til ykkar allra og von um að þetta sé ekki neitt alvarlegt að hjá Þráni.
kv/Sigrún Pálsd (sigrunp@visir.is,Sigrún) Athugasemd: Sendi ykkur hlýja strauma frá Danaveldi,knús og kram.
(,Helga frænka) 10.12.2006 21:04:00 Aðventan   Jæja kominn tími á smá Mirrublogg.  Það er sko ýmislegt búið að vera að gerast hjá okkur undanfarið og margt á döfinni.
Til dæmis vorum við pabbi að baka piparkökur í gær og mála þær á meðan mamma skrapp að kaupa nokkrar jólagjafir. svo kom Langamma í mat til okkar og mamma og langamma voru að skrifa jólakortin fyrir ömmu á meðan pabbi eldaði matinn og lagði á borð í stofunni.  Langömmu fannst nú hálf skrítið að þær konurnar sætu bara að skrifa jólakort á meðan karlmaðurinn sæi um allt í eldhúsinu en svona var þetta bara ekki í gamla daga.  Við erum heppin að það sé nú aðeins meira jafnrétti í dag en þá (þó heilmikið vanti uppá, mömmuviðbót).
Svo í dag þá skrifaði mamma fleiri kort fyrir langömmu og langafa og á meðan pökkuðum við pabbi þessum pökkum inn sem búið er að kaupa og ég fékk meira að segja að pakka nokkrum alveg sjálf, þið sem fáið þá, takið viljann fyrir verkið.

Frá og með morgundeginum verður Davíð vinur minn samferða okkur á morgnanna í skólann því mamma hans er að fara að vinna næturvinnu og verður á bílnum þeirra og kemur ekki heim fyrr en of seint fyrir skólann, en það verður bara gaman fyrir okkur að verða samferða.
Á föstudaginn er sundmót hjá mér í gömlu sundhöllinni í Hafnarfirði og svo á laugardaginn förum við á julefrokost hjá Öggu og Valgeiri sem eiga Glugga og Garðhús og þar verður ábyggilega voða gaman.  Vonandi hitti ég Runólf og svo hundana þeirra Öggu og Valgeirs.

Ég hef átt smá erfitt með pakkadæmið fyrir þessi jól, mig langar í heilmargt og er stundum að segja mömmu frá því en það er alltaf bara þetta eina sem mig langar í.  En ég held reyndar að fái allt sem mig langar í því mamma ræður yfir nokkrum pakkakaupum, þar á meðal fyrir Ömmu Maddý og Már afa svo það ættu alla vega að verða pakkar sem ég er búin að panta.

Þessa dagana er ég ekki hrifin af að fá föt í gjafir og sýni næstum því dónaskap þegar ég opna svoleiðis pakka, mamma er nú ekki ánægð með það, sérstaklega vegna þess að þegar ég fer svo í fötin þá sé ég hvað þau eru flott og er alveg að upplifa mig sem rosa skvísu, en þetta lagast líklega og ef ég verð eins og öll önnur börn þá á fatasýkin eftir að koma.

Á morgun byrja jólasveinarnir að koma í bæinn og gefa í skóinn svo ég verð víst að vera þæg og góð.  Mömmu finnst ég stundum óþæg en ég er samt góð stelpa.

Það komu gestir í dag, Victor og Klara Rún og mömmu fannst voða gaman að sjá mig leika við Klöru því ég sýndi víst voða flotta stórusystratakta.

Jæja gott fólk, ég ætla að láta þetta duga í bili en munið að taka því rólega á aðventunni og njóta hennar frekar en að vera stressa sig yfir einhverju sem enginn sér.

Þangað til næst
Ykkar Ástrós Mirra jólastelpa

 

Ps. munið eftir þessum, hann fylgist með.

 

Mirrublogg 15.12.2006 21:22:00 Sundmót og X-faktorinn Fyrsta sundmót Ástrósar Mirru var í dag, hún synti ásamt félögum 25 metra skriðsund.  Geðveikt að sjá þessi litlu kríli, sem fengu mömmur sínar til að taka smá hjartastopp þegar þau fóru ofan í laugin djúpu megin.  Úps, ein mamman stökk upp og sagði: Guð minn góður verður enginn með þeim ofaní.  Og svo stökk hún til að bjarga börnunum en þess þurfti ekki því það fóru stærri stelpur ofaní og syntu með litlu krílunum en ….

