Af hverju ætlum við að ættleiða

Þetta er fyrsta spurningin sem við vorum spurð að á námskeiðinu sem við  Þráinn vorum á um helgina vegna  væntanlegrar ættleiðingar okkar.

Fyrsta svarið sem kom ætti að segja allt sem segja þarf:  “Af því bara” .  En svo komu nokkur góð svör á eftir: “Af því að mig langar í barn”, “Af því að barnið sem ég á fyrir, á að eiga systkyni”, “Af því að öll systkyni okkar eiga tvö börn” osfrv.

Málið er að þetta þarf ekkert að vera flókið svar og ranga svarið er kannski frekar “Af því að ég ætla að bjarga einu barni og / eða gera mitt til að bjarga heiminum, því þetta er ekki svoleiðis.

Við sem sagt vorum á námskeiði uppí Hvalfirði á vegum Íslenskrar ættleiðingar og það var alveg frábært.  Ég fór á námskeiðið ákveðin í því að spyrja einnar spurningar og hún er þessi:  Af hverju er fólk sem búið er að ættleiða erlendis frá alltaf í hópum og eins og mér sýnist að börnin þeirra umgangist mest börn frá sama landi.  Ég þurfi aldrei að spyrja þessarar spurningar því eftir að vera búin að sitja í þessum 8 para hópi í tvo klukkutíma á föstudaginn þá vissi ég svarið.  Það er af því að við höfum öll sama bakgrunn og við höfum öll sömu reynslu og skiljum hvert annað svo vel, því við erum búin að prófa þetta allt.  Ég vissi ekki að það væri svona gott.  Svona gott að geta talað um reynslu sína við fólk sem var/er í sömu sporum.
Við Þráinn vorum þarna samt með eldri pörum og þó… það voru tveir eiginmenn eldri en ég en konurnar yngri og svo var þarna eitt par á sama aldri og við og svo nokkur yngri, þannig að þetta var fólk á öllum aldri sem átti það þó sameiginlegt að eiga við ófrjósemi að stríða og búið að ganga í gegnum mismargar glasafrjófganir.

Ég fór að vissu leiti aftur fyrir árið 2000 í reynslu þegar við vorum að kryfja okkur og ýmsa hluti því það er barnleysið sem svo mikið er talað um, en ég get náttúrulega ekki talað um barnleysi í dag.  Það var gott sem Þráinn sagði mjög snemma á námskeiðinu og það er: “Ég ætla ekki að afsaka það að ég eigi barn”.  Þessum ummælum var vel tekið og allir sammála um það, enda kom á daginn að í þessum hópi voru 2 pör sem eiga ekkert barn, það voru 4 pör þar sem annar aðilinn átti barn og svo vorum við 2 pör sem áttum eitt glasabarn fyrir. Það voru samt 3 konur sem aldrei hafa gengið með barn og munu líklega ekki gera það.  Þannig að þetta var fólk með ýmsar ástæður og mismunandi bakgrunn en allir sammála um að þeim langaði í barn og það væri aðalatriðið.

Eitt átti þessi hópur sameiginlegt og það var kátínan, því það var virkilega gaman hjá okkur og skemmtilegar sögur sagðar af ættleiðingum, barnleysi og börnum.

Ein góð saga var af hjónum sem áttu 3 stráka og ákváðu að ættleiða stelpu frá Kína, þau segja strákunum sínum frá þessari ákvörðun og þeir bara meðtaka það eins og hverjar aðrar fréttir og ekkert meira mál með það.  Svo líða svona 3 – 4 dagar og þá kemur allt í einu einn strákurinn og gengur svona um íbúðina og skoðar og greinilega veltir einhverju fyrir sér og segir svo við mömmu sína:  “Hvar á svo Kínverjinn að sofa?”.

Við hlógum ekkert smá að þessari sögu og flest okkar sáum við fyrir okkur svona ca. fertugan kínverja með svona kínverskann hatt og jafnvel skegg.  Þannig að nú verður þetta brandarinn:  Hvar á kínverjinn að sofa?

Eins sagði fólk sögur af viðbrögðum ættingja og  voru það oft á tíðum skemmtilegar sögur en þó voru þarna sögur af öfum (langöfum væntanlegra barna) sem ekki voru sáttir við þetta og voru náttúrulega stimplaðir af okkur “Rasistar” enda hvað annað er það þegar afi getur ekki glaðst yfir því að barnabarnið hans verður pabbi.  Eða bara glaðst yfir þessu litla barni sem er að koma til landsins.

Við sáum vídeó af lítilli kínverskri stelpu sem átti í erfiðleikum með tengslamyndun fyrst eftir að hún var ættleidd, það tók í heildinni 6 mán. að vinna í því með henni en við hlógum, fengum tár í augum og glöddumst yfir litlu skrefi, smá hlátri og bara eins og fólk bregst við litlu barni.  Því þessi stelpa var hreint út sagt æðisleg og okkur langaði mest að taka utan um hana og knúsa.

Það voru nokkur atriði sem komu okkur á óvart og helst þó hvað tengslamyndunin getur verið misjöfn hjá þessum börnum en það er víst ekkert skrítið, þau eru kannski búin að vera í 7 mán. á barnaheimili, 7 mán. hjá fósturfjölskyldu og eru svo rifin af þeim, skellt í rútu og farið með þau á barnaheimilið í eina nótt og skellt svo í fangið á væntanlegum foreldrum eftir enn lengri rútuferð daginn eftir.  Vá það er búið að tæta börnin í sálinni og það er jafnvel enginn sem hefur faðmað þau síðan þau fæddust svo það er ekkert skrítið að það geti verið erfitt.  En við heyrðum líka dæmi af einni sem fór beint í fangið á pabba sínum og smellti á hann kossi og vildi svo bara ekki fara þaðan.  En það þurfti þó að vinna í tengslamyndun hennar við mömmu sína.

Við semsagt lærðum heilmikið um ættleiðingar og heilmikið um okkur sjálf en aðalatriðið er að við erum til í að fara til Kína strax á miðvikudaginn ef við mættum.  Það var ekkert sem kom fram á þessu námskeiði sem var til þess að draga úr okkur.

Að lokum þá hlakkar okkur svo til að fara aftur á seinnihluta námskeiðsins þann 11. nóv. nk. og hitta allt þetta frábæra fólk.  Spurning hvort við getum ekki líka ættleitt hvert annað.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.