Allt tekur enda um síðir….

og sumarfríið líka. Úff ég get ekki sagt að ég sé beint tilbúin í vinnu núna á mánudagsmorgni um þjóðhátíð að fara að vinna á eftir, en ég samt heppin að ég gat ráðið hvort ég byrji kl. 9 eða 11 og valdi 11 og vinn þá bara lengur í staðinn en það er líka af því að Þráinn er á kvöldvakt svo það skiptir mig engu máli hvort ég er komin heim snemma eða ekki.

Ég er samt ekkert að vinna neitt rosa mikið þessa vikuna en samt á tveimur leikskólum og einu sambýli. Held ég hljóti svo að fara að skrifa undir fastráðningarsamninginn minn í næstu viku vonandi og þá byrja ég í föstu starfi í 40% og verð svo með eitthvað auka inní milli. Svona þegar veikindi og frí eru hjá öðru starfsfólki. Það verður bara mjög fínt og ég hlakka til að vera með þann stöðugleika að hafa eitthvað fast en einnig að geta þá líka gert eitthvað frumlegt og skemmtilegt með. Ég er oft uppfull af hugmyndum en ekki svo uppfull af nennu, en ég þarf að fara að koma mér í bílskúrinn aftur og gera meira af blómapottum. Svo er ég með hugmynd að smá myndlist fyrir mig sem ég hefði aldrei trúað að ég færi að prófa því ég get ekkert með fingrunum en svo datt ég niðrá soldið sem mér finnst töff og ætla að fá Konný til að hjálpa mér af stað. En þetta gerist nú bara með haustinu þegar ég hætti að vera svona mikið úti að njóta góða veðursins.

Við erum enn í sælu vegna ferðalagsins okkar í sumar og höfum við aldrei á æfinni keyrt 1700 km í einu fríi svo það eitt og sér er sigur og svo allt sem við sáum en þið getið lesið um fríið hérna fyrir neðan, ég bloggaði um hvern dag og setti fullt af myndum inn.

Hitinn hérna hjá okkur er farinn úr 25 – 29° niður í 18-22° og það verður að segjast eins og er að nú þarf ég að fara í peysu á kvöldin en það verður þægilegra að skúra að deginum til og vonandi ekki svitna eins mikið og ég gerði fyrir frí. Skil ekkert í því að ég léttist ekkert við að svitna svona mikið, hélt alltaf að það væri það besta ef maður væri í líkamsrækt en svitinn einn og sér gerir víst ekkert í þeim efnum. En nú eftir frí …. úff ég verð bara að fara að reyna að hreyfa mig aðeins meira og vonandi verða betri í mjöðminni og hnénu svo ég alla vega sofi betur og ekki væri verra ef ég gæti tekið af mér eins og 2-3 kg í leiðinni. Alla vega haustin hjá mér eru alltaf uppfull af, að nú ætla ég að gera betur, ég er aldrei svoleiðis um áramótin því þá er bara kalt og mig langar ekkert út. En núna er ennþá hlýtt svo ég verð að reyna að vera stabíl og gera eitthvað, nóg er af fallegum gönguleiðum, útilíkamsræktarstöð á næsta hól, blakvöllur, frisbiegolf og áin með öllum sínum kostum og meira að segja hundur sem þarf sína göngutúra en nei nei það gleymdist algjörlega í mínum genum að setja eitthvað inn sem langar í hreyfingu, sem langar í líkamsrækt, sem langar í eitthvað annað en að sitja og hafa það huggulegt. Það er víst þannig að við erum örfá í heiminum sem finnst allt sem flokkast undir íþróttir leiðinlegt. Ég td. færi ekki á kajak eða kano ef ég ætti að keppa í róðri en að sitja í bátnum og njóta náttúrunnar það er geggjað. Eins finnst mér þetta með fjallgöngurnar svo skrítið að labba á fjall kannski í 2 tíma og sjá ekki neitt nema skóginn alla leiðina upp og þá er jú eitthvað útsýni en allt svo langt í burtu og það finnst mér ekkert sérstakt nema jú dásamlegt að anda inn og út nokkrum sinnum og svo niður aftur. Pínu tilgangslaust, frekar að labba uppá smá hæð sem ekki er skógi vaxin og sjá umhverfið alla leiðina. En já nú er ég bara farin að bulla. Ætti kannski frekar að skella mér í sturtu og gera klára fyrir fyrsta daginn í vinnu eftir sumarfrí.

Þangað til næst, ykkar Stína á Nesan.


ps. þið sem þekkið mig, vitið að ég hef aldrei viljað kalla mig Stínu og eru einungis 2 menn sem hafa komist upp með það en eftir því sem ég eldist og kemst nær ömmu aldrinum þá finnst mér Stína bara krúttlegt og ég myndi alveg vilja verða Stína amma í framtíðinni en ég verð það líklega ekki því Kristín er nafnið sem ég er alltaf kölluð, en ég gæti orðið mormor en nei ég vil verða amma og þarf ekkert nafn til að tilgreina hvaða amma því föðuramman yrði líklega norsk og heitir því ekki amma.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.