Það er alveg óskaplega ríkt í okkur íslendingum að spá alltaf hreint í hverjum fólk er líkt og sérstaklega þegar lítil börn fæðast þá er eins og fjölskyldurnar tvær fari oft nánast að rífast um hvorri þeirra barnið líkist meira, í staðinn fyrir að dáðst bara að barninu eins og það er. En jú svona er þetta bara í litlu þjóðinni okkar og lítið við því að gera.
Ég fór ekkert að taka eftir þessu fyrr en eftir að ég átti Ástrós Mirru þar sem hún er ekkert lík mér og verður aldrei. Og hvaða máli skiptir það, gullfalleg stúlkan með alla sína kosti og hæfileika. Ég er heldur ekkert sérstök, bara venjuleg kona eða er það ekki?
En ástæða þessa pistils eru myndir sem Konný systir setti á FB í gær og ég get ekki annað en hlegið þegar ég skoða kommentin þar. Sérstaklega í ljósi þess að alla okkar æsku og uppvaxtarár höfum við heyrt hvað við séum ólíkar. En hún sem sagt birti brúðarmyndirnar af mömmu, já myndirnar þar sem hún móðir okkar gifti sig tvisvar.
Og kommentin við fyrri brúðarmyndina er hvað hún Konný sé óskaplega lík henni mömmu og jú Sara dóttir Konnýjar alveg eins líka. Svo er reyndar mynd af Konný þegar hún er unglingur og þá koma kommentin hvað hún Silja Ýr sé óskpalega lík henni mömmu sinni. Silja er ekkert lík ömmu sinni, það er Sara og samt er Konný alveg eins og mamma. hmmmm!
Seinni brúðarmyndin fékk komment að ég væri alveg eins og mamma. Já það hef ég reyndar heyrt oft og alveg sátt við en þetta meikar engan sens. Hver er líkur hverjum? En takið eftir, mamma er dökkhærð á fyrri myndinni en ljóshærð á þeirri seinni. Já og þá get ég sagt ykkur það sem ég hef alltaf sagt, við Konný erum mjög líkar fyrir utan augnlit og háralit. Mér sýnist fólk oft láta blekkjast af því. Nema ég sé svona lík mömmu þegar hún er eldri af því að ég hafi alltaf verið ellilegri en Konný sem er alveg eins og mamma þegar hún var 19 ára, ha ha ha.
En málið er að ég er nefnilega líka alveg eins og pabbi. Sem er bara frábært, að fá að líkjast báðum foreldrum sínum og já jafnvel ömmu sinni og frænda líka er bara snilld. En þegar ég var að vinna í stórmarkaðinum Tanganum í Vestmannaeyjum þá vann ég með eldri konu henni Tótu, sem var svo oft að segja hvað ég væri óskaplega lík henni mömmu og einn daginn segi ég við hana já þú segir það, bíddu bara þangað til þú sérð hann pabba. En hún vildi nú ekki trúa því að það myndi breyta einhverju um þetta álit hennar, en viti menn svo kom pabbi í heimsókn til Eyja og niður á Tanga auðvitað til að sýna Tótu hann og hún varð alveg orðlaus í smá tíma en sagði svo, ja hérna hér, hvernig er hægt að vera svona mikið líkur báðum foreldrum sínum? En ég veit svarið við því, mamma og pabbi eru nefnilega skyld. Ekki það mikið að það útskýri af hverju ég er svona rugluð en nógu mikið til að það er hreinlega ættarsvipur með þeim.
En ég veit ekki hvort það var fólkið í denn, klæðnaðurinn eða ljósmyndararnir sem gerðu það að verkum að foreldrar mínir líta út eins og kvikmyndastjörnur því það hef ég aldrei gert þó ég sé svona óskaplega lík þeim.
Hérna erum við systurnar 3 ásamt mömmu og ef við værum allar með sams konar háralit og klippingu þá værum við mun líkari en sést á þessari mynd ef rýnt er í myndina.
Þessi mynd aftur á móti gæti hreinlega verið af mér og meira að segja þegar ég sá hana í fjarlægð þá hélt ég að þetta væri ég. Svo eitthvað af þessari fegurð hlýt ég að hafa.
Hérna sjáið okkur systur litla og þó við séum ekki eins þá sést nú vel að við erum systur, nema það blekki mig svona að við erum eins klæddar.
Svo enda ég þennan pistil á henni litlu ljót sem var svo ekkert ljót þegar upp er staðið. Þvílíka krúttið og bara lík sjálfri sér alla tíð.
Eigið fabulous friday, eins og hún Dísa myndi segja,
ykkar Kristin á Nesan.