Einkennilegt….

10.03.2016

Já lífið er ansi einkennilegt stundum, ég ákvað í síðustu viku að fara að gefa Ástrós Mirru balance lýsið því ég held hana vanti omega og D en fljótlega eftir að hún byrjar að taka lýsið þá fer hún að fá einhver útbrot í andlitið sem síðan fer að dreifa sér um allan kroppinn, svolítið svona eins og hún sé öll svo þurr og upphleypt.  Við fórum að spá í hvort það væri möguleiki að hún væri með ofnæmi fyrir lýsinu og þegar þetta heldur bara áfram og verður meira og svo fer efri vörin á henni að bólgna upp og hún fær svona stútmunn eða fiskimunn eins og okkur fannst það og þá fór okkur nú ekki að standa á sama, fiskimunnur, upphleypt húð eins og roð… almáttugur að barnið mitt breytist í fisk við að taka inn fiskilýsi, nei það getur bara ekki verið.  En ég ákvað samt að láta hana hætta því og prófa að taka ofnæmistöflu en það breyttist nú ekkert við það.

Svo liðu nokkrir dagar og þá er hún komin með hálsbólgu og þá fóru nú að renna á mig aðrar grímur því ég þekki litla stúlku sem hefur nokkrum sinnum fengið streptokokka og fær alltaf útbrot með og ég gúggla og er nokkuð sannfærð um að það sé málið með stelpuna.  Svo við ákveðum bara að bíða aðeins og leyfa líkamanum að vinna á þessu sjálfum svo við séum ekki að óþarfa að veikja ónæmiskerfið í henni en því miður þá lagaðast hún ekkert svo við fórum til læknis í gær sem bað hana að opna munninn og lýsti með vasaljósi uppí hana og sagði: Já þetta er rétt hjá þér og hún þarf að fá pensilin í viku.  Svo nú er dóttir mín sem verður 16 ára á árinu að fá pensilin í annað sinn á æfinni en ég var að vona að hún slyppi við það því hún hefur svo gott ónæmiskerfi.

Og já þetta eru fyrstu streptokokkarnir sem koma inná okkar heimili en þeir voru nú ekkert velkomnir því ég er ansi hrædd um að þegar maður hefur boðið þeim einu sinni heim þá losni maður ekki við þá.

En hún má fara í skólann aftur á morgun og við vonum að þetta klárist í henni um helgina því nú styttist í Íslandsferð mæðgnanna.

Þangað til næst,

Ykkar Kristín Jóna

ps. ætlaði að finna mynd af Mirrunni lasinni en fann bara þessa í staðinn, þau eru ansi krúttleg og spennt þessi tvö, líklega hefur Liverpool verið yfir á þessari stundu.

 

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.