Í framhaldi af því að ….

Featured Post Image - Í framhaldi af því að ….

muna eða muna ekki, þá hef ég einmitt velt því fyrir mér af hverju ég man svona lítið úr æskunni. Og þegar ég tala um æskuna þá er það eiginlega fyrir 11 ára aldurinn eða sá tími sem ég bjó hjá afa og ömmu eftir skilnaðinn hjá mömmu og pabba. Að sjálfsögðu man ég ekki mikið frá fyrstu 4 árunum, það er nú líklega eðlilegt. En tíminn sem ég bjó hjá afa og ömmu var dásamlegur, amma alltaf heima með nýbakað brauð og heitan mat í hádeginu og mér er einhvern veginn alltaf hlýtt og líður notarlega þegar ég hugsa þangað.
En þetta var samt ábyggilega skrítinn tími fyrir okkur systur, því þegar mamma og pabbi skilja þá eru tímarnir þannig að einstæðir foreldrar voru nánast ekki til, þeir sem eignuðust börn í lausaleik eða skyldu, þurftu oftast að setja börn sín í fóstur. Sem betur fer oftast í tímabundið fóstur en fóstur samt. Þess vegna áttu afi og amma svo mörg fósturbörn því þau voru endalaust að hjálpa þeim sem á þurftu að halda og það sama gerðist þegar mamma og pabbi skilja. Það er sameiginleg ákvörðun allra að best sé fyrir okkur systur að búa hjá afa og ömmu þar til mamma og pabbi væru bæði gift aftur (eða komin í sambúð). Eftir það skyldi önnur okkar fara til pabba og hin til mömmu. Þetta trúðu þau að væri það besta í stöðunni. Nánar að því seinna.

En sem sagt mamma og pabbi skilja og við flytjum til afa og ömmu. Það var alltaf sagt að þessi skilnaður hefði ekki haft nein áhrif á mig sem barn þar sem ég var mjög glaðlyndur krakki og virtist una mér mjög vel hjá afa og ömmu. En gæti það verið ástæðan fyrir því að ég man svona lítið, getur verið að þetta hafi haft meiri áhrif á mig en nokkur gerði sér grein fyrir. Bara af því að áhrifin komu ekki eins út hjá okkur systrum þá er ekki þar með sagt að mér hafi verið alveg sama. Ég var bara 5 ára.

Nokkrum dögum eftir að við komum til afa og ömmu þá dreymir mig illa og ég fer til afa og vek hann og segi: “Afi mig dreymir svo illa”. Og afi segir mér að skríða í holuna á milli hans og ömmu sem ég og gerði og gerði allar nætur eftir það í einhver ár, svei mér þá.
Af hverju? Kannski af því að mig vantaði eitthvað. Af því að mig vantaði mömmu og pabba. Þó ég sæi þau oft, þá var það ekki það sama að fá þau í heimsókn eða við færum í heimsókn til þeirra. Og á þessum tíma var aldrei talað við okkur börnin um svona hluti. Af hverju og hvernig stóð á því að hlutirnir voru svona. Einfalda svarið er að þannig var þetta bara. En ég get sko alveg sagt ykkur frá því að þó ég muni ekki margt frá þessum tíma þá man samt tilfinninguna þegar ég var komin í holuna á milli afa og ömmu og hvað ég upplifði mikið öryggi þar. Ég ákvað þegar ég varð mamma að barnið mitt fengi að skríða uppí svo lengi sem það vildi og dóttir mín gerði það sko mikið en svo fór það minnkandi en hætti ekki fyrr en um 12 ára aldurinn. Og ég elskaði það. Elskaði það að hún gæti fundið fyrir þessu öryggi sem það er að vera hjá mömmu og pabba.

En ég ætla ekkert dýpra í þetta minnisleysi úr æskunni því þó kannski þessi skilnaður hafi haft einhver áhrif á mig þá geri ég mér í rauninni enga grein fyrir því og minningarnar úr Holtagerðinu eru bara góðar. Lífið var leikur allan daginn og einstaka sinnum fram á kvöld.

Þó að mörgum finnist kannski ekki eðlilegt að við höfum farið í fóstur til afa og ömmu þá held ég að það hafi verið það eina rétta á þeim tíma. Stabílt fjölskyldulíf utan foreldra eða hjá foreldrum og kannski mikið verið að flytja, skipta um vinnu og engir leikskólar eða skóladagheimili svo þá hefðum við sjálfsagt fengið lykil um hálsinn kornungar systurnar.
Mér finnst ég að mörgu leiti einmitt hafa notið forréttinda að hafa fengið að búa hjá afa og ömmu. Þau höfðu meiri tíma, ég var til dæmis læs 5 ára því afi kenndi mér að lesa. Við fórum mikið í ferðalög um helgar og á sumrin og kynntumst ættingjum sem við kannski hefðum ekki kynnst í gegnum mömmu og pabba. Amma kenndi mér að prjóna og sauma en ég var ekki efnilegur nemandi hjá henni. Og seinna meir þegar ég fór í handavinnu í skólanum, fannst ömmu hún oft þurfa að laga handavinnuna mína áður en henni var skilað inn og svo spurði hún alltaf hvað HÚN hefði fengið í einkunn. Og amma kenndi mér líka að pissa úti.

Þegar ég var 11 ára er mamma gift Sigga stjúpa og búin að eignast 2 börn og amma orðin sjúklingur svo ég flyt þá til mömmu og Sigga og systkina minna tveggja sem svo seinna urðu þrjú, svo það varð aldeilis breyting á mínu lífi eftir það.

Þegar ég fæðist er ég yngsta barnið (af tveimur) og er það í 7 ár, þá eignast ég systur en ég flyt ekki til mömmu fyrr en 11 ára svo ég er ennþá yngsta barnið hjá afa og ömmu þangað til. En sem sagt 11 ára flyt ég til mömmu og þá er Konný flutt til pabba svo ég verð allt í einu elsta barnið þó ég sé miðjubarn. Ég hlæ einmitt svo oft þegar verið er að segja hvernig elsta, miðju og yngstabarn eigi að vera því ég hef verið það allt.

En þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.