Perlugjafir

Það er þetta með jólagjafirnar sem mig langar aðeins að fara inná núna þegar ég sit hér á aðfangadag og bíð eftir dóttur minni og jólunum.

Ég las um litla stelpu sem gaf bróður sínum á fermingaraldri svona box með perlum til að strauja og gera myndir úr.  Fermingarstrákurinn var ekkert sérstaklega ánægður með gjöfina en litla stúlkan var alsæl með það sem hún hafði gefið enda fannst henni þetta mjög flott.  Í þeirra fjölskyldu og líklega víðar núna eru svona gjafir kallaðar perlugjafir.  Mér finnst það frábært orð.

Og þá langar mig einmitt að nefna það að ég vildi nú frekar fá perlugjöf en peningagjöf eða gjafabréf, því það er svo staðnað og lýsir svo miklu andleysi (ekki það að maður er misjafnlega andlaus í gjafamálum fyrir jólin) en ég man eftir einni perlugjöf sem við Þráinn fengum fyrir mörgum árum.  Það voru risa risastórar eldrauðar jólabjöllur, svona eins og verslanir og fyrirtæki hengja upp til að skreyta hjá sér.  Við hlógum talsvert að þessari gjöf því okkur fundust bjöllurnar svo stórar og töluðum um að það hefði nú bara verið gaman ef þær hefðu verið minni og þá passað inni hjá okkur en þær voru svo stórar að okkur fannst við ekki geta hengt þær upp heima hjá okkur.  Svo við ákváðum að gefa starfsfólkinu í Ráðhúsi Vestmannaeyja (ég var náttúrulega ein af þeim) þessar bjöllur til að skreyta þar.
Þær voru vel þegnar þar og ég horfði á þær næstu jól með gleði.  En svo fluttum við og eðlilega urðu bjöllurnar eftir í Eyjum en einu sinni á ári er hringt í mig (reyndar hringt miklu oftar) og mér tilkynnt að nú sé búið að hengja bjöllurnar okkar Þráins upp og að alltaf þegar það er gert er mín minnst með söknuði.
Segið svo að þessi gjöf hafi ekki gefið okkur mikið.  Þó svo að okkur hafi ekki fundist þær passa inni hjá okkur þá jafnvel með því að gefa þær í Ráðhúsið þá gleðjumst við meira og látum gamla vini muna eftir okkur.

Fleiri perlugjafir hafa komið á heimilið okkar og verið settar inní skáp með þeirri hugsun að sá eða sú sem gaf hafi ekki verið að hugsa um okkur heldur sjálfan sig en málið er að svoleiðis er þetta.  Maður kaupir gjafir sem manni langar sjálfum í, reynir þó að sirka fólk pínulítið út en innst inni er ekki verið að kaupa eitthvað sem maður myndi ekki sjálfur vilja eiga.

Ég til dæmis gaf Konný systir einu sinni húfu, sem mig dauðlangaði í, en ég vissi að Konný myndi nota hana en ekki ég.  Þegar ég kaupi handa 12 ára stelpum þá reyni ég að sjá fyrir mér hvað þær myndu vilja en ég er líka að setja mig í þeirra spor og hugsa, hvað myndi ég vilja ef ég væri 12 ára.
Þannig að líklega eru flestar gjafirnar okkar perlugjafir og það er bara frábært, því það er svo gaman að gefa þegar maður er sjálfur ánægður með þá gjöf sem maður keypti.

Þess vegna er svo gaman að kaupa jólagjafir og þess vegna er gaman er gefa.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.