17 daga föstuáskorun með Jóhönnu

Dagur 1.

Já gott fólk, þessi áskorun hófst í gær kl. 18 með 24 tíma föstu. Ég hef fastað áður og hræðist hana ekki neinn en held að það að borða bara 800 he á dag í 6 daga geti orðið flólknari, en ég er aðeins byrjuð að lesa á alla matarumbúðir og reikna út og veit að 3 hrökkbrauðsneiðar með osti og gúrku eru 170 he. Það getur td. alveg dugað mér í hádegismat. En þá er það kvöldmaturinn og hvað skal borða þá. En við fáum sendar tillögur að matseðlum og svo getur maður líka prófað að gúggla þetta

Hlakka meira til en kvíði og ætla mér að klára þessa 17 daga með stæl og aðeins einu svildli.

Dagur 2.

Jæja klukkan er orðin 3 og aðeins 3 tímar eftir og fyrir mig sem er oftast að borða þetta 8/16 þá hélt ég að það að bæta nokkrum klukkutímum við væri ekkert mál en í miðjum vinnutíma í morgun leið mér illa í maganum eða var það í höfðinu sem mér leið illa, hefði aldrei verið farin að fá mér að borða á þessum tíma dagsins svo þetta var greinilega ekki maginn heldur einungis hausinn í rugli.

Ég er ennþá ekkert svöng en búin að vera duglega að drekka vatn og pissa. Sit núna og er að semja uppskriftir til að hafa næstu 3 daga og miðað við að 3 hrökkbrauðsneiðar með ostsneið og gúrku er ekki nema ca. 170 he þá held ég að við förum létt í gegnum 800 he daginn, því þessar tvær máltíðir sem ég er að semja eru á milli 320 og 360 hitaeiningar. Svo þarna er þá dagurinn ekki nema 500 til 550 hitaeiningar. Ef okkur tekst að halda því, fram á föstudag þá verð ég alsæl. Helgin verður erfið því við erum að fara til Stavanger í jólaboð en á laugardaginn megum við fá um 1200 he og ég verð bara dugleg að finna út úr því.

Þetta er það sem ég er búin að læra núna.

Hitaeiningar í mat.

3 hrökkbrauð með osti ca. 160 he og með smjöri ca. 200 he.
3 hrökkbrauð með osti og gúrku er ca. 170 he. Þetta getur alveg dugað sem hádegismatur.

Eða 1 glas af Biola mjólk (100ml) 34 he. og 2 hrökkbrauð með osti og gúrku 114 he. = 148 he.

Lambahakkabuff 100gr er 250he , steikt á pönnu og krydda með salti og pipar, spæla 2 egg með 150 he og hafa gúrku sem meðlæti. (1 buff, 2 egg, gúrka=410 he

2 egg í ommelettu 150 he, 100gr hrísgrjón 125 he 3 sveppir 70 he, gúrka on the side = 370 he

Mér finnst gott að vita þetta með brauðið, því ég elska ristað brauð og mun aldrei hætta að borða það, en 1 brauðsneið er ca. 100 he. smjör á brauð ca. 30 he, ostsneiðar 2 eru (25gr.) 60 til 90 he.

Jæja fór 45 mín lengra en ég þurfti, bara vegna þess að ég gleymdi tímanum, ekki slæmt það. Fékk 100 gr af Biolamjólk með LGG gerlum og svo fékk ég mér eggjahræru með hrísgrjónum og sveppum og smá gúrku on the side. Geggjað gott og bara ca 370 he (en steikti uppúr smjöri svo það er aðeins sem bætist við). Og já ég vigtaði ofaní mig matinn svo ég væri með þetta allt á hreinu.

Fyrsta máltíðin eftir 25 tíma föstu.

Svo á morgun og næstu 6 daga má ég einungis borða 800 hitaeiningar á dag, svo á laugardaginn er leyfilegt að tríta sig aðeins meira og fara í 1200 til 1500 he (ég á eftir að svindla þann daginn) svo aftur á sunnudaginn á að fasta í sólarhring og svo 6 dagar aftur með 800 he.

Þetta verður skemmtilegt ferðalag.

Dagur 3.