… Ástrós Mirra synti ein yfir 25 metrana.   Frábært hjá henni.  Og gaman að sjá þessa krakka koma svo lafmóð uppúr því þetta var nú talsvert mikið.

Ég er ótrúlega stolt af henni.  Pabbi hennar missti af þessu því okkur skildist að mótið hæfist kl. 17 og hann átti að fara á leikfélagssýningu kl. 18 og þá voru litlu krakkarnir ekki byrjuð.  Leiðinlegt fyrir hann.

En að öðru….
… Fyndið í öllum flokkum í X-faktornum þekki ég einhvern eða hann/hún er skildur mér.

Í yngsta hópnum þekki ég hana Arndís dóttu Hönnu stóru sem báðar voru með mér í leikfélaginu.  Frábær stelpa, skemmtileg og syngur vel.
Í hópa hópnum eru frændsystkyn sem eru skyld mér og voru einmitt í ættarhljómsveitinni á ættarmótinu í sumar.
Í eldri hópnum þekki ég hann Sævar Helgi sem er úr Eyjum og var einnig veislustjóri á árshátíð hjá okkur í Maritech á Selfossi um árið.

Öll komust þá áfram núna í kvöld, frábært.

Hlakka til að sjá næstu þætti, nú fer maður að þekkja fólkið og geta metið það betur og gert sér grein fyrir hver er í uppáhaldi og hver ekki.

 

Flott mynd, ég ætlaði að leita að einhverri faktor mynd og fann þessa, kannski þetta sé hann bara?  Alla vega einn flottasti snjókall sem ég hef séð.
Mömmublogg Athugasemd: Ahhh ÞAÐAN kannaðist ég við kauða… Mikið búin að spá, ég HEF séð þennan fír áður hehe – veislustjórinn offkors…
En ég skil þig með að missa hjartað… ég hef einmitt alveg orðið hálfreið að sjá hvað börnunum manns er boðið upp á þegar maður er hvergi nærri 😉 hehe djók
Sjáumst fljótlega
Hafrún Ósk (,Hafrún Ósk) 18.12.2006 19:58:00 Closure Í dag varð svona ákveðinn endir á upphafinu hjá okkur þegar ég sendi þýðandanum okkar honum Jeffrey skjölin sem þarf að þýða á ensku og fór niður í Félag Íslenskrar ættleiðingar til að láta yfirfara alla pappírana og þeir sem sagt eru í góðu lagi.

Næsta skref er þá að fá þessa þýddu pappíra frá Jeffrey og fara með allt heila klabbið til sýslumanns og láta setja “public notarius” stimpil á allt saman og þá erum við komin í hóp.  Reyndar held ég að við verðum í hópi 25 sem verður vonandi með fullt af skemmtilegu fólki í.  Því við eigum eftir að fara saman í langt ferðalag og vera saman í alla vega hálfan mánuð þarna úti í Kína.

Svo er það nú þannig að þessir hópar halda sambandi eftir heimkomu og því skiptir máli að hitta á góðan hóp.  En sjálfsagt eru þeir allir góðir, enda frábært fólk sem er að fara þessa leið í barneignum.

Það er eins og það hafi farið eitthvað fjall af herðunum á mér við það að klára þetta og er það náttúrulega frábært svona rétt fyrir jól.  En þá á maður að vera laus við stress og áhyggjur.  Oft þá heldur maður að það sé ekkert stress í gangi þó það sé, skrítið hvað maður á erfitt með að sjá þetta oft sjálfur og gott þegar einhvern manni nákominn bendir manni á, því þá er svo auðvelt að laga sjálfan sig og það sem er að.

Ég er alla vega ekkert rosalega fúl yfir því að þetta verði ekki fyrr en sumarið 2008 sem við förum út og nú hugsa ég einhvern veginn að það sé þá gott, því þá hefur maður meiri tíma til að safna pening fyrir þessu, því þó íslenska ríkið hafi samþykkt styrk um daginn þá dugir hann fyrir rétt um einum þriðja af kostnaðinum.  Og þá hefur maður líka meiri tíma til að hugsa um hvernig við ætlum að hafa þetta.  Við þurfum að taka í gegn svefnherbergið áður og eins Ástrósar herbergi og næsta vor ætti að vera góður tími í það.

