Annáll 2017

Þegar ég fer yfir árið sem er að líða þá skoða ég bloggin mín og það verður að segjast eins og er að sjaldan hef ég bloggað minna en á árinu sem er að klárast í dag en eitthvað hljótum við nú samt að hafa gert.

Árið hjá okkur byrjar alltaf eiginlega með afmæli húsbóndans en það hefur verið rólegt í kringum það hjá okkur á þessu ári og lítið um það fjallað en hann varð þó einu árinu eldri og ef eitthvað er talsvert betri eins og gott viskí.

Í febrúar komu pabbi og Konný og skelltum við okkur saman til Danmerkur og hittum þar Önnu Fanney og Nonna bróður en við systkinin og pabbi höfum ekki verið öll saman í yfir 20 ár.

Næstu fréttir eru ekki fyrr en í mars þegar Þráinn úlnliðsbraut sig og sama dag snjóaði svo mikið að allir vegir urðu ófærir og Ástrós Mirra í marga klukkutíma að reyna að komast til Kristiansand að hitta Sunnu vinkonu sína.

En þar sem það er löngu vitað að ég sé ömurleg hjúkrunarkona þá gerði ég mér lítið fyrir og fékk mér svokallaða krystallsýki eða sýkingu á innra eyra sem var mér svo slæm að það endaði með að sá úlnliðsbrotni sá um að keyra mér á læknavaktir og þjónusta mig enda var eins og ég væri á Herjólfi í stórsjó 24/7.  Ég endaði nú líka á að fá sjóveikitöflur skaffaðar en ekkert er hægt að gera við þessari krystallsýki nema æfingar sem virkuðu nú ekkert of vel á mig enda kom í ljós í desember að ég hef líklega frekar verið með sýkingu í innra eyra en krystallsýkina og er ég búin að fá niðurstöður úr heyrnarmælingum sem segja lélegt heyrn sem bætist ekkert við heyrnartæki þar sem ég heyri en nem ekki hvað ég heyri, þe. skil ekki fólk sem talar.  ha ha ha.  En ég er á leið í höfuðskanna eftir 2 vikur og vonandi kemur eitthvað út úr því.

Við fengum góða gesti í mars þegar Guðrún, Hreggi og strákarnir skelltu sér hingað í stutta en skemmtilega heimsókn vonandi koma þau bara aftur sem fyrst.

 

Ég ætlaði að bæta mig í að hreyfa mig á árinu og náði að hjóla 10,5 kílómetra sem að mínu mati er heilmikið en það fór lítið fyrir því að endurtaka þetta.  Einhvern veginn hef ég lítið hreyft mig þetta árið sem er auðvitað ekki nógu gott.

Við vorum bíllaus í einhvern tíma í vor og komumst þá að því sjálf að strætóferðir héðan í Marnardal til Mandal eru til háborinnar skammar og spurning hvort það endi með að við stöndum með mótmælaskilti alein einn daginn, því norðmenn sætta sig við allt sama hversu ömurlegt það er og mótmæla aldrei.  Vinkona mín bjó í 20 ár uppá heiði og vegurinn þar er ömurlegur og þyrfti að vera malbikaður en þau sko sendu inn bréf og óskuðu eftir því 2008 og ekkert gerðist.  Og þau sendu aldrei fleiri bréf, eða hringdu eða fóru á bæjarskrifstofurnar til að ræða við þá sem ráða svo það er ekki nema von að ekkert gerist.

Við vorum bíllaus í 2 vikur og það var ekki eintóm gleði en auðvitað gott fyrir svona sófaeðlu eins og mig að neyðast til að hreyfa sig og svo kom Júróvision og þá lenti ég á móti öllum þar sem mér fannst vinningslagið ömurlegt og já mér fannst það ömurlegt og leið eins og söngvarinn væri á lyfjum eða þroskaheftur.  Stundum verður bara að segja hlutina eins og þeir eru og þetta var mín skoðun.  Ég hef aldrei heyrt þetta lag í útvarpinu síðan júróvision var svo ekki hefur fólki þótt það sérstaklega gott nema í eina viku en þá kepptust allir við að gera koverútgáfur af því sem allar voru jafn ömurlegar.  En sko norska lagið er spilað hér alltaf þegar við viljum fá líf í kroppinn og hreyfa okkur eða syngja.  Heia Norge.

