Jólin eru að koma…

…já jólin eru að koma og ég hlakka til alveg eins og börnin og mun seint skilja fólk sem hlakkar ekki til samveru við sína nánustu, ljósanna, gleðinnar, góðs matar og já ég er bara eins og hvert annað barn….. pakkanna.  Ég held það hafi sjaldan verið eins margir pakkar og eins stórir undir okkar tré og þetta voru jólin sem við Þráinn gáfum hvort öðru rúm svo ekki eiga að vera margir pakkar frá okkur til okkar.

En við eigum nú auðvitað eina stelpu og kannski eru bara allir pakkarnir til hennar en það er alveg það sama ég gleðst með öðrum þegar þeir fá pakka þannig að þetta er ekki bara græðgi í mér, pakkar eru bara skemmtilegir alveg sama hver fær þá.  Mér finnst líka gaman að gefa fólkinu mínu gjafir sérstaklega þegar ég fæ góða hugmynd að góðri gjöf sem hentar.

En besta gjöfin þessi jólin er komin, það er blómvöndur sem ég fékk frá eiginmanninum í fyrradag og hann fékk ég í tilefni þess að ég tók ákvörðun.  Þessi ákvörðum á eftir að hafa áhrif á líf okkar allra svo það var dásamlegt að finna að stuðningurinn var svona mikill.  Kannski er ég búin að vera of værðarleg undanfarið og kallinn vill fá að sjá gömlu í baráttuhug og tilbúna að leggja eitthvað á sig fyrir sig og sína og framtíðina.  En það hefur nú alltaf verið þannig hjá okkur að þegar ég hræðist ákvarðanir þá finn ég svo mikinn stuðning frá Þráni að ákvörðunin verður auðveld og þannig er það líka núna.

Árið 2018 verður frábært, með nýjum tækifærum og nýjum áskorunum.

En aftur að jólunum því þau eru í dag…. já í dag… ég elska það þegar kveikt er á jólatrénu og maturinn mallar í eldhúsinu og allir eru að koma sér í sparifötin (ég elskaði líka náttfatajólin okkar) og svo þegar sest er við matarborðið, dásamleg tónlist heyrist og svo einhver ekstra gleði alltaf.  Ég elska það líka þegar búið er að borða og við setjumst inní stofu, þar er kveikt á peisnum og kertum og við fáum yndiskaffibolla og kannski ís eða tertu og Mirra Skotta sest við að skoða pakkana og spá í hvernig hún muni deila þeim út. Og ekki síst þegar við opnum jólakortin frá vinum og ættingjum. Ekki er verra að hafa eitt stykki ömmu alltaf hjá sér þó ég gæti alveg hugsað mér þær 3 hérna ef ég hefði fleiri gestaherbergi en ein er hér með okkur þessi jólin og það er bara yndislegt.

Megi jólin færa ykkur frið og gleði eins og þau muni færa mér, megi árið 2018 verða ykkur spennandi með nýjum tækifærum eins og það ætlar að verða mér og megið þið muna að staldra við og njóta eins og ég ætla að gera og vonandi kemur Þráinn nýja stampinum (heitur pottur kynntur upp með við) á sinn stað núna milli jóla og nýárs svo við getum notið þess að sitja þar og horfa uppí stjörnubjartan himininn áður en nýtt ár kemur.

Enn fremur munið að njóta með vinum og ættingjum og þið sem eruð svo heppin að hafa ættingjana í næsta nágrenni, munið að gefa þeim tíma og knús.  Maður finnur meira fyrir því þegar langt er á milli hversu mikis virði fjölskyldan og ættingjarnir eru manni.

Með jólakveðju frá álfunum á Nesan.

 

One thought on “Jólin eru að koma…

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.