Glaðasti….

hundur í heimi eða? Ég velti stundum fyrir mér lífi hunds og hugsa oft að ef ég þyfti að lifa eins og hundur þá myndi mér líklega líða eins og ég væri í ofbeldissambandi, því hann má ekki þetta og á að gera þetta eða bara sitja og standa eins og við viljum. Allt annað með kettina, jú við hendum þeim niður af borðum en það er það eina, þeir mega annars allt eða þannig.

Og þá hugsa ég er geðslag hundsins þannig að þetta er bara nákvæmlega það sem hann vill. Er það eina sem hann vill að gera okkur eigendurna ánægða? Hann passar uppá kettina fyrir okkur og ef köttur sest við svalahurðina þá hættir Erro ekki að gera okkur viðvart um að eitthvað sé að. Við eigum þá að standa upp og hleypa kisunum út eða inn. Það þýðir ekkert að reyna að segja Erro það að þá sé kattahurð á þvottahúsinu sem þeir geta notað að vild. Nei, enginn köttur skal sitja við svalahurðina því það þýðir að þeir þurfa þjónustu. Hann (Erro) kemur líka og lætur mig vita ef Nala og Kiwi eru að slást, og hann hættir ekki að ýta við mér fyrr en ég stend upp og skamma þær.

En ástæðan fyrir því að ég fór að velta þessu fyrir mér núna er að ég og Erro fórum í hjólatúr í gær, þann fyrsta á þessu vori (já já það er ekki alveg komið en er að bresta á) og hann var svo glaður enda glaðasti hundur í heimi, að hann dró mig upp litlu brekkuna hérna í botnlanganum okkar áður en ég náði bara að setja fætur á pedalana. En svo tók ég nú við að hjóla með honum aðeins en svo hjólum við framhjá strák á hlaupahjóli og þá verður minn maður spenntur aftur og vill sýna hvað hann getur og tekur þvílíkan sprett og ég ákveð að hvetja hann og þá bara tvöfaldaðist hraðinn á mínum hundi og þó ég hefði viljað nota pedalana þá hljóp hann það hratt að 3 gírinn á mínu 3ja gíra hjóli hélt ekki í við hann. Ég hugsaði ó mæ, fyrsti hjólatúrinn og hann er að verða 9 ára gamall, hann er enginn hvolpur lengur og ætlar hann bara að sprengja í sér hjartað. En hann hljóp með mig alveg fram hjá einu húsi hinum megin við ána þar sem annar hundur býr og ég sá alveg hvað Erro var montinn þegar við fórum framhjá þar sem hinn hundurinn situr alltaf bara á tröppunum fyrir utan hús. Það var eins og prinsinn minn vildi sko sýna hinum hvað hann fengi að gera með mér. Hlaupa og þjónusta mig. Já það er þessi þjónustulund og geð sem hann hefur.

En ég veit hann gerir þetta ekki af heimsku því heimskur er hann Erro ekki. Hann td. les mig eins og opna bók. Ef ég helli snakki í skál, þá fer hann uppí stiga, því þá er ég að fara að lesa eða horfa á sápu og síðan leggja mig.
Ef ég tek ljósmyndatöskuna fram, þá fer hann út við hurð og bíður spenntur eftir að fara í göngutúr.
Ef Þráinn hringir í mig að morgni til, þá fer hann líka út að hurð því þá erum við líka að fara að fá bílinn og skutla Þráni í vinnu. Og svona gæti ég lengi talið.

En alla vega þá þarf ég víst að vera gáfaðari aðilinn í þessu sambandi og passa uppá hjartað í honum þegar við förum að hjóla, því ekki vill ég hann sprengi sig, þó þetta sé alveg fínt sérstaklega upp brekkurnar.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.