Hrós….

26.01.2016

Já hver þekkir það ekki hvað það er ljúft og gott að fá hrós annars slagið?  Ég er ein af þeim sem þarf talsvert á því að halda og hef haft mínar leiðir í gegnum tíðina til að sækja mér hrósin.

Man vel eftir atviki þegar ég vann í Skýlinu og tók eitthvað ekstra til en fékk ekkert hrós frá eigendunum og þá tók ég upp það ráð að draga kallinn að því sem ég hafði gert og sagði:  “Sérðu hvað ég tók fínt til hér?” eða eitthvað í þá áttina og þá fékk ég hrósið, nei en flott hjá þér, takk fyrir að gera þetta.

Svo hélt þetta áfram svona í gegnum lífið og ég geri þetta talsvert, þe. læt vita hvað ég gerði ef enginn tekur eftir því og fæ þá hrósið á móti en einhvern veginn fékk ekki oft hrós síðustu árin í vinnunni hjá Wise nema kannski frá einni eða tveimur manneskjum sem ekki voru yfirmenn (jú kannski fékk ég smá hrós á árlegum fundum sem áttu að vera til að fara yfir hvað ég gerði og hvað mig langaði að gera osfrv. ) en utan þess lítið alla vega.  Núna er ég búin að vera í mánuð í ræstingum og ég fékk svo flott hrós frá tveimur konum sem vinna á elliheimilinu á föstudaginn, önnur sagði að þær væru svo ánægðar með mig og hin sagði að ég væri mjög flink.  Mér finnst æðislegt að vera flink að skúra og einmitt í svona starfi er frekar mikilvægt að fá hrós þar sem þetta er líklega eitt vanþakklátasta starf ever.  Svo þegar ég mætti á elló í dag þá gerði ég smá aukalega, bara af því að þau eru svo ánægð með mig.  Hefði ég ekki fengið hrósið hefði ég líklega bara gert það sem ég nauðsynlega þarf að gera og drifið mig svo út en einhvern veginn naut ég þess betur að vinna þarna eftir að vita að ég væri að gera eitthvað sem einhver tæki eftir og kynni að meta.

Ég veit að ég má taka mig á í því að hrósa öðrum og það er nefnilega svo skrítið hvað maður tekur ákveðnum hlutum sem sjálfsögðum og segir ekki neitt.  Auðvitað eigum við að hrósa öllum fyrir það sem þeir gera vel, líka það sem er vel gert daglega og kannski ekki síst því sem er vel gert daglega.

Þess vegna ætla ég að segja núna við alla vini mína að þið eruð frábær öll sömul og vonandi man ég eftir að hrósa ykkur næst þegar ég hitti ykkur.

Knús og kossar inní vikuna.

Ps. þessi kona fær hrós vikunnar frá mér fyrir frábæran vilja til að leika við mig og frábæra leikhæfileika og að ég tali ekki um alla hjálpina sem hún er búin að veita okkur í flutningunum.  Svo er hún svo flink með þvottana að ég veit ekki hversu drusluleg við verðum þegar hún fer aftur til Íslands sem er reyndar um næstu helgi.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.