Svo kom 17. mai og hann veldur mér aldrei vonbrigðum.  Núna meira að segja biðu veðurguðirnir með rigninguna þar til allt var búið og við löbbuðum í bílinn í rigningu en annars var bara fínasta veður.

Fyrri myndin er frá Mandal en sú síðari úr litla þorpinu okkar.

En næstu fréttir eru nú aldeilis skemmtilegar því þá kom fyrri bróðirinn í heimsókn eins og við sögðum alltaf, en það er Konni bróðir, Drífa og Birta sem mættu hér í lok mai fram í júní.  Við áttum dásamlegan tíma með þeim og skemmtum okkur vel.  Það er ótrúlega ljúft að þegar systkini manns hafa heimsótt okkur og vita núna og þekkja lífið okkar í útlöndum.

En eftir að Konni og fjölskylda fóru leið bara einn dagur og þá var næsti bróðir mættur ásamt sinni fjölskyldu og ekki var það minna gaman, enda var farið í skoðunarferðir og heilu heimstyrjaldirnar háðar með vatnsbyssum hérna úti í garði.  Svona heimsóknir gleymast seint.

En áður en þau komu varð það helst til tíðanda að ég átti að fara í heyrnarmælingu til að athuga heyrnina sem ég missti í krystallsýkinni en þar varð einhver misskilningur sem olli því að ég fékk öndunarmælingu og allan tímann sem hún stóð yfir var ég að spá í hvernig í fjáranum þau gætu vitað hvernig ég heyri með þessu prófi.

Fyrir ykkur sem viljið lesa meira um svona eitt og eitt atriði þá er til sér blogg um allt svo bara endilega kíkið yfir bloggið mitt þegar ykkur leiðist.

Svo fórum við til Íslands og buðum tengdasyninum með og áttum við 4 sérkennilega en góða viku saman á Gjábakka.  Svo fóru krakkarnir aftur heim en við gamla settið urðum eftir og Þráinn náði þeim merka áfanga að fá mótorhjólaprófið sitt sem hann var búinn að bíða eftir að geta tekið í meira en ár.

Svo kom mamma með okkur hingað út og Klara systir og Ríkharður Davíð fljótlega á eftir og áttum við æðislegar stundir hérna.  Við fórum í Dýragarð, Tívolí og Setelsdalsbanen sem ég elska.

The best day of my life sagði Ríkharður Davíð eftir heimsóknina í Dyreparken enda flottasti dýragarður sem ég hef komið í.

Mér verður eitthvað tíðrætt um hver er líkur hverjum á árinu sem er að líða en hvað fólk sér líkt með hverjum mun ég seint skilja.  Endilega kíkið á það blogg líka ef ykkur finnst það spennandi umræða.

Í september vorum við hjónin minnt á það hversu mikilvægt það er að gleyma sér ekki í hjónabandinu og skelltum við okkur í helgarferð á hótel hérna úti í sveit þar sem við áttum yndis stundir og borðuðum góðan mat og drukkum vín og settum að gamni upp nýja hringa þar sem þeir gömlu sem voru settir upp 1983 eru orðnir of litlir á okkur.

Svo lentum við í náttúhamförum í október þegar áin okkar flæddi hérna yfir allt og við bjuggum í sólarhring í húsi sem ekki var hægt að fara út nema vera í veiðbuxum uppí mitti.

Að búa með ána í garðinum sínum (update)

Við uppgötvuðum það að náttúruhamfarir geta átt sér stað í góðu veðri og ég held að ansi margir geri sér ekki grein fyrir því hvað þetta var mikið og alvarlegt hérna.  Við fórum ekki illa út úr þessu en mikið af fólki hérna úti missti húsin sín og allt innbú í þessum hamförum.

