Ferðalagið hjá pabba og Maddý…

04.09.2016

Ferðalagið hans pabba og hennar Maddýjar hófst úti á Leifsstöð þar sem Maddý beið eftir pabba.  Hún var þá þegar búin að ýja að því að þau væru kærustupar, því starfsmaður á flugvellinum ætlaði að hjálpa Maddý að bóka sig inn en hún sagðist þurfa að bíða eftir kærastanum, sem þá var pabbi.  Svo kom hann og þá fengu þau sig bókuð inn í sæti hlið við hlið í vélinni.

Við hjónakornin á Nesan hinsvegar lögðum af stað á sama tíma og þau frá Nesan til Stavangurs til að sækja þau, ferðin okkar gekk vel en mikið var nú gott að vera saman þegar kom að því að átta sig á þessum flugvelli og hvert við ættum að fara og hvar við mættum leggja bílnum.

Svo komu skötuhjúin út kát og glöð með ferðalagið en þeim leist ekkert á rigninguna í Stavanger en hafa nú heldur betur fengið betra veður hér hjá okkur á Nesan og í dag er veðrið eins og á besta júlí degi á Íslandi.  21 stiga hiti, sól og nánast logn.

Ýmislegt góðgæti og gullmolar komu uppúr töskunum hjá skötuhjúunum en Maddý færði okkur þessa fallegu klukku sem minnir á heimaslóðir.

Þráinn byrjaði nú að festa hana upp á hvolfi, okkur fannst hún reyndar eitthvað skrítin en flott samt.  En jú jú allt gekk einhvern veginn upp þegar henni var snúið.

Takk Maddý fyrir ótrúlega flotta gjöf.

En Maddý kom ekki bara með þjóðlega klukku (frá heimalandinu Vestmannaeyjar) heldur kom hún með sparislaufu í fánalitunum.

Bæði Maddý og pabbi komu einnig færandi hendi með ýmislegt góðgæti sem ekki fæst í Noregi.

Einnig kom Maddý með þennan forláta humardisk til að færa Þráni en þetta tengist hans æskuminningum.  Maddý sagði reyndar við mig að hún væri að færa okkur humar og ég varð þvílíkt spennt en verð að viðurkenna að spenningurinn minnkaði þegar ég sá hvers kyns humar hún var að tala um.  En gaman fyrir Þráin að eiga eitthvað æskutengt.

Fyrstu 2 dagana vorum við bara heima og höfðum það huggulegt, áttum reyndar æðislegt kvöld á laugardeginum þar sem við pabbi brugðum fyrir okkur betri fætinum og dönsuðum saman, eftir að hafa setið og spjallað og sungið.  Yndislegt kvöld og ljúft að vera saman.

Á sunnudeginum fór Þráinn með þau gömlu í bíltúr og auðvitað engar myndir teknar þar en á mánudaginn skelltum við okkur í Dyreparken og áttum geggjaðan dag saman að skoða framandleg dýr og pabbi hefur aldrei komið í svona dýragarð og Maddý ekki í marga tugi ára.

Maddý og pabbi eru bæði alltaf til í sprell og því nýt ég þess óskaplega vel að vera með þeim.  Pabbi var ekki lengi að skella sér uppí bílinn sem virðist hafa keyrt á girðingu á ljónabúrinu.

Og þá vildi Maddý ekki síður skella sér á traktorinn enda mikil sveitarstelpa undir niðri.

Við urðum svo fræg að sjá blettatígursungana og þá var takmarki mínu náð.  En það þurfti 4 ferðir að því búrinu áður en við sáum þá.  Ég skyldi þennan feluleik vel enda með læðu með kettlinga heima og þar er þetta sama í gangi, ungarnir faldir eins lengi og móðirin getur.

En við sáum líka ljónin borða og heyrðum sögu þeirra og hvað ljónatemjarinn væri heppinn með starfið sitt.  En eitthvað fannst okkur við nálægt náttúrunni þegar við sáum og heyrðum að í matinn þennan daginn væri til dæmis sebrahestaleggir.  Úff ætli folald hafi látist í garðinum eða ????

Falleg eru nú þessi dýr og tignarleg.

Og ekki síður þessi, ég væri nú alveg til í að sjá þennan taka sprettinn.

En uppáhöldin mín eru líklega tígrisdýrin, þvílík fegurð sem þar er á ferðinni.

En samt er ekkert sem toppar þessa krúttkettlinga sem eru heima hjá mér og pabbi og Maddý voru svo heppin að kynnast og fá að fylgjast með.

Við fórum svo í gönguferð hér um nágrennið á þriðjudeginum en áttum annars rólegan og kózýdag heima.

Skelltum okkur svo í Mandalferð á miðvikudaginn og þá sýndi ég þeim stúdioið mitt og auðvitað brugðum við á leik og ég tók örfáar myndir en pabba fannst ég hafa tekið fullt af myndum.  Þetta verður lengi mín uppáhalds af þeim og jú fyrir ykkur sem ekki vitið þá eru þau ekki par, enda langar mig ekkert að vera systir hans Þráins.  En þau ná vel saman og hafa skemmt sér ótrúlega vel hérna úti hjá okkur.

Læt svo fylgja hérna með nokkrar portraitmyndir af þessum frábæru foreldrum okkar Þráins.

