Sumarfríið

Jæja, ætli það sé ekki best að fara að segja frá sumarfríinu okkar.

Við erum sem sagt búin að vera meira og minna á Gjábakka allan tímann og hefur veðrið leikið við okkur, hitinn fór í 29.7 stig þegar mest var en það víst hitamet á Íslandi.

Það er búið að setja upp skjólvegginn á pallinn og kemur hann mjög vel út, ég er búin að kaupa kerti og krúttlegt dót til að setja inní hillurnar á veggnum, við ákváðum nefnilega að hafa hann tvöfaldann því þá fengi ég ekki hillur og ég er ánægð með þá útkomu.  Ég er svo búin að bera á vegginn og allan pallinn svo allt líti vel út og fúni ekki strax.

Svo er Þráinn búinn að setja þakjárn á Mirrukot og er nú brandari að segja frá því.  Þráinn hringdi í Húsasmiðjuna til að athuga hvað myndi kosta járn á þetta litla þak (sem er þó 12 fm) og fékk þau svör að hjá þeim myndi þetta kosta um þrjátíuþúsund en það myndi líklega borga sig fyrir hann fyrst þetta væri dúkkuhús að hafa samband beint við Vírnet í Borgarnesi og fá hjá þeim afgangsjárn því það fengi hann ódýrara.
Þráinn hringir í Vírnet og honum er sagt að á föstudögum viti þau hvað er til af afgangsjárni og þetta var í vikunni fyrir þjóðhátíð svo það var lítið um svör þann föstudaginn.  Snæi frændi var á leiðinni norður að sækja vörur á sendibíl og bauðst til að taka járnið í bakaleiðinni sem hefði verið fráfært en það gekk ekki upp.
Það liðu tvær vikur og nokkrar hringingar þegar loksins kom í ljós að það var til járn og nóg efni svo Þráinn skellti sér í bíltúr frá Þingvöllum í Borgarnes.
Þar tóku góðir menn á móti honum og vísuðu Þráni á svæðið sem hann mátti athuga með járnið.  Hann fann þetta fína járn, rautt og fallegt og valdi sér plötur, sópaði planið ofl. og fór svo að hitta sölumanninn og fékk í viðbót, kjöl, skrúfur oþh. og viti menn, allt kostaði þetta heilar 7.500 kr. + svo auðvitað bílferðin.

Já það getur borgað sig að hafa aðeins fyrir hlutunum og sækja sjálfur.

En við erum nú ekki bara búin að vera að vinna í sveitinni þó það hafi líkað verið, við erum búin að ganga á fjall, Miðfellið.  Við Ástrós Mirra skelltum okkur í fjallgöngu og fengum þetta líka fína veður, uppgötvuðum að fjallið er fullt af berjum og þar búa lítil tröllasystkin sem hrista fjallið þegar þau eru reið.

Við fórum að skoða Brúarhlöð sem er æðislegur staður mitt á milli Geysis og Flúða og þar hittum við á hóp af flúðasiglingafólki sem síðan var að henda sér í ána ofan af hömrunum, mikið gaman að fylgjast með þeim.

Svo erum við búin að fara og veiða, bæði með Kristófer Darra og Söru.

Við fórum á brennu um verslunarmannahelgina og var það alveg ljómandi gaman, fyrir utan að sá sem á að spila á gítarinn byrjar aldrei fyrr en kulnað er í brennunni, ég skil það ekki, og þá erum við yfirleitt á heimleið.

Við fórum svo í ferðalag þegar Helga Rós var í heimsókn og fórum í Töfragarðinn á Stokkseyri sem hefur heldur betur látið á sjá.  Uss uss,  engir kettlingar til að halda á, engir hvolpar til að leika við og lítið af dýrum og matsalan hræðileg.
Eyddum fullt af pening þarna og flúðum út eftir tæpan klukkutíma.  Stelpurnar voru samt alveg ánægðar en ekki við Þráinn.
Skelltum okkur þá á Flúðir í kaffi til Sveindísar og Arnars þar sem þau voru í bústað með vinahjónum og skildum svo Helgu Rós þar eftir.

Fórum aftur í bústaðinn og þá mætti Inga niðri með Söru og skildi svo Söru eftir að hafa þegið grill og kósí með okkur.