Fékk mér í hádeginu 100 gr. Biola mjólk sem er 35 he og einn banana sem er ca. 140 he eða 175 he samtals.
Kvöldmatur er svo 1 lambahakkbuff með smá hrísgrjónum, sveppum og 2 spæld egg, 400 he. og konan lét eftir sér að fá sér eitt hvítvínsglas eftir jólagjafainnkaupin, en það er 80 he. Svo samtals í dag var það 655 he. Langt undir hámarkinu ha ha ha.

Já ég keypti síðustu jólagjafirnar í dag og setti svo allt í kassa til Íslands og fer með á póstinn á morgun.

Dagur 4.

Ég gleymdi að segja ykkur í gær að ég missti 2 kíló fyrsta daginn og svo vigtaði ég mig áðan og þau hafa ekki komið aftur, svo það er geggjað og svo hvetjandi.

Í dag ætla ég að borða hrökkbrauð með osti og gúrku í hádeginu og það verður aftur buff í kvöld en með kartöflum í staðinn fyrir hrísgrjónin.

En þegar ég var að reyna að sofna í gærkvöldi þá fór ég að semja uppskrift fyrir matinn á morgun en þá ætla ég að hafa urriða með soðnu grænmeti og ég ætla svo að taka eina kartöflu fyrir hvort okkar og stappa saman við blómkál með soðinu af grænmetinu, því það hlýtur að vera heldur hollara og minni hitaeiningar en í smjörinu sem ég annars elska.

Ég set inn mynd af matnum í kvöld, þegar ég er búin að elda, þó hann verði ekki borðaður fyrr en á morgun. En uppskriftin er svona:

Urriði með grænmeti og kartöflu/blómkálsmús

160 gr. kartöflur er 118 he

250 gr. gulrætur er 78 he

225 gr. blómkál er  45 he

500 gr. urriði    er 825 he

Samtals 1066 / 2 er 533 he

Annars gengur þetta vel, ég er vön að borða einni hrökkbrauð of mikið að minnsta kosti í hádeginu en er alveg stabil með þetta núna og ætla bara að fara að finna jólaljósin til að setja upp svo ekki sé bara setið og dreymt um mat.

Dagur 5.

Og still going strong og finn ekkert fyrir þessu, finnst ég ekkert vera að borða minna en ég geri oft en alveg örugglega hitaeiningasnauðara. Ég er að verða dáldið flink að skoða hvað eru margar hitaeiningar í matnum og þess háttar og svo þegar þessir 17 dagar eru liðnir þá ætla ég að fara að skoða fleiri hluti svo sem hversu mikil prótín eru í matnum og hversu mikill sykur.

Þó svo maður haldi ekki áfram að borða svona fáar hitaeiningar eftir 17 dagana þá ætla ég að nýta mér námskeiðið til að halda áfram að borða hollara og minna og einfaldari máltíðir. Við höfum verið allt of mikið í flóknum máltíðum með of margar sortir á disknum í einu. Við erum bara 2 í heimili og þetta ætti að vera auðvelt, sérstaklega þar sem Þráinn er 100% með mér í þessu.

Jæja þetta var mesti hungurmorguninn minn hingað til en ég fékk mér svo bara 2 glös af vatni og 100 ml. biolamjólk áður en ég fékk mér hrökkbrauð með osti og gúrku. Stefni á að borða kvöldmatinn kl. 17.30 og ætla að eiga eitt soðið egg ef ég verð svöng í kvöld.

Til að gera mig aðeins meira upptekna en endranær, löbbuðum við Erro út í búð að versla fyrir Ástrós Mirru og Helge sem ætla að vera hér og passa hús og dýr um helgina.

Fékk mér síðan eitt hvítvínsglas og er samt innan hitaeiningamarkana. Vel gert Kristín Jóna.

Svo ætla ég að taka afganginn af soðna grænmetinu frá í gær og steikja kjúklingabita og gera súpu sem þá verður með 400 gr. kjúlla og fullt af grænmeti ekki nema 550 he. sem deilist í tvennt. Algjör snilld og þá fáum við okkur súpu í hádeginu á morgun og verðum klár í ferðalag seinnipartinn en við erum á leið til Stavanger í julebod.