Svo verður allt í einu komið sumar og það líður eins og hendi væri veifað og þá er komið haust, svo afmæli og svo jól og úff áður en við vitum af verða áramótin 2007-2008 og þá er nú aldeildis farið að styttast í þetta.  Svo biðin ætti ekkert að verða mjög erfið.  Svo á eftir að fæðast kríli í fjölskyldunni í millitíðinni svo það verður rosafjör.

En alla vega þá er ákveðinn closure sem er að gerast núna og þá tekur við nýtt og spennandi tímabil.
Kínablogg 20.12.2006 08:41:00 Kompás.. Er ekki kominn tími til að tjá sig eitthvað um þetta Kompásmál eða mál Byrgisins og Guðmundar forstoðumanns þess.

Ég verð að segja það að ég ber talsvert traust til þeirra Kompás manna og einhvern veginn held ég að þeir myndu aldrei setja svona þátt í loftið án þess að vera með mjög haldbærar sannanir fyrir því.

Það eru margir sem tala um að það sé mjög alvarlegt ef Guðmundur hefur verið að misnota fé sem hann fær frá ríkinu til heimilsins, en sama fólk jafnvel segir að þessi misnotkun kvennanna sé ekkert glæsamleg því þær séu fullorðnar konur oþh.  En málið er að þetta eru kannski fullorðnar konur en spáið í, í hvaða stöðu þær eru í lífinu.  Búnar að vera á kafi í drykkju og dópi og svo brotnar andlega að þær eru að sjálfsögðu ekki nógu sterkar til að segja nei við manninn sem er að bjarga lífi þeirra frá götunni eða dauðanum og sem segir þeim jafnframt að hann sé sendiboði Guðs og sæðið hans lækni.
Það er sagt að hann hafi byggt upp traust smám saman gagnvart þessum konum og notað sömu tækni og barnaníðingar gera og það segir ýmislegt.  Maður sem markvisst vinnur að því að tæla konur er að því til að misnota þær og þá skiptir engu máli hversu gamlar þær eru.

Svo er annað sem fólk talar mikið um núna og það er hversu óforskammað það sé af þeim Kompásmönnum að gera þetta svona af því að hann eigi fjölskyldu og börn en ….
það var hans að hafa áhyggjur af sinni fjölskyldu og börnum áður en hann fór að gera þetta.
Þetta hefur stundum verið sagt um aðra glæpamenn sem birtar myndir hafa verið af og ég verð að segja að ég er kannski mjög grimm þegar ég segi að það er ekki mitt áhyggjuefni heldur þess sem framkvæmdi glæpinn.  Það er hann sem ber ábygð á því að fjölskyldan hans og börn eigi erfitt.

Við myndum líklega aldrei handtaka neinn eða birta myndir af neinum ef við ætlum að hafa endalausar áhyggjur að fjölskyldum mannanna.  Hvað með fjölskyldur fórnarlambanna?  Hvað með fórnarlömbin?  Eiga þau aldrei neinn rétt?

Æi, ég verð svo reið þegar svona “umburðarlyndi” fólks gagnvart glæpamönnum er farið að vega hærra heldur en “samúð” með fórnarlambinu.  Hvað er að okkur?

En svo að öðru sem segir heilmikið einmitt um “svona mál” og hvernig lögreglan tekur á þessu.

Vinkona vinkonu minnar lenti í því að vera að leita að 14 ára dóttur sinni og ákvað að fara inná hennar msn og athuga hvort hún sæi eitthvað sem gæfi til kynna hvar dóttir hennar væri og hún er varla búin að logga sig inná msnið þegar einhver fertugur kall poppar upp og fer að tala við hana.
Hún (mamman) ákveður að láta sem hún sé stelpan (því henni leist nú ekki á að kallar á þessum aldri væru að tala við dóttur hennar á msninu) og þá býður kallinn henni að sjá sig í vefmyndavél og svo býður hann meira og berar sig og sýnir sig við athafnir sem eru ekki við hæfi hvorki 14 ára stelpu né móður hennar.  Hún margítrekar að hún sé bara 14 ára og hann svarar því til að það sé allt í lagi.  Þið hafið líklega fengið þennan tölvupóst sem gekk manna á milli í 3 daga og vitið því um hvað ég er að tala.
.. en málið er að þessi kona talaði við lögregluna sem sagði henni að það hefði ekkert uppá sig að kæra fyrst þetta var hún (mamman) sem var í þessu spjalli en ekki 14 ára dóttir hennar (þó að kallinn hefði haldið að hann væri að tala við barn) og málið myndi bara þvælast í kerfinu og deyja.
Halló…
Hvað gerir móðir í svona máli þá.  Hún sendir tölvupóst þar sem hún var svo sniðug að taka skjámyndir af spjallinu og myndunum af manninum og sendi á nokkrar vini sína sem sendu á vini sína og vitiði hvað?  Eftir 3 daga þá er maðurinn sjálfur búinn að fá þennan póst og gaf sig fram við lögreglu og fær á sig kæru.
Hvað segir það um okkar réttarkerfi og lögregluna?  Fólk verður hreinlega að taka til sinna mála ef það vill að eitthvað gerist í svona málum.

