Skilin á milli mín og ….

06.05.2016

Mirra Photography / Marnafoto eru alls ekki til.  Auðvitað ekki, þar sem þetta er mitt líf og mitt fyrirtæki en málið er að stundum er ég ekki viss hvort ég eigi að blogga um eitthvað viðvíkjandi Mirra Photography undir Fotoblog eða mínu privat.  Munurinn á þessum tveimur bloggum er samt mikill.  Annað er mjög persónulegt en hitt ekki.  Annað er á ensku og hitt á íslensku svo kannski snýst þetta um á hvaða tungumáli ég vil tala eða hvort ég hafi mikið af myndum að sýna eða ekki.  Alla vega ætla ég að skrifa núna hérna um síðustu upplifun mína sem ljósmyndari í Mandal / Marnardal.

Til að byrja með þá voruð þið kannski búin að sjá að ég gekk til samstarfs við hana Gro Bruskeland í síðasta mánuði með rekstur á studio í miðbænum í Mandal.  Það er mjög spennandi og ótrúlega gaman að hafa aðgang að einu flottasta studioi sem ég hef komið inní.

Gro hafði áður verið í samstarfi í Kristiansand en var svo boðið síðasta haust að taka við þessu studioi en fannst alltaf vanta að hafa einhvern með sér.  Svo var ég nýflutt í Marnardal og aðeins að reyna að láta fólk vita af mér og hafði sett inn í grúbbu “Við í Marnardal” landslagsmynd úr Marnardal og bað fólk að benda mér á áhugaverða staði til að mynda og þar sá Gro mig, sem betur fer.

Hún sendi mér svo skilaboð og spurði hvort ég vildi ræða samstarf daginn áður en ég skrapp til Íslands svo við töluðumst ekki við fyrr en eftir Íslandsferð.  Við fyrsta spjall vorum við vissar um að okkur sé ætlað að vinna saman, við erum jafngamlar, eigum báðar eina dóttur og erum giftar smiðum.  Við búum báðar í Marnardal og elskum Mandal.  Hvorug okkar hefur áhuga á að hafa mikið að gera svo við týnum ekki neistanum.  Báðar elskum við allar gerðir af ljósmyndun og getum ekki gert uppá milli.  En við erum alls ekki eins, ég er miklu opnari en hún og meiri grallari en hún spáir betur í hlutina en ég framkvæmi þá.

Við finnum strax að okkur á eftir að líða vel saman og erum ekki hræddar við að hin fái meira að gera eða taki allt frá annarri enda ætlum við bara að skipta þessu á milli okkar eftir því sem við á.

En eitthvað er nú samstarfið búið að fara rólega af stað… bíddu það er ekki kominn mánuður svo ég veit ekki hvaða æðibunugangur þetta er á mér en við erum búnar að auglýsa fermingartilboð en mér skilst að aðalfermingarnar í Mandal séu í ágúst svo það er ekki að marka að það fari hægt af stað en svo datt Gro í hug að auglýsa ókeypis ungbarnamyndatökur (3 stk) og tilboð á aðrar pantanir sem yrðu pantaðar í mai og ég gerði auglýsingu í gær þar sem þetta kemur fram.  Svo var ég tögguð á póst í einni sölu- barna- grúbbu hér á svæðinu og svaraði með því að henda inn auglýsingunni og út úr því fengum við 3 pantanir bara í gærkvöldi en því miður var þessum þræði eytt því líklega máttu bara selja eða kaupa barnadót af privat fólki en ekki þjónustu frá fyrirtækjum en samt, við komumst aðeins uppá blað þarna og 3 pantanir og einn að spá og 2 brúðarmyndatökur í sumar er alla vega byrjunin og lofar góðu.

En þetta er ekki allt því í síðustu viku hafði samband við mig rekstrarstjóri einkaskóla hér í Mandal og falaðist eftir því að fá mynd frá mér til að klæða húsgaflinn á skólanum.  Vá það er geðveikt flott og þvílíkur heiður að fá svona beiðni.  Ég var mikið að velta fyrir mér hvaða verð ég ætti að setja upp og talaði við Gro um það og Þráin og Þráinn vildi helst að ég gæfi þeim bara myndina því auglýsingin yrði ekki verðmetin en ég ákvað að taka smá pening fyrir og þau í skólanum urðu heldur betur hissa yfir þessu rausnarlega tilboði en eins og ég sagði mér finnst heiðurinn meira virði en peningar og þetta mun standa á þessum húsgafli í mörg ár og gaman að geta sagt frá því og sýnt að þetta sé mynd eftir mig.

Hér er sýnishorn hvernig myndin gæti litið út en þetta er ekki endilega lokaval á mynd.

 

Svo í fyrradag hafði samband við mig þau sem reka Visit Sørlandet og föluðust eftir því að ég sæi um instagram síðuna þeirra í eina viku og setti inn mínar myndir og deildi mínum sörlandi með þeirra aðdáendum sem eru nokkur þúsund og þar get ég taggað mig á alla póstana og fæ þvílíka auglýsingu út úr því svo eins og þið heyrið þá eru ótrúlega spennandi hlutir að gerast hjá mér í kjölfar húsakaupanna sem við erum svo alsæl með.  Við erum reyndar búin að vera að bíða eftir vorinu/sumrinu og það er núna að koma en það er búið að láta bíða lengi eftir sér þetta árið og bara í síðustu viku þurftum við að skafa hrím af bílnum á morgnanna kl. 5.30 en svo var alltaf komið fínasta veður um kl. 10.  En nú er þetta aðeins að breytast og spáir yfir 20 stiga hita næstu daga og meira að segja meðan við erum í helgarfríi.  Næs.

Hér getið þið fylgst með Visit Sørlandet á Instagram.

En núna þarf ég að rjúka í smá skúringarvinnu,
eigið góða helgi kæru vinir og munið að njóta lífsins eins og mögulegt er.

Ykkar Kristin Jona

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.