Misskilningur

Já hann getur verið alls konar misskilningurinn, Þráinn glímir við það að einn vinnufélagi hans hreinlega bara skilur hann ekki og það er svo þreytandi að tala við einhvern og þurfa endalaust að útskýra allt sem þú segir eða eins og hér í Noregi að reyna að finna út hvernig í andskotanum þetta orð sé sagt með þeirri díalektu sem þessi maður talar.

Það eru ótrúlega margir Norðmenn sem hlusta bara með eyranu en ekki heilanum og ef þú hefur ekki hárréttan framburð miðað við þeirra fæðingarstað þá skilja þeir ekki neitt, þar sem þeir nenna ekki að hugsa.

En ég er talsvert heppnari en Þráinn því hún Gro samstarfsfélagi minn skilur mig alltaf og hefur reyndar mjög gaman að fá að vita hvernig þetta og hitt er sagt á íslensku og þá sérstaklega orð í norsku sem eru bara ensk með norskum framburði.  Ég held einmitt að þarna sé sama ástæða að baki og hjá vinnufélaga Þráins þe. að norðmenn nenna ekki að standa í því að finna sín eigin orð.

En ég tala mikið við Gro á messenger eða sko skrifa og þó ég fái stundum herra Google til að hjálpa mér þá held ég líka oft að ég sé bara nógu klár til að segja það sem ég ætla að segja (eða skrifa sko) og í gær var ég þannig.

Ég hef tekið eftir orði sem Gro notar stundum þegar hún virðist vera að segja að hún vilji vera nákvæm við einhverja vinnslu og ég var að segja henni frá mynd sem ég var að vinna og myndi vinna betur og nákvæmar ef kúnninn kaupir hana og ég sagði “nei og jeg purker mer med den hvis hun velger den”.
Og þá fæ ég til baka frá henni “Pirker ?“.
Og ég bara aha ok smá feill.  Þá kemur aftur frá henni “Purker er en hunn-gris” og ég brjálaðist úr hlátri, ég ætlaði sem sagt eitthvað að svínaríast með þessa mynd ha ha ha.

En heppna ég hvað hún fattar alltaf hvað ég meina.

En þá að öðrum misskilingi sem hefur ekkert með díalektur að gera heldur eingöngu mig.
Við vorum búin að plana að skreppa til Stavanger um síðustu helgi og kíkja á GayPride en það varð ekkert úr því vegna anna en þar sem mér finnst allt varðandi GayPride svo skemmtilegt og hafði hlakkað til að mynda litadýrð og fegurðina í kringum það varð ég pínu svekkt en rek þá augun í auglýsingu á Fb um Drag göngu í Kristiansand.  Jeiiii það er eitthvað sem kemur í staðinn og reyndar kannski alveg jafn spennandi, svo ég segi við Önnu Svölu að hún ætti nú kannski að koma þessa helgi suður og draga Mío með sér og hann gæti komið í myndatöku hjá mér og við svo kíkt á drag gönguna í Kristiansand á eftir.  Henni fannst þetta alveg góð hugmynd þar til við uppgötvuðum að þetta væri helgina eftir að hún og Óli Boggi yrðu hjá mér.  Svo jæja ég kíki þá bara sjálf á þessa göngu ef það er gott veður.
Fæ svo þetta aftur upp á skjáinn í gær og dettur í hug að auðvitað hefði Gro gaman af að koma með mér og sendi henni skilaboð og invite í þessa Drag göngu og fæ til baka frá henni: “Drage festival?” og ég já er það ekki svona sama og á ensku Drag festival?  Drag á ensku Drage á norsku það meikaði alveg sens hjá mér en nei nei, Drage þýðir dreki og þetta er Drekafestival, nánar tiltekið flugdrekafestival.  Ha ha ha dreptu mig ekki, ég sé mig í anda standa í miðbænum í Kristiansand að bíða eftir öllum dragdrottningunum sem aldrei myndu koma.  Ha ha ha.

En svo við nánari skoðun sá ég að það væri ábyggilega gaman að fara og mynda þessa flottu flugdreka sem allir yrðu með.  En mikið er ég fegin að Anna Svala og Mía gerðu sér ekki ferð frá Stavanger til mín að sjá þetta.

Og þessi misskilningur minnir mig á annan misskilning sem reyndar varð að einum stærstu vonbrigðum lífs míns eins og ég segi stundum en auðvitað eru það ýkjur en hvað er gaman að lífinu ef maður má ekki ýkja stundum.

Þetta var menningarnótt (hef reyndar aldrei skilið þetta nafn þar sem hátíðin byrjar um hádegi) og við vorum með Mirru skottu litla í kerru og ákváðum að smyrja okkur nesti, setja kaffi á brúsa, hafa teppi með og fara og njóta alls sem borgin hafði uppá að bjóða og setjast svo niður við tjörnina og fá okkur að borða nestið okkar.  Ég fór vel yfir dagskrárliðina svo hægt væri að merkja við eitthvað að því sem okkur þótti áhugaverðast því það vill stundum verða á svona hátíðum þar sem margt er um að vera á sama tíma að maður missir af öllu.

Og eitt af því sem mér þótt mest spennandi var línudansinn sem átti að vera niðrí  miðbæ Reykjavíkurborgar.
Ég hef alltaf verið svo hrifin af laginu hans Harðar Torfa sem fjallar einmitt um línudans og hlustaði svo mikið á það þegar ég var ólétt.  Og ævintýrablærinn sem myndast í laginu og spennan var að hafa áhrif á mig þegar við löbbum af stað niður á hallærisplan til að sjá “Línudansinn” sem átti að vera þar.
Þegar þangað er komið förum við að horfa uppí loft til að sjá hvar línan væri, trúlega strekkt á milli einhverra tveggja stórra bygginga og örugglega frekar hátt til að gera þetta meira spennandi.  Ég sá ekki línuna, fór að verða stressuð að við hefðum misskilið hvar og hvenær þessi magnaði viðburður átti að vera, þegar fram á planið labbar hópur eldri borgara með kúrekahatta og í græjunum hljómar kántrílag.

“Line up dancing” er ekki sama og Línudans!

Hér getiði hlustað á lagið hans Harðar og fundið fyrir spennunni magnast þegar línudansarinn er að fara að birtast í sirkusnum.

Eigið frábæra helgi öll sömul og munið að lífið er núna,

Ykkar Kristín á Nesan

 

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.