Þá aftur að konunum sem eru sjálfráða og leyfðu Guðmundi í Byrginu að misnota sig.  Ef þær hefðu ætlað til lögreglunnar og kæra hann, hvernig móttökur haldiði að þær hafi fengið?
Mömmublogg Athugasemd: Já, satt segirðu, þessir menn ættu að hugsa sig um ÁÐUR en þeir gera svona, en ekki treysta á samúð þeirra sem fyrir barðinu á þeim verða. En… ég held að umburðarlyndið sem kemur út sem samúð með glæponum snúist oft bara um samúð með aðstandendum, því enginn vill lenda í að sjá einhvern sér nákominn flæktan í svona mál. Held að það stýri ferðinni frekar en samúð með sjálfum glæponinum.
En…ég er alveg hlynnt svona… allt sem hræðir menn frá því að sækjast í börn.
Go go
Hafrún (,Hafrún Ósk) 22.12.2006 08:35:29 Engin logmolla í viðskiptalífinu!!

Mömmublogg 23.12.2006 10:00:00 Jólin eru að koma… Jólin eru alveg að koma og ég er eiginlega POLLRÓLEG yfir þessu þrátt fyrir að mamma héldi að þetta yrði mjög erfiður tími fyrir mig.
Ég er búin að fá helling af flottu dóti í skóinn og líka einu sinni bara sokka, það var ekki skemmtilegt.  Svo einu sinni setti ég báða skóna í gluggann og þá setti jólasveinninn dót í báða.  Svo ég prófaði aftur í gær en ég það er ekkert að virka ég fékk bara eitt dót og ætlaði meira að segja að vera fúl yfir því.  Samt var þetta DVD diskur en ég hélt að þetta væri gamla Ástríks myndin sem mamma er búin að eiga í tölvunni lengi en svo var þetta nýja myndin og hún er mjög skemmtileg svo ég er bara glöð.  Mamma setti myndina bara í tækið strax í morgun og við lágum öll 3 uppí og horfðum saman á hana.  Það var gaman.
Svo fórum við frammúr kl. 9.30 og fljótlega niður í kjallara til að sækja jólatré og skraut og ég er eiginlega alveg búin að skreyta tréið okkar. Það á bara eftir að setja svona lengjur með perlum og englahár.
En nú er ég í smá pásu og fór í tölvuleik, pabbi er að þrífa bílinn og mamma ákvað að vinna smá (þetta er samt ekki vinnan hennar að skrifa fyrir mig) en svo ætlum við að keyra um alla borg og afhenda pakkana frá okkur.  Ætli ég verði ekki með jólasveinahúfu svo þetta verði nú skemmtilegra.
Að lokum….

Gleðileg jól öll sömul og njótið hátíðanna.

Þangað til næst,
ykkar Ástrós Mirra

Mirrublogg Athugasemd: hahaha ég hef einmitt heyrt þetta líka, að jólasveinninn sé eitthvað sparsamur þetta árið.. Umræða í gærkvöldi “Ætli Kertasníkir verði góður þetta árið, eða fæ ég bara dracco eða nammi eins og frá hinum sveinunum :S” hehe
En hann fékk nú Pirates of the caribean og var himinlifandi, Kertasníkir verður áfram uppáhaldsjólasveinn þessa heimilis 🙂
Gleðileg jól og hafið það yndislegt alla dagana 🙂
kveða
Hafrún og strákarnir (,Hafrún Ósk) 24.12.2006 15:08:00 Perlugjafir Það er þetta með jólagjafirnar sem mig langar aðeins að fara inná núna þegar ég sit hér á aðfangadag og bíð eftir dóttur minni og jólunum.

