Hver hefði trúað því….

að þessi litla stúlka myndi fagna 55 ára afmæli sínu í dag og ekki finnast hún eldri en 37.  En það er gaman að taka nokkur “milestones” á svona degi og það fyrsta var auðvitað að fara að ganga og tala og jafnvel fyrir mig var mikilvægara að læra að tala en því miður ekki til mynd af mér að segja fyrstu orðin en fyrstu skrefin voru fönguð á mynd.

Fyrir utan alls konar góða og skemmtilega hluti eins og að fara að sjá Sound of music og læra öll lögin utan að þó enskan hafi verið dálítið skrítin, en það er til á “tape” svo staðreyndirnar tala sínu máli þá átti þessi litla stúlka bara rúm 4 ár með foreldrum sínum saman en þegar þau skildu þá flutti hún til afa og ömmu sem bjuggu henni yndislegt heimili í mörg ár.  Og hversu notarleg minning er það ekki að rifja upp þegar ég skreið uppí hjá honum afa mínum og sagði nótt eftir nótt, “mig dreymir svo illa”.

En svo flutti ég aftur til mömmu og yngri systkina minna og lífið breyttist til muna, nýr skóli, ný fjölskylda, nýjir vinir.

og fyrsta utanlandsferðin sem var til London þegar ég var aðeins 11 ára gömul.  Ég man enn svo vel eftir öllum fötunum sem ég keypti þar, enda ekki á hverju degi sem 11 ára stúlkur fara til London.

Svo komu unglingsárin með öllu því góða og skemmtilega en líka erfiðleikum.

En þó var alltaf gaman og að hanga með stóru systur sem bjó ekki hjá okkur varð eitt af því skemmtilegasta hér eftir og sóttist ég í að fara í heimsókn til hennar eins oft og hægt var.

En þá kemur allt í einu eitt systkini í viðbót þegar ég er 15 ára og þá fer ég að hugsa um framtíðina og segi við sjálfa mig að það sé bara margt mjög vont við það að eignast bróður svona gömul.  Til dæmis þegar hann fermist þá (og haldið ykkur fast) verð ég í alvöru orðin 30 ára, 30 ára og komin á grafarbakkann að því er mér fannst þarna.  En þetta voru bara fyrstu hugsanirnar svo kom þessi litli gaur og bræddi stóru systur endalaust.  Enda héldu jafnaldrar mínir í Eyjum til að byrja með að ég væri mamma hans svo mikið var ég með hann.

Og þá er komið að mestu lukku lífs míns en það er ballið í höllinni þegar ég kynnist þessum unga fallega dreng með ljósu lokkana og okkar samferð hófst.  Hversu skemmtilegt getur nú lífið orðið.

Ég hætti að vinna í fiski og fer fyrst í Skýlið en síðan Tangann og ég rifja oft upp tímann á Tanganum sem var svooooooo skemmtilegur.

Svo flytur Konný systir til Eyja en mamma og fjölskylda frá Eyjum svo þar verða aftur breytingar á lífinu.

Og við skötuhjúin höldum áfram að hafa bara svolítið gaman.

Frá Tanganum lá leiðin á bæjarskrifstofurnar í Eyjum og það er líklega skemmtilegasta vinnutímabil lífs míns og þá er ég ekki að tala um vinnuna heldur fólkið sem ég vann með og hvað við gátum brallað og skemmt okkur vel saman.  Á þessum sama tíma erum við kærustuparið líka í Leikfélagi Vestmannaeyja sem var nú alveg magnaður tími sem ég bý að alla ævi.

En þá kom að því eftir 13 ára sambúð að við létum pússa okkur saman og af því að við gátum aldrei verið alvarleg þá þurftum við að mynda okkur með bílstjóranum okkar líka.  Og að sjálfsögðu tók tengdapabbi brúðarmyndirnar.

Ári seinna flytjum við uppá land eins og við segjum og hófum næsta kafla lífsins í Hafnarfirði en þar náðum við 18 ára takmarkinu sem var að eignast barn og fengum þessa dásamlegu stúlku inní lífið og er það mesta gleði og lukka sem hægt er að hugsa sér.

Þarna líða nokkur normal ár með litlu barni en þá gerist það að við fáum nánast uppí hendurnar litla kotið okkar á Þingvöllum þar sem við höfum nú átt margar góðar stundir saman.

