það sem fólk man. Ég var að spjalla við pabba kallinn í fyrrakvöld og hann var í þvílíku stuði og sagði mér nokkrar sögur og gátur. Þar á meðal sagði hann mér gátur sem kennarinn hans (sem hann nafngreindi) sem kenndi honum í 11 ára bekk sagði bekknum.
Hann man hver sagði gátuna, hann man gátuna og það skemmtilega er að gátan stendur enn fyrir sínu og er mjög fyndin.
Ég man reyndar hvað flestir kennararnir mínir í 11 ára bekk heita eða hétu en að ég muni eitt orð sem þeir sögðu okkur er af og frá. Kannski var kennarinn hans pabba svona skemmtilegur en mínir ekki. Eða það sem ég held að þeir sem eru yfir 80 ára í dag og hafa aldrei verið með tölvur og síma og allt það áreiti sem nútíma fólk hefur og man þess vegna meira þar sem áreitið hefur verið minna eða kannski er það bara ég sem man ekki neitt.
Amma sagði einu sinni við mig þegar við vorum að spjalla um eitthvað sem gerðist þegar ég var lítil, elsku Kristín mín, manstu ekki neitt frá því þú varst lítil?
Svarið er já ég man voða lítið. Það sem “ég man” er held ég mest það sem mamma og pabbi og Konný systir hafa sagt mér. Ég gæti ómögulega gert greinarmun á eigin minningum eða því sem mér hefur verið sagt. Margt held ég sjálfsagt að séu minningar en ef ég hugsa meira um þær, þá eru þetta bara stakar myndir en ekki heil saga svo líklega man ég ekki mikið frá því þá. Það er ein ástæðan fyrir því að ég byrjaði að blogga í fyrsta sinn, til að geta flett upp í minningunum mínum og geta sagt Ástrós Mirru sögur úr hennar æsku og eins bara ég að rifja upp það sem hefur gerst.
Eins hef ég reyndar alltaf sagt að bloggið sé góður gagnagrunnur ef ég skyldi nú ætla að skrifa ævisöguna einhvern daginn.
En þá aftur að gátunum hans pabba: Það var tjörn með tveimur hólmum í og á einum hólmanum var önd en á hinum var matur fyrir öndina. Öndin mátti ekki synda, ekki fljúga og ekki ganga til að komast yfir í matarhólmann, svo hvernig fór hún að því að koma sér yfir?
Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.