Ég las um litla stelpu sem gaf bróður sínum á fermingaraldri svona box með perlum til að strauja og gera myndir úr.  Fermingarstrákurinn var ekkert sérstaklega ánægður með gjöfina en litla stúlkan var alsæl með það sem hún hafði gefið enda fannst henni þetta mjög flott.  Í þeirra fjölskyldu og líklega víðar núna eru svona gjafir kallaðar perlugjafir.  Mér finnst það frábært orð.

Og þá langar mig einmitt að nefna það að ég vildi nú frekar fá perlugjöf en peningagjöf eða gjafabréf, því það er svo staðnað og lýsir svo miklu andleysi (ekki það að maður er misjafnlega andlaus í gjafamálum fyrir jólin) en ég man eftir einni perlugjöf sem við Þráinn fengum fyrir mörgum árum.  Það voru risa risastórar eldrauðar jólabjöllur, svona eins og verslanir og fyrirtæki hengja upp til að skreyta hjá sér.  Við hlógum talsvert að þessari gjöf því okkur fundust bjöllurnar svo stórar og töluðum um að það hefði nú bara verið gaman ef þær hefðu verið minni og þá passað inni hjá okkur en þær voru svo stórar að okkur fannst við ekki geta hengt þær upp heima hjá okkur.  Svo við ákváðum að gefa starfsfólkinu í Ráðhúsi Vestmannaeyja (ég var náttúrulega ein af þeim) þessar bjöllur til að skreyta þar.
Þær voru vel þegnar þar og ég horfði á þær næstu jól með gleði.  En svo fluttum við og eðlilega urðu bjöllurnar eftir í Eyjum en einu sinni á ári er hringt í mig (reyndar hringt miklu oftar) og mér tilkynnt að nú sé búið að hengja bjöllurnar okkar Þráins upp og að alltaf þegar það er gert er mín minnst með söknuði.
Segið svo að þessi gjöf hafi ekki gefið okkur mikið.  Þó svo að okkur hafi ekki fundist þær passa inni hjá okkur þá jafnvel með því að gefa þær í Ráðhúsið þá gleðjumst við meira og látum gamla vini muna eftir okkur.

Fleiri perlugjafir hafa komið á heimilið okkar og verið settar inní skáp með þeirri hugsun að sá eða sú sem gaf hafi ekki verið að hugsa um okkur heldur sjálfan sig en málið er að svoleiðis er þetta.  Maður kaupir gjafir sem manni langar sjálfum í, reynir þó að sirka fólk pínulítið út en innst inni er ekki verið að kaupa eitthvað sem maður myndi ekki sjálfur vilja eiga.

Ég til dæmis gaf Konný systir einu sinni húfu, sem mig dauðlangaði í, en ég vissi að Konný myndi nota hana en ekki ég.  Þegar ég kaupi handa 12 ára stelpum þá reyni ég að sjá fyrir mér hvað þær myndu vilja en ég er líka að setja mig í þeirra spor og hugsa, hvað myndi ég vilja ef ég væri 12 ára.
Þannig að líklega eru flestar gjafirnar okkar perlugjafir og það er bara frábært, því það er svo gaman að gefa þegar maður er sjálfur ánægður með þá gjöf sem maður keypti.

Þess vegna er svo gaman að kaupa jólagjafir og þess vegna er gaman er gefa.
Mömmublogg 26.12.2006 16:35:00 Róleg jól Jæja þá er bara vinnudagur á morgun, skrítið hvað þessi jól líða hratt þegar þau eru komin.  En samt er það kannski ekkert skrítið, það er búið að smámagna uppí manni jólastemmningu allan desember og svo eru þetta bara 3 dagar og allt búið.
En við erum búin að eiga óskaplega róleg jól, vorum hér 3 á aðfangadag og Ástrós Mirra las á pakkana með smá hjálp frá mér og gekk það frekar hratt fyrir sig en örugglega samt.
Takk allir kærlega fyrir okkur.

Fórum svo í jólaboð til mömmu og Sigga í gær og þar var setið til klukkan 22 að spila ofl.  Frábært.