Ég fór að vinna í hugbúnaðargeiranum, byrja hjá AKS sem síðar sameinast Forritun og úr verður Forritun AKS en þá vorum við keypt af Tölvumyndum sem endaði sem Wise ehf.  Þarna er ég í rúm 20 ár.

Og þá fer ljósmyndaáhuginn að kvikna.  Fyrst á landslaginu en síðan á portrait.

En þá skellur á enn ein kreppan á Íslandi og sú alversta og fljótlega eftir það missir Þráinn vinnuna og fer að vinna í Noregi.  En þið sem þekkið mig vitið að ég hefði aldrei verið til umræðu að flytja til útlanda fyrr en ég fór í heimsókn til Mandal og varð ástfangin og hálfu ári seinna flutt þangað út, búin að selja allt dótið mitt og byrja nýtt líf í nýju landi.

Ljósmyndaáhuginn eykst ef eitthvað er eftir komuna til Noregs og ég næ þeim áfanga að verða fimmtug.

Þá kemur ungfrú Lukka til mín í formi konu sem heitir Gro Sidsel en hún bíður mér að koma í samstarf með ljósmyndastúdíó í Mandal sem ég og geri.  Enn ein stóra lukkan í lífi mínu, ég hætti hjá Wise gef skít í öryggið og kasta mér út í djúpu laugina, sem reyndar er dýpri en ég hélt því Norðmenn eru lengi að taka við nýjungum.

Já verður maður ekki að segja að einn af “milestons” sé að brjóta sig í fyrsta skipti en það var ekkert grín og hafði sínar afleiðingar.

En þá er komið að því að við hjónin kaupum okkur hús í Noregi og þvílíkt fallegt hús á flottasta stað ever.  Og lífið er svo ljúft.

Og já ég verð útnefnd “Brennivínsmálaráðherra” af einhverjum spjallþáttastjórnanda sem gerði grín að spillingunni á Íslandi.  Absurd ein vika í lífi mínu þegar fréttamiðlar og alls konar fólk var að hafa samband til að fá að vita hvernig á þessu stóð.

En svo tek ég yfir alla samninga vegna stúdíosins í Mandal og við erum orðin 3 saman þarna en enn ekki alveg nóg að gera þó þetta sé bara gaman.

Og þá lendum við í náttúruhamförum þegar áin okkar og út um allan suður noreg flæddi yfir bakka sína og fyllti hjá okkur kjallarann og ófært var út úr húsi í 2 daga nema í vöðlum uppá brjóst.  Sem betur fer fór að síga í ánni 10 cm áður en hún flæddi inní húsið sjálft en bílskúrinn og allt þar inni og garðurinn skemmdust talsvert.  Og nú eru þeir að spá öðrum flóðum þegar snjóinn leysir því við erum búin að vera með mesta snjó í tugi ára, þetta voru líka mestu fljóð í 100 ár og hér hefur líka verið mikið rafmagnsleysi í vetur þar sem tréin brotna undan snjóþunganum og falla á rafmagnslínur og yfir vegi með alls konar lokunum og leiðindum.  Við erum því að vona að við fáum besta sumar í manna minnum núna þegar það loksins kemur, en almáttugur hvað það lætur bíða eftir sér.

En alltaf tjúttum við gömlu saman í gegnum þetta allt og reynum að brosa og hlæja sem mest.  Því miður þá liggur minn heittelskaði í vondri flensu svo ekki verður mikið um dekur frá honum í dag en það kemur,  það er allt í lagi að halda uppá afmæli nokkrum dögum seinna.

Já og þar sem ekki er nóg að gera sem ljósmyndari þá ákvað konan um jólin að opna búð, litla kunstbutikk eða gallery með handgerðum munum eftir íslendskar konur.  Og nú hefur sú búð verið opin í viku og ég horfi bara bjart til framtíðarinnar.

En þar sem Mandal er ekki svoooooo stór bær þó hann sé risastór miðað við fólksfjölda þá var ég hvött til þess að opna vefbúð líka og er ég langt komin á veg með það.

Svo starfalega séð er ég komin í hring þar sem ég byrja að vinna í búð (sorrý ég tel ekki fiskvinnu með því það var neyðarúrræði á sínum tíma en ekki val) og er komin aftur í búð en núna í búðina mína þar sem ég mun eyða afmælisdeginum mínum.  En kvöldinu eyði ég með minni litlu sætu fjölskyldu, heima.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna 37 ++

One thought on “Hver hefði trúað því….

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.