Sara var í meira og minna 2 vikur með okkur með smá hléi og við fórum í ævintýraferð í fjöruna við Þingvallavatn.  En þegar við komum niðrí fjöru þá var hún ekki eins og stelpurnar vildu, þær vildu svona Nauthólsvíkurfjöru en þarna er grjótfjara og þess á milli hamrar (eða hvað það á að kalla þetta).  Stelpurnar voru frekar fúlar og fannst þetta ekki skemmtilegt en svo sáum við risastóran stiga sem lá niður í fjöru og þá föttuðu þær að þær gætu búið til stíflu og undu sér við það smá tíma, svo löbbuðum við áfram og fórum í steinafjöru og allt í einu föttuðu þær að steinarnir væru alls konar og myndu vera prýðileg húsgögn í petshopleik.  Við fundum sófa og stól, sjónvarp, rúm, klósett og sturtuklefa omf. í þeim dúrnum.
Ástrós fór úr peysunni svo hægt væri að búa til poka og svo þurfti mamma gamla að halda á þessu alla leið heim, og ég get sagt ykkur að bakið var að drepa mig síðustu metranna en heim komum við með þessa frábæru steina og ævintýrin öll í hausnum en …  svo var steinunum hent á túnið og ekkert leikið með þá meir, það var eins og ævintýrið ætti bara heima niðrí fjörunni en ekki á túninu á Gjábakka.

Við fórum líka í ferðalag hinum megin við vatnið en þar er sandfjara og þá bjuggum við til sandkastala og borðuðum nesti, við fórum líka í leiktækin hjá skátunum við Úlfljótsvatn.

Við skruppum líka á Geysi og ætluðum að skoða helli á bakaleiðinni en fengum aðvörun að Lyngdalsheiðin væri nær ófær, vegurinn væri svo slæmur svo við hættum við það.

Við fórum oft í sund á Minni-Borg, æðisleg sundlaug og kostar ekkert fyrir börn í hana, og svo var alltaf fenginn sér ís hjá Hildi á eftir.

Við fórum líka í heimsókn á Hótel Hvítá og stelpurnar fengu aðeins að afgreiða oþh. sem þeim finnst mjög gaman.  Amma Maddý bauð okkur að borða og svo fórum við 4 saman í Slakka sem er ennþá æðislegur og hefur ekkert breyst nema kannski að það fjölgar dýrunum þar.  Þar getur maður eytt hálfum degi auðveldlega.  Þar hittum við Simma og Jóa og Audda og Sveppa og fleiri þekktar persónur.  Það var gaman að hafa ömmu með.

Við fórum líka að veiða síli nokkrum sinnum en Ástrós Mirra er orðin ansi lúnkin við það.

Og Þráinn fór nokkrum sinnum að veiða bæði á bát sem Gaui afi á og svo ekki á bát, veiddi mest einhver kríli sem var sleppt aftur en það er til í eina máltíð í frystinum uppí bústað.

Við fórum líka einn daginn í Reykjadal í Hveragerði og það var reyndar á heitasta degi ársins og því erfitt að ætla að labba mikið í hitanum svo við höfðum þá ferð frekar stutta og fórum svo í sund í Hveragerði.  Fín sundlaug þar.

Svo tókum við okkur frí frá fríinu til að fara á tónleika með Eric Clapton sem ‘by the way’ voru frábærir, þvílíkir tónlistamenn og ég stóð í lappirnar allan tímann þó ég væri nú orðin þreytt.  Ellen Kristjánsdóttir og félagar voru hreint út sagt æðisleg í upphituninni og mikil gleði og gaman hjá þeim á sviðinu sem skilaði sér útí sal.

Svo erum við búin að fá heimsóknir og borða mikið af góðum mat og drekka fullt af hvítvíni og bjór og bara njóta þess að vera til.

Að lokum erum við að eyða síðustu vikunni hér heima og missa okkur smá í Ikea og tiltekt og fíníseringum, setja upp hillu á baðið, gardínu hjá Ástrós Mirru, ljós í eldhúsið (sem reyndar var ekki hægt að klára því það er enginn slökkvari tengdur við innstunguna og því bíður það eftir Konna bró) svo er Ástrós Mirra að fara að byrja í 3ja bekk á föstudaginn, við erum að fara í brúðkaup hjá Aron bróður og Sigrúnu á laugardaginn og svo hefst vinnan aftur í næstu viku og við alsæl og úthvíld eftir fríið okkar.

Þangað til næst,
Kristín Jóna


Ps.  Já okkur leið eins og við hefðum verið eitthvað lengi í burtu og sjónvarpslaus (sem við vorum ekki) þegar við kveiktum á sjónvarpinu einn daginn og enn og aftur kominn nýr meirihluti í borginni og nú halda þeir að þetta sé sá rétti og geti gengið út kjörtímabilið, ha ha ha.  Ég er fegin að búa í Hafnarfirði.

kjona

Related Posts

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

Vonbrigði ársins!

Vonbrigði ársins!

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.