Hringferðin

Hringferðin

Árið er 1989 eða jafnvel 1990. 
Okkur Þráni hafði alltaf langað til að fara hringinn en einhvernveginn treysti Þráinn aldrei bílunum okkar.
Nema þetta sumar eigum við Willys ’64, 8 cylindra, 3,80 vél á 38″ dekkjum og ég sagði við Þráinn að ef við gætum ekki farið núna þá færum við aldrei.  Hann var nú ekki alveg sammála, sagði að millikassinn gæti farið hvenær sem er í bílnum og þá værum við í vondum málum, og svo væri bensínmælirinn bilaður og það væri nú ekki gott að verða bensínlaus einhversstaðar uppi á landi.

En svo var nú ákveðið að taka bara sénsinn og við plönum ferð hringinn í kringum landið en ætlum að byrja á að vera í sumarbústað með Berglindi vinkonu á Einarsstöðum sem er rétt fyrir utan Egilsstaði.

Jæja við leggjum í hann, tökum Herjólf uppá land og keyrum af stað austur, langt austur.  Vá ekki héldum við að þetta væri svona lang.  Jæja, við stoppum í Víkurskála og fáum okkur eitthvað í svanginn og losa blöðruna og taka bensín.  Þá heyrum að fólk er eitthvað að tala um ófærð og að sjálfsögðu héldum við að þau væru bara að fara uppá jökul eða eitthvað þvíumlíkt og við höldum áfram.
Úps, það var ekki að fara uppá jökul þetta fólk, það var sandurinn sem var ófær, já já og við á blæjujeppa.  Og þessi sandur hann smýgur um allt og þá meina ég um allt.  Þráinn hélt nú að það yrði ekkert lakk eftir á bílnum þegar við kæmumst í gegn en hann var nú samt ennþá rauður.

Við komum til Berglindar um kl. 23 um kvöldið og ég þori að sverja fyrir að hún hafi aldrei séð eins skítuga ferðalanga og ryklagið á töskunum okkar var þykkt.

Við gistum eina nótt hjá Berglindi og svo fórum við saman í bústaðinn daginn eftir og áttum æðislega viku þarna á Einarsstöðum í 20 stiga hita allan tímann.  Berglind lóðsaði okkur út um allt austurland því hún þekkti það náttúrulega svo vel.

Jæja svo skildu leiðir okkar og Berglindar og við ákváðum að halda áfram hringinn.  Við fórum á Dettifoss og Dimmuborgir.  Já, Dimmuborgir, við keyrum þarna niður brekkuna og útsýnið var “Breathtaking” og þar sem við sitjum í bílnum agndofa yfir þessari fegurð þá allt í einu? Shit, millikassinn er farinn segir Þráinn og ég bara trúi þessu ekki.  Eins gott að það er rúta þarna niður frá sem gæti þá dregið okkur upp.

Svo þegar við erum að komast á jafnsléttu þá allt í einu hrökk bíllinn aftur í gír (eða hvað það er sem hann hrekkur í þegar millikassinn er ekki farinn, ætli þetta hafi ekki verið drifið bara) og okkur létti svolítið mikið.  Við drifum okkur svo út og skoðuðum allt þarna og segjum enn að þetta sé fallegasti staður á Íslandi.  Við vorum hreinlega agndofa yfir allri fegurðinni þarna.

Frá Dimmuborgum var stefnan tekin á Akureyri en vinnufélagi Þráins var fluttur þangað og við ætluðum að stoppa hjá honum í 2-3 daga.

Við keyrum inná Akureyri og finnum húsið hans og leggjum bílnum þar fyrir utan og skreppum inn að fá okkur einn kaffibolla áður en við sækjum farangurinn okkar.  Gott kaffi hjá Ægi og Mónu og við drífum okkur svo út að sækja farangurinn.  Bíddu nú við, það er eitthvað skrítið við bílinn segi ég við Þráinn.  Hann horfði á bílinn og sá ekki neitt fyrr en hann ætlaði að opna bílstjóradyrnar þá sér hann allt í einu miða á framrúðunni.

Það er búið að klippa númerin af bílnum.  Ha, við vorum að koma í bæinn og það er búið að klippa númerin af bílnum.  Hvernig getur það verið?

Á þessum tíma var bifreiðaskoðun Íslands nýstofnuð og þeir sendu mann til Eyja 3 – 4 sinnum á ári og hann var ekki nýbúinn að vera þegar við fórum í fríið okkar.

Við hringjum uppí bifreiðaskoðunina á Akureyri og ætlum að útskýra þetta fyrir þeim, en þeim var alveg sama, við hefðum átt að hafa vit á því að fara bara á næstu skoðunarstöð þegar við komum uppá land og við skyldum bara koma með bílinn í skoðun á morgun.  Ok, við sjáum að þýðir ekkert annað og spyrjum hvernig við eigum að gera það og þá er okkur sagt að við verðum bara að láta draga okkur uppeftir.

Frábært, Ægir og Móna eiga Austin Mini.   En við gerðum sem okkur var sagt og settum spotta á milli Minisins og Willysins og vöktum sjálfsagt heilmikla athygli þarna á Akureyri.

Jæja svo kemur að okkur og kallinn sem skoðaði bílinn kunni greinilega ekkert að skoða breyttan jeppa og keyrði bílinn þannig að allir gripu fyrir eyrun og einn maður sem stóð þarna kallaði: “Takið kallhelvítið út úr bílnum áður en hann eyðileggur hann.”   Við stóðum þarna hjá og vorum hálf asnaleg og dauðlangaði að gera þetta en þorðum nú ekki að rísa upp á móti hinum stóru köllum hjá bifreiðaskoðun íslands.

Nema svo kemur kallinn og talar við Þráin (takið eftir að hann beindi aldrei orðum sínum til mín) og spyr hann af hverju hann sé með þessa spítu þarna fyrir aftan farþegasætið, og Þráinn sagði að það væri nú vegna þess að við værum á ferðalagi og með svo mikinn farangur að hann hefði ekki þorað öðru en að setja þessa spítu svo farangurinn myndi ekki kastast á okkur ef hann þyrfti að bremsa snöggt.

Þetta ættu nú fleiri að taka sér til fyrirmyndar sagði kallinn.  Ég, bara horfði á Þráin, góð skýring… Farþegasætið var nefnilega brotið og hann setti þessa spítu til að halda við svo ég lægi ekki á bakinu í bílnum.  Góður.

Ok, bíllinn fékk ekki skoðun, kallinn fann að einhverjum leka sem við létum gera við á Akureyri en svo var samt eitthvað annað sem vantaði varahluti í og við fengum grænan miða og skýringu:  Akstur aðeins heimilaður til heimabyggðar.

Ok, það var ekkert minnst á að við ættum að keyra heim á einum degi svo við héldum bara áfram okkar hringferð.

Fórum í Ásbyrgi og áttum yndislega útilegu þar, fórum í Borgarfjörðinn og ég sýndi Þráni Grábrók og Baulu, Norðurá og Glym og að sjálfsögðu Hreðavatnsskála sem ég hafði unnið í sumarið 1980.

Nú þaðan fórum við eitthvað aðeins í bæinn og svo heim til Eyja þar sem bílinn fékk að vera númeralaus eitthvað meðan verið var að finna út úr þessum varahlutum sem vantaði og gera svo við hann.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.