Eigum við eða eigum við ekki….

að ganga í brjóstahöldum?

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Þegar ég sá grein núna nýlega í Nrk eða TV2 um unga stúlku sem fór fram á það við atvinnurekanda að hún fengi leyfi til að ganga ekki í brjóstahöldum eða BH eins og Norðmennirnir kalla það þá fór ég að hugsa: Af hverju erum við konur svona hræddar við að ganga brjósthaldaralausar? Er það af því að karlmenn almennt eru að koma með athugasemdir um það eða er þetta í hausnum á okkur sjálfum?

Í hausnum á okkur sjálfum myndi ég segja, því ég geng mjög oft brjósthaldaralaus (og toppar eru að minu mati brjóstahaldarar) en ef ég fer í bæinn þá fer ég í topp svo það sé örugglega enginn sem sér að ég er án brjóstahaldara. En hver ætti að sjá það? Og af hverju ætti sá aðili að koma með athugasemd til mín, hann/hún sem þekkir mig kannski ekki og ekki af því að brjóstin á mér lafi niðrá maga því það gera þau ekki. Enn einn kosturinn við að hafa alltaf verið brjóstalítil.

Mér sjálfri líður alltaf eins og ég sé í spennitreyju þegar ég er í topp eða brjóstahaldara og ef ég hef set einn svona á mig þá er ég næstum fljótari að taka hann af en að kasta af mér skónum þegar ég kem heim og ég veit að á mörgum heimilum finnast oft sokkar hingað og þangað af því að fólk tekur þá af sér hvar sem er, en hjá mér eru það brjóstahaldarar og toppar sem liggja á víð og dreif. Samt ekkert á víð og dreif, ég geng að sjálfsögðu frá þeim um leið og ég fer næst eða þar næst upp á loft en það eru meiri líkur að þú finnir brjóstahaldara á skrítnum stað hjá mér en sokka.

Mynd fengin að láni hjá FreePik

Ég man þegar ég var um 17 ára þá talaði mamma um að ég þyrfti nú kannski að fara að fá mér fyrsta brjóstahaldarann og ég fór til Marý í Mósart en mín stærð var ekki til. Hún seldi hreinlega ekki svona litla brjóstahaldara svo ég fékk mér topp en jú jú seinna komu svona litlir haldarar í búðirnar í Eyjum eða ég keypti mér uppi á landi en ég skil enn ekki af hverju, því ég hafði falleg lítil brjóst sem svo alls ekki héngu neitt niður og þurftu þess vegna ekkert á því að halda að vera haldið uppí af spennitreyjuhaldara.

Ég skil alveg að konur með mjög stór brjóst þurfi kannski stuðning og ég er heldur ekkert að setja út á að hvaða kona sem velur sér að vera í brjóstahaldara og finnst það þægilegt að sjálfsögðu gerir hún það, en það sem mér finnst svo undarlegt er að af hverju eiga allar konur að vera í brjóstahaldara? Og hvernig stendur á því að einhverri ungri stúlku finnst hún þurfi að sækja um leyfi að ganga brjóstahaldaralaus, hún ætlaði ekki að vera berbrjósta heldur bara beint í kjól eða peysu.

Stundum þurfum við “konur” (sjálfsagt kallar líka) að taka til í hausnum á okkur og átta okkur á því að sumt sem við höldum að aðrir geri kröfu á okkur um að gera og vera er alls ekki þannig, þetta er oftast einhver krísa í hausnum á okkur sjálfum.

Ef ég upplifi frelsi að vera ekki í brjóstahaldara, þá er ég bara ekki í honum það er svo einfalt. Ef mig aftur á móti langar að setja eitt svoleiðis stykki á mig af því að ég er í þannig kjól eða topp, þá geri ég það líka.

Mynd fengin að láni á internetinu

Þangað til næst,
ykkar Kristín á Nesan brjósthaldaralaus akkúrat núna.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.