Afi minn.

11.3.2007
Það er skrítið að hugsa til þess að maður verði einhvern tíma saddur á lífinu.  Ég er allavega þannig gerð að ég myndi í síðustu lög vilja deyja.  Ég er líka svo forvitin að mér þykir slæmt til þess að hugsa að fá ekki að vita hvað þessi eða hinn er að gera.  Og svo er ég svo stjórnsöm að mér finnst bara eins og aðrir gætu ekki lifað ef ég væri ekki hjá þeim.

En hann afi minn er líklega orðinn ansi saddur á lífinu því mér sýnist að hann sé farinn að svelta sig til að komast yfir hinum megin.
Alla vega sagði hann við ömmu þegar hún sagði að hann þyrfti nú að borða ‘Til hvers?’ Og að vissu leyti hefur hann alveg rétt fyrir sér, til hvers ætti hann að borða?  Til að lifa lengur!  En til hvers ætti hann að lifa lengur?  Svo hann geti legið lengur í þessu rúmi á hjúkrunarheimilinu og beðið eftir því að einhver reki inn nefið.  Fyrir hvern ætti hann að lifa lengur?  Okkur.  En það er eigingirni okkar og auðvitað vel skiljanleg, en þegar maður er orðinn 92 ára og algörlega rúmliggjandi og litlar líkur á að komast lengra en í hjólastjól með miklum æfingum þá spyr maður aftur, til hvers?

Afi minn er einn stórbrotnasti maður sem ég hef kynnst og sjálfsagt sá maður sem ég hef elskað mest fyrir utan manninn minn.  Ég var alltaf uppáhaldið hans og þótti það gott, ég notfærði mér það líka iðulega sem barn. En þannig eru börn, þau sjá leið fyrir sig til að ota sínum tota og gera það, að sjálfsögðu.
Afi fæddist og ólst upp í Flekkuvík á Vatnsleysuströnd og gamla húsið stendur þar ennþá en í eyði.  Þegar hann fermdist þá þurftu þeir bræður að labba tveir saman þaðan til Hafnarfjarðar í kirkjuna.  Þegar hann var ungur var hann á millilandaskipum sem kolamaður, það þýðir að hann var að moka kolum í ofninn sem knúði skipið.  Á þessum skipum var hann einhvern tíma með pabba hennar ömmu Steinu, honum Stóna til sjós, Ísland er svo lítið.  Það hefur alltaf verið sagt að blóðið í honum afa mínum sé mjög súrt því hvorki lúsin né krían hefur viljað hann.  Á millilanda skipunum var allt vaðandi í lús en aldrei fékk afi hana.  Þegar ég var lítil með afa og ömmu í bústaðnum þeirra í Flekkuvík sem er mikið Kríubæli og Kríuvarpið var á fullu þá  hékk ég alltaf í hliðinni á afa því Krían kom ekki nálægt honum.  Afi silgdi víða og einu sinni sigldi hann til Nev jork eins og hann segir það og eins sigldi hann til rússlands, ég man alltaf eftir útskornum birni sem hann gaf mér eftir rússlandsferð, þessi björn var með svona spottum á höndum og fótum svo hægt var að hreyfa það.  Þetta þótti nú ofboðslega flott dót og synd að eiga það ekki lengur.

Afi minn drakk brennivín og tók í nefið og kenndi mér þessa vísu þegar ég var krakki.

Hann afi er skrítinn og sköllóttur karl
með skinnhúfu og tekur í nefið.
Svart kaffi og brennivín
er það besta sem honum er gefið.

Annað sem hefur einkennt hann afa minn í gegnum tíðina eru mjög svo ákveðnar skoðanir á pólitík og fólki.  Hann á það til að vera ansi orðljótur og stundum langar mann hreinlega að taka fyrir eyrun á Ástrós Mirru þegar hann byrjar.  En einhvern veginn þá er afi bara svona og hann hefur aldrei viljað þykjast vera eitthvað annað.  Hann er verkamaður og þolir ekki ríkt fólk.  Hann vann til áttræðisaldurs og þá í rauninni hætti lífið, sem þýðir að hann sé búinn að bíða í 12 ár.

Það er svolítið löng bið en auðvitað hefur hún ekkert alltaf verið leiðinleg, td. elskar hann barna- barna- börnin sín og mér fannst mjög sérkennilegt að eiga samræður um barneignir og barnleysi við hann afa minn, þegar við Þráinn vorum í þeim vandræðunum.

Einn daginn kem ég í heimsókn til hans og ömmu eftir enn eina misheppnuðu glasafrjógunina og afi spurði hvernig hefði gengið og ég svara honum að það hafi ekki tekist, þá verður hann allt í einu hugsi og segir:  Ekki datt mér í hug þegar við amma þín skruppum eina helgi (eða páska, man það ekki alveg) til Eyja að við myndum koma með barn með okkur til baka en það gerðist nú samt.  Afi og amma hafa aldrei getað eignast börn sjálf en ættleitt og fóstrað því fleiri og þar á meðal mig í 6-7 ár.  Þessa helgi sem þau fóru til Eyja, var Klara amma á sæng eða mjög lasin og Sigmundur afi ekki í stakk búinn til að hugsa um þau börn sem þegar voru fædd og þar á meðal rúmlega eins árs stelpuskott sem hún mamma mín var og spyr afa og ömmu hvort þau geti ekki tekið hana með sér og þau sögðust að sjálfsögðu geta það en þá yrði það að vera til frambúðar, og það gekk eftir.  Við heppin, að eignast þessa frábæru mömmu og pabba, ömmu og afa, langömmu og langafa.  Þarna var afi að deila með mér barnleysisögum sem var mjög sérkennilegt en ein fallegasta minning sem ég á.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Ég ætla að taka það fram að hann afi er enn á lífi og ég er að fara að heimsækja hann á eftir og ætla að taka Ástrós Mirru með því það kemur glampi í augun á honum þegar langafabörnin koma, svo ég ætla að gefa honum það í dag.  En ég veit að hann afi á ekki langt eftir því hann langar að fá að fara því hann er orðinn svo þreyttur.  Elsku afi minn, takk fyrir allt sem þú hefur kennt mér og gefið mér.  Hlakka til að sjá þig í dag.

kjona

Related Posts

Blómin í hjólbörunum

Blómin í hjólbörunum

Hetjurnar mínar!

Hetjurnar mínar!

Gervigreindin

Gervigreindin

Þrjóska

Þrjóska

No Comment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.

flokkar

nýjar fréttir

komment

Um mig

Ég heiti Kristin Jona og er frá  Vestmannaeyjum. En  bý núna í Marnardal í Suður-Noregi og hef búið hér síðustu tólf árin. Ég hugsa alltaf um Ísland sem heimilið mitt, en ég elska líka að búa hér í Noregi.

Ég hef bloggað síðan árið 2003 svo ef einhvern langar að kíkja aftur í tímann þá er það hægt hérna.

Ég ákvað svo nýlega að bæta ljósmyndablogginu mínu við á þessa síðu svo hægt væri að sjá það samhliða vengjulegu bloggi og mataruppskriftum.