Hjátrúin…

Ég er búin að vera að hugsa um hjátrúna okkar íslendinga (og sjálfsagt fleiri þjóða einnig) undanfarna daga á meðan Evrópukeppnin í handbolta hefur verið. Málið er að á sunnudaginn þá fór ég að skúra og horfði á leikinn bara með öðru auganu og viti menn okkar menn unnu og það vel. Þessar skúringar voru ekkert planlagðar hjá mér nema bara þess þurfti.

Svo þegar þeir voru að keppa við Norðmenn (oh hvað mig langaði að þeir hefðu unnið þann leik) þá gekk þeim alveg svakalega illa fyrstu 10 mín og allt í einu poppar uppí hugann á mér að síðast þegar þeir unnu þá var ég að skúra og ég hleyp til og næ í skúringargræjurnar og fer að skúra og það er eins og við manninn mælt, þeim fer að ganga betur og náðu heldur betur að minnka muninn svo í gær þegar leikurinn við Svía hófst var ég komin með moppuna í hendurnar og eftir fyrst 3 mörk Svía stökk ég upp að moppa en þetta hafði akkúrat ekkert að segja í gær og þá velti ég fyrir mér hvort það geti verið af því að ég var ekki í alvörunni að skúra (hversu skítug gætu gólf orðið á sólarhring) eða var ég ekki með hugann við skúringarnar eða hvað?

Einnig var ég komin með þá kenningu fyrir leikinn í gær að okkar mönnum gengi alltaf illa þegar þeir væru að keppa í varabúningnum sínum sem er líka bara hvítur eins og nærföt og ekkert þjóðarstolt að hlaupa um í honum. Allt annað að vera í bláum þjóðlegum búning sem hvetur mann til dáða. En nei nei, það sannaðist líka í gær að þetta hefur ekkert með búninginn að gera svo hvað er það þá?

Strákarnir, þjálfarinn, hugarfarið?

Alla vega síðustu daga hef ég uppgötvað hvernig hjátrú getur farið með mann og í alvöru sótti ég kústinn og gerði mitt af mörkum til að þeir gætu unnið leikinn, ég skil vel menn sem sitja alltaf í sömu treyjunni heima í stofu á horfa á leik ef þessi treyja virkar þannig að leikurinn fer okkur í hag. En hvernig ætli standi á því að þetta sé svona ríkt í okkur? Hún dóttir mín skellihló að mér að sagði mamma: “þú gerir þér grein fyrir því að þetta hefur ekkert að segja.” Og auðvitað vissi ég það en ég var ekki til í sleppa því að skúra og hafa kústinn hjá mér ef ske kynni að þá gengi þeim betur.

Ég fann hérna smá grein um hjátrú sem kannski segir svolítið mikið um þetta.

“Undirrót þessa er trú frummannsins. Menn hugðu alla náttúruna magni gædda, og gat það orðið mönnum bæði til góðs og ills; mikill ótti einkenndi allt viðhorf manna, einkum varð að hafa mestu gætni við alla hluti, sem framar öðrum voru magnaðir” – Einar Ól. Sveinsson: Um íslenskar þjóðsögur. Rv. 1940.”

“Þessi ótti við margvíslegustu hluti og trú á víti og hegðunar hætti bundu hegðun manna í ákveðnar skorður, sem var varhugavert að víkja sér undan. Umhverfið var magískt og menn gátu kallað fram hættur með óvarkárni í umgengni. Bannhelgi lá á vissum stöðum og glannaleg umgengni á bannhelgum stöðum kallaði yfir glannann heiftarfull viðbrögð.” https://www.mbl.is/greinasafn/grein/504421/

Allavega þá veit ég það núna að úrslit leikanna í gær og fyrradag hafa ekkert með mig að gera og ég mun bara vera róleg næstu leiki, hvenær sem þeir verða. Ég hef nú aldrei haft áhuga á hand- eða fótbolta en hef undanfarin ár haft gaman að því að upplifa stemninguna sem hefur myndast við evrópukeppnir og heimsmeistaramót og stemninguna sem hefur verið hérna í Noregi og aðdáun Norðmanna á getu Íslendinga í íþróttum og ég hef viðrað við þá mína skoðun á því af hverju þjóð sem jafn stór einu litlu fylki hérna í Noregi hafi svona mikið af afreksíþróttamönnum en Norðmenn ekki.

Þangað til næst, ykkar Kristín á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.