A, B eða….

15.10.2016

A,B eða C?  Eða kannski er ekki til neitt sem heitir C ég hef alltaf haldið að ég væri A og Konný væri B og þannig væri þetta bara og yrði alltaf en nú er ég ekki viss lengur.

Málið er að ég er morgunmanneskja eða ég taldi alltaf að ég væri það en það er eitthvað að breytast alla vega er ég ekki til í að vakna kl. 5 alla morgna, ég meika það annan hvern morgun en þegar ég þurfti að vakna alla morgna svona snemma þá var ég hvorki heill né hálfur maður eins og segir í kvæðinu.

En eins og núna á laugardagsmorgni þá er ég vöknuð klukkan hálf sjö.  Já sko það er minn tími og heilinn er í stuði og hugsar mikið og langar að framkvæma svo margt akkúrat núna.  En klukkan 5 – ekkert jú jú ekkert mál að skúra og þurrka af skólaborðum enda þarf ekki að nota heilann við það.

En aftur að því að vera A, B eða ?? Þegar ég var lítil vildi ég alltaf fara að sofa eldsnemma og vakna snemma en líklega aldrei fyrir 7.  Konný systir vildi hins vegar vaka frameftir og sofa frameftir, þetta var bara svona hrein skilgreining á A og B.  Ekkert mál, svona erum við bara en eins og ég segi þetta er ekkert svona núna, ég vil fara sofa snemma nema þegar eitthvað sérstakt er að gera, ég á erfitt með að vera lengi í myrkri, get alls ekki keyrt í myrkri þó ég neyðist til að gera það og þreytist á huga og sál mjög fljótt í myrkrinu.  En um leið og fer að birta þá kemst ég í stuð.  Svo kannski tengist þetta því líka ég veit ekki.  En ég hef aldrei heyrt skilgreiningu á því sem ég er í dag þegar ég greinilega er ekki alveg A og alls ekki B sem sagt vil fara að sofa á skynsamlegum tíma en ekki vakna of snemma, reyndar er það bara að ég vil ekki vakna við klukku, vil bara vakna og þá er ég góð allan þann daginn sérstaklega ef ég legg mig klukkan 10 aftur.

Og annað þegar ég var yngri þá vaknaði ég við klukkuna og var komin í fötin 10 sec eftir hringinguna en í dag vildi ég helst geta vaknað, sest með kaffi, gengið frá í eldhúsinu, sest við tölvuna unnið smá í henni og svona 3 tímum seinna gæti ég farið af stað ef ég þyrfti.  Hvað er það?  C manneskja eða hreinlega orðin gömul og löt eða hvað?  Ég sem er svo mikill Monk þarf að hafa skilgreiningu á öllu alveg eins og allir hlutir eigi sinn stað, líka þeir sem eiga fáráðanlegan stað.  Er einhver sem veit þetta?

Og af því að ég er byrjuð á skilgreiningum á manneskjum þá hefur oft verið lesið í fólk og það skilgreint eftir stöðu þess í systkinahópi og mig hefur oft langað til að vita hvað spekingarnir segðu við mér sem var í 7 ár yngsta barnið, þá varð ég miðjubarn í smá tíma en þar sem okkur systrum var skipt á milli foreldra þá enda ég sem elsta barn í 4 systkinahópi en er svo á fullorðinsárum aftur orðin næstelst.

Lesið nú í þetta kæru spekingar og reynið að skilgreina mig.

Annars allt gott að frétta héðan mikil vinna (það er jákvætt) sérstaklega hjá Þráni og hann er með vottorð uppá það að liggja í sófanum alla helgina nema hann má hjálpa mér að koma stampinum í gang svo hann geti sest út í hann í kvöld og haldið áfram að slappa af.  Hann er samt kátur og hress og ég veit ekki hvaða týpa hann er því hann á auðvelt með að fara á fætur á klukkan 5, getur líka sofið frameftir og vakað frameftir svo lengi að hann veit að hann má sofa frameftir.  Svo bara næsta mánudag aftur upp klukkan 5 meðan ég þarf helst alltaf að hafa reglu á svefninum eins og litlu börnin.