Í dag er svo jólaboð hjá okkur, þe. mamma, Siggi, amma, Kolla og Steina koma í mat og við erum samt bara pollróleg því svona jólamatur er svo þægilegur.  Bara setja í ofninn og bíða.  Meðlætið kemur oftast úr krukkum og beint í skál og svo bara að brúna kartöflurnar.  Ég er svo oft að æða inní eldhús og ætla að gera eitthvað því mér finnst að ég hljóti að þurfa þess en nei, það er ekkert að gera nema chilla þar til nær dregur og hægt er að brúna kartöflur og setja á fatið.

Nú á morgun er svo venjulegur vinnudagur.  Allt búið eftir allt saman eða hvað, nei áramótin eru náttúrulega eftir og ætlum við litla fjölskyldan að vera enn og aftur í rólegheitunum.  Klara systir verður líklega með okkur á gamlárskvöld og við opnum líklega eina, tvær hvítvín í tilefni dagsins, borðum góðan mat, skjótum upp nokkrum rakettum og látum svo gott heita.
Mömmublogg 28.12.2006 16:17:00 Pappírsfjallið Síðasta skrefið í þessu pappírsfjalli var stigið í dag þegar ég fór með öll frumritin og lét stimpla þau Notarius Publicus stimpli hjá Sýslumanni.
Á morgun verður farið með alla hrúguna niður á skrifstofu Íslenskrar ættleiðingar og munu þau sjá um að senda pappírana í utanríkisráðuneytið og kínverska sendiráðið (eða ég vona að ég hafi ekki misskilið það).
Þá ættum við að vera formlega komin í hóp 25.
Vá hópur 15 er úti núna og fengu börnin sín í fangið á aðfangadag, ég vona að það verði ekki lengri bið en þessir 18 mánuðir sem við erum búin að vera að reikna með.
Kínablogg Athugasemd: Til hamingju með þennan áfangasigur 🙂
Eigiði gleðilegt nýtt ár og megi allt verða ykkur til gæfu og hamingju sem gerist á nýja árinu.
kveðja
Hafrún a.k.a. HaffaBeib (,Hafrún Ósk)

 

29.12.2006 19:48:33 Áramótaheit Ég var að hugsa um þessi áramótaheit og við hjónin vorum reyndar búin að ákveða eitt saman og það er að hreyfa sig meira en áður.
Svo datt mér í hug annað og það er að fara að hugsa aðeins betur um MIG og vera ekki eilíflega að hugsa um aðra.
Ég held að ég sé alltof dugleg að segja já þegar ég ætti að segja “því miður ég get það ekki”.  Enda er alveg nóg fyrir mig að hugsa um mína fjölskyldu og ég þarf ekkert að vera að ættleiða aðrar fjölskyldur líka.  Það þýðir þó ekki að ég ætli að hætta að hugsa um hana ömmu mína eða hann afa minn en það eru önnur mál sem ég gæti alveg verið duglegri að segja “því miður” við og ég ætla að hafa það að leiðarljósi á nýju ári.

Ég er samt einhvern veginn þannig að ef einhver á í einhverjum erfiðleikum þá held ég alltaf að ég verði að koma til aðstoðar.  En það er alveg nóg að hugsa um mig, prinsessuna mína og Þráinn minn.  Ekki að það þurfi svo mikið að hugsa um hann en samt… ég má ekki alltaf vera orðin svo útkeyrð af því að hugsa um aðra að ég hafi ekki orku fyrir fjölskylduna.
Þetta er samt ekkert stórmál, meira kannski bara svona í kollinum á mér en mér finnst gott að tala um það.  Kannski af því að ég er þessi týpa sem verð alltaf svo “obsesst” af því sem er í gangi og nú er það væntanleg Kínaferð eftir alltof langan tíma og það á þá bara að vera nóg er það ekki?
Svo hefur veðrið ekki leikið við mig og ég fundið fyrir talsverðu þunglyndi í vetur.. mig vantar sól og mig vantar hana heima hjá mér ekki í útlöndum, mig langar að fara í bústaðinn og slá blettinn og vera á stuttbuxum og og og….

En ég ætlaði nú ekki að fara í einhverjar djúpar pælingar, tek orð lítillar stúlku í Glitnisauglýsingu mér í munn og segi:  “Næsta ár verður ógeðslega skemmtilegt”.

Svo ég segi bara Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir það gamla.  Gangið hægt um gleðinnar dyr og munið að það er bara til eitt ráð við timburmönnum:  “Vertu edrú”.  Veit þó ekki hvort ég noti það eða ekki.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.