Mamma í Noregi…

15.06.2016

Já loksins kom að því að elsku mamma kom að heimsækja okkur hingað út.  Hún kom svo sannarlega ekki ein, heldur með Klöru og Konný sem eru orðnar reynsluboltar miklir að heimsækja okkur þar sem Klara er búin að koma 4 sinnum og Konný 3svar.  Klara djókar með að nú þurfum við að fara að huga að nýju húsnæði þar sem við höfum alltaf flutt eftir að hún heimsækir okkur en nú er það hætt, það er líka búið að eyða álögunum hennar því það var glimrandi gott veður sem þær fengu hérna þannig að kannski Nesan sé jákvætt í mörgum útgáfum.

En Klara systir stoppaði bara helgina og var dögunum sem hún var hérna eytt í búðum og sólbaði, mikið spjallað og notið samveru.  Við Klara fórum þó í smá göngutúr bara tvær saman og hittum þá þessar nágrannkonur mínar sem ég er búin að bíða svolítið eftir að hitta.  Við bulluðum eða sko það var ég sem bullaði um ártölin á kusunum en ég taldi þær fæddar þarna allt í kringum mig en líklega er það ekki rétt því wikipedia segir þær ekki verða svona gamlar.  Hugsa sér að vera orðin svo gömul að ekki sé mögulegt að kusurnar geti verið jafnöldrur þínar.  Mér finnst ég þó heldur unglegri en þær en svipaðar erum við í vextinum.

 

Við Klara nutum líka umhverfisins á göngu okkar og sáum að áin er krökk af laxi, þeir nánast hoppuðu uppúr þarna sem við vorum að ganga.

Einnig var skellt í myndatöku þar sem þeim dögum fer fækkandi sem mamma er með allar stelpurnar sínar.  Strákarnir verða bara að vera photoshoppaðir þegar þeir verða búnir að koma í heimsókn.

 

Það er pínu skrítið og umhugsunarvert að systur mínar hafa komið svo oft til okkar en hvorki bræður mínir né bræður Þráins og þá fer maður að hugsa hvort eitthvað sé til í máltækinu “ef þú átt dóttur og hún giftir sig, þá eignast þú son en ef þú átt son og hann giftir sig þá missir þú hann”.  En ég vil nú ekki trúa því og veit að þeir eru á leiðinni.  Glasið mitt er nefnilega alltaf hálffullt ef það er ekki stútfullt.

Þegar Klara var farin þá skruppum við hinar í skuggann smá stund og fórum í ferðalög og meira í búðir.

Ég tók engar myndir í búðunum nema kannski eitt og eitt snapp enda yrðu ekki allir glaðir ef ég kæmi með myndavél og græjur í búningsklefana en myndavélin fékk að vera með í bíltúrunum og göngutúrunum sem voru auðvitað ekki margir og langir þar sem mamma á erfitt með gang og við vildum eyða sem mestum tíma saman.  Og í þessum orðum fékk ég gusu af söknuði til þessara kvenna sem ég elska svo mikið.

Flekkufjörður var fyrsti áfangastaðurinn okkar útfyrir Mandal/Marnardal.  Ástæðan fyrir þeirri heimsókn var að hún Flekka sem settist fyrst að í Flekkuvíkinni okkar kom þaðan og þó við vitum ekkert hvaðan í Flekkefjord þá er gaman að hafa sé bæinn í þeirri mynd sem hann er í dag og geta sagt að maður hafi komið þangað.