Ég hef verið að fá talsvert að ljósmyndaverkefnum en það er ekkert sem ég gæti lifað af svo ég hangi áfram í skúringum annan hvorn dag en það er bara snilld þá á ég til dæmis alltaf 3ja daga helgar og það hentar mér.  Ég tala oft eins og ég geri ekkert þegar ég á frí í skúringunum en ég get sko lofað ykkur því að ég sit ekki auðum höndum, ég nefnileg sit við tölvuna og vinn og vinn.  Til dæmis í haustfríinu þá sat ég hér í 10 tíma á dag.  Endurvann verðlistann okkar, reiknaði fram og til baka og setti uppí excel og naut þess í botn, fann hvað ég hef saknað þess smá að vinna með tölur og setja í excel oþh. vantaði ekkert annað en ég skellti þessu í pivot.

Ég uppfærði heimasíðuna okkar í Marnafoto, bjó til fleiri tegundir af myndatökum og skilgreindi, fann myndir til að sýna á síðunni til að kynna okkur.  Ég vann myndir og fyrir þá sem halda að það að vera ljósmyndari sé bara að smella af myndum í stúdio eða on location þá er það sko ekki nema ca. 15% af vinnunni, því þegar heim er komið þarf að byrja á því að velja bestu myndirnar úr tökunni og það getur tekið allt að 3 klukkustundum ef mikið af myndunum eru góðar, svo á eftir að vinna myndirnar setja þær á dropbox eða hitta fólkið og setjast með því og leyfa því að velja myndir úr tökunni sem það vill fá að panta eftir.  Þá á eftir að fullvinna þær myndir taka út allt sem ekki á að vera, redusera í burtu sár og marbletti, hor og stundum matarleyfar ef það eru börn og ákveða hvernig vinnsla eigi að vera á þessari og hinni myndinni.  Síðan að senda þær í prentun, fara svo seinna á staðinn og sækja þær í prentun hitta fólkið aftur og afhenda.  Já og í millitíðinni gera reikninga og senda fólki og setja upp í bókhaldið tekjur og gjöld ofl. Já eins og þið sjáið þá er mikið meira sem þarf að gera við hverja myndatöku en bara smella af nokkrum myndum.

Nú við vorum einnig að starta kampanje í okt en þá bjóðum við mini myndatöku á lægra verði fyrir fólk sem langar að mynda börnin sín eða fjölskylduna og nota í jólakort eða jólagjafir, ég er strax farin að fá nokkrar pantanir og vonandi verða þær talsvert fleiri.  Gro sem rekur studioið með mér er veik og getur ekkert tekið af myndatökum eins og er en ég vona að hún nái sér fljótlega sérstaklega ef það verður mikið um pantanir.

Draumurinn minn er að geta lifað af þessu og sleppt skúringunum en samt vil ég ekki hafa of mikið að gera því þá er hætt við að neistinn hverfi, þetta verður nefnilega að vera svo skemmtilegt og þannig að hægt sé að hugsa hverja myndatöku sérstaklega.

Við hjónin erum að byrja að venjast því að vera alltaf bara ein heima um helgar því heimasætan er næstum hverja helgi hjá kærastanum og í gær var hann flottur á því og klæddi sig upp og bauð stúlkunni út að borða og í bíó á nýju norsku kappaksturmyndina sem mig langar einmitt að sjá.  Sem sagt svona “Deit” en þau eru nú annars mest bara heima eða úti að keyra.  Og þrátt fyrir mikla feimni þá erum við aðeins farin að kynnast honum, og vonandi kemur hann sem oftast til okkar á sunnudögum í mat.  Þetta er alla vega hinn ljúfasti drengur og þau krúttleg saman.

En nú ætla ég að fara að vinna og óska þess að þið eigið frábæra helgi með öllu því uppáhalds sem ykkur langar.

Ykkar Kristin á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.