Árið 2019.

Já hvað getur maður sagt um svona ár.

Það byrjaði á hefðbundinn hátt með góðum mat, góðu fólki og svo ferð til Osló þar sem ég fylgdi Steinu Tengdó í flug til Íslands.

Í byrjun ársins var ég ákveðin í að gera meira af því sem mig langaði til heldur en að gera alltaf bara það sem mér finndist ætlast til af mér og fyrsta skrefið var að fá sér Tattoo og því hef ég ekki séð eftir í eina einustu mínútu en það var nú ekki mikið meira en það sem ég gerði svona sérstaklega bara fyrir mig.  Við hjónin ætluðum í fullt af stuttum ferðalögum en einhvern veginn varð aldrei neitt úr því svo í lok ársins set ég mér þetta takmark bara aftur.  Við getum nefnilega ekki stjórnað öllu í okkar lífi þó við höfum mikil áhrif á hvernig við spilum úr því sem við höfum.

Síðustu 3 ár hafa litast af veikindum foreldra minna og það breytir ansi miklu um hvað maður gerir.

En sem sagt byrjaði á Osló og svo tattoo í byrjun janúar.

Svo skelltum við hjónin okkur saman til Strømstad í Svíþjóð og vorum þar eina helgi, prófuðum að versla inn þar en ætluðum að kósa okkur líka þar sem Þráinn átti afmæli en viti menn Kristín Jóna varð lasin og enduðum við á að fá okkur kínamat heim þar sem ég var orðin svo slöpp.

Uppúr miðjum janúar fór að snjóa  og það hætti ekkert og endaði allt á kafi.

Janúar og fyrsta vikan í febrúar fer hjá okkur í stjórn Íslendingafélagsins í að undirbúa Þorrablótið okkar og var það gríðarlega vel lukkað hjá okkur og vakti athygli heim til Íslands.

Við skelltum okkur líka á Þorrablót til Stavanger svo þorrinn var þreyjaður vel á þessu heimili.

Í byrjun mars hófst svo 11 daga ferðalag hjá mér sem byrjaði á að ég hitti Höddu vinkonu í Osló og lærði hjá henni svolítið meira um Social Media Marketing og þaðan lá leiðin til Sandefjord þar sem ég myndaði fyrsta barnabarn Ingu vinkonu og Óla.  Þegar því var lokið lá leiðin til Íslands til að vera hjá mömmu sem var byrjuð í lyfjameðferð vegna lungnakrabba.  Það var mikið gott að geta verið með henni þarna og að sjálfsögðu byrjaði ég á að kaupa handa okkur Kentucky Kjúlla en ekki hvað.

Að sjálfsögðu kíkti ég líka til Eyja á pabba kallinn sem var búinn að standa í miklum veikindum annað árið í röð.  (hann náði sér á milli en þetta gerðist á sama tíma á sitthvoru árinu). En elsku pabbi er alltaf svo jákvæður og duglegur að rífa sig upp aftur og fátt finnst honum skemmtilegra en að fara út að borða með okkur dætrum hans.

Eftir þetta ferðalag tók hversdagsleikinn við, þ.e.  Að halda áfram að byggja upp fyrirtækið mitt mirra.no sem gengur hægt en ég er að reyna að temja mér þolinmæði norðmanna og trúi því að góðir hlutir gerist hægt, ég hef alla vega nóg að gera þó litlar séu tekjurnar.

Málið er nefnilega að þar sem ég er erlend 56 ára kona þá er ég ekki gjaldgeng á vinnumarkað hér, fæ ekki einu sinni svör frá matvöruverslunum þegar ég sæki um vinnu og ég sem hef nú þessa líka gríðarlegu reynslu frá Stórmarkaðinum Tanganum á sínum tíma.

Apríl er minn uppáhaldsmánuður, með vor og von og mikið af dögum til að fagna ss. Trúlofunarafmæli, afmæli og brúðkaupsafmæli og í apríl í ár fórum við í bústað saman og nokkra dagstúra í göngur á staði sem við höfum ekki komið áður.  Eins og ég sagði í upphafi ætluðum við að gera meira af því og jafnvel fara í útilegur og já bara vera til.