Það var pínu ævintýrabragur á okkur þar til að byrja með, verið að grafa í sundur allan miðbæinn og ekki nóg með að göturnar þar séu þröngar og mjóar þá voru sumar þeirra lokaðar og eftir smá þvæling (og Kristín að keyra og líkar það ekki) þá vildum við bara komast út úr miðbænum með bílinn, finna bílastæði og labba smá en nei nei, ekki séns að við fyndum leiðina út úr honum en svo allt í einu sé ég brekku sem ég var ekki búin að sjá áður og mamma sagði einmitt að þá fengjum við alla vega útsýni yfir bæinn ef vegurinn lægi ekki áfram en mér sýndist hann nú liggja niður hinum megin líka.  Mjög mjór en það er oft svona hér í Noregi að það sem við íslendingar teljum göngustíga eru oft einbreiðar götur.  Og ég af stað og var ég búin að segja að þetta var talsvert mikið brekka uppá þessa hæð og þar af leiðandi niður af henni líka og endaði með lokun, úff herre gud!  og ekki séns að snúa við og nú á Kristín Jóna að bakka upp háa mjóa brekku, en það þýddi ekkert annað en að setja í töffaragírinn og handbremsuna og bakka af stað með mömmu horfandi út um aðra hliðarrúðuna og Konný hina og okkur tókst þetta og ég held ég hafi ekki keyrt utaní neitt en mikið lifandi skelfing var ég fegin þegar ég fann almennilegt bílastæði þó að mamma þyrfti að labba svolítið mikið en það reddaðist við löbbuðum bara hægt.

Svo fundum við okkur veitingarstað í miðbænum, fengum okkur að borða og áttum huggulega stund þarna.  Svo löbbuðum við Konný aðeins um en þetta var ekki eins fallegt og skemmtilegt og síðast þegar ég kom enda var ekki verið að grafa allt í sundur þá.

Fyrst Flekkefjord tók ekki nógu vel á móti okkur ákvað ég að reyna að finna Bakka Broa fyrir þær að sjá en það er gömu brú í miðaldarstíl en mig minnti nú að hún hefði verið ansi nálægt Flekkefjord en svona er þetta þegar Þráinn keyrir þá er leiðin svo stutt en þegar ég keyri þá virðist ég aldrei ætla að ná á áfangastað.   En þannig er það bara ef það er eitthvað sem maður er að gera leiðinlegt og að keyra bíl er langt í frá eitthvað sem ég mun kalla skemmtilegt, en að sitja í bíl og njóta útsýnis er sko allt annað.  En brúna fundum við og fórum við Konný í smá göngutúr þar um en mamma hvíldi sig í bílnum á meðan.

 

Við ákváðum af því að mér finnst svo skemmtilegt að keyra, nei kannski frekar af því að mér finnst svo gaman að sýna Noreg að keyra Kvinesdalinn heim og stoppa við Hotel Útsýni.  Þarna er alveg magnað útsýni og fallegur staður, bæði bærinn Kvinesdal og þarna uppi hjá hótelinu.

Við stoppuðum til að taka myndir af brúnni sem ég kalla fjall í fjall en þú keyrir í gegnum göng, kemur út á brú og beint inní önnur göng en þegar maður fer niður í Kvinesdalinn þá sést brúin svo vel og mamma var svo vel vakandi að hún fann perfekt stað fyrir okkur að taka myndir frá.

 

Þetta er svo hótel Útsýni.

Hérna sjáið þið svo útsýnið.

og svo útsýnið í hina áttina

Eftir þetta ferðalag var haldið heim á leið og þarna um kvöldið duttum við stelpurnar í sjónvarpsþáttaseríu sem við horfðum á 2 þætti á kvöldi alla vikuna.  Gott að hafa Netflix og horfa á eitthvað þegar þú vilt en ekki þurfa að bíða eftir dagskránni, sérstaklega þegar maður er með gesti.

Næsta dag var búðarráp og hvíld og svo var aftur ferðadagur og þá var ferðinni heitið til Lista Fyr en fyrst byrjuðum við Konný á að skjótast meðfram Mandalselven og taka nokkrar týpískar Noregsmyndir.

Og þarna sáum við þessar fínu kusur vera að kæla sig hinum megin við ána.

