Kjúklingur í rauðu pesto

Jæja gott fólk það er orðið langt síðan ég hef sett inn uppskriftir hér en núna bara varð ég svo ég geti flett henni upp seinna.

Málið er nefnilega að ég bý svo mikið til uppskriftir að mat og gleymi svo hvað ég gerði en núna var bara smjattað í öllum hornum svo það er eins gott að muna.

Fyrst þarf að vera búið að ákveða að morgni að það skuli vera einhvern veginn eldaðar kjúklingabringur um kvöldið og þær þar af leiðandi teknar út úr frysti.

Svo gerir maður bara það sem manni sýnist allan daginn.  Ég fór í dag í stúdeóið að taka myndir af krystall og Gro samstarfskona mín kom og hitti mig og við vorum að prófa okkur áfram í þessari myndatöku.  Kjöftuðum heil ósköp en náðum líka að sinna verkefninu.

Svo þegar heim var komið fór ég að spá í hvað ég ætti að gera við þessar bringur sem ég tók út.  Já og ykkur til fróðleiks þá erum við í smá mataraðhaldi þessa dagana eða erum að læra að borða öðruvísi og ekki verra ef við myndum léttast eitthvað við þetta.  Ég hef til dæmis ekki borðað brauð í 16 daga og ég elska brauð en vitiði ég hef bara akkúrat ekkert fundið fyrir því núna.  Við erum líka að reyna að prófa kolvetnalítinn mat og ég sem elska kartöflur hef ekki heldur borðað þær í 16 daga en sætar hef ég borðað og blómkál og brokkolí og gerði meira að segja kartöflumús í gær með sætum kartöflum og blómkáli.  Og hún var góð.  Ekki eins og sú gamla en samt góð.  Ég er líka að prófa það að borða bara þegar ég er svöng og þess vegna skiptir máli að eiga foreldaðan mat svo hægt sé að fá sér eitthvað án þess að allir þurfi að koma og setjast við borðið af því að það sé búið að elda matinn.

Við erum jú bara 3 fullorðin hérna og hver og einn getur bara séð um að fæða sjálfan sig þegar hann/hún þarf á að halda.  Ég held nefnilega að hluti aukakílóanna á mér/okkur sé vegna fyrirfram ákveðinna matartíma sem allir þurfa að setjast niður við og borða burtséð frá því hvort fólk sé hungrað eður ei.

Svo ég á eldaðar kjúklingabringur í frysti, heimagerðar hakkabollur og fleira sem ég elda í stórum stíl og frysti.  Svo er til grænmeti í ísskápnum og egg, egg, egg og aftur egg.

En aftur að þá deginum í dag, ég tók sem sagt út í morgun eldaðar kjúklingabringur og stóð svo áðan við ísskápinn og hugsaði mitt mál.

Ok, meðan ég hugsa er best að fá sér einn bjór, hann einhvern veginn kallar svo á mig, búin að eiga góðan dag í vinnunni og fékk beiðnir um fleiri spennandi verkefni svo….

Ég fæ mér bjórinn og held svo áfram að kíkja í ísskáðinn, sætar kartöflur, æi búin að borða svo mikið af þeim undanfarið, hvað þá?  Gulrætur já hvernig væri að nota gultætur í þennan rétt, og hellingur til að sveppum, nammi nota þá líka.  Já og smá beikon.

Ok nú er rétturinn alveg að fæðast, ég sker gulrætur í bita og sveppina líka og helli svo restinni af fetaostinum og olíunni yfir þetta.  Já bæti smá olíu við því þetta var bara 1/4 úr krukku.  Sker beikonið í passlega bita þe. þrennt og raða yfir og hendi inní ofn með blæstri á 200.  Ég nota alltaf blástur og kann ekki að elda í ofni án hans.

Jæja ég sest svo með bjórinn fyrir framan tölvuna til að halda áfram með vinnuna því ef einhver heldur að það að vera ljósmyndari sé bara að smella af myndum þá er það mikill misskilningur.  Við þurfum að “framkalla” myndir í dag alveg eins og ljósmyndarar þurftu í gamla daga en nú gerum við það bara í tölvu.

En aftur að réttinum, því þegar hann var búinn að malla hálftíma í ofninum, þá sótti ég elduðu bringurnar og skar í bita, setti útí og hrærði saman pesto og lettromme eða sýrðum rjóma og hellti yfir og bakaði áfram í 15 mín, náði að klára bjórinn með eiginmanninum sem var kominn heim þarna og svo bara beint að borða og klukkan bara 17,45.

Sem sagt uppskriftin er svona:

Niðurskornar gulrætur, en má það í lágkolvetna?
sveppir,
beikon,
fetaostur í olíu,
kjúklingabringur
rautt pestó
sýrður rjómi

eða:

og með þessu væri ábyggilega gott að hafa ferskt salat en ég hafði það ekki núna þar sem ég er líka í því að reyna að einfalda matinn sem við borðum.  Það þarf ekki alltaf að vera á 5 fötum á borðinu.

Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.