Svo var skellt í verslunarferð eftir myndatökuna og gamli dressaði sig upp og fékk þvílík hrós frá afgreiðslumanninum í herrabúðinni þar sem hann keypti þetta dress.  En hann keypti sér líka skyrtur og fleira í HM.

Á laugardaginn skruppum við á loppumarkað og keyptum þetta eðal hliðarborð.

Kertastjaka í gluggann.

Og einn straubolta í safnið okkar.  Við fengum þennan á 30 krónur en hinir hafa kostað aðeins meira þar sem þeir voru keyptir í antikbúðum.  Já það munar ansi miklu á sama hlut eftir því hvað þú kallar hann.  En eitt er mjög einkennilegt og það er að við séum farin að safna strauboltum því að strauja er það leiðinlegasta sem ég geri og straujárnið okkar var keypti 1983 og er lítið notað.  Ástrós Mirra var 6 ára þegar hún vissi að við ættum strauborð, ha ha ha.

Eftir loppumarkaðinn tókum við aukarúnt heim um fallegar suðursveitir Noregs.  Og stoppuðum og tókum nokkrar myndir í minningasafnið okkar.

Um klukkan 2 þennan sama dag fórum við svo öll sömul að skoða Lindesnes Fyr og þar sem fyrr tók ég slatta af myndum.

Pabbi og Maddý stóðu sig eins og hetjur að labba upp allar þessar tröppur og eiga heiður skilið fyrir.

En á miðri leið þurfti að stoppa svo karlarnir gætu….. ja hvað eru þeir að gera þarna?  Jú pabbi að lesa sig til um staðinn á norsku og fór létt með en Þráinn?????? klórar sér í hausnum og tekur dansspor.

Kallinn flottur að bíða eftir Þráni sem enn er að dansa þarna fyrir neðan okkur.

En svo hittust þeir félagarnir og smelltum lófum saman.

Þarna sitja þau gömlu og snúa baki í Reykjavík og spá og spekúlera í þessum áttum og borgum sem þarna er vísað á.

Og svo var haldið niður aftur, pabbi aðeins fljótari niður en við Maddý og beið á bekknum eftir okkur.

Strákar, strákar, strákar eru og verða strákar alveg sama hversu gamlir þeir eru.  Þessir tveir eru bara flottastir.

Og hér sést þriðji strákurinn líka en hann stóð sig vel í ferðinni og það má alveg segja frá því að Erro og pabbi eru svo miklir mátar og á Erro örugglega eftir að sakna kallsins og reyndar Maddý líka því þau fóru reglulega saman út að reykja og Maddý er ansi lúnkin að sparka bolta með Erro.

Fallega og skemmtilega tengdamóðir mín, sem alltaf er til í að sitja fyrir hjá mér og leyfa mér að prófa ljós og skugga á henni.

Þau eru nú ansi hjónaleg hérna þessi tvö en það hljómar nú einkennilega þegar þau eru einhvers staðar saman og einhvern veginn voru einhverjir sem héldu þau hjón en svo sögðu þau að börnin þeirra væru hjón ha ha ha.  Meikar ekki sens.

Og kallinn flottur og reffilegur.

Við vorum ekki bara á fartinni þó mér skilst að ég hafi alveg verið dugleg við það, en við áttum líka kózí stundir heima og þau fengu geggjað september veður með yfir 20 stiga hita og sól.  Hérna sitja þau á bekknum sem meistari Þráinn skellti saman á einum tíma hérna úti í bílskúr bara svo konan hans færi ekki að stela gömlum bekk hérna úti á blakvelli.  Og já hjólbörurnar voru á felgunni en því var reddað snarlega eins og honum einum er lagið.  Hlakka til að setja blóm í þær næsta sumar, ætla að bíða með það núna, það er víst komið haust.

Aftur var skroppið í búðir en núna aðallega fyrir börn og barnabörn en kallinn keypti sér einar gallabuxur í viðbót enda ekki átt og gengið í gallabuxum í 20 ár.

En þegar við komum heim úr búðunum bað ég þau gömlu vinsamlegast að taka sér pensla í hönd og fara að borga fyrir gistinguna og fæðið og þau þorðu ekki öðru enda dóttirin ákveðin kona þegar þannig er gállinn á henni.  En þessi mynd var nú reyndar sviðsett og höfðu þau mikið gaman af því.  Maddý reyndar málaði smá en pensillinn hans pabba var nú enn bara í plastinu ha ha ha.

Og svo voru þau kvödd í dag á Sola flugvelli í Stavanger en ég held þetta verði eins skiptið sem við keyrum og sækjum fólk alla leið þangað þar sem við erum rúma 3 tíma að keyra hvora leið og í dag þegar ég var búin að vera að keyra og koma þeim í gegnum flughöfnina og keyra til baka samtals 8 tímar þá var ég gjörsamlega búin á því.  Svo næstu gestir sem fljúga á Sola taka lestina takk.

En mikið er búið að vera yndislegt að hafa þessi tvö hérna hjá okkur og þau náðu svo vel saman að það var nú stundum eins og þau væru gömul hjón.

Hlakka til að fá þau aftur í sundur eða saman það skiptir sko ekki máli.

Knús og klem til ykkar og takk fyrir frábæra 11 daga.

Ykkar Kristin á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.