Dýrin okkar 3 höfðu það gott á árinu og þegar fór að vora sátu þau ansi oft öll við dyrnar og biðu eftir að vera hleypt út.  Vorið hefur áhrif á okkur öll það er nokkuð ljóst.

Svo kemur maí og þar er að sjálfsögðu hápunkturinn 17. maí og þetta sinn var einkadóttirin RUSS og því ber að fagna og þrátt fyrir mikið djamm á þessum krökkum á þessum tíma þá var ótrúlega gaman að fylgjast með þessari hefð í Noregi.  Og hún er ekkert svona ýkt hérna fyrir sunnan eins og í Osló.  Ég elska 17. mai þó við séum ekkert með eins mikla hátíð og norðmennirnir sjálfir en mér finnst bara gaman að fylgjast með þeim fagna sínum þjóðhátíðardegi.

Annað sem alltaf er mjög skemmtilegt í maí er EUROVISION eða Melodi Grand Pri og þetta árið ætlaði ég ekkert að vera með Eurovision partý, var einhvern veginn ekkert stemmd fyrir það en minn ástkæri eiginmaður sagði að ég skyldi bara plana eitt svoleiðis því þegar nær drægi þá yrði ég svekkt að vera bara ein heima með honum og auðvitað var gríðarleg stemning þetta árið með Hatara og Norðmenn báðir með sérstök lög og atriði. Norðmönnum gekk mun betur en ég hélt þeim myndi gera og því ber bara að fagna.

Næsti viðburður er risastór þar sem heimasætan útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Mandal. Því var fagnað með því að fara út að borða. Hérna tíðkast ekki svona stórar veislur eða gjafir eins og á Íslandi og það hentar okkur mjög vel.

Ég og Gro vinkona mín náðum loksins að láta það verða að veruleika að hittast og fá okkur smá vín í glas, það var virkilega kósí kvöld hjá okkur og að sjálfsögðu var mér skellt í myndatöku en ekki hvað.

Nýr kettlingur á heimilið, litlar vinkonur mínar í stelpuheimsókn á Nesan, við skelltum okkur saman til Arendal og tókum ferjuna hans Dodda og enduðum auðvitað í útipils, það þurfa allir að prófa alla vega einu sinni að fá sér útipils í Arendal.

Júní mánuður kom og ég græjaði garðinn okkar og ég fæ alltaf fiðring þegar ég sé myndir úr garðinum okkar þegar hann er tilbúinn fyrir sumarið.

En svo kom áfallið. Ég hafði ætlað mér að vera heima á Íslandi að kósa mig með mömmu í nokkrar vikur og var búin að kaupa mér flugfar þegar ég fékk símhringingu um það að koma strax, ég náði flugi daginn eftir og kom beint uppá spítala og náði að kveðja mömmu sem lést þá um nóttina. Erfiðasta stund lífs míns og ennþá græt ég ef ég segi mamma. Ég vissi að mér þætti vænt um hana en ég vissi ekki að ég myndi sakna hennar svona ofsalega mikið. Þessi júlímánuður var erfiður en að sjálfsögðu reynir maður líka að hitta góða vini og fagna lífinu. Þennan mánuð voru 2 jarðarfarir því amma Þráins lést líka.

Ég fékk hið langþráða Heimaeyjarhálsmen og hef um hálsinn og læt það minna mig á mömmu.

Ísland, vinir, eyjarnar, minningar sárar og góðar.

Ein af dýrmætari stundum þessa sumars á Íslandi var að ná helgi með þessum dásamlegu vinum á Gjábakka á Þingvöllum.

Við fögnuðum líka afmæli þessarar skvísu og þegar kemur að Maddý og Stefáni þá er aldrei neitt slor og þarna fórum við á einn flottasta veitingarstað Reykjavíkur og nutum okkar saman.