Í október brotnaði pabbi og hófst hans skelfilega veikindasaga sem ekki er enn lokið þar sem hann liggur nú enn og aftur á sjúkrahúsi og ansi mikið veikur.

Ég á eftir að skrifa þessa sjúkrasögu í einni færslu seinna þegar ljóst verður hvernig hún endar en hún er ekki til að fegra ísland og hvernig farið er með sjúklinga þar.

En 6 sjúkraflug, 15 sjúkrabílar út af einu beinbroti er langt frá því að vera normalt og ekki til að gefa heilbrigðisþjónustunni á Íslandi háa einkunn.

Já ég fékk svo staðfestingu á heyrnaleysinu í desember og svo kom enn eitt áfallið þegar Gro og HP sögðu upp leigusamningi við mig sem er ábyrgðarmaður á öllu sameiginlegu hjá okkur Marnafoto en reyndar opnast nýjar dyr þegar einar lokast og er ég ekki bara búin að taka ákvörðun um að opna litla kunst búð í einu af herbergjunum sem við leigjum á Marnaveiginum heldur hættu þau við að hætta og við erum komin með 4 manneskjuna í samleigu með okkur en Marnafoto verður lagt niður og við munum starfa sem 4 sjálfstæðir ljósmyndarar í sama húsnæði.  Ég hlakka mikið til ársins 2018 með nýjum tækifærum og hlakka mikið til að opna búðina mína sem mun til að byrja með alla vega eingöngu selja listmuni eftir íslendinga.

Svo fengum við bætur frá Tryggingunum þar sem heiti potturinn okkar reyndi að flýja til Mandal í flóðunum og við vorum ekki lengi að kaupa okkur nýjan og auðvitað miklu flottari og hann var svo settur niður með miklum tilfæringum í fyrradag og búið að prófa hann tvisvar, og þvílík dásemd.

Og svo komu jólin og hafði amma Steina ætlað að koma til okkar en komst ekki vegna veikinda en amma Maddý skellti sér þá bara uppí flugvél og kom til okkar og erum við búin að eiga frábærar vikur saman hérna í aðventunni og á jólunum.

Fengum góða gesti í jólaboð á annan í jólum.  Erum búin að borða yfir okkur aftur og aftur og drekka talsvert af bjór og víni en bjórinn þurftum við að drekka til að geta safnað okkur flöskum þar sem bóndinn er kominn með nýtt hobbý og það er bjórbrugg sem verður spennandi að fylgjast með á nýju ári.

Svo í stuttu máli árið 2017 var gott og árið 2017 var slæmt.

Góðu hlutirnir ég bætti mig sem ljósmyndari og fékk meira að gera þó það væri alls ekki nóg, frábærir gestir sem komu til okkar jafnt yfir allt árið, eignuðumst nýja vini, fórum til Íslands og Þráinn fékk mótorhjólaprófið.

Slæmu hlutirnir, úlnliðsbrot hjá Þráni, Krystalssýki hjá mér sem ekki sér fyrir endann á með heyrnarleysi og óþægindum, mikil veikindi pabba eftir lærbrot sem enn sér ekki fyrir endann á og hann berst hatrammlega á móti akkúrat núna, náttúruhamfarir með flóðum og mikilli lífsreynslu.

En lítið hef ég minnst á unglinginn sem reyndar bara blómstrar í skólanum og er mikið með kærastanum honum Kevin ásamt því að rækta vinkonur sínar líka.  Hún skrapp með vinkonunum til Barselona og okkur og kærastanum til Íslands og við mæðgur erum svo að fara til London í vetrarfríinu.  Henni gengur vel í skólanum og virðist lítið þurfa að hafa fyrir þessu en hún hefur ekki ákveðið hvað hana langar að læra meira en það vonandi kemur fljótlega.  Hún fékk ekki bílpróf eins og jafnaldrar hennar á Íslandi þar sem 17 ára unglingar mega ekki aka bíl í Noregi hvort sem þeir hafa íslenskt bílpróf eða ekki.

2018 verður gott ár, með nýjum tækifærum og vonandi ekki svona miklum veikindum eins og 2017 hafði.

Ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.