Eitthvað var leiðin aðeins lengri til Lista Fyr en það er nú vegna þess að ég hugsa þetta alltaf ennþá frá Mandal en við erum í Marnardal og það er 20 mín lengri leið ef við erum að fara í þá áttina.  En við villtumst og fundum aftur rétta leið þó ég væri óörugg á tímabili og svo fór nú landslagið að verða kunnuglegra og líkara Eyrabakka eða Stokkseyri með fjöru, grasi, þúfum, grjóti og vind já miklum vind og þennan daginn var logn hérna heima þegar við lögðum af stað en ekki minna en 15 metrar við Lista Fyr og við nánast gátum ekki staðið í lappirnar og ekki margar myndir teknar í það skiptið en á leiðinni að bílnum aftur hittum við þessar flottu alpaka stelpur (já ég er viss um að þetta eru stelpur)

Við hefðum kannski alveg viljað stoppa í Farsund en þar er allir vegir lokaðir og þvílíkar krókaleiðir sem þarf að fara til að komast í gegnum bæinn og í þessum fallega miðbæ finnst ekkert kaffihús á bryggjunni sem eru nú risastór mistök.

Ég held að mamma hafi slappað ágætlega af og held að hún hafi haft mikið gott af þessari ferð og ekki síður að fá að sjá lífið okkar í Noregi og umhverfið okkar.

Hún hitti líka Liv vinnufélaga minn, Gro ljósmyndara og nokkra íslenska vini.  Hún fékk sér nokkra øl og 1 eða 2 beilisglös en það sem var svo gaman að fylgjast með var hvað dýrin okkar hændust að henni og undir það síðasta þá voru kettirnir farnir að mjálma utan í hana til að fá að borða en ekki mig.  Svo núna sé ég alveg að kisurnar sakna hennar og hefur Noi sofið í mömmu rúmi síðan hún fór.

Við upplifðum það líka saman að fylgjast með Nölu breima og almáttugur þetta er nú meira!  Ég var nú hreint út sagt orðlaus og hér eftir verður Nala einungis kölluð gæran á heimilinu.  Þeir voru hérna 7 eða 8 strákarnir og hún daðraði þvílíkt við þá og sumir þeirra beittu hana ofbeldi til að fá það sem þeir vildu en það sló hana ekki út af laginu, á endanum urðum við að setja hana á bílskúrsloftið því það var ekki sofandi með hana í húsinu og þegar þetta tímabil hætti þá var eins og við manninn mælt hún Nala okkar birtist aftur eins og ekkert hefði í skorist en ég get svo svarið það að það var eins og hún væri haldin illum anda meðan á þessu stóð og við komumst að því að fressirnir hér í hverfinu eru ekki geldir annað en á St. Elvegate þar sem þeir voru allir geldir.  Ef hún er komin með kettlinga má hún eiga það ef ekki…. þá veit ég ekkert hvort ég ráði við annað svona tímabil bara til að leyfa henni að fá einu sinni kettlinga.

Gæti nú trúað að hún Nala verði eina kvenkynsdýrið sem við munum eiga, mér finnst auðveldara að eiga strákana og það gelda.

En helgin leið með brúðkaupsmyndatöku, sólskini, góðum mat, nokkrum bjórglösum og svo kom bara mánudagur og mamma og Konný fóru heim.  Það var horft á mig á flugvellinum þegar ég labbaði út í bíl því mér tókst ekki að fela tárin þá en ég var eins og hetja í kveðjustundinni sjálfri en sprakk svo.

Frétti að heimferðin þeirra hefði gengið vel og mamma fengið bara aðstoðarkonu til að rúlla sér um flugvöllinn.  Ekki létt fyrir Konný ef hún hefði þurft að ýta mömmu og draga 2 ferðatöskur á eftir sér líka.

Ein ábending til þeirra sem koma til okkar er að kaupa bæði millilanda- og innanlandsflugið með sama flugfélagi svo hægt sé að tékka sig alla leið til Íslands frá Kjevik.

Ykkar Kristín

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.