Steina tengdó kom með okkur aftur út til Noregs og var ljúft að fá eina … mömmu með sér á svona erfiðum tíma. Við kósuðum okkur mikið næstu daga saman.

Svo var tekin stór ákvörðun (LOL) það var keyptur þurrkari á heimilið og það var ekki síst vegna þess að mamma var alltaf að spyrja mig, hvenær ætlar þú að kaupa þér þurrkara Kristin? Svo nú var tækifærið.

Næst á dagskrá var MINI Þjóðhátíð í Osló og þvílíkt skemmtilegt kvöld með frábærum íslendingum.

Og já já svo skellti Kristín Jóna sér aftan á mótorhjól og þá er það búið. Þarf ekki að gera það aftur.

Elsku amma mín varð 100 ára þann 15. ágúst og lifir hún dóttur sína sem hefur ábyggilega verið henni mikið erfitt. En afmælinu hennar var fagnað af afkomendum hennar en því miður komumst við ekki.

Ástrós Mirra hóf nám í Háskólanum í Grimstad í hjúkrun og flutti til Kevins kærasta síns til Kristiansand. Hún tók Erro með sér þar sem hún á hann og einnig tók hún Kiwi kettlinginn með sér, þannig að þau búa saman með 1 hund og 2 ketti. Duglegir krakkar þetta. En eftir nokkrar vikur ákvað Ástrós Mirra að hætta þessu námi þar sem hún fann sig ekki í því og það kom mér ekkert á óvart því ég var svo undrandi yfir þessu vali hennar sem hún síðan sagði mér að námsráðgjafar menntaskólans hefðu eiginlega bara stýrt henni útí.

Eldhúsborðplatan var tekin í gegn og það gjörbreytti eldhúsinu okkar.

Og svo tók Þráinn þátt í Kjempesprekken en ég sleppti því enda 15 km ganga á fjöll og firnindi. En ég tók að sjálfsögðu þátt í kvöldinu með mat og balli hérna uppí Høgtun.

Haustið fór mikið í að skoða gamlar myndir og minningar.

Nóvember er mánuðurinn hennar Mirru Skottu og við fórum í keilu og út að borða saman til að fagna 19 árunum. Ég er svo endalaust stolt af þessari stelpu og hlakka bara til að fylgjast með henni í framtíðinni.

Svo í lok nóvember hófst aðventan hjá okkur með því að við hjónin skelltum okkur á jólatónleika með Adam Douglas í Kristiansand. Við ákváðum bara að taka hótelherbergi og njóta alla leið.

Svo fórum við til Osló á stórkostlega jólatónleika með yfir 40 íslenskum tónlistarmönnum og enduðum þessa tónlistaraðventu með æðislegum tónleikum Guðbjargar og Jónínu Ara ásamt Gróu píanóleikara í Kristiansand. Ekki var verra að fá að kynnast þessum frábæru konum með því að hafa þær í gistingu heima hjá sér. Á Nesan er nefnilega alltaf pláss fyrir nýja vini.

Þegar við vorum í Osló þá kom Steina með flugi frá Íslandi og tók að sjálfsögðu þátt í þessari tónleikaaðventu með okkur ásamt því að hitta jólasveininn á jólaballi Íslendingafélagsins í Suður Noregi.

Laufabrauð, Skötuveisla og svo komu jólin.

Og í dag er gamlársdagur og í kvöld kveðjum við 2019 og fögnum 2020 sem ég held að sé árið þar sem töfrarnir munu gerast.

Ég er ekki búin að setja mér nein markmið því það virkar bara ekki þannig, ég ætla bara að reyna að vera góð manneskja og lifa sómasamlegu lífi, njóta þess sem kemur og leyfa mér að elska.

Gleðilegt ár kæru vinir og ættingjar. Við hjónin á Nesan fögnum nýju ári um leið og við þökkum fyrir það gamla.

Þangað til næst, ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.