Dagur 6.

Og þetta er ennþá bara auðvelt, hef samt heyrt að við verðum að passa okkur að borða prótín líka en ég held við séum alveg að því með buffi, urriða og kjúklingasúpu. Það er sem sagt kjúklingasúpa í hádeginu og svo verður smá erfitt að passa hvað við borðum þegar við erum gestir annars staðar en ég ætla að reyna og spara hitaeiningarnar fyrir smá hvítvínssull á laugardaginn. Svo er það kvöldmatur á sunnudaginn og eftir það fasta í sólarhring aftur.

Dagur 10.

Ég er að segja ykkur það, það eru komnir 10 dagar með 800 hitaeiningum hvern dag fyrir utan 2 dagar komnir í föstu og einn dagur með 1500 hitaeiningum. Þetta er búið að vera auðvelt og erfitt, mér finnst erfiðara núna sem sagt að halda þetta út, þráin fyrir brauði og kartöfluflögum er farin að sækja á og ég fékk mér gróft brauð í hádeginu enda svo sem ekkert sem segir að ég megi ekki fá mér brauð, það vegur bara frekar þungt í hitaeiningunum.

Plokkfiskur í gær og kvöld og á morgun verður píta með kjúklingahakki, rukkola og kirsuberjatómötum og smá fetaosti. Engar sósur og vesen. Síðan er planið að gera geðveika blómkálssúpu glæra svo hún verði hitaeiningasnauð.

En ég er sko líka farin að hugsa um matinn sem ég ætla að borða þegar átakið er búið já eða jafnvel bara á laugardaginn og ég get sagt ykkur að það er alveg drulluhollt eða brokkolísalat á snittubrauð. Ég smakkaði svona salat hjá Önnu Svölu um helgina og það er svo sjúkt gott og hollt en kannski smá hitaeiningar því það er brauð og smá majones eða ég nota nú kannski bara lettromme, sjáum til.

Matur matur matur, af hverju erum við svona upptekin af mat. En úff ég fékk mér brauð í hádeginu og finn strax smá til í maganum, ætli ég sé kannski með eitthvað óþol, damn það væri ömurlegt að vera með óþol gagnvart brauði.

En ég fór sem sagt í búðina í hádeginu og var orðin svöng, kartöfluflögur á tilboði og þetta er það sem ég keypti.

Dagur 15.

Hvert flaug tíminn og ég ekkert búin að skrifa eða segja frá, ég átti einn erfiðan dag í síðustu viku og fékk mér 3-4 hrökkbrauð með osti framyfir það sem ég var búin að ákveða að borða. Annars hef ég verið alveg að standa mig og frekar borðað færri hitaeiningar en ég má.
Á föstudaginn fastaði ég eiginlega óvart, var ekkert svöng þegar ég kom heim úr vinnu, þurfti svo að fara í búðina og sækja Þráin sem skellti sér til Mandal að kaupa norskt hangikjöt og keypti í leiðinni Brokkolísalat frá Meny og snittubrauð og hvítvín svo ég ákvað bara að fasta fram að kvöldmat og eiga þá inni 800 hitaeiningar til að kósa mig með Þráni og horfa á uppáhaldsþáttinn okkar Beat for Beat í TV.

Svo í gær var laufabrauðsgerð og mættu þær mæðgur Lovísa og Natalie til okkar í aðventukós. Alltof langt síðan þær hafa verið hérna og áttum við æðislegan dag þar sem framleitt var laufabrauð í massavís.

Á boðstólnum voru piparkökur og þær komu með nammi með sér en nei nei nei, ég fékk mér bara Biola mjólk og geymdi svo hitaeiningarnar fram að kvöldmat og fór líklega ekki yfir mörkin í gær. Svo verður dagurinn í dag normal dagur fram yfir kvöldmat en þá hefst síðasta fastan í þessari vegferð. Ég veit að margir sem eru með mér á þessu námskeiði ætla að prófa að taka 2 sólarhringja föstu en ég á ekki von á því að ég geri það, mér tekst vel að taka sólarhring en eftir það er ég friðlaus og það gerir ekkert gott ef manni líður ekki vel. Ég reikna líka með að Þráinn taki þetta eitthvað lengra en ég enda hefur hann fastað nokkrum sinnum og farið yfir 2 sólarhringa en ég segi við hann að hann hafi ekki leyfi til að fasta lengur þar sem hann vinnur með hættulegar vélar og ef blóðsykurinn fer að falla þá er voðinn vís.

Í gærkvöld var svo svínahnakkasneiðar með kartöflubátum í ofni og blómkálsris. (uppskriftin er þegar komin hingað inn á bloggið mitt)

Svo á miðvikudaginn er þetta búið í þessu holli, ég hef nú þegar misst þessi 3 kg sem urðu til þess að ég ákvað að nú yrði ég að taka mig á en ég er alveg til í að missa meira og á eftir að nýta mér þessa þekkingu sem ég hef öðlast á þessum tíma til að halda áfram, en nú þarf ég að fara að hugsa meira um hvernig samsettann mat ég ætla að borða. Mér skilst að það sé ráðlagt að hafa 50/50 kolvetni og fitu eða 40% kolvetni, 30% fita, 30% protein. Ég þarf núna að fara að bæta á minnismiðana mína með hitaeiningunum hvað er hvað af þessum efnum. Svo veit ég að eftir einhvern tíma þá lærist þetta. En hátíðin mín verður núna seinna í vikunni þegar ég læt eftir mér að kaupa kartöfluflögur og leggjast uppí rúm með Netflix og flögur og þið sem þekkið mig vitið vel að þetta er það erfiðasta sem ég sleppi þó ég geti í dag, vel sleppt því að borða flögur í viku og oft lengur en núna er það bara af því að ég má það alls ekki því jesús góður hvað það eru margar hitaeiningar í einum poka.

Til gamans fyrir mig, þá birti ég þessa mynd núna og vonandi einhverja aðra betri seinna.

Mér persónulega finnst nú 65 kg of lítið sem kjörþyng fyrir mig en 74 er einhvern veginn mín draumatala.

Dagur 17.

Jæja þetta er síðasti dagurinn í föstuáskoruninni og ég verð að viðurkenna að eftir föstuna frá sunnudegi til mánudagsins hef ég aðeins dottið út úr átakinu, ég hef samt ekkert borðað nammi eða farið langt yfir 800 hitaeiningarnar en ég fékk mér sko nýbakað brauð með SMJÖRI og osti og það var eins og að fá konfektmola uppí sig. Ég hef kannski mest saknað brauðs og smjörs í þessari áskorun og jú auðvitað kartöfluflögurnar mínar. En ég ætla í mesta lagi að fá mér svoleiðis einu sinni í viku hér eftir og ekkert oft brauð því ég finn alveg að ég fæ illt í magann af því. En þá er það hrökkbrauð með smjöri og osti, ég get ekki hætt smjörinu enda verð ég líka að fá einhverja fitu í kroppinn til langs tíma. En næstum 4 kg fóru og ég gæti ekki verið hamingjusamari.

Ég hef samt ekki fundið fyrir þessu með betri húð, sofa betur og vera krafmeiri, kannski er það vegna þess að ég er svo vön að borða bara 8/16 og jafnvel 6/18 án þess að finna fyrir því en það sem ég hef ekki gert þessa 17 daga er að fá mér nesti uppí rúm á kvöldin og því ætla ég að halda áfram. Og ég ætla að halda áfram að elda hollt og hitaeiningarsnauðan mat alla vega 4 sinnum í viku og fasta í 24 tíma tvisvar í mánuði.

En eitt hef ég fundið sem er algjörlega frábært, mér líður svo miklu betur í maganum og hef bara einu sinni fengið í magann þessa 17 daga og það var þegar ég fékk mér brauð. Biola mjólkin verður líka fastur liður í hádeginu því LGG gerlarnir gera mér greinilega mjög gott.

En ég segi bara, ég lærði helling á þessu námskeiði og ætla ekki að gleyma því heldur halda ótrauð áfram og verða betri að öllu leiti.

Þangað til næst,
ykkar Kristín Jóna

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *

This site uses Akismet to reduce spam. Learn